Vestfirska fréttablaðið


Vestfirska fréttablaðið - 18.09.1980, Blaðsíða 4

Vestfirska fréttablaðið - 18.09.1980, Blaðsíða 4
4 Hefur málfari unglinga hrakað? „Ástarkveðjur til Benna sæta í gagnfræðaskólanum í Keflavík með von um að ég kynnist honum betur en ég geri. Smákveðjur til plötusnúð- anna í skólanum, ef þeir séu að hlusta á þáttinn, þó aðallega Benna. Ein sem er að deyja úr ást.“ Hefur málfari unglinga hrak- að á undanförnum áratugum? Eru þeir margir hverjir ótalandi og óskrifandi, þegar þeir koma út úr íslenska skólakerfinu? Kveðjan hér að ofan úr vinsæl- asta poppþætti Ríkisútvarpsins gæti bent til þess að slíkar fullyrðingar ættu við nokkur rök að styðjast, þótt alhæfingar af þessu tagi séu jafnan var- hugaverðar. En til að fræðast betur um þessi efni leitaði Vestfirska til þess manns, sem flestum núlifandi íslendingum er fróðari um þessi mál. Sá er Skúli Benediktsson, sem stundað hefur íslenskukennslu á gagnfræðastiginu í meira en 20 ár og auk þess samið nokkrar kennslubækur f ís- lensku. Skúli talaði tæputungulaust um íslenskukennslu f skólum og íslenska skólakerfið og fara hér á eftir nokkrir kaflar úr viðtalinu við hann. ORÐFÆÐ OG LATMÆLGI —Það sem kannske er mest áberandi í málfari unglinga er orðfæðin og latmælgin. Ég skal ekki segja hver orsökin er. Kannske er það hraðinn hjá þjóð- inni almennt. Fólk virðist ekki hafa tíma til að vanda málfar sitt og hugsa það sem það ætlar að segja. Uggvænlegast finnst mér að framburðurinn er í hættu vegna latmælginnar. Unglingar og margt fullorðið fólk ber ekki lengur fram endingar orða. Þetta gæti leitt til þess að íslenskan glataði helstu séreinkennum sín- um, beygingarendingunum. Ég talaði einu sinni um „málskóla götunnar“, sem unglingarnir alast upp í. Poppmúsíkin á sinn stóra þátt í þessu. Textarnir við þessa músík eru slík hörmung, að orð ná varla yfir það, það er jafnvel verið að reyna að yrkja þessa texta undir hefðbundnu formi, en þá er það ekkert nema rímið - stuðlar og höfuðstafir gleymast alveg. Ólafur Jónsson, bók- menntafræðingur, komst einu sinni hnyttilega að orði um þetta. Hann sagði að brageyrað hefði kalið af þjóðinni. HVAÐ ER MÝRI? —Annars á hrörnun málkennd- arinnar sér langan aðdraganda. Ég man eftir því að í kringum 1950 var ég að lesa íslensku með stúlku og hún skildi ekki orðið „mýri“. Ég hef orðið var við að fólk skilur ekki algengustu orð í málinu. Það væri ráð að fleiri hlustuðu á útvarpsþættina um daglegt mál. Kannske tækju fleiri eftir þeim, ef farið væri með þá í sjónvarpinð. —Blaðamennirnir eru ekki verstir, þótt þeir séu oftast skammaðir. Margir þeirra eru á- gætlega að sér í íslensku máli og þeir gera sér grein fyrir því að þeir verða að vanda sig. En ef menn hafa einhver próf eða fara út í stjórnmál, þá halda þeir að þeir megi allt og geti allt. Einn fyrrverandi fjármálaráðherra var einu sinni að tala um „fé“ og hélt að það væri „fés“ í eignarfalli. Síðan var hann kallaður „fés- málaráðherra“. Annar ágætur þingmaður, talaði eitt sinn um „lægst launuðustu stéttirnar". Sál- fræðingar og uppeldisfræðingar tala eitthvert sérstakt mál, sem þeir einir skilja. Þetta „mennta- mál“ hefur þróast upp í ambögu- legt og óskiljanlegt málfar, sem stundum er kallað stofnanaís- lenska. Dæmi um hana er bækl- ingur einn sem menntamálaráðu- neytið gaf úr fyrir nokkrum árum og hét „Marklýsingar móður- málskennslu í skólum." BRAGFRÆÐIN ÓFÍN —Sannleikurinn er sá að öll alvarleg íslenskukennsla í skólum er á hröðu undanhaldi. Það má t.d. ekki kenna neina alvarlega málfræði lengur, sumir kennar- arnir hafa ekki vald á henni. Það er kannske vegna þess að þeir hafa ekki greind til að kenna þunga málfræði. Einn forsvars- maður menntamála hérlendis sagði mér, að það mætti ekki kenna bragfræði í skólunum vegna þess að kennararnir kynnu hana ekki. Það þykir ekki fínt að kunna bragfræði. Þó er þetta eitt helsta einkenni íslenskrar menn- ingar. GLEYPT VIÐ NÝJUNGUM —Nú eru uppi allskonar nýj- ungar, sem verið er að gylla fyrir fólki. Mér er sagt að margt sem hefur reynst illa á Norðurlöndum sé tekið upp hér, þegar það hefur gengið sér til húðar þar. Hér á ég bæði við nýjungar í skólanum og kennsluaðferðir. Aftur á móti segja mér fróðir menn að í þýsku skólakerfi sé allt prófað áður en því er hellt út í kerfið. Hér eru nýjungarnar teknar upp án þess að nokkur hlutlæg rannsókn hafi farið fram áður. Og þeir sem að nýjungunum standa hæla árangr- inum og telja að sér hafi tekist svo og svo vel, og allir trúa. EFTIRSJA að LANDSPRÓFINU —Ég var að tala um undan- haldið, meðalmennskuna og lin- kindina í allri kennslu nú á dög- um. Besta dæmið um þetta er afnám zetunnar. Þar reyndi virki- lega á nemendur, en það má ekki lengur. Það á bara að kenna bók- menntafræðilegt þrugl, sem eng- um skilningi miðlr á málinu og prófar illa. Á prófum grunnskóla eru oft tekin fyrir atómljóð, sem hægt er að skilja á marga vegu, og þetta eiga nemendur síðan að skýra. f stafsetningu er það siður að semja texta í samfelldu máli, þar sem stafsetningareglur koma ákaflega lítið fram. Þó er það vitað mál að það er ekki hægt að kenna stafsetningu nema kenna reglur. Hér eiga skólarannsóknir og ráðuneytið stærstu sökina. Það er einfaldlega látið undan þrýst- ingi þeirra sem vilja færa allt niður í meðalmennskuna. Lands- prófið var t.a.m. eina prófið, sem eitthvað var að marka, því það reyndi á nemendur. Landsprófið valdi úr þá hæfustu og á gagn- fræðaprófinu þurftu menn að standa sig, ef þeir ætluðu að hafa eitthvað út úr því. Allt annað en meðalmennskan var af hinu illa í augum þeirra sem látnir voru stjórna menntamálunum án þess að hafa nokkra reynslu í skóla- málum. Þeir lögðu niður lands- próf og gagnfræðapróf og fyrir- skipuðu að gefið yrði í heilum tölum á prófum, en ekki í brotum eins og tíðkast hafði, vegna þess Skúli Benediktsson að menn máttu ekki lengur vera nákvæmir. Þetta hefur smitað kennarana og þeir verða sjálfir ónákvæmir í fyrirgjöf. Ég hef haft spurnir af að mörgum reyndum kennurum ofbjóði svo undan- haldið og upplausnin, að þeir hreinlega gefist upp og hætti. GRUNNSKÓLALÖGIN ÓÞÖRF —Ég er enn þeirrar skoðunar að grunnskólalögin hafi verið með öllu óþörf. Það var hægt að breyta því sem til batnaðar horfði með reglugerðum. Þróunin í skólamálum hefur orðið sú sama og ég spáði árið 1972, Þegar ég skrifaði greinina „Poppskóla- frumvarpið" í Morgunblaðið. Ég skýrði hana svo, því að ég heyrði að í einum virtum gagnfræða- skóla í nágrenni Reykjavíkur var væri farið að spila poppmúsik í frímínútum til að hafa ofan af fyrir nemendum, sennilega til að róa þá. Ég sagði þá að ég horfði með ugg til framtíðarinnar. Reynslan hefur sýnt að það sem ég sagði í þeirri grein hefur ræst. etj,- Rætt við Sr. Gunnar um nýja helgisiðabók Eins og kunnugt er var til- laga að nýrri helgisiðabók fyrir íslensku þjóðkirkjuna lögð fyrir síðustu prestastefnu. Einn þeirra sem sæti á í helgisiða- nefnd kirkjunnar er sr. Gunnar Björnsson í Bolungarvík. Blaðamaður Vestfirska hitti sr. Gunnar að máli á héraðsfundi ísafjarðarprófastsdæmis í Hnífsdal um síðustu helgi og bað hann að segja lesendum blaðsins nánar frá hinum nýja sið. SÍSTÆÐ MESSUHEFD —Ég vil taka það fram strax í byrjun, sagði sr. Gunnar, að þessi nýja siðabók er ekki nein atlaga að þeim siðum sem hingað til hafa tíðkast í krikjunni. Hins veg- ar er rétt að undirstrika, að um víða veröld er verið að reyna að ná samstöðu um hina sístæðu eða klassísku messuhefð. Slr'k messa er ákaflega lík þeirri, sem sungin var í Hnífsdalskapellu í dag. í öndverðu er messan til orðin í kringum altarisgönguna. Læri- sveinarnir komu saman og neyttu brauðs og víns í heimahúsum, hver hjá öðrum væntanlega, og ritningarlesturinn, predikunin, sálmasöngurinn verður til sem umgjörð um þessa máltíð. Hin nýja helgisiðabók vill gera hlut altarisgöngunnar meiri en tíðkast hefur um hríð á íslandi, þótt með því sé enganveginn verið að segja að gengið verði til altaris á hverj- um sunnudegi. Bókin gerir ráð fyrir formi, þar sem hægt er að messa án þess að gengið sé til altaris. Helgisiðabókin frá 1934 verður áfram í notkun, en í nýju bókina er tekin sístæða hefðin, sem sumir hafa verið að gera Tilraunir með á undanförnum ár- um. Um músikina við messugjörð framtíðarinnar er það að segja, að þar er kirkjan að græða. Við höldum áfram að syngja messu- söng, sem kenndur er við Sigfús Einarsson, og á jólum, páskum og stórhátíðum höfum við hátíða- söngva sr. Bjarna Þorsteinssonar, en nú bætist við gamall kirkju- söngur, einraddaður. svonefndur Gregorssöngur. Frá altarlsgöngu á Prestastefnu 1979. -Ljósm. R. Vilbergss. ENGIN NAUÐUNG —Því er haldið fram að með upptöku Gregorssöngs sé kirkjan að hverfa aftur til forna siða. Er eitthvað hæft í því? —Já, það er eitthvað hæft í því. Það er verið að hverfa aftur til siða, sem eru eldri en þeir sem við höfum búið við um hríð, þó með því formerki að það er ekki verið að lögskipa neitt eða neyða neinn til neins. Það er aðeins verið að opna mönnum þennan mögu- leika. En ég mundi ekki mæla með því að dregið yrði úr fjöl- breytni og menn hölluðu sér ein- göngu að þessu messuformi. —Hvað var að gamla messu- forminu? —Þessar messur veittu mörgum yndislegar stundir, þó ekki öllum, því að margir voru fjarverandi meðan þær voru hafðar um hönd og svo verður væntanlega líka um nýja messuformið. En sannleikur- inn er sá, að í gömlu messuna vantaði vissa þætti. Útlendingar ráku upp stór augu margir hverjir þegar þeir voru viðstaddir messu þar sem miskunnarbænina vant- aði, tíðasönginn og trúarjátning- una. Helgisiðabókin nýja gerir ráð fyrir því að trúarjátningin verði upp tekin eða því vikið að söfnuðinum að hafa hana um hönd. Margt fleira bar á góma í við- tali blaðsins við sr. Gunnar Björnsson, m.a. kirkjusókn, gildi helgisiða almennt og umbrot ým- iskonar innan krikjunnar. Verður sá þáttur viðtalsins birtur í næsta blaði. etj,- Oddur Björnsson leikstýrir hjá L.L. Litli Leikklúbburinn á ísa- firöi er nú að undirbúa vetrar- starfsemina af fullum krafti og hefur Oddur Björnsson leikrita- höfundur og leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar um langt árabil, verið fenginn til að leik- stýra fyrsta sviðsverki vetrar- ins. Stjórn LL hefur að undanförnu verið að athuga með leikrit til sýningar og það verk, sem helst kemur til álita, er leikrit Sutton Wain „Á útleið", en endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin enn. Þetta leikrit hefur tvisvar verið fært upp á ísafirði áður, I929 og 1936. Félagsfundur LL verður hald- inn í kvöld, fimmtudag, kl. 20.30 í Selinu og eru félagsmenn beðnir um að mæta stundvíslega.

x

Vestfirska fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vestfirska fréttablaðið
https://timarit.is/publication/1149

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.