Skólavarðan - 01.03.2003, Qupperneq 27

Skólavarðan - 01.03.2003, Qupperneq 27
Ég kenni ÍSA, en það merkir íslenska sem annað mál. Þeir sem velja sér að læra ÍSA eru nýbúar, sem búið hafa mislengi á Íslandi, hálf- eða alíslenskir krakkar, sem hafa búið árum saman í útlönd- um, og skiptinemar sem langar að læra hrafl í íslensku. Það sem hér er sagt um ÍSA-kennslu er frá sjónarhóli framhalds- skólakennara sem hafa þurft að berjast fyrir því að koma þessari kennslu á koppinn. Sú barátta hefur falist í því að sannfæra stjórn- endur um þörfina, ná nemendum saman, greina hvað þarf helst að gera fyrir þá og síðast en ekki síst að finna og búa til námsefni. Íslendingar verða sífellt útlenskari Nemendum af erlendu bergi brotnum fjölgar mjög ört í fram- haldsskólunum. Það er eðlileg afleiðing þess að útlendingum í landinu fjölgar. Nemendur mínir núna í ÍSA-313 eru ættaðir frá Kína, Kóreu, Mongólíu, Kanada, Kólumbíu, Bandaríkjunum, Dan- mörku, Póllandi, Rússlandi, Tælandi og Afríku. Þeir standa misvel í íslensku og þarfir þeirra eru mjög ólíkar. Þessi vinna er því líkust því að sinna fjölskrúðugum blómagarði. Íslenskukennararnir í MH hafa lent í því að fá þessa nemendur í venjulega íslenskuáfanga (ÍSL) og nái þeir að þrauka áfangann á enda er árangurinn yfirleitt ekki mælanlegur á hefðbundna stiku en flestir gefast upp áður en að námsmati kemur. Þessir nemendur eiga ekkert erindi í ÍSL-áfangana enda eiga þeir rétt á að fá kennslu í 15 einingum í íslensku sem öðru máli en allur gangur er á því hvernig þessu námskráratriði er framfylgt. Sumir framhalds- skólar hafa tekið upp ÍSA-kennslu en ekki er mér kunnugt um að boðið sé upp á 15 einingar. Mér er ekki heldur kunnugt um að frumkvæði að þessu hafi komið frá skólayfirvöldum, heldur er það einkum á hendi áhugasamra kennara að koma ÍSA-kennslunni á fót. Fjármagn til hennar virðist ekki liggja sérstaklega á lausu. Hverjir eiga að kenna ÍSA? Það er tvennt ólíkt að kenna íslensku sem móðurmál og sem annað mál. Munurinn er sá að móðurmálskennari kennir nemend- um að ná fullkomnun í að beita verkfæri sem þeir eiga en ÍSA- kennarinn kennir þeim að búa verkfærið til. Því er ekki sjálfgefið að móðurmálskennarar kenni þessa grein. Ég held að allir íslensku- kennarar í framhaldsskólum hafi menntast í íslenskuskor Háskóla Íslands. Þar lærðu þeir um hljóðin í málinu, forna beygingafræði og nýja, Codex regius og Reykjaholtsmáldaga, Njálu og Eglu, Snorra og dróttkvæði, gamalt og nýtt í brag og ljóðstíl og fleira. En hvergi er þar minnst á „kommúnikatífar“ aðferðir né kennslu- fræðilegar brellur til að læra tungumál, enda heyra þessir þættir undir annað fag sem er kennslufræði erlendra mála. „Kommúníkatífu“ aðferðirnar heita tjáskiptaaðferðir á íslensku og ganga út á það að þjálfa marga færniþætti. Þá er leitast við að leggja rækt við hlustun, tal, lestur og ritun auk þess sem menning- arfærni skipar stóran sess. Hún felst í mörgu en í stuttu máli geng- ur hún út á að kenna á menningarlíf viðkomandi þjóðar. Ég hef til dæmis komist að því að ÍSA-nemendur mínir kunna ekki Á Sprengisandi og ekki vissu allir að stóra fjallið sem sést svo vel frá Reykjavík heitir Esja. Á Íslandi er til sægur af afbragðsgóðum kennurum sem þekkja tjáskiptaaðferðirnar og beita þeim daglega í starfi sínu. Það eru tungumálakennararnir. Þess vegna álít ég að þeir sem best séu fallnir til að kenna íslensku sem annað mál séu kennarar með sér- þekkingu á tileinkun erlendra mála sem sjálfir tala lýtalausa íslensku og hafa, síðast en ekki síst, áhuga á að kenna íslensku sem annað eða erlent mál. Ég er sjálf hefðbundinn íslenskukennari en hef einnig kennt frönsku. Það er sú reynsla og kynni mín af flottu, frönsku kennslubókunum frá Hachette sem hafa reynst mér drýgsta veganestið í ÍSA-kennslunni. Fagfélag, fagstjórar, stöðupróf og námsefni Það er afar brýnt að draga ekki deginum lengur að taka á þessum málum af festu. Það þarf að búa til stöðu fagstjóra um ÍSA-kennslu í hverjum skóla, stöðupróf þarf að búa til svo að hægt sé að skipa nemendum niður í rétta hópa. Það þarf að leiða ÍSA-kennarana saman og skapa þeim vettvang til að miðla reynslu og þekkingu. Stofnun fagfélags er orðin tímabær. Það myndi fljótlega leiða til þess að hentugt námsefni yrði til á ólíkum stigum kennslunnar. Smám saman hafa nýjar bækur um íslensku sem annað mál verið að líta dagsins ljós og það er vel. Sú nýjasta heitir Af stað eftir Birnu Arnbjörnsdóttur, Ingibjörgu Hafstað og Helgu G. Loftsdóttur. Það er mikill fengur í þessum bókum öllum. Þær eru nútímalegar kennslubækur, aðlaðandi fyrir nemendur og aðgengilegar fyrir kennara sem geta þar að auki sótt sér kennsluleiðbeiningar á Net- ið. En þessar bækur eru allar fyrir byrjendur í faginu. Það þarf líka að búa til námsefni fyrir þá sem eru komnir lengra áleiðis. Ekki má gleyma að nefna ofurvefinn Braga, hann er fyrirmyndartól sem ber að styðja og efla áfram. Tungumálið er eitt af því sem gerir okkur Íslendinga að Íslend- ingum. Nýir Íslendingar verða að fá hlutdeild í þessum sameining- arþætti til að ekki verði til sundruð þjóð þar sem einstakir hópar skilja ekki hverjir aðra. Við höfum dæmi um hvaða afleiðingar það getur haft. Lærum af þeim sem best hafa gert og ræktum garðinn okkar strax. Guðlaug Guðmundsdóttir Höfundur er með M.Paed. gráðu og er íslensku- og frönsku- kennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Smiðshöggið 30 Í fjölskrúðugum blómagarði

x

Skólavarðan

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.