Morgunblaðið - 19.02.2016, Síða 4
4 ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. FEBRÚAR 2016
:
PÖNTUNARFRESTUR AUGLÝSINGA:
fyrir kl. 16 miðvikudaginn 2. mars.
–– Meira fyrir lesendur
NÁNARI UPPLÝSINGAR GEFUR:
Katrín Theódórsdóttir
Sími: 569 1105
kata@mbl.is
Fermingarblað
Morgunblaðsins
kemur út föstudaginn
4. mars
SÉRBLAÐ
Fermingarblaðið er eitt af vinsælustu
sérblöðum Morgunblaðsins
og verður blaðið í ár
sérstaklega glæsilegt.
Fjallað verður um allt
sem tengist fermingunni.
FERMINGAR
NBA
Gunnar Valgeirsson
Los Angeles
Það tók ekki margar leikvikur í
deildakeppninni nú að gefa þann tón
sem haldist hefur til þessa. Þau fjög-
ur lið sem við hér á Morgunblaðinu
töldum líklegust til að blanda sér í
baráttuna um meistaratitilinn í
bandaríska körfuboltanum voru fljót
að sýna styrkleika sinn og erfitt er
nú að sjá nokkur önnur lið blanda
sér í þá baráttu það sem eftir lifir
keppnistímabilsins.
Í Vesturdeildinni hafa meistarar
Golden State Warriors haldið áfram
stórkostlegum leik sínum frá síðasta
keppnistímabili. Liðið hóf deilda-
keppnina án þjálfarans Steve Kerr,
sem var frá vegna hliðarverkana frá
bakuppskurði síðasta sumar, en það
virtist hafa lítil áhrif. Aðstoðarþjálf-
arinn Luke Walton hélt skipinu á
réttum kili og áður en nokkur vissi
hafði liðið sett nýtt met í að hefja
deildakeppnina taplaust. Warriors
vann 24 fyrstu leiki sína og hefur nú
unnið 48 af 52 leikjum sínum til
þessa.
Það er ekki einugis árangur liðs-
ins sem er athyglisverður, heldur og
leikstíll þess. Stephen Curry, núver-
andi leikmaður ársins í NBA-
deildinni, stjórnar leik liðsins af
slíkri snilli að hann neyðir andstæð-
inga Warriors leik eftir leik til að
spila með þeirri hrynjandi sem
Warriors kýs. Hann keyrir upp
hraðann og andstæðingarnir virðast
lítið geta gert til að hægja á leikn-
um. Þetta má vel sjá af stigaskorun í
leikjum Warriors þar sem andstæð-
ingar geta sjaldnast haldið liðinu
undir 110 stigum. Liðið hefur aðeins
skorað tólf sinnum undir 110 stigum
í 52 leikjum og aðeins tvisvar undir
100.
Söguefnið er Golden State
Ef ekki væri snilld og skemmti-
legheit í leik Warriors væri þessi
NBA-deildakeppni annars frekar
leiðinleg. Golden State leggur allan
grunninn fyrir hverri þeirri sögu
sem hægt er að skrifa um deilda-
keppnina.
Nú er stóra spurningin í deilda-
keppninni hvort liðið muni slá vinn-
ingsmet Chicago Bulls frá 1995-6,
þegar Bulls vann 72 leiki. Til að
jafna metið þarf Golden State að
vinna 24 af næstu þrjátíu leikum sín-
um. Það gæti tekist, en liðið á hins
vegar eftir sjö erfiða leiki gegn
Oklahoma City Thunder, San Ant-
onio Spurs og Los Angeles Clippers
– erfiðustu keppinautum sínum. Lið-
ið er einnig nú á erfiðri útileikja-
seríu sem einnig gæti sett strik í
reikninginn. Ef marka má leik liðs-
ins til þessa í deildakeppninni virðist
það hins vegar skipta Warriors litlu
hvort það leikur á heimavelli eða
ekki og hver andstæðingur liðsins er
hvert kvöld. Liðið slátraði San Ant-
onio með þrjátíu stigum nýlega og
sá leikur var ekki einu sinni svo jafn!
Toppbaráttan í
Vesturdeildinni lykillinn
Helstu keppinautar Golden State
í Vesturdeildinni verða San Antonio
(45-8), Oklahoma City (40-14) og
Los Angeles Clippers (35-18). Á
venjulegu keppnistímabili væri ár-
angur San Antonio Spurs nægilega
góður til að vera í toppsætinu í
deildinni, en slíkir eru yfirburðir
Golden State að fæstum boltaeðjót-
um finnst árangur Spurs merkilegur
þótt hann sé svo. Gregg Popovich,
þjálfari Spurs, sýnir enn á ný snilli
sína með því að halda Spurs í topp-
baráttunni.
Oklahoma City er nú komið á gott
skrið eftir erfiða byrjun með nýja
þjálfara, en þeir Russell Westbrook
og Kevin Durant hafa leikið frábær-
lega undanfarnar vikur og liðið
verður sjálfsagt til alls líklegt í
úrslitakeppninni.
Þessi tvö lið virðast vera einu liðin
í Vesturdeildinni sem gætu svo mik-
ið sem ógnað Golden State í úrslita-
keppninni. Erfitt er að sjá nokkurt
annað lið slá út Warriors í sjö leikja
leikseríu.
Los Angeles Clippers hefur gert
það nokkuð gott, en þar á bæ eru
einfaldlega of miklir veikleikar til að
geta yfirbugað Golden State í úr-
slitakeppninni. Bæði Houston Roc-
kets og Memphis Grizzlies virðist
skorta það sem til þarf í toppbarátt-
unni, rétt eins og við spáðum á þess-
um síðum í upphafi keppnistímabils-
ins. Grizzlies munu leika án
miðherjans Marc Gasol út keppn-
istímabilið eftir að hann fótbrotnaði
í síðustu viku. Þar með fóru mögu-
leikar liðsins út um þúfur.
Austurdeildin í tilvistarkrísu
Ef Austurdeildarliðin væru í
toppdeild í evrópsku knattspyrn-
unni, væru þau öll í fallbaráttu utan
Cleveland Cavaliers. Reyndar hafa
Toronto Raptors komið á óvart með
góðum árangri, en það er ekki eins
og að eðlurnar frá þeim bænum
ættu svo mikið sem minnsta tæki-
færi að veita toppliðunum í Vestur-
deildinni harða keppni í úrslita-
keppninni. Þetta er ekki Jurassic
Park!
Cleveland er í raun eina liðið í
Austurdeildinni sem er samræm-
anlegt við toppliðin vestanmegin, en
jafnvel Cavaliers virðist of veikt sál-
fræðilega til að geta unnið Golden
State eins og staðan er í dag. Liðið
hefur í raun enga keppni um topp-
sætið austanmegin, en væri sjálf-
sagt í fjórða sæti ef það væri í
Vesturdeildinni.
Vantar samheldnina?
Cleveland rak þjálfarann David
Blatt fyrir þremur vikum og lét að-
stoðarþjálfarann Tyronn Lue taka
við. Hann hefur bætt leiks liðsins, en
ef marka má fréttir úr herbúðum
liðsins það sem af er deildakeppn-
inni virðist ekki sem þar sé sú sam-
heldni sem til þarf þegar í harð-
bakkann slær í úrslitakeppninni.
Óvíst er hvernig liðið mun bregðast
við ef það mætir erfiðri stöðu í
úrslitakeppninni.
Það stefnir allt í lokaviðureign
Golden State og Cleveland að nýju,
en Oklahoma City og San Antonio
munu eflaust hafa sitt að segja um
það áður en yfir lýkur.
Fjögur berjast um titilinn
Magnaður árangur Golden State San Antonio Spurs væri efst á venjulegu
tímabili Geta Oklahoma, Clippers eða Cleveland sett strik í reikninginn?
NBA-deildin
» Þrír fyrstu leikirnir eftir
Stjörnuleiksfríið fóru fram í
nótt en efstu átta lið í hvorri
deild fyrir þá voru þessi:
» Austurdeild: Cleveland 38/
14, Toronto 35/17, Boston 32/
23, Atlanta 31/24, Miami 29/
24, Indiana 28/25, Chicago
27/25, Charlotte 27/26.
» Vesturdeild: Golden State
48/4, San Antonio 45/8, Okla-
homa 40/14, LA Clippers 35/
18, Memphis 31/22, Dallas 29/
26, Portland 27/27, Utah 26/
26.
AFP
Toppslagur Stephen Curry hjá Golden State Warriors brýst framhjá Russell Westbrook og Enes Kanter hjá
Oklahoma City Thunder. Bæði lið eru líkleg til að fara mjög langt í úrslitakeppninni í vor.
Ég er ekki viss um að margir
hafi hreinlega vitað að íþróttin
bandý væri stunduð hér á landi,
þar til að Ísland átti allt í einu lið
í undankeppni HM karla fyrr í
þessum mánuði. Þetta landslið
var líka bara stofnað á síðasta
ári, en náði þrátt fyrir það í einn
sigur í undankeppninni sem hlýt-
ur að teljast býsna gott.
Forvitnin yfir þessari íþrótt,
sem ég hafði svo gaman af að
spila í íþróttatímum í grunn-
skóla, rak mig á opna æfingu hjá
HK í vikunni. Þar kom reyndar
strax í ljós að íþróttin er talsvert
ólík því sem ég var vanur í sveit-
inni. Erfiðast var líklega að venj-
ast því að halda í raun á kylfunni
með öfugum hætti við það sem
maður er vanur, t.d. úr golfi, það
er að segja með hægri höndina
ofar en þá vinstri.
Æfingin var stórskemmtileg
þó að ekki hafi ég reynst vera
neitt undrabarn í íþróttinni. Það
var helst að ég gæti hlaupið, en
önnur og ansi mikilvæg atriði
eins og að skjóta á markið og
rekja boltann, vöfðust fyrir mér,
svo ekki sé meira sagt.
Reyndar virtust margir eiga
í vandræðum með skotin. Á öðr-
um vallanna sem þessi 40
manna hópur spilaði á voru engir
markverðir, heldur eins konar
fleki sem huldi stóran hluta
marksins. Boltinn komst aldrei
framhjá þessum flekum í fyrstu
þremur leikjunum. Á hinum vell-
inum, þar sem markverðirnir
voru af holdi og blóði, voru hins
vegar skoruð nokkur mörk og ég
græt það enn að hafa ekki nýtt
mitt besta tækifæri til að bæta
við einu slíku.
En já, ég get alla vega hiklaust
mælt með bandýi fyrir þá sem
vilja prófa nýja íþrótt, sem virðist
ætla að takast að festa sig al-
mennilega í sessi hér á landi.
BAKVÖRÐUR
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is