Morgunblaðið - 15.11.2016, Side 12
12 | MORGUNBLAÐIÐ
O
g mómentið hjá Volvo
heldur áfram. Eftir ýmsa
landvinninga og vegtyll-
ur vítt og breitt um
heiminn síðustu misseri – og þar á
meðal má telja bíl ársins 2016 að
mati Bandalags íslenskra bílablaða-
manna, jeppann Volvo XC90 – eru
flaggskipin komin til landsins, sed-
an-bíllinn S90 og skutbílsútgáfan
V90. Ekki verður hér lát á sig-
urgöngunni nema síður sé ef marka
má bílinn sem hér er tekinn til kost-
anna. Volvo V90 er í einu orði sagt
frábær bíll, hvert sem litið er, og
skyndilega er það orðinn sérlega
áhugaverður kostur að skella sér á
„station“-bíl.
Útlitið sjaldan verið betra
Sú var tíðin að bílakaupendur
keyptu skutbíla af nauðsyn, þar eð
þeir þurftu bíl með sérstaklega
miklu geymsluplássi í farang-
ursrýminu. Skutbílar þóttu yfirleitt
eftirbátar sedan-bræðra sinna,
klunnalegir og þungir, ásamt því að
skottrýmið kom undantekningarlítið
niður á útlitinu. Því er ekki að heilsa
hér, nema síður sé. Volvo V90 er
reyndar mikill bíll um sig, breiður
og langur en hann virðist liggja lágt
og það ljær honum rennilega ásýnd.
Töluverður halli á afturrúðunni hef-
ur hér heilmikið að segja. Hvort
heldur litið er framan á bílinn eða á
hliðina þá er V90 einstaklega vel
heppnaður bíll útlitslega og engum
dettur í hug að óska þess að hann
væri minni, því hann er einfaldlega
of fallegur einmitt eins og hann er.
Hér kemur margt til, að frátöldum
meginlínum yfirbyggingarinnar.
Framgrillið sem sveigist inn á við,
hönnun fram- og afturlýsingar og
fallega frágengin innfelld púströr. Í
raun er ekkert hægt að setja út á
útlitið nema að það er synd og
skömm að hafa keramikbremsurnar
silfraðar á litinn og þar af leiðandi
nánast ósýnilegar! Betur hefði farið
á því að hafa þær mattsvartar, til
dæmis, til að ljá bílnum lág-
stemmdan gæjasvip. En þetta er
sparðatíningur í samhengi bílsins
alls. Hann lítur hreint hrikalega fal-
lega út, ekki síst á 19 tomma álfelg-
um.
Fágunin allsráðandi að innan
Þau fyrirheit sem stílhreint og
fallegt ytra byrðið gefur, stendur
bíllinn fyllilega við þegar inn kemur.
Bíllinn sem prófaður var er svoköll-
uð Inscription-útfærsla, með einkar
smekklegu nappa-leðri í innrétting-
unni, hnotu-listum í hurðum og
mælaborði og í miðju alls trónir
snertiskjár af sama tagi og ein-
hverjir lesendur kannast sjálfsagt
við úr XC90-jeppanum. Líkindin við
þann stóra bróður eru reyndar víða
í V90 bílnum og er það vel, enda
XC90 framúrskarandi bíll. Stýr-
ingin er mjög áþekk og tilfinningin
öll þegar V90 er ekið. Bíllinn er
silkimjúkur í akstri, ótrúlega ljúfur í
stýri og viðmót allt í mælaborði
fyrsta flokks. Þó saknaði blaðamað-
ur þess að geta smellt hita á stýr-
ishjólið; hafi sá valkostur verið til
staðar þá fannst hann ekki þrátt
fyrir einbeittan vilja og umfangs-
mikið fikt.
Allt sem ökumaður vill annars
geta haft áhrif á hvað bílinn og akst-
urinn varðar er við fingurgómana í
hinum frábæra snertiskjá, sem er
ein best heppnaða stjórnstöð af
þessu tagi sem ég hef prófað í bíl.
Uppröðun efnis og fyrirkomulag
framsetningar er með slíkum ágæt-
um að viðmið hlýtur að teljast um
þessar mundir í fólksbílum, og þar
sem svo mörgu hefur verið komið
haganlega fyrir í virkni skjásins
þarf umtalsvert færri takka í inn-
réttinguna. Fyrir bragðið er hún
sérlega stílhrein og smekkleg.
Minna er iðulega meira, og þar af
leiðir að þessi stílhreina innrétting
er hellingur. Fágaður hellingur.
Draumabíll í akstri
Þegar lagt er af stað í Volvo V90
hvarflar helst að ökumanni að hann
sé sestur í rafbíl, svo merkilega
hljóðlátur er hann. Hann hreinlega
líður um göturnar, áreynslulaust, og
það heyrist ekki mikið þó að bílnum
sé gefið duglega inn. Meira að segja
í Dynamic-akstursstillingu (og þá er
bíllinn hreint brjálæðislega
skemmtilegur að keyra!) er hann
hljóðlátur með afbrigðum. Tveggja
lítra túrbó dísilvélin er feikigóð og
235 hestöfl skila 480 Nm togi til
hjólanna sem gerir bílinn að trylli-
tæki í akstri. Það er satt að segja
ekki yfir neinu að kvarta þegar
þessum bíl er ekið, hann fer fram-
úrskarandi vel með ökumann og
farþega. Þá er gott til þess að hugsa
að ef svo óheppilega vildi til að bíll-
inn lenti í árekstri þá er stýrishúsið
allt úr sérstyrktu stáli (af fjórum
sortum, vel að merkja: High
Strength Steel, Very High Strength
Steel, Extra High Strength Steel og
Ultra High Strength Steel). Það er
ekki logið á Svíana þegar kemur að
örygginu og Volvo V90 er, svo vitn-
að sé í slagorð umboðsins hér á
landi, í meira lagi öruggur staður til
að vera á, og í.
Í stuttu máli sagt er Volvo V90
einn fallegasti og besti station-
bíllinn á markaðnum og ef aðrir
framleiðendur taka hann sér til fyr-
irmyndar þá má ljóst vera að fréttir
af andláti skutbíla sem bílaflokks
eru stórlega ýktar. V90 er hreint út
sagt draumabíll.
Bravó, Volvo!
Drapphvítt Nappa-leður, ekta hnotuviður og innviðir eins og þeir gerast
fallegastir. Hér væsir ekki um kröfuhörðustu bílstjóra, það er klárt mál.
Framsvipurinn er fantaflottur og munar þar ekki minnstu um innsveigt
framgrillið en það ljær bílnum sérlega gæjalegan svip.
Allt umhverfi ökumanns í Volvo V90 Inscription er eins og best verður á
kosið, bæði hvað varðar efnisval og tæknibúnað. Allt er fyrsta flokks.
Volvo V90 2017
Reynsluakstur
2,0 lítra díselvél
235 hestöfl/480 Nm
8 þrepa sjálfskipting
0-100 km/klst: 7,2 sek
Hámarkshr.: 234 km/klst
Fjórhjóladrif
19“ álfelgur
Eigin þyngd kg: 1.783
Farangursrými: 560/723 L
(að glugga/upp í þak)
Mengunargildi: 129 g/km
Verð frá: 7.390.000 kr.
4,9 L/100 km í bl. akstri
Umboð: Brimborg
Jón Agnar Ólason
jonagnar@mbl.is
+
Aksturseiginleikar,
útlit, efnisval inn-
réttingar
-
Betri útgáfurnar eru
býsna dýrar