Norðurslóð


Norðurslóð - 13.12.1983, Blaðsíða 10

Norðurslóð - 13.12.1983, Blaðsíða 10
„Gönguferðin mikla“ Hringferð um Svarfaðardal 1937 Anna Snorradóttir Sigfússonar efnir hér gamalt loforð um að segja frá fornum kynnum af Svarfaðardal og Svarfdælingum. Það er svo hugþekkur blær yfir þessum frásögnum hennar að það er bæði synd og skömm að slcppa nokkrum staf. En það er nú einmitt það, sem óhjákvæmilegt er að gera í þetta skipti rúmleysis vegna og er reyndar gert með leyfi höfundar. Anna byrjar frásögn sína þar sem hún er í föðurhúsum vestur á Flateyri við Önundarfjörð og heyrði þá mikið talað um menn og málefni í Svarfaðardal, æsku- slóðum föður hennar. 1930 flyst íjölskyldan svo til Akureyrar. Þá hófust brátt eigin kynni hennar af Svarfaðardal, þegar Guðrún móðir hennar dvaldi „mestan part sumars að Skáldalæk hjá frænda okkar Guðjóni Baldvinssyni og hans góðu konu Snjólaugu Jóhannes- dóttur.“ Siðan segir frá ævintýrum, sem hún lendir í í sveitinni og á Dalvik þar sem bjuggu 2 föðursystur hennar og fjöldi annarra skyld- menna. Einnig frá heimsóknum á bæi í sveitinni t.d. i Sökku, þar sem hún hitti Elínu heitina, sem hafði þekkt ömmu hennar og sagði: „Ég á enga ósk betri þér til handa en að þú megir líkjast henni ömmu þinni sem mest, henni Önnu á Grund.“ Síðast kemur lengsti kaflinn, sem hér er birtur í heild sinni. Norðurslóð hefur fullan hug á að birta síðar þá kafla, sem nú er sleppt, t.d. i næsta jólablaði. Ritstj. Gönguferðin mikla Svo liðu árin og telpurnar uxu úr grasi, urðu unglingar og sumarið 1937, þegar Gunn- hildur systir mín var 14 ára og greinarhöfundur 16 ára, kemur faðir okka að máli við okkur og segist hafa uppástungu, sem við skulum hugleiða. Hann kallaði á okkur inn á „kontórinn“ sinn þar sem venja var að fjalla um málin og lét okkur setjast. „Mér hefir dottið í hug að stinga upp á því við ykkur, að þið farið út í Svarfaðardal og gangið allan dalinn, allan eins og hann leggur sig og Skíðadalinn með, og segið mér svo að göngu lokinni heiti á öllum bæjum, bæði þar sem búið er í dag og eins hinum sem komnir eru í eyði og helst ábúendur jarðanna líka.“ Þetta var pabba líkt að vilja láta okkur komast í snerting við dalinn sinn á þennan hátt. Við vorum ekkert lengi að taka ákvörðun, settum náttföt og tannbursta ofan í litla bak- poka, sem pabbi hafði fært 10 - NORÐURSLÓÐ okkur frá Þýskalandi nokkrum árum áður. Svona litlir bak- pokar voru sjaldséðir þá, og við vorum mjög montnar þegar við lögðum af stað með bakpokana okkar labbandi ofan í bæ, en með mjólkurbílnum fengum við far til Dalvíkur. Það þætti senni- lega undarlegur ferðamáti í dag, að leggja upp í viku ferð án þess að hafa eina krónu meðferðis. En við höfðum eins konar ,,kredit-kort“ þótt úttektin yrði raunar aldrei greidd. Að vísu voru þetta ekki nein kort, heldur nafn: Snorri Sigfússon. Við áttum að heilsa fólkinu fallega og segja að við værum með kveðju frá Snorra, og það átti að duga fyrir gistingu og mat! Við höfðum nokkrum sinnum farið út í dal áður á þessum árum og þekktum fáein bæjar- heiti á leiðinni og alltaf fannst mér ævintýri að aka um hlað í Fagraskógi þar sem Davíð skáld hafði átt heima, en mörg ljóða hans höfðum við krakkar á Flat- eyri lært utan að, þegar fyrsta kvæðabók hans barst í þprpið. Við þekktum líka Stærri-Árskóg þar sem móðir okkar hafði alist upp og okkur varð litið upp til hæðanna þar sem hún hafði setið yfir ám og séð huldufólk í litklæðum. A Hellumóunum höfðum við verið í berjamó með móður okkar, en sytir hennar Sigurbjörg Jóhannesdóttir var þá húsfreyja á Hellu og niður við sjóinn, á Hauganesi, átti móðúr- bróðir okkar, Trausti, heima og okkur var sagt, að hann hefði verið afburðaskytta, sem þá var talað um eins og íþrótt. Trausti var fjarska skemmtilegur maður og sagði frá ýmsum atburðum úr bernsku þeirra systkina á alveg ógleymanlegan hátt. Mjólkurbíllinn fór frekar rólega eftir malarvegunum, það var enginn asi á fólkinu á þessum árum, og síðla dags vorum við komnar til Dalvíkur. Þar gistum við um nóttina hjá frænku okkar, Önnu Arngríms- dóttur og manni hennar Kristjáni Jóhannessyni en Anna er systurdóttir föður míns, og þar var okkur vel fagnað að vanda. Anna kveður hundin á Tjörn áður en lagt er af stað. Gangan hefst Við vorum ekkert að flýta okkur af stað næsta morgun, því að við höfðum þegar afráðið að fara ekki lengra en að Tjörn fyrsta daginn. Við staðnæmdumst við hvern bæ og spurðum um það sem við ekki vissum fyrir og upptalning bæja hófst við Argerði. Við hföðum nokkrum sinnum áður farið þessa leið, svo að fyrsti áfanginn varð okkur ekki erfiður og mundum vð bæi og ábúendur í réttri röð, þegar við beygðum út af veginum niður að Tjörn. Það var næstum því eins og að koma heim til sín fyrir okkur að koma í Tjörn til Sigrúnar Sigurhjartardóttur og Þórarins Kr. Eldjárn. Þessi höfðingshjón fögnuðu okkur innilega og ég man vel, að Þórarinn bóndi kímdi þegar við sögðum honum ferðaáætlun okkar og það meðv að pabbi hefði lagt á ráðin. Eg held að honum hafi ekki litist illa á, að dætur Snorra kynntust dalnum þar sem stór ættbálkur þeirra hafði búið og margt ættingja bjó enn. Hann þekkti Snorra og vissi, að honum gat dottið ýmis- legt í hug og líka hrint því í framkvæmd. Það var margt manna við matborðið og man ég vel eftir Jóni gamla ráðsmanni og Guðrúnu, sem lengi voru á Tjörn og mér fannst alltaf tilheyra staðnum. Unga fólkið var í heyskapnum og við brugð- um okkur í flekk með systkin- unum og Ingibjörgu, systur Þórarins, sem var í heimsókn. Ingibjörg, eða Imba eins og við nefndum hana ævinlega, hafði óskaplegan áhuga á heyskapn- um og var svo áköf og kappsöm að það gleymist ekki. Nokkrum árum síðar vorum við systur eitt sinn í heimsókn að Tjörn og vorum þá niður á túni að snúa með systkinunum. Imba kom litlu síðargangandi niðureftir til okkar með hrífuna sína í hendi. Þá segir Kristján Eldjárn: „Á ég að segja ykkur, hvað Imba segir, þegar hún kemur?“ Öll játtum við því.“ Hún mun segja: „Þornar þetta nú í dag?“ Ogallt stóð heima. Við steinþögðum, þegar Imba kom í flekkinn með þessum orðum: „Þornar þetta nú í dag?“ Kristján þekkti frænku sína, en blessuð Imba mín var alveg undrandi, þegar við fórum öll að hlæja! Á miðjum morgni næsta dag kvöddum við vini og velgjörðar- fólk á Tjörn og héldum ferð okkar áfram. Grund og Brekka voru þeir bæir, sem við oft höfðum heyrt talað um og þar gengum við um hlað og við skoðuðum Grundarlækinn, sem faðir okkar hafði sagt margar sögur af og nykrinum, sem sagt var að bylti sér í tjörn einni mikilli, þegar vöxtur var í læknum á vorin. Mig minnir fastlega, að við höfum komið í Syðra-Garðshorn til Önnu Jóhannsdóttur, en hún hafði verið kaupakona á Hólum í Hjaltadal með foreldrum mínum sumarið 1911. Anna lifir enn, þegar þessar línur eru settar á blað og hún rifjaði upp minn- ingar frá því sumri, er ég heimsótti hana í Dalbæ í ágúst leið. Önnur nafna mín, Anna Jónsdóttir á Hreiðarsstöðum tók einnig á móti okkur af mikilli rausn og þar var gist næstu nótt. Daginn eftir var haldið áfram og gengið fram að Atlastöðum, en þar minnir mig okkur fara yfir í austur hluta Svarfaðar- dals og nú lá leiðin í Skeið. Sveinn bóndi á Skeiði tók okkur forkunnar vel og þar gistum við og næsta morgun fylgdi hann okkur á hestum og reið með okkur fyrst upp að Skeiðsvatni og síðan áleiðis út dalinn. Þetta var fallegur dagur og ógleymanlegur. Ég man ekki lengur hvar við kvöddum Svein bónda á Skeiði, en okkur þótti mikið til koma að ríða með honum þessa fallegu leið. Næsti viðkomustaður var á Melum. Þar man ég eftir göml- um manni, sem orðinn var sjóndapur og mig minnir heita Hallgrímur. Hann fagnaði okkur vel, settist við orgelið sitt og lék fyrir okkur nokkur lög og hann vildi líka að við spiluðum fyrir sig því að það fannst honum alveg sjálfsagt að við kynnum, dætur Guðrúnar og Snorra, þó það nú væri! Næst var komið að Dæli og þaðan gengið í Þverá. Mig minnir við fara yfir Skíðadalsána einhvers staðar nálægt Kóngsstöðum eða á móti við Klængshól, en við vissum að nokkrir bæir voru framar í Skíðadalnum en komnir í eyði, en þá tókum við með í upptalningunni og man ég eftir Hverhól og Krosshól. Og nú héldum við niður Skíðadalinn að austan og mörg bæjarnöfn bættust í safnið, nöfn sem við höfðum oft heyrt eins og Hnjúk og Sælu, og um kvöldið komum við að Ytra-Hvarfi og þar var glaðvært fólk, sem bauð okkur velkomnar. (Líklega hefur einn næturstaður fallið þarna niður í minni höfundar. Einhverstaðar hljóta þær systur að hafa gist í Skíðadalnum, annars hefði þetta orðið ansi strembin dagleið. Ritstj.) Það voru margir ungir fallegir menn á Ytra-Hvarfi og enn man ég eftir Ólafi, þegar hann tók upp harmoníkkuna sína og lék fyrir okkur. (Ég held endilega að það hafi verið Ólafur.) Bræðrum hans tveim átti ég eftir að kynnast betur síðar, en það voru hinir kunnu tónlistarmenn Jakob og Jóhann Tryggvasynir en við vorum öll samtíma í Lundúnum árið 1946. Frá Ytra-Hvarfi héldum við svo áfram næsta morgun og nú tóku við Hofsárkotog Skeggs- staðir og fleiri bæir, sem við höfðum heyrt talað um og gaman var að horfa yfir dalinn og sjá bæina vestan megin og átta sig á þeim frá nýju sjónar- horni. Þennan dag gengum við í Skáldalæk með stuttri viðkomu á Völlum og Sökku - og líklega voru bæirnir fleiri - þar sem við þáðum kaffisopa eða aðrar góðgerðir, því að margt hefir skolast til í minningunni, en það var eins og að eiga alla veröldina þetta viku flakk okkar systra. Við settumst á þúfnakolla og skoðuðum blóm, sem við þekkt- um mörg hver með nöfnum, við heyrðum spóann vella og lóuna syngja sitt dirrindí, drukkum vatn úr lækjum og fórum úr peysunum, þegar okkur varð of heitt. Það var svo mikill friður og kyrrð yfir þessari fögru sveit að seint gleymist. Hvílíkt dásemdar líf! Margt af því yndislega fólki, sem við heim- sóttum, fylgdi okkur úr hlaði, gekk með okkur spöl og sagði okkur heiti á kennileitum. Hefði ég bara haft vit í kolli til að skrifa eitthvað hjá mér, hefði þessi frásögn kannske getað orðið einhvers virði, en hér er grafið í djúp minninganna og margt er sokkið til botns, þótt sumt komist aftur upp á yfir- borðið við upprifjunina sprell- lifandi eins og Trítill litli forðum í sögunni af Álfinni álfakóngi. Þá verður mér líka hugsað til þess með söknuði, að ekki skyldu teknar fleiri myndir úr ferðinni, og alveg sérstaklega myndir af fólkinu, sem við kynntumst. Það hefði getað orðið skemmtilegt safn. Framhald á bls. 15 Snorradætur ásamt systrunum á Tjörn, Petrínu og Þorbjörgu. Stúdentsmynd 1942. Heimasæturnar á Hreiðarsstöðum, Laufey t.v. og Friðrika t.h. ásamt önnu og nokkrum heimilisköttum.

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.