Feykir


Feykir - 17.07.2014, Blaðsíða 4

Feykir - 17.07.2014, Blaðsíða 4
4 Feykir 27/2014 Stefán Gunnar Haraldsson Víðidal fæddur 12. september 1930 – látinn 24. júní 2014 Mig langar að minnast míns kæra bróður með nokkrum orðum. Bikar minninganna er barma- fullur. Stefán varð bráðkvaddur á Jónsmessu 24. júní sl. í túninu heima. Engan stað hefði hann fremur kosið að enda sína ævi en í túninu þar sem þau Marta hófu sitt landnámsstarf fyrir rúmum 60 árum. Þá hófst hörð barátta að byggja allt upp frá grunni, en aðeins nokkrir hektarar voru þá komnir í rækt, engar byggingar. Á frumbýlisárum þeirra féllu margir svitadropar til jarðar, það er mér vel kunnugt um. Byrjað var að byggja íbúðarhús og bráða- birgðapeningshús en seinna byggð varanleg hús úr steinsteypu. Ég kom mjög oft til þeirra á fyrstu árum þeirra í Víðidal, þá ungur og ólofaður maður. Við bræður vorum mjög samrýmdir frá fyrstu tíð, ég fór oft bara til þeirra til að hitta þau, hlæja og spauga saman, stundum var sest við orgelið og tekið lag eða við fórum í eina bröndótta, en kannski stundum til að rétta örlitla hjálparhönd við búskapinn. Alltaf átti Marta súkkulaðitertu og fleira gott með kaffinu. Minningarnar eru bjartar þegar litið er til baka er við vorum litlir drengir að alast upp í Brautarholti. Þá lékum við okkur oft suður við læk eða niður við á, busluðum í engjahólfunum þegar búið var að veita ánni upp á engið. Margar ferðir voru farnar á sleðanum niður brekkuna fyrir framan bæinn, smíðuðum okkur bíla og báta og byggðum bú. Fórum við svo að hjálpa til við búskapinn þegar geta og kraftar leyfðu. Hestar voru mikið notaðir daglega við búskapinn svo og til allra ferðalaga. Snemma varð Stebbi mjög liðtækur í umgengni og notkun hesta og áhugamaður um hestamennsku sem fylgdi honum til æviloka; átti og ræktaði landsfrægt hestakyn. Söngurinn var Stebba í blóð borinn og snemma fór hann að syngja, hafði ágæta tenórrödd. Söngur var reyndar í hávegum hafður í Brautarholti frá því ég man fyrst eftir mér. Þegar grammafónninn var settur af stað, sem Skagfield kom með handa foreldrum sínum og margar plötur, var nú hlustað á hinn kraftmikla söng. Þá kom Stefán Íslandi frændi okkar mjög oft í Brautarholt og stundum tekið lagið. Eftir að útvarpið kom var mjög á það hlustað. Í miklu uppá- haldi hjá Stebba voru Sólseturs- ljóðin sem þeir sungu saman, Stefán frændi okkar og Guðmund- ur Jónsson. Gekk það svo langt að hann ákvað að kenna mér lagið og æfingin fór fram í gamla skálanum í Brautarholti. Þá var ég níu ára og Stebbi á fimmtánda ári. Þetta gekk ekki nógu vel, ég var ekki nógu snöggur að koma inn á réttum stöðum og Stebbi varð hálf argur við mig. En er árin liðu tókst þetta nú betur. Stebbi fór í orgelnám til Jóns á Hafsteinsstöðum fljótlega eftir fermingu og eignaðist þá orgel. Þá sótti hann námskeið hjá Eyþóri Stefánssyni og Sig. Birkis. Ungur fór hann að syngja í kirkju- kór Glaumbæjar- og Reynistaðar- sókna, eða fimmtán ára gamall. Er hann flutti svo í Víðidal 1954 fór hann að syngja með kirkjukór Víðimýrarsóknar og söng með honum til dauðadags. Átján ára gamall byrjaði hann í Heimi eða árið 1948 og söng með kórnum með nokkrum hléum til ársins 2012. Var einsöngvari kórsins á árunum 1960-1969. Þá söng hann með eldriborgarakórnum nú síðustu árin. Stebbi var mikill trúmaður og var ekki í vafa um líf eftir dauðann. Hann varðveitti sína barnatrú vel, sem móðir okkar blessuð lagði ríka áherslu á að kenna sonum sínum í bernsku. Áður en Stebbi festi ráð sitt 1951 stundaði hann ýmis störf s.s. byggingavinnu, vegavinnu, mjólkurkeyrslu og jarðýtuvinnu hjá Búnaðarsambandinu eftir að hann settist að í Víðidal. Árið 1948 fór hann á vélanámskeið vetrarpart á Hvanneyri. Snemma eignaðist Stebbi vörubíl og stundaði vörubílaakstur á sumrin, með búskapnum sem með árunum fór minnkandi. Árið 1978 eignaðist hann nýjan vörubíl sem lengi hafði verið draumur hans. Alvöru bíll sem vinnufélagar hans sögðu að væri með „stóru vélinni“. Stebbi var mikil félagsvera, hann var m.a. einn af stofnendum Lionsklúbbs Skagafjarðar og félagi í Vörubílstjórafélagi Skagafjarðar. Stebbi átti gott með að kasta fram stöku og var góður vísnasmiður. Átti mikið safn af vísum í bókum heima. Það er margs að minnast þegar litið er til baka. Margar ánægju- stundir m.a. í tengslum við karla- kórinn – ógleymanleg ferðalög innanlands og utan svo og dagleg samskipti sem með árunum fóru vaxandi, ekki síst eftir að hann missti Mörtu sína. Hann var alltaf svo hress og kátur – og upplífgandi að hitta hann. Stebbi var gæfumaður í lífinu, eignaðist góða konu og fjögur mannvænleg börn og afkomendur þeirra Mörtu eru komnir á þriðja tug – sem veittu þeim ánægju og gleði sem hann kunni svo vel að meta. Elsku Haddi, Pétur, Sigga og Magga og fjölskyldur ykkar. Við Þóra og fjölskylda okkar sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra. Minningin er björt. Megi góður Guð styrkja okkur öll. Kæri bróðir minn! Að lokum langar mig að þakka þér samfylgdina nú er leiðir skilj- ast. Far þú í friði friður Guðs þig blessi. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Þinn bróðir Sigurður Stefán Gunnar Haraldsson fæddist í Brautarholti í Skagafirði 12. september 1930. Hann lést á heimili sínu í Víðidal 24. júní 2014. Foreldrar hans voru hjónin Jóhanna Gunnarsdóttir frá Keflavík í Hegranesi og Haraldur Bjarni Stefánsson frá Brautarholti, Stefán var næstelstur barna foreldra sinna. Systkini hans eru: Haukur, f. 5.7.1927, d. 9.9.2013, giftur Erlu Guðjónsdóttur f. 3.9.1932; Sigurður, f. 7.2.1936, giftur Þóru Ingimarsdóttur , f. 21.3.1936; Bragi f. 27.4.1942, giftur Eygló Jónsdóttur, f. 18.12.1939; stúlkubarn, fætt andavana 1946. Á gamlársdag 1954 giftist Stefán Gunnar Mörtu Fanneyju Svavarsdóttur, f. 8.11.1931, d. 15.5.2013. Þau eignuðust fjögur börn, þau eru: 1) Svavar Haraldur, f.22.2.1952, bóndi í Brautarholti, giftur Ragnheiði G. Kolbeins, f. 18.8.1957. Þau eiga sex börn og fjögur barnabörn og búa í Brautarholti. 2) Pétur Helgi, f. 12.7.1954, útibússtjóri Kaupfélags Skagfirðinga í Varmahlíð og bóndi, giftur Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur, f. 11.6.1961. Þau eiga fjögur börn og tvö barnabörn og búa í Víðidal II. 3) Jóhanna Sigríður, f. 2.1.1961, kennari, gift Einari Erni Einars- syni, f. 18.8.1960. Þau eiga þrjú börn og þrjú barnabörn og búa á Víðimýri. 4) Margrét Sigurlaug, f. 11.12.1968, tónlistarkennari, gift Ólafi Hafsteini Einarssyn, f. 25.3.1961. Þau eiga þrjú börn og búa á Hvoli í Ölfusi. Áður en Stefán festi ráð sitt vann hann ýmis störf, m.a. hjá bygg- ingarverktökum, í vegavinnu- flokki, við mjólkurflutninga og nokkur sumur hjá Búnaðarsam- bandinu á jarðýtu. Stefán og Marta stofnuðu nýbýli út úr landi Víðimýrar sem þau nefndu Víði- dal. Þar hófu þau búskap árið 1954. Stefán vann við búskap alla sína tíð auk þess sem hann var vörubílsstjóri og vann því utan heimilis, einkum yfir sumartím- ann. Hann var einn af stofnendum Lionsklúbbs Skagafjarðar og vörubílsstjórafélagsins Fjarðar. Hann söng með Karlakórnum Heimi og kirkjukór Víðimýrar- kirkju í 60 ár og nú síðustu ár var hann í Kór eldri borgara. Útför Stefáns var gerð frá Víðimýrarkirkju þann 8. júlí sl. M I N N I N G Parkour verður kynnt á Unglingalandsmótinu á Króknum ,,Adrenalínið flæðir um líkamann!” Félagarnir Guðni Bjarni Kristjánsson og Eiður Merlin Thoroddsen stunda íþróttina Parkour á Sauðárkróki. Guðni hefur stundað íþróttina í tvö og hálft ár og Eiður í sex ár. Þegar blaðamaður hitti þá félagana voru þeir við æfingar ofan við heimavistina en Parkour verður á meðal þeirra íþrótta sem verða til kynnis á Unglingalandsmótinu. ,,Parkour er íþrótt sem gengur út á það að komast frá A til B eins fljótt og þú getur, meðal annars að hoppa yfir grindverk og niður af húsum, hlaupa upp veggi og þess háttar,” útskýrir Guðni Bjarni þegar blaðamaður spyr hann hvers konar íþrótt Parkour sé. Drengirnir hafa komið sér fyrir aftan við heimavistina þar sem þeir stökkva yfir torfhleðslurnar með ýmsum töktum, en þeir sjá sjálfir um að þjálfa sig enda segja þeir alla þá bestu í Parkour í heiminum æfa á eigin spýtur. Þeir eru fjórir félagarnir sem stunda Parkour á Króknum í dag, en auk Guðna og Eiðs hafa þeir Viðar Vilhjálmsson og Daníel Ísar Gíslason mætt á æfingar. ,,Það sem gerir Parkour spennandi fyrir mig er að adrenalínið flæðir um líkamann og áhættan getur verið mikil, en svo lengi sem þú veist hvað þú ert fær um að gera og þú treystir þér í hlutina, þá geturu gert allt það sem þig langar til að læra í Parkour/Freerunning. Ég mæli með þessari íþrótt fyrir þá sem eru mikið fyrir að hoppa, hlaupa, klifra og fá smá adrenalín í líkamann,” segir Guðni Bjarni en hann stefnir á að verða atvinnuíþróttamaður í Parkour og mögulega þjálfa þá sem hafa áhuga og vilja verða góðir í íþróttinni. Guðni Bjarni er sonur Hlífar Sumarrósar Hreinsdóttur og Kristjáns Guðmundar Eggerts- sonar. Eiður Merlin er sonur Sigurðar E. Thoroddsen og Leonie Mitton. /GSG Félagarnir Guðni Bjarni og Eiður Merlin.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.