Feykir


Feykir - 17.12.2015, Blaðsíða 9

Feykir - 17.12.2015, Blaðsíða 9
48/2015 Feykir 9 Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir 53 milljónum í rekstrarafgang hjá Sveitarfélaginu Skagafirði 2016 Fimm ár í röð í plús Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skaga- fjarðar fyrir árið 2016 var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar 9. desember. Afar mikil- vægt er að hafa viðlíka samstöðu í sveitar- stjórn um fjárhags- áætlun ársins sem er í raun stefnumarkandi fyrir rekstur og fram- kvæmdir sveitarfél- agsins á næsta ári. Það er ánægulegt að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 sem gerir ráð fyrir rekstrarafgangi af samstæðu- reikningi sveitarsjóðs að upphæð 519 milljónir fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B hluta er áætlaður samtals 53 milljónir. Ef áætlanir ganga eftir verður árið 2016 fimmta árið í röð sem gert verður upp með jákvæðri rekstrar- niðurstöðu hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, en slíkur árangur hefur ekki áður náðst í sögu þess. Óhætt er að segja að ákveðinn stöðuleiki hafi náðst í reksturinn og ber að þakka það ábyrgri fjármálastjórn og aðhaldi í rekstri undanfarinna ára. Einnig ber að þakka starfsmönnum sveit- arfélagsins en ljóst er að án samstillts átaks þeirra hefði sá árang- ur ekki náðst líkt og rekstur undanfarinna ára ber með sér sem og sú áætlun sem lögð er fram nú. Mikilvægt er að áfram verði haldið á þeirri braut og aðhalds gætt í rekstri en ljóst er að tap á A-hluta sveitarsjóðs þarf að leiðrétta á komandi árum. Miklar launahækkanir höfðu áhrif á áætlunina en hækkanir launa á milli áætlana 2014 og 2016 eru rúmar 333 milljónir króna. Það er gleðilegt að geta kynnt fjárhagsáætlun með viðlíka rekstrarafgangi og gert er ráð fyrir hér þrátt fyrir það. AÐSENT SIGRÍÐUR SVAVARSDÓTTIR OG STEFÁN VAGN STEFÁNSSON SKRIFA Gjaldskrár ekki hækkaðar umfram verðlag Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 er miðað við að þar sem gjaldskrár væru hækkaðar yrðu þær hækkanir ekki umfram verð- lags- og kjarasamningshækkanir. Það er því ljóst að Sveitarfélagið Skagafjörður verður áfram með einhver lægstu gjöld í leik- og grunnskólum landsins sem og að orkukostnaður verður áfram hvað lægstur á íbúa í Skagafirði. Afar mikilvægt er að hafa þau markmið uppi þegar framtíðaruppbygging svæðisins er höfð í huga. Mikilvægt er að halda þannig á málum að eftirsóknarvert sé fyrir fólk að setjast að í Skagafirði. Frá þeirri stefnu má ekki kvika. Framkvæmt fyrir 371 milljón 2016 – Sundlaug Sauðárkróks stærsta einstaka verkefnið Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri samstæðunnar verði rúmar 376 milljónir á árinu og framkvæmt verði fyrir 371 milljón. Stærsta fjárfestingaverkefnið á næsta ári verða framkvæmdir við Sund- laug Sauðárkróks. Samkvæmt sveitar- stjórnarlögum má skuldahlutfall sveitar- sjóðs ekki fara yfir 150% af tekjum og höfðu ýmsir áhyggjur af því að með þeim framkvæmdum sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili myndi sveitarsjóður rjúfa það viðmið. Gerir fjárhagsáætlun 2016 hins vegar ráð fyrir því að skuldahlutfallið verði 137%, en þegar búið er að draga frá lífeyrisskuldbindingu að hluta og skuldir orku- og veitufélaga, líkt og lögin gera ráð fyrir, er skuldahlutfall samstæðunnar um 120% sem er vel innan allra marka. Sú áætlun sem lögð er fram nú var unnin í samvinnu allra flokka, bæði í nefndum sveitarfélagsins og í byggðarráði sem er mikilvægt og ber að þakka fyrir þá vinnu. Með slíkar kennitölur í rekstri er ljóst að áfram er hægt að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til hagsældar og uppbyggingar innviða sveitarfélagsins. Við óskum íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar til hamingju með þá áætlun sem hér er lögð fram og óskum öllum íbúum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Sigríður Svavarsdóttir forseti sveitarstjórnar Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðarráðs Heilir og sælir lesendur góðir. Í síðasta þætti birti ég höfundarlausa vísu sem ekki var alveg rétt með farin. Á fyrri hluti hennar að vera þannig. Veröld fláa sýnir sig sú mér spáir hörðu. [og svo framvegis] Hefur nú góður vinur þessa þáttar og áskrifandi að Feyki, sem búsettur er í Hafnarfirði, haft samband við mig og tjáð mér að umrædd vísa muni vera eftir Vilhjálm Hölter. Var það reyndar það sem ég hélt, en þorði ekki að treysta minni mínu um það. Það er Sunnlendingurinn Ólafur Stef- ánsson sem leggur þættinum til fyrstu limruna að þessu sinni. Þegar lýkur lífsgöngu okkar verða lagðir til hliðar þeir sokkar sem léða við fengum og Laufásveg gengum meðan enn voru ljósir lokkar. Ekki fer framhjá neinum okkur landsins börnum nú um sinn þær illviðraspár og vondu veður sem nú ganga yfir. Rifjaðist upp fyrir mér í dag limra sem er í andstöðu við allt slíkt. Höfundur er limrusnillingur- inn Kristján Karlsson. Mælti Haraldur bóndi á Heiði mitt höfuð þyngir nú leiði. Hér er ágætis veður en ekkert sem skeður. Eitt illmenni kæmi sem greiði. Hallmundur Kristinsson hjálpar okkur með eina limru í viðbót. Hreinn vildi að Hulda sæi að hann væri alvöru gæi og söng henni seið þá sagði hún reið: Þú ert bara ekki í lagi. Þrátt fyrir að oft finnist mér að á næstu dögum komist ég í þrot með efni fyrir þáttinn, rekur annað slagið á fjörurnar mikil dýrmæti að mati okkar vísnavina. Góður vinur og áskrifandi að Feyki á Akureyri sendi mér nú fyrir skömmu feikna gott innlegg fyrir okkar ágæta blað, og vísnaþátt þess. Er þá fyrst til að taka efni frá snjöllum hagyrðingi sem Gísli hét Jónsson, skáld í Bolungarvík og var fæddur 14. apríl 1851, dáinn 23. maí 1919. Hefur sá ekki verið í vanda með að yrkja hringhent eftir þeim upplýsingum sem ég nú hef. Mikill auður misveittur magnar dauða og pínu, oft er snauður ánægður af dagbrauði sínu. „Leiðindi“ kallar Gísli næstu vísu. Sjaldan kátt um sinnu hyl sviftur mátt til þrifa, nú er fátt sem fellur til og fremur bágt að lifa. Um Hjört son sinn yrkir Gísli svo, þegar hann varð ársgamall árið 1908. Vísnaþáttur 655 Kaldur munnur köld er höndkaldur fótur líka, í brjóstum kennir baugaströnd barnið elskuríka. Hjörtur sá er hér um ræðir varð síðar kunnur íbúi á Akureyri, verkamaður og skáld. Er mér enn í fersku minni hvað við krakkar á þeim tíma biðum spennt eftir meiru þegar bókin hans, Salómon svarti, kom út. Hjörtur var fæddur 1907 og lést 1963. Þessa vísu sem ég hef lengi kunnað, og er í miklu uppáhaldi hjá mér, kallar hann sjálfslýsingu. Oft við dróttar innstu vé eyði ég nóttu glaður. Enda þótt ég ekki sé eftirsóttur maður. Einhverju sinni er skólayfirvöld á Akureyri sendu bréf heim til foreldra og óskuðu eftir auknu hreinlæti barnanna og gáfu í skyn ýmislegt miður gott í hári sumra orti Hjörtur. Hanga lýs í hárunum hoppar fló á búknum. Nartar maur í nárunum njálgur rís á kúknum. Þegar Hjörtur stóð frammi fyrir því einn dag að eiga ekki aura fyrir afborgun af víxli sem hann átti í Útvegsbankanum varð þessi vísa til. Litlu munar músin kvað sem meig í Atlandshafið. Eins fer skammarskáldið að skuldafjötrum vafið. Ekki er hægt að segja að nein úrkynjun hafi orðið í ætt þessari hvað skáldskap snertir. Reynir sonur Hjartar er okkur sem nú lifum vel þekktur og kunnur hagyrðingur. Um samferðarmann á lífsins leið yrkir hann svo. Vantar áttir veður reyk verður fátt til sóma. Hefur smátt af heiðarleik höfuðgáttin tóma. Ekki versnar andagiftin þó komi í fjórða lið þessarar ættar. Hallur Birkir Reynisson leikur sér svo að oddhendu. Vísnaþraut ég vonda hlaut vaskur þaut í brasið. Heilan braut en hugsun þraut hnugginn laut í grasið. Þá verður víst ekki mikið lengra komist með vísnagleðina. Fáum að lokum fallega vísu eftir okkar góða vin Sigurð Óskarsson í Krossanesi. Var hann mættur snemma til messu í Glaumbæjarkirkju og virti fyrir sér kirkjugestina um leið og þeir mættu. Þegar sæmdarhjónin í Hátúni birtust í kirkjudyrunum orti Siggi. Að mér streyma yl ég finn andinn fer að hlýna. Í Guðshúsið ganga inn Gunnlaugur og Lína. Verið þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) kristin@feykir.is

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.