Feykir


Feykir - 03.03.2016, Blaðsíða 7

Feykir - 03.03.2016, Blaðsíða 7
09/2016 7 Sagan við hvert fótmál Frá veiðinni berst talið að sögunni og þar er Magnús vel heima, í orðsins fyllstu merk- ingu. „Sagan er náttúrulega geysilega mikil í kringum mitt nærumhverfi,“ segir hann og bendir á að fyrstu skráðu deilur um veiðirétt hafi endað með vígi í Vatnsdal. Var landnáms- maðurinn Ingimundur gamli veginn af Ásverjum, sem sýnt höfðum sonum hans, Hofs- verjum nokkurn yfirgang. Reyndi þá Ingimundur að stilla til friðar sem endaði með því að hann lá örendur,“ útskýrir Magnús. Þá má nefna söguna um Gretti og Glám og alla söguna sem tengist Þingeyrum. Einnig bendir hann á hversu náttúran hefur breyst á tiltölulega fáum öldum. Þannig megi nefna að ekki eru nema tæp 300 ár síðan náttúruperlan, Flóðið í Vatnsdalnum, myndaðist vegna skriðufalla. Á 16. öld féll önnur stór skriða og myndaði landið þar sem bærinn Hnausar í Þingi stendur. „Í landi Sveinsstaða fór fram síðasta aftakan á Íslandi, og hefur verið mikið umrædd allar götur síðan,“ heldur Magnús áfram. „Faðir minn var ungur maður við það að grafa upp beinin af Agnesi og Friðrik. Það atvikaðist þannig að það kemur maður í Sveinsstaði 1934 og spyr um Magnús gamla, afa minn, því miðill hafði komið með skilaboð frá Agnesi. Hún taldi að það væri ástæða til að bein þeirra Friðriks kæmust í vígða mold eftir að hafa verið rúmlega 100 ár í óvígðri mold,“ útskýrir hann. Magnús segir að afi hans hafi lofað manninum aðstoð við að finna líkamsleifarnar. „Miðillinn hafði sagt að hauskúpurnar væru grafnar við hliðina á kössunum sem þau voru jarðsett í en því trúði afi ekki. Sagan hafði verið sú að gæðakonan á Þingeyrum, sem að hýsti Friðrik síðustu dagana fyrir aftökuna, hefði sent vinnumann sinn í skjóli nætur til að taka höfuðin, sem sett höfðu verið á stangir við aftökustaðinn samkvæmt lögum þess tíma, og fara með þau yfir að Þingeyrum. Við uppgröftinn kom í ljós að vinnumaðurinn hafði ekki haft kjark til að fara með þau þangað eins og konan hafði lagt fyrir, heldur grafið þau við hliðina á líkunum,“ segir hann. Bætti hann við þeirri frásögn miðilsins að vinnumaðurinn hefði ekki náð stönginni úr höfði Agnesar, heldur brotið spýtuna. Svo kom í ljós spýtubrot hjá annarri hauskúpunni þá beinin voru grafin upp. Forveri fréttaritarans Gríms Gíslasonar Magnús hefur frá unga aldri tekið virkan þátt í félagsmálum. Formlega skólagöngu byrjaði hann í skólahúsinu, sem reist var í túnfætinum á Sveinstöðum og var fyrsta steinsteypta skólahúsið sem byggt var í sveit á Íslandi. Stóð sú skólaganga í þrjá til fjóra mánuði á vetrum og voru um 10-17 nemendur í skólanum í einu. Þaðan hélt Magnús í Reykjaskóla, lauk þaðan landsprófi og fór síðan í Bændaskólann á Hólum. Auk þess tók hann nokkra kúrsa á háskóla seinna á lífsleiðinni. „Þeir hafa út af fyrir sig verið merkilegir, en einn skóli er það sem að gleymist oft og það er skóli lífsins. Minn skóli var sá að ég lenti rúmlega tvítugur inni í mjög öflugum félagsmálum. Varð formaður Ungmennasambandsins hérna og svo leiddi eitt af öðru og ég lenti inni í ýmsu,“ segir hann. Þannig fór Magnús að stunda blaðamennsku í framhaldi af störfum sínum að ungmenna- félagsmálum. Um tíma var hann formaður Sambands ungra Framsóknarmanna og dvaldi þá þrjá vetur í Reykjavík til að sinna þeim störfum og gerðist blaðamaður á Tímanum á meðan á dvölinni stóð. „Ég segi stundum að ég sé það gamall að Grímur Gíslason, sem var frægur fréttaritari hérna, tók við af mér sem fréttaritari útvarps, þegar ég hóf störf á Tímanum,“ segir hann og hlær. Hann segir þessi fjölmiðlastörf hafa verið mjög ánægjuleg og gegnum þau hafi hann kynnst fjölda fólks. Magnús hefur jafnframt verið virkur í Lionshreyfingunni, hestamannafélagi og afurðasölu- málum, svo sitthvað sé nefnt. Hann segist hins vegar lítið hafa skipt sér af sveitastjórnarmálum, þau hafi ekki höfðað til sín. Ekki síst vegna þess að hann telur ástæðu til að sameina sveitarfélög á svæðinu í mun meira mæli en orðið er. „Það var ekki mikill slagkraftur í þessum litlu einingum og það er raunar ekkert meiri slagkraftur í þessum sveitarfélögum sem nú eru. Við erum ekki svo mörg, það væri skynsamlegra að vera saman í einni heild. Ég hef aldrei séð mun á fólkinu sem býr hérna á Blönduósi, Skagaströnd, Skagabyggð eða í Húnavatnshreppnum,“ og segir hann og bætir því við að fyrir löngu hefði átt að sameina A-Hún. í eitt sveitarfélag og jafnvel vestursýsluna líka. Álftagerðisbræður í Þing- eyrakirkju á afmælinu Sjötugsafmæli Magnúsar var fagnað með nokkuð óvenju- legum hætti en hann bauð til Magnús og Björg ásamt börnum sínum, frá vinstri: Magnús, Sigríður Helga leikskólakennari, Ólafur, bóndi og reiðkennari, Þorgils bygginga- tæknifræðingur, Elín Ósk grunnskólakennari og Björg. Magnús með sonarsyni sínum og nafna. Myndin tekin þegar Magnús var að ljúka prófi í 5. stigi í knapamerkjum sl. vor og Magnús yngri að taka við viðurkenningu fyrir góða ástundun í reiðnámskeiði. MYND: Heiðrún Ósk Eymundsdóttir. Álftagerðisbræður syngja í Þingeyrakirkju. Afmælistónleikaana auglýsti Magnús m.a. með eftirfarandi. Ekkert vín og engar ræður / en að gleðskap legg ég drög / því Álftagerðis úrvals bræður / ætla að syngja frábær lög. Magnús afþakkaði allar persónulegar gjafir af þessum tímamótum en á tónleikunum var askja, þar sem hægt var að setja pening í ef fólk vildi og við þau hjónin hafði fólk samband, sem ekki komst í kirkjuna en vildi gefa pening af þessu tilefni. Alls söfnuðust yfir 220 þúsund krónur til kirkjunnar. Magnús að leggja af stað í hestaferð með sonum sínum og tengdadætrum. F.v. Þorgils, Inga Sóley kona Ólafs, Magnús, Viktoría Björk kona Þorgilsar, Ólafur, sem reiðir Sunnu Margréti dóttur sína. MYND: Kristín Jósteinsdóttir tónleika í Þingeyrakirkju þar sem Álftagerðisbræður sungu og gerðu að gamni sínu. „Þegar ég varð fimmtugur héldum við mikla veislu og höfðum opið hús í Félagsheimilinu hér á Blönduósi. Það kom fullt af fólki og var ógurlega gaman en nú langaði okkur að gera eitthvað annað,“ segir hann um tildrög þess að haldið var upp á afmælið með þessum hætti. „Við fengum þessa ágætu hugmynd að nýta okkar fallega hús, Þingeyrakirkju. Hún er eitt alfallegasta Guðshús landsins og gott tónleikahús en hefur ekki verið mikið notuð sem slík. Við fengum þá Álftagerðisbræður til að koma og syngja fyrir þá sem vildu. Ég heyri ekki annað en að allir sem þangað komu hafi haft mjög gaman af þessu,“ segir hann, en rúmlega hundrað manns komu í kirkjuna þetta kvöld. Magnús getur þess sérstaklega að sér finnist notalegt að koma í kirkjuna að kvöldlagi, en í henni er blámáluð hvelfing með þúsund gylltum stjörnum, jafnmörgum og rúðurnar í gluggum kirkjunnar. Hvelfingin er lýst óbeinni lýsingu og er þannig tilkomumikil. Þegar blaðamaður býr sig undir að kveðja Magnús og hleypa honum í hesthúsið, berst það í tal í framhjáhlaupi að hann hafi fertugur farið að stunda flug. Tók hann þá einkaflugmannspróf og á nú flugvélina TF-FBI í félagi við tvo aðra. Þá leiðist spjallið út í þá skemmtilegu hefð Húnvetninga að spila Lomber, en þrátt fyrir að hefðin sér rík í Vatnsdalnum fór Magnús ekki að iðka hana fyrr en um sextugt. Hann segir Lomberinn skemmtilegan, sannkallað „gleðispil.“ Hann kveður með þeim orðum að maður þurfi alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni og er þar með farinn í hesthúsið, að sinna einu af hinum fjölmörgu áhugamálum þar sem lífsgleðin fær að njóta sín.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.