Feykir - 27.04.2016, Page 8
8 16/2016
Það var það fyrsta sem
mér datt í hug þegar
ég hugsaði um hvað ég
ætti að skrifa í þessum
pistli. Ég er fæddur og
uppalinn Keflvíkingur. Ég
ólst upp í þeim ágæta
bæ á meðan herinn var
enn á „vellinum“. Ég
persónulega varð ekki
mikið var við þennan her
nema flugvélarnar þeirra
sem ollu stundum því
að við skoruðum mark
í fótboltaleik á meðan
andstæðingarnir stóðu
agndofa og störðu upp í
himininn á þessa risafugla
sem höfðu mjög hátt.
Mér fannst gott að alast
upp í Keflavík en ég hef
alltaf haft á tilfinningunni
að margir skammist sín fyrir
uppruna sinn eða kannski
þessa nálægð við herinn.
Í minningunni fannst
mér fullorðið fólk yfirleitt
neikvætt um flest allt. Ég
var mjög feimið barn, og
á minningar um að hafa
viljað vera ósýnilegur oft á
tíðum. En mér hlotnaðist sú
gæfa að hafa meðfæddan
hæfileika sem enginn vissi
af fyrr en besti vinur minn
dró mig á fótboltaæfingu
þegar ég var að stálpast.
Þar kom í ljós að þetta
lá vel fyrir mér. Fljótlega
varð fótboltinn að ástríðu
og ég fór að leyfa mér að
dreyma um frama. Feimnin
rjátlaðist smátt og smátt af
mér og sjálfstraustið kom
um leið.
Ég átti frábær ár í yngri
flokkum Keflavíkur bæði í
knattspyrnu og körfubolta
og varð Íslandsmeistari
í báðum greinum oftar
en einu sinni. Á þessari
vegferð minni kynntist ég
mínum bestu vinum og þó
ég hafi nú búið jafnlengi í
Skagafirði og í Keflavík þá
erum við sex vinirnir sem
höldum mjög reglulega
sambandi. Í minningunni
upplifði ég aldrei neikvæðni
í þessum hópi. Enn þann
dag í dag þegar við vinirnir
hittumst þá er bara gaman.
Við veltum okkur ekki upp
úr hvað Skagfirðingar eða
Garðbæingar hafi það
gott. Við gleymum okkur
við að hafa það gott. Við
erum svo sannarlega mjög
ólíkir einstaklingar þannig
að ekki get ég sett það
fram sem lykil að þessari
jákvæðni. Aldrei man ég
eftir að hafa haldið að ég
væri betri en nokkur þeirra
í því sem ég gerði og ég
upplifði mig aldrei slíkan
gagnvart andstæðingum
heldur. Samt tókst mér
einum af vinunum að
vinna mér sæti í landsliði
Íslands í knattspyrnu.
Aldrei man ég eftir að hafa
upplifað öfund eða leiðindi
af þeirra hálfu og alltaf
hlakkaði ég til að hitta þá
aftur og spila með þeim,
jafnvel þótt reynsla mín af
landsliðsþátttöku hafi verið
frábær. Nú haldið þið að
ég sé að ná toppnum hvað
sjálftraust varðar, en allt
þetta hól um sjálfan mig
leiðir okkur vonandi aftur
niður á jörðina.
Átján ára lenti ég svo í
alvarlegum meiðslum
sem að lokum bundu
enda á feril minn sem
knattspyrnumaður sjö
árum seinna og þá sem
leikmaður Tindastóls á
Sauðárkróki. Ég hafði
verið lánaður frá vinum
mínum í Keflavík í minna
lið á Suðurnesjum þar
sem ég átti að „koma
undir mig fótunum“ að
nýju eins og þjálfarinn
þá kallaði það. Ég fann
mig alls ekki í nýja liðinu,
allt í einu fann ég fyrir
„leiðindum“ liðsfélaga og
þjálfarinn var „ömurlegur“.
Kærastan hætti með mér.
Neikvæðnin tók völdin í
mínu lífi. Á sama tíma var
einn af vinum mínum úr
Keflavíkurliðinu að kljást
við það vandamál að geta
spilað tvær íþróttagreinar
á fullu, svo góður var
hann að þjálfarar beggja
greinanna vildu að hann
einbeitti sér að annarri
greininni en ekki hinni. Fyrir
vikið varð hann að víkja frá
félaginu okkar og leita á
önnur mið. Sauðárkrókur í
Skagafirði varð fyrir valinu
og fljótlega var ég, vinur
hans, kominn til hans og
langaði að koma fótunum
undir mig hér á þessum
fallega stað, svo fjarri
heimaslóðum þar sem
væntingar til mín voru
umfram það sem ég gat
skilað á þeim tíma. Þegar
hingað var komið ákvað
ég að „núllstilla“ mig. Nú
yrði ég t.d. ekki feiminn
lengur og hér myndi ég
aftur ná að njóta mín sem
einstaklingur og vonandi
sem hluti af einhverri
liðsheild. Þegar ég flutti
á Krókinn þá voru rúm
tvö ár liðin frá því að ég
hafði orðið fyrir þessum
meiðslum sem settu svo
stórt strik í minn feril.
Ætlunarverk mitt tókst,
hér naut ég mín aftur með
vini mínum og við vorum
fljótir að eignast fleiri vini
innan Tindastólsliðsins og
jákvæðni smitaðist út. Ekki
endilega frá okkur tveimur
heldur bara innan úr
sterkum hópi. Við unnum
okkur upp úr 3. deild
þetta sumar og í upphafi
þess næsta var þriðji
æskuvinurinn mættur til að
spila með okkur. Við nutum
lífsins og allt var jákvætt.
Á þremur árum höfðum
við upplifað að fara tvisvar
upp um deild og vorum
við komnir í næstbestu
deild Íslands. Á þessum
tímapunkti var neikvæðnin
farin að segja til sín, deildin
skuldaði mikla peninga
og fljótlega fór allt beina
leið niður á við eins góður
klósettfengur. Neikvæðnin
réð för.
Á mínu tuttugasta og öðru
aldursári var ég svo illa
að mér að ég vissi ég ekki
hvað Framsóknarflokkurinn
var og ekki heldur
Sjálfstæðisflokkurinn og
hvað þá hinir póltísku
flokkarnir en samt kynntist
ég hér ungri konu sem
síðar varð konan mín og
síðan hefur Sauðárkrókur
verið mitt heimili. Í dag
eigum við þrjár yndislegar
dætur skuldlaust. Það eru
ekki margar eignir sem
maður getur talið upp sem
skuldlausar en þær
eigum við.
Æskuvinir mínir eru farnir
suður aftur en við erum
enn bestu vinir. Síðan
þá hef ég kynnst því
hvernig sveitarfélög eru
rekin af fólki sem vill sínu
sveitarfélagi allt það besta.
En ég finn og hef fundið
lengi fyrir sömu almennu
neikvæðninni hér út í
allt og ekkert eins og á
æskuslóðum fyrir u.þ.b.
25 árum. Þar er ég ekki
undanskilinn. Almennt
erum við mjög gjörn á að
halda að aðrir hafi það
miklu betra alls staðar
annars staðar og oftar en
ekki heyrist að verið sé að
taka okkur í ósmurt...
Nú þarf ég að galdra fram
boðskap þessarar sögu í
stuttu máli. Ég velti því fyrir
mér hvar í lífinu mér hefur
gengið hvað best. Ég hef
unnið á fimm vinnustöðum
hér í Skagafirði,
KS, Dodda málara,
Búnaðarbankanum,
Tindastól og Árskóla. Ég
hef spilað með nokkrum
hópum / liðum íþróttir. Alls
staðar þar sem ríkir góður
og jákvæður andi næst
árangur. Góðir vinir verða
til þegar tveir einstaklingar
gleyma sér í jákvæðninni.
Góð liðsheild skapast af
góðum vinum og jákvæðri
orku sem geislar frá þeim.
Í dag finnst mér ofsalega
gott að búa í Skagafirði,
mér fannst ofsalega gott
að búa í Keflavík á sínum
tíma og sama hvar ég
lendi í framtíðinni þá
veit ég að mér á eftir að
finnast ofsalega gott að
búa þar. Reynsla mín
sýnir að til að ná árangri
þá þurfa allir að standa
saman og vinna í eina
átt. Því kemur það mér á
óvart að pólitík skuli enn
byggja á þeirri fáránlegu
staðreynd að byrja á því
að búa til andstæðinga
innan hópsins og eyða
svo mestum tímanum í
að rífast innbyrðis frekar
en að sameinast í vinskap
og liðsheild og ráðast
á verkefnin þannig. Ég
leyfi mér að ímynda mér
hvernig Árskóli væri sem
vinnustaður ef við myndum
byrja á því að skipta
starfsfólkinu í tvö lið, annað
liðið yrði einum manni fleira
en hitt svo að öruggt væri
að fámennara liðið fengi
ekkert að segja þegar liðin
greinir eitthvað á. Svo væru
einstaklingar innan liðanna
sem væru „leiðtogar“
en þeir geta verið bæði
jákvæðir og/eða neikvæðir.
Allir innan liðsins ættu að
fylgja þessum leiðtoga í
einu og öllu.
Ætli svona lítið batterý
eins og grunnskóli yrði
gæfulegur vinnustaður ef
honum væri stýrt eins og
ráðhúsum sveitarfélaganna
eða Alþingi Íslands?
- - - - -
Ég skora á Kristbjörgu
Kemp að koma með
næsta pistil.
Guðjón Örn Jóhannsson, Sauðárkróki, skrifar
Það er gott að búa í Skagafirði
ÁSKORENDAPENNINN
UMSJÓN kristin@feykir.is
Retro Stefson,
Úlfur Úlfur
og Sverrir
Bergmann
eiga sviðið
Drangey Music Festival
Tónlistarhátíðin Drangey
Music Festival, þar sem
vegurinn endar, verður
haldin í annað sinn
laugardagskvöldið 25. júní
næstkomandi. Þetta árið
verða það Retro Stefson,
Sverrir Bergmann og
hljómsveit og Úlfur Úlfur
sem munu eiga sviðið,
ásamt úrvali heimafólks og
fleiri atriða sem kynnt
verða síðar.
Óhætt er að segja að
hátíðin hafi slegið í gegn þegar
hún var haldin í fyrsta skipti
síðastliðið sumar, frábær
tónlist, einstök náttúra og
veður eins og best verður á
kosið hjálpaði allt til við að
skapa ógleymanlega upplifun.
„Þetta gekk mjög vel í
fyrra, svo ekki sé meira sagt,
og er mikil áskorun að fylgja
þessu eftir,“ viðurkennir
Áskell Heiðar Ásgeirsson í
samtali við Feyki, en hann
stendur á bak við hátíðina
ásamt Viggó Jónssyni og
Guðbrandi Ægi Ásbjörnssyni.
Hátíðin verður með sama
sniði þetta árið, hvað varðar
umgjörð, uppsetningu, skipu-
lag og miðaverð. „Við ætlum
að vera með tónlist fyrir alla
aldurshópa, erum komin með
nokkur frábær atriði og eigum
eftir að koma með fleiri þegar
nær dregur,“ bætir hann við.
Þegar Áskell Heiðar er
spurður um væntingar til að
endurskapa þá frábæru
stemningu sem einkenndi
hátíðina í fyrra segir hann að
búið sé að panta gott veður á
hátíðinni og alveg fram yfir
Landsmót hestamanna.
„Veðrið er auðvitað stór þáttur
á útitónleikum hvar sem er,
en á meðan það verður ekki
rok og rigning þá verðum við í
fínum málum. Við lofum ekki
góðum veðri en við lofum
hins vegar góðri tónlist í
glæsilegri umgjörð, fallegu
landslagi og ef við fáum eins
frábæra áhorfendur og í fyrra
þá getum við lofað góðri
stemningu og góðum anda.
Svo kemur í ljós hvort við
vinnum aftur í veðurlottóinu!“
segir Áskell Heiðar að lokum.
Miðasala hefst mánudag-
inn 2. maí á midi.is /BÞ