Feykir - 03.06.2010, Qupperneq 8
8 Feykir 21/2010
Síðustu 10 ár hefur að
meðaltali verið tilkynnt árlega
um 340 slys á sjómönnum til
Tryggingastofnunar ríkisins.
Árið 2009 var tilkynnt um
238 slys til Tryggingastofn-
unar og þar af voru tvö
banaslys.
Hins vegar voru aðeins 57
þessara slysa tilkynnt til Rann-
sóknanefndar sjóslysa. Þetta er
meðal þess sem lesa má um í
skýrslu rannsóknanefndarinnar
fyrir árið 2009. Ljóst er að til
mikils er að vinna þegar
öryggismál sjómanna eru
annars vegar og að ýmislegt er
hægt að bæta.
Formlegt samstarf um
bætta öryggismenningu
Nýlega var greint frá því að VÍS
og Slysavarnaskóli sjómanna
hafa skrifað undir þriggja ára
samstarfssamning sem felur í
sér formlegt samstarf um bætta
öryggismenningu um borð í
fiskiskipum og um auknar
forvarnir gegn slysum meðal
sjómanna. Tekið verður upp
samstarf við útgerðir sem
tryggja hjá VÍS með það að
markmiði að sporna við slysum
meðal sjómanna á fiskiskipum
þeirra, auk þess sem VÍS mun
afhenda Slysavarnaskóla sjó-
manna 10 flotgalla árlega næstu
þrjú árin til að nota við kennslu
í sjóbjörgun.
Eitt af markmiðum samstarfs
VÍS og Slysavarnaskóla sjó-
manna er að efla skráningu og
tilkynningar slysa um borð í
fiskiskipum, enda er það for-
senda úrbóta og fyrirbyggjandi
aðgerða. Stefnt er að því að efla
öryggismenningu um borð í
fiskiskipum og gera störf
sjómanna öruggari en þau eru í
dag. Þetta verður m.a. gert með
sameiginlegri skuldbindingu
útgerða og sjómanna um að
stuðla að breyttu viðhorfi og
aukinni áherslu á öryggismál
sjómanna. Gert verður áhættu-
mat um borð í skipunum auk
þess sem tekin verður upp
skipuleg skráning á slysum og
öllum atvikum þar sem legið
hefur nærri slysum.
Vel heppnað öryggisverk-
efni um borð í Málmey
Fyrir ári hófu VÍS, FISK Seafood
á Sauðárkróki og Slysavarnar-
skóli sjómanna formlegt for-
varnarsamstarf og er tilgangur
þess að efla öryggi sjómanna og
koma á öryggismenningu um
borð í fiskiskipum FISK.
Togarinn Málmey var valinn til
reynslu og var gert áhættumat
starfa um borð, skiplagðri
atvikaskráningu komið á og
hert á öðrum öryggisáherslum.
Reynslan af verkefninu um borð
í Málmey hefur verið mjög
jákvæð og verður hún í haust
yfirfærð á tvö önnur skip FISK
Seafood. Mikilvægast af öllu er
þó að með þessari vinnu er
stigið skref til að koma í veg
fyrir slys um borð. Með þá
reynslu sem fengin er um borð í
Málmey ætlar VÍS að hefja
VÍS og Slysavarnaskóli sjómanna gera 3ja ára samstarfssamning
um að auka öryggi um borð í íslenskum fiskiskipum
Samstarf um aukið
öryggi sjómanna
Þessi mynd var tekin þegar gengið var frá samningi um forvarnarsamstarf VÍS og Slysavarnaskóla
sjómanna. Frá vinstri Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, Ágúst Ó. Ómars-
son skipstjóri á Málmey og Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS. Mynd: Hreinn Magnússon
formlegt samstarf með öðrum
útgerðum með aukið öryggi
sjómanna að leiðarljósi.
Vitundarvakning um borð
Ágúst Ómarsson skipstjóri segir
að öryggisátakið um borð í
Málmey hafi yfirleitt mælst vel
fyrir hjá áhafnarmeðlimum
enda skynji þeir vel gildi þess.
Að sögn Ágústs var stofnuð
öryggisnefnd um borð sem
heldur utan um verkefnið.
Hann segir að áhöfnin hafi verið
hvött til að skrá öll atvik þar sem
legið hafi við óhappi og að
benda á hugsanlegar slysagildrur.
Ágúst telur að umræðan um
verkefnið hafi skapað vitundar-
vakningu um öryggismál um
borð. „Ég held að þetta leiði til
þess að við erum meira á varð-
bergi gagnvart þeim hættum
sem eru í vinnuumhverfinu og
pössum betur hver upp á annan.
Þá stuðlar þetta að því að menn
grípa fyrr til aðgerða og lagfæra
það sem úrskeiðis kann að fara
og mönnum getur stafað hætta
af,“ segir Ágúst. Ágúst leggur
áherslu á nauðsyn stöðugrar
umræðu um öryggismálin til að
menn haldi vöku sinni. „Um
leið og við hættum að tala um
öryggismálin hætta menn að
skrá hjá sér og vekja athygli á
atvikum og aðstæðum sem
okkur getur stafað hætta af.“
Ágúst segist hafa orðið var við
talsverðan áhuga hjá áhöfnum á
öðrum skipum á öryggisátakinu
um borð í Málmey.
Næsta skref í
öryggismálum sjómanna
„Samningurinn milli Slysa-
varnarskóla sjómanna og VÍS er
ánægjulegt framhald af því
samstarfi sem við höfum átt
undanfarið ár um borð í
Málmey,“ segir Hilmar Snorra-
son skólastjóri Slysavarnarskóla
sjómanna. „Sú vitundarvakning
sem við erum að beita okkur
fyrir er nauðsynlegt næsta skref
í öryggismálum sjómanna-
stéttarinnar. Sjómenn þurfa að
leita uppi hættur og slysagildrur
í vinnuumhverfinu og gera sér
grein fyrir þeim áður en þær
gera vart við sig,“ bætir Hilmar
við.
Kalli í Seli
Gaf Hofsstaðakirkju
andvirði hests
Hofsstaðakirkju í
Viðvíkursveit var
afhent peninga-
upphæð fyrr á árinu
þegar gamall
velgjörðarmaður
hennar uppgötvaði
að hann ætti meiri
pening en hann
gerði ráð fyrir inni á
bankareikningi
sínum. Þessi vinur
heitir Sören Karl
Bjarnason þekktur undir
nafninu Kalli í Seli.
Það má eiginlega segja að Kalli hafi
verið einn af þeim fáu sem græddu á
hruninu. Forsagan er sú að Kalli seldi
hryssu til Noregs árið 1993 og fékk
hana greidda í enskum pundum. Hann
setti 150 þúsund krónur á hrossið en sá
norski gat einungis borgað 120 þúsund
því annars ætti hann ekki fyrir farinu
heim en Kalli er viss um að restin hafi
skilað sér síðar þó hann muni það ekki
alveg í dag. Peningarnir voru settir inn á
gjaldeyrisreikning og ávöxtuðust þar. Í
vetur þegar yfirlit kom frá bankanum
áttaði Kalli sig á því að upphæðin hafði
margfaldast með vöxtum, verðbótum
og ekki síst vegna hruns íslensku
krónunnar og var hún komin upp í rúm
600 þúsund krónur. Kalli ákvað að gefa
kirkjunni sinni peninginn enda þykir
honum afar vænt um hana en hann sá
um að slá garðinn í kringum hana til
margra ára og hélt honum snyrtilegum.
Kalli var vinnumaður víða í Skagafirði þó
lengst af í Hofsstaðaseli og við þann bæ
kenndur æ síðan. Kalli ávann sér
vinsælda og virðingar hvar sem hann
kom og voru hestar honum einkar kærir
og átti hann margan gæðinginn og
aðspurður segir Kalli að hans besti
gæðingur hafi verið grár og bar nafnið
Gráni. Kalli sem er nú að verða 94 ára
dvelur á Heilbrigðisstofnunni á
Sauðárkróki og segir hann heilsuna
ágæta fyrir utan svima sem ergi hann
stundum.
Ljóð sem Sigurður Hansen orti í tilefni af
80 ára afmæli Kalla lýsir honum einkar
vel og var það flutt honum til heiðurs í
afmælishófi á Hofstöðum á afmælis-
daginn hans 31. ágúst 1996. Eiríkur
Jónsson frá Dýrfinnustöðum samdi lag
við ljóðið og var það sungið fyrir Kalla.
Til KALLA
Ég sé Kalla ríða á réttarleið
með reyrða tösku er hallar ögn til hliðar.
Og ég veit að innst í huga hans
himinborinn réttarsöngur niðar.
Hann hittir marga menn á sömu leið
og milli þeirra gengur vasapelinn
og tóbakspontan enn fer annan hring
þó ólmur krafsi Gráni og bryðji mélin.
Ég sé Kalla kalla Grána heim
og hvernig hræring best
með tveimur vinum,
þeir tala saman tungumálið sem
tryggðarvinir skilja hvor með hinum.
En þetta er aðeins augnabliksins mynd
sem inn í hugann berst í dagsins róti.
Hann Kalli geymir gull í sálu sér
er sindrar best á góðra vina móti.