Feykir


Feykir - 14.04.2011, Side 6

Feykir - 14.04.2011, Side 6
6 Feykir 15/2011 Þann 1. maí næstkomandi verður frumsýnd í Miðgarði í Varmahlíð, uppfærsla á Óperudraugnum eftir Andrew Lloyd Webber en um samstarfsverkefni Draumaradda norðursins og Óperu Skagafjarðar er að ræða. Ópera Skagafjarðar hefur vakið mikla athygli fyrir dirfsku og dug þar sem hún hefur sett upp í Skagafirði og sýnt La Traviata og Rigoletto, tvær af þekktustu og erfiðustu óperum sögunnar og gert það með miklum sóma. Alexandra setti upp í samstarfi við aðra tvær stuttar óperur haustið 2009 sem voru síðan tilnefndar til áhorfendaverðlauna Grímunnar. Draumaraddir norðursins hafa verið starfræktar í tvö ár og hafa þegar vakið athygli fyrir sönggæði, skemmtilegt lagaval og almennan metnað í verki. Alexandra Chernyshova hefur verið aðaldriffjöðrin í Óperu Skagafjarðar og Draumaradda norðursins og hefur tekist að innleiða nýjar víddir í tónlistarflóru á Norðurlandi vestra. Leikkonan Guðrún Ásmundsdóttir hefur verið Alexöndru innanhandar með leikstjórn og uppsetningum óperanna og verður hún einnig leikstjóri í Óperudraugnum. Blaðamaður hitti þær stöllur fyrir stuttu og spurði þær út í verkið, samstarfið og framtíðina. Sagan um óperudrauginn gerist í Parísaróperunni um síðustu aldamót og varð til þegar höfundur heyrði sögur um ógnvænlegan draug þar á bæ og dauðsföll sem tilvist hans voru tengd. Þá varð til sagan um Óperudrauginn með andlitsgrímuna, valdabaráttu hans og forráðamanna óperuhússins og samband hans við unga og glæsilega söngkonu, sem lengi vel naut ekki hylli sem skyldi. Óperudraugurinn er skemmtileg saga um ástir, harm, spennu og glens í einhverju glæsilegasta óperuhúsi veraldar. -Við erum ákveðnar í því að koma upp góðri sýningu á Phantom of the Opera vegna þess að við erum með svo gott fólk með okkur sem Alexandra hefur þjálfað upp, í langan tíma, og hefur verið með okkur í fyrri sýningum, bæði aðalsöngvara og Draumaraddirnar, segir Guðrún. –Og svo fengum við þessa hugmynd því það er ekkert glæsilegt að setja upp Phantom of the Opera fyrir svo lítið fjármagn sem raun ber vitni, en Alexöndru finnst allt vera hægt og smitar okkur hin, heldur Guðrún áfram en leikgerðin er örlítið frábrugðin þeirri sem stóru óperuhúsin eru fær um að gera. -Alexandra bað mig að koma og hjálpa til, en ég segi hjálpa til, því ég lít svo á að við séum báðar leikstjórar. Ég sagði við hana, ertu vitlaus, Phantom of the Opera? Heil kristalsljósakróna sem fellur úr loftinu meðal annars, og það eru ótrúlegustu leiktjöld sem hægt er að hugsa sér. Jú, jú, við getum þetta segir Alexandra við mig og þá fengum við þá hugmynd að óperan myndi gerast upp á háalofti á Coven garden þar sem fyrir 200 árum var leikin óperan Hannibal og það eru litlar stelpur sem að klifra upp á háaloft og koma inn á þennan ógeðslega stað, því það er 200 ára gamalt ryk út um allt á loftinu. Og á miðju sviðinu er hrúga þar sem ljósakrónan liggur mölbrotin, þar sem hún brotnaði fyrir 200 árum síðan. Þar er kona að grúska í þessu gamla dóti og svo birtast auðvitað draugarnir og þarna er leikin Phantom of the Opera. Þarna verður sögð þessi 200 ára gamla saga á háaloftinu og auðvitað byrjar þessi gamla ljósakróna að skína yfir allan salinn, segir Guðrún og andlitið verður dularfullt þegar hún hugsar um. –Við erum búin að fá glæsilega leikkonu í lið með okkur, hana Margréti Ákadóttur, en hún verður konan sem er að þvælast þarna og leitar að hlutum og segir söguna litlu Draumaröddunum, sem komnar eru skjálfandi upp á háaloft á Coven garden, og svo lifnar allt. Þannig hugsum við þetta segir Guðrún og ekki er annað hægt en að ferðast með henni í huganum upp á háaloftið og hrífast með. Alexandra segir að vegna þess að þær duttu niður á þessa lausn sé hægt að segja söguna eins og hún er. –Þetta er okkar saga af óperudraugnum en allir söngvarnir eru til staðar eins og í venjulegri uppfærslu. En þessi saga gerist bara 200 árum síðar og allir draugarnir lifna við. Við erum náttúrulega ekki með eins viðamikla leikmuni eða leiktjöld og gerist í óperuhúsum í London eða annarsstaðar þar sem nægt fjármagn er til. Það yrði bara kjánalegt að reyna það, segir Alexandra og Guðrún tekur undir það og segir að svona sé þetta mögulegt. Unnið hefur verið hörðum höndum undanfarnar vikur að því að æfa fyrir verkið og frumsýnt verður 1. maí í upphafi Sæluviku Skagfirðinga, upp á háalofti á Coven garden. Alls verða um sextíu manns sem koma að uppfærslunni þ.á.m. átta einsöngvarar þau Michael J. Clarke, Alexandra Chernyshova, Ívar Helgason, Dagrún Ísabella Leifsdóttir, Snorri Snorrason, Gunnar Björn Jónsson, Sonja Hafsteinsdóttir og Inga Margrét Jónsdóttir. Þá verða kórar Draumaradda norðursins og Óperu Skagafjarðar fjölmennir, fjórir hljóðfæraleikarar – Risto Laur sem leikur á hljómborð, Kaldo Kiis á básúnuna, Rodrigo Lopez á trommur og Matti Saarinen á gítar. Meðleikarar Margrétar Ákadóttur eru Helgi Thorarensen og Kristín Lundberg. Þátttakendur koma víða að þó flestir séu þeir á Norðurlandi vestra og Eyjafirði, það er því heljarinnar verkefni að halda þessu öllu saman og gera það vel um leið. -Við erum með litla hljómsveit sem ég kalla kammersveit, mikla snillinga. Risto og Kaldo eru frá Eistlandi en hafa dvalið hér á Íslandi. Kaldo er tónlistarskólastjóri á Dalvík og svo er Rodrigo frá Brasilíu og Matti Saarinen frá Finnlandi, svo við erum með alþjóðlega hljómsveit, segir Alexandra brosandi. -Þessir fjórir hljóma eins og stórsveit en það verður nokkurskonar popp-rokk fílingur í undirspilinu þó söngurinn verði klassískur. Þetta verður mjög spennandi blanda, segir Alexandra og Guðrún bætir við að þetta verði alveg æði. Að setja upp óperu í Skagafirði er mikið þrekvirki, viðamikil vinna og flókin og kostar mikið fé. Alexandra segir að óperuverkefnin hafi verið fjármögnuð með styrkjum og miðasölu, og styrkur hafi fengist frá Menningarráði NV að upphæð kr. 1200 þúsund en aðrir styrkir hafi ekki fengist og verður því að duga. Draugar lifna við á sviðinu í Miðgarði Ópera Skagafjarðar Alexandra og Michael í miklum söngham. Þær eru góðar vinkonur , Guðrún og Alexandra. Snorri, Dagrún Ísabella, Inga Margrét, Ópera Skagafjarðar og Draumaraddirnar.

x

Feykir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.