Feykir


Feykir - 28.07.2011, Blaðsíða 9

Feykir - 28.07.2011, Blaðsíða 9
 28/2011 Feykir 9 Árleg ferð söngfugla á Eyvindarstaðaheiði Árlega fer hópur fólks sem hefur gaman af því að ferðast til fjalla upp á Eyvindarstaðarheiði, gista í Ströngukvíslarskála, syngja, borða, syngja, spjalla og syngja og ... syngja meira. Farið er upp um hádegi á laugardegi og komið niður sólarhring síðar með lungun full af fjallalofti og sönginn ómandi í höfðinu. Hópurinn er kallaður Lífsblómið og að sjálfsögðu er það vökvað í leiðinni enda ekki gott ef lífsblómið skrælnar. Lífsblómið hefur verið til í 24 ár og voru stofnendur þess, Guðmann Tóbíasson og Massí kona hans, Hafsteinn og Soffía í Vallholti, Kristján Jósepsson og Anna Kristjáns og tvíburarnir Kolli og Leifur Konráðssynir ásamt konum sínum Lindu og Önnu Maríu. Það hefur verið ákveðinn kjarni sem heldur hópnum saman en ýmsir góðir söngfjallamenn fá leyfi til þess að bætast í hópinn og þannig var það laugardaginn 16. júlí s.l. en þá fór tuttugu manna hópur í ferðina. Flestir fengu far með kálfinum hjá Einari Val enda algjör óþarfi að flytja Lífsblómið á mörgum bílum. Komið var við í Galtarárskála þar sem Gísli Árna og Gurra Ingólfs eru skálaverðir en þau sjá einnig um skálana við Ströngukvísl og Buga. Þar fá menn sér kaffi og meðlæti, syngja og tralla áður en haldið er lengra, en reynt er að komast á áfangastað fyrir klukkan fjögur en þá hefst lestur og söngur upp úr Skólaljóðunum undir styrkri stjórn Guðmanns sem hefur haft það hlutverk frá upphafi. Er þeim kafla lýkur segja þeir Hafsteinn og Leifur að tekið sé til við að syngja meira og oft hafi harmonikkuleikarar verið með í för og áður fyrr var einn slíkur skálavörður starfandi á Eyvindarstaðarheiði sem spilaði mikið en er nú fallinn frá. Það var hann Sigfús Guðmundsson. Í þetta sinnið hljómaði harmonikkan ekki, heldur annað hljóðfæri þar sem Arnar Halldórsson var vopnaður gítar og lék undir. Hljómaði söngurinn óvenju mikið og lengi að þessu sinni án þess að nokkrar skýringar séu til hvers vegna og fengu fuglar heiðanna að vakna við mannasöng undir morgun. Stemningunni er kannski best lýst með kveðskap Þorleifs Konráðssonar í tilefni 20 ára afmælis Lífsblómsins. Sumarkvöld í sólaryl syngjum einum rómi í heiðarsalnum háa til heiðurs voru blómi. Til að kveikja söng í sál sæmir vinum öllum að lyfta saman landaskál Lífsblómsins á fjöllum. Óður blómsins berast má blítt í himintómið. Það mun enginn þreytast á því að vökva blómið. Skálarnir á Eyvindarstaðarheiði eru vinsælir til hinna ýmsu athafna en hægt er að fá þá leigða í heilu lagi undir veislur og mannfagnaði sem og til næturgistingar fyrir einstaklinga og er það mikil upplifun fyrir þá sem heiðarnar gista. Til upplýsinga fyrir fólk skal það upplýst að sími skálavarða er 8954408 og formanns upprekstrarfélags Eyvindarstaðarheiðar sem er rekstraraðili skálanna 8988156. Lífsblómið vökvað MYNDIR HJALTI ÁRNA

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.