Feykir - 21.02.2013, Page 7
07/2013 Feykir 7
og endalausum uppákomum,“
segir hún glöð í bragði.
Öðruvísi að vera
kona hermanns
Guðmunda segir það að
vera kona hermanns ólíkt
því að eiga maka sem
vinnur þessa venjulegu 8-5
vinnu. „Helst get ég líkt
því við sjómannskonuna.
Vinnutíminn hjá Nathan
er óútreiknanlegur og oft
er hann í burtu frá okkur,
stundum í nokkra daga en
stundum í vikur og jafnvel
mánuði,“ segir hún. Nathan
er stjórnmálafræðingur að
mennt og hefur unnið ýmis
störf innan hersins. Eins og er
vinnur hann við uppsetningu
öruggs fjarskiptanets og segir
Guðmunda þessi verkefni
oft vera tímafrek og krefjast
þess að Nathan sé staðsettur
fjarri fjölskyldu sinni. Hjónin
hafa fremur kosið að búa í
grennd við þær herstöðvar
sem Nathan starfar á hverju
sinni en aldrei búið á sjálfum
herstöðvunum, eins og
margar fjölskyldur hermanna
gera. „Það er viss menning
innan herstöðvanna og oft
mjög samheldið samfélag.
Ástæða þess að við höfum
ekki valið að búa á herstöð
er aðallega sú að við höfum
viljað kynnast því samfélagi
sem við erum í hverju sinni,“
segir Guðmunda. Auk þess
segist hún ekki vera viss um
hvaða hugmynd börn sem
búa á herstöð hafa af almennu
samfélagi. „Á herstöðvum er
fólki skipt upp í hverfi eftir því
hvaða stöðu það hefur innan
hersins, óbreyttir og offiserar,
hátt settir og lágt settir,“
útskýrir hún.
Kristna trú segir
Guðmunda vera stóran hluta
af þeirra lífi og kirkjan vera
þeirra samfélag hvar sem
þau búa. Hún talar um að
það sé athyglisvert að skoða
hugmyndafræðina á bak við
bandarískt stjórnkerfi og
að skoða það út frá trúarlífi
fólks. „Í upphafi þegar
Evrópubúar voru að sigla yfir
Atlandshafið voru mikil átök
innan kirkjunnar og því var
það fólki mikilvægt að kirkjan
yrði aldrei hluti af ríkinu og að
trú væri frjáls. Kirkjan hér er
rekin af frjálsum framlögum
þeirra sem hana sækja og því
er kirkjan og hennar afkoma
í höndum safnaðarins. Ég hef
oft velt því fyrir mér hvernig
slík kirkja liti út á Íslandi,“
segir Guðmunda og heldur
áfram: „Eitt af því sem ég kann
að meta hér er eitthvað sem ég
kalla trúarleg forvitni og opin
umræða um okkar trúarlíf.
Hvaðan við komum og hvar
við endum, hvert hlutverk
okkar er eða hvort lífið sé
jafnvel alger tilviljun. Auðvitað
er þetta spurning um að skapa
sitt umhverfi en það virðist
að mörgu leyti menningin
hér að nálgast hlutina
með gagnrýnni hugsun.
Kannski er það afrakstur
stjórnmálaumhverfisins hér,
annaðhvort ertu hægri eða
vinstri og erfitt að nálgast í
miðjunni,“ segir hún.
Kennir börnunum
allt um íslenska
menningu
Eitt af því sem Guðmunda
segir ólíkt í Bandaríkjunum
frá því sem tíðkast á Íslandi
er að annað foreldrið, oftast
móðirin, er heimavinnandi
eða í hlutastarfi á meðan
börnin eru lítil. „Ég var ekki
alveg seld á þessa menningu
fyrst, en þegar að því kom að
finna daggæslu fyrir dóttur
mína gat ég ekki hugsað
mér að vera frá henni allan
daginn,“ útskýrir Guðmunda
sem hefur gert barneignir og
barnauppeldi að fullu starfi.
„Ég hef verið heimavinnandi
frá því Ísold Anna fæddist og
nýt þess að geta verið með
börnunum mínum á meðan
þau eru lítil,“ segir hún af
einlægni. Guðmunda kennir
börnum sínum heima og segir
það skipta hana miklu máli að
miðla til barna sinna öllu sem
tengist íslenskri menningu.
„Ég er mikill Íslendingur í
mér og reyni eftir bestu getu
að viðhalda minni menningu
hér á heimilinu. Við höfum
alltaf stefnt að því að flytja
aftur heim og því mikilvægt
að krakkarnir séu vel að sér
í íslensku, bæði vel talandi
og líka að þau lesi íslenskar
bókmenntir, þekki söguna og
annað sem kemur að íslenskri
menningu. Til þess að geta
viðhaldið þessari þekkingu
hef ég tekið það í mínar
hendur að kenna krökkunum
heima,“ segir hún.
Guðmunda segist hafa
sankað að sér ýmsum upp-
lýsingum um tvítyngi og
aðferðir við slíka kennslu.
„Heimakennsla er nokkuð
algeng í Bandaríkjunum og
því frekar auðvelt að nálgast
bæði efni og ráðgjöf. Eftir að
hafa skoðað ýmsar aðferðir
ákváðum við hjónin að kenna
eftir svokallaðri klassískri
aðferð, sem hentar sérstaklega
vel í tvítyngdri kennslu. Í
klassískri kennslu er lestur
aðalatriðið og allt námsefni
nema vísindagreinar kennt
saman, þannig að við notum
klassískan texta sem tengir
saman sögu, landafræði, mál-
fræði, skrift og lestur,“ útskýrir
hún og tekur sem dæmi þegar
hún var að kenna börnum
sínum um útrás víkinganna á
níundu öld. „Við notum texta
úr Íslendingasögunum, sem
er með nútíma stafsetningu,
setjum textann í sögulegt
samhengi, merkjum inn á
landakort, skoðum hugtök í
alfræðiorðabókum og sögu-
bókum fyrir börn. Við notum
svo þennan sama texta til
að fara yfir málfræði og
stafsetningu og lesum svo
bækur tengdar sama efni.
Þessi aðferð finnst mér mjög
aðlaðandi og krakkarnir geta
virkilega kafað ofan í söguna.
Það er eitthvað svo spennandi
við allt sem er í söguformi,“
segir hún. Í kennslustundum
skiptast þau á að lesa íslenskar
og enskar bækur en einnig
notast þau heilmikið við inter-
netið.
„Stóran hluta dagsins eru
krakkarnir að læra sjálf en
hluta dags sit ég með þeim. Ég
hefði aldrei trúað hvað ég nýt
þess að hafa þennan tíma með
börnunum mínum, að læra
saman og stúdera ótrúlegustu
hluti en lesturinn er það
sem ég nýt mest,“ segir hún.
„Stærðfræði og önnur vísindi
eru ekki mín sterkasta grein
en við höfum staðið okkur
nokkuð vel og ég held að ég sé
að læra margt upp á nýtt. Það
má segja að heimakennslan
felist fyrst og fremst í því að
læra með krökkunum og vera
tilbúin að leyfa þeim að kenna
þér, þá fyrst vilja þau læra. Nám
á að vera hluti af lífinu og mér
finnst afskaplega mikilvægt að
börn upplifi nám á jákvæðan
hátt fyrstu árin í skólanum
þannig að þau sækist eftir því
að læra, að þau kunni að afla
sér upplýsinga og að þau kunni
að nota þá þekkingu sem þau
hafa.“
Sakna þess að geta
droppað við í mat
til mömmu
Guðmunda segir Nathan oft
á tíðum vera fastheldnari á
íslensku siðina en hún og að
þau hlæja stundum að því að
hann sé oft meira þjáður af
heimþrá til Íslands heldur en
hún.
„Við höfum reynt að koma
heim annað hvert ár og vera
þá á Króknum í einhverjar
vikur. Þessi tími er algerlega
ómetanlegur, það jafnast
ekkert á við það að vera
heima. Það er oft sem ég rölti
um bæinn og velti því fyrir
mér hvort Íslendingar, svo ég
tala ekki um fólk sem býr úti á
landi, geri sér grein fyrir hvað
það er dýrmætt að geta leyft
börnunum sínum að hjóla í
skólann eða vera úti í leikjum
fram á kvöld án þess að þurfa
að hafa áhyggjur af þeim.
Þannig ólst ég upp og þekkti
ekkert annað fyrr en við áttum
okkar börn hér,“ segir hún og
heldur áfram: „Það er gott að
hafa gests auga þar sem maður
býr og mikilvægt að draga
fram það jákvæða í hverju
samfélagi fyrir sig og njóta
þess. Það er sama hvar við
höfum búið, á paradísareyju
við kyrrahafið eða í suður
Texas, það er alltaf einhvers að
sakna. Fyrst og fremst góðra
vina, en einskis sakna ég eins
mikið og öryggisins sem felst
í því að vera í umhverfi sem
maður þekkir og þekkir mann
sjálfan. Að getað droppað við í
mat hjá mömmu eða skellt sér
í sund með æskuvinkonunni,
að leyfa krökkunum að
skreppa á bryggjuna með afa
á góðu sumarkvöldi. Ísland
er alltaf mitt heimili og þó
svo að ég hafi eitt fyrstu 15
æskuárunum vestur á fjörðum
þá er Skagafjörðurinn ein-
hvern veginn alltaf mitt
heimili,“ segir Guðmunda í
lokin.
Allir saman á Vespunni. Hjónin Guðmunda og Nathan skála á góðri stundu á Hawaii. Guðmunda ásamt tengdamóður sinni og dóttur á Króknum síðasta sumar.