Feykir - 21.02.2013, Page 9
07/2013 Feykir 9
Heilir og sælir lesendur góðir.
Friðbjörn Björnsson sem kenndur var
við Staðartungu í Hörgárdal var kunnur
hagyrðingur á fyrri hluta síðustu aldar. Eftir
hann er þessi ágæta vetrarvísa.
Litlu hrósi safnar sér
svakafenginn vetur.
Þó að rós á gluggagler
grafi enginn betur.
Til að gera nú ekki upp á milli árstíðanna
sem kannski eiga að vera með sterkustu
pólana, kemur hér falleg hringhenda, eftir
Friðbjörn.
Upp um hlíðar, út við sjá
ómar líða af kæti.
Blómin víða vekja þá
vorsins blíðulæti.
Það er Ágúst Guðbrandsson sem skrifar svo
fallega í gestabók heimilisins eftir að hafa
þegið góðar veitingar.
Gott er að vera í glöðum klið
og gleyma heimsins rosta.
Hér hefur margur fengið frið
fyrir hungri og þorsta.
Draumavísa kemur hér næst eftir Ágúst.
Skipum lagt, og festum fest
framar lífs á vegi.
Núna finnst mér bjarma best
birta af nýjum degi.
Á ferðalagi hér í Húnaþingi yrkir Ágúst.
Held ég yfir Blöndu-brú
blasa við mér skörðin.
En aðra leið ég ætla nú
inn í Skagafjörðinn.
Það mun hafa verið Kristján Stefánsson
frá Gilhaga sem orti einhverju sinni í
febrúarlokin svo.
Hefðin mótar mannskapinn
margra rótar geði.
Fer að þrjóta í þetta sinn
þorrablótagleði.
Kristján veltir fyrir sér hvað taki svo við.
Og verða þær hugleiðingar tilefni annarar
hringhendu.
Árið líður. Eftir tvo
enn er hríðardagur.
Eitthvað síðar upphefst svo
árshátíða slagur.
Enn um sinn mun trúlega þessi vísa Einars
Sigtryggssonar á Sauðárkróki verða í fullu
gildi.
Þroskahefta þjóðfélag
þarf að virkja hverja sál.
Eiturneysla er í dag
okkar stærsta vandamál.
Vísnaþáttur 588
Er deilt var um hvort byggja ætti upp
stóriðju í Skagafirði orti Einar.
Á Skollanesi í Skagafirði
Skagfirðingar heimta ál.
Landið er þeim lítils virði
lákúra í þjóðarsál.
Þrátt fyrir að undirritaður sé aðeins farinn
að renna augum til vorsins, sem kannski
helfrystir blómin í maí, er rétt að halda
sig við þann tíma enn um stund sem
eðlilegt er að þau féllu frá. Held að það hafi
verið Einar B. Björnsson bóndi í Eyjum í
Breiðdal sem orti þessa.
Heiðló þagnar, hrímar jörð
haustið brýst til valda.
Vænta má að veðrin hörð
vilji rétti halda.
Baldvin Jónsson, sem kallaður var skáldi,
er trúlega kominn lengra fram á veturinn
er hann yrkir þessa.
Fölnar smái fífillinn
fegurð sá er rúinn.
Öll eru stráin stálfreðin
stakki gráum búin.
Minnir að Indriði Þorkelsson bóndi á
Ytrafjalli hafi ort þessa staðreynd.
Sé til lengdar barnlaus bær
breyskjast hjartarætur,
þungt, ef vantar þann, sem hlær,
þyngra hinn, er grætur.
Enn dynur á okkur umræða um erfiðleika
og ógreidda reikninga margra landsins
barna. Það mun vera Böðvar Guðlaugsson
sem gerir slíkum hugrenningum svo góð
skil í næstu limru.
Armæddur ber ég augum
ógreidda reikninga í haugum
og spurningin er
hvenær yfrum ég fer
bæði á tékkhefti og taugum.
Minnir að sá snjalli Böðvar hafi hughreyst
sjálfan sig með annarri limru.
Þó ástand sé ótryggt og valt
engu þú kvíða skalt.
Með gengisfellingu
og góðri kellingu
bjargast yfirleitt allt.
Þá kemur aftur, góðu vinir, í hugann þessi
freisting að fara að hugsa til vorsins. Gerum
það með þessari fallegu hringhendu Ágústs
Guðbrandssonar.
Léttist gangan, lifnar þor
liðkast vangi kalinn.
Eftir langan vetur, vor
vefur í fangi dalinn.
Verið þar með
sæl að sinni.
/ Guðmundur
Valtýsson
Eiríksstöðum,
541 Blönduósi
Sími 452 7154
( GUÐMUNDUR VALTÝSSON )
Sigríður Tryggvadóttir skrifar frá Hvammstanga
Þorrablótin
Mig langar til að skrifa um
þær samkomur sem nú eru
haldnar víða um land og
kallaðar eru þorrablót.
Hér í Húnaþingi vestra eru
haldin nokkur þorrablót,
bæði á vegum hinna ýmsu
félagasamtaka og síðan hafa
hinir fornu sveitahreppar
haldið þeim sið að vera með
sín eigin þorrablót. Það eru
þau sem ég vil fjalla um hér.
Mismunandi reglur eru
um það hvernig skipað
er í þorrablótsnefnd hvert
ár. Í mínum gamla hrepp
er sú regla viðhöfð að
þorrablótsnefndina skipa
aðilar (íbúar) eftir fyrirfram
ákveðinni bæjarröð. (Gamalli
boðleið). Að því sem ég best
veit var fyrsta þorrablótið
haldið í Víðihlíð 195?.
Fyrst var það þannig að
nefndin varð að gera allt, s.s.
ákveða dagsetningar, auglýsa
atburðinn, ráða hljómsveit,
undirbúa samkomuhúsið,
elda matinn, framreiða hann
og þrífa á eftir, þ.e.a.s. sjá
um alla framkvæmd. Allt
þetta var mikil vinna sem
krafðist óeigingjarns framlags
íbúanna. Margt af þessu er
enn óbreytt en þó má nefna
að í dag er því þannig farið að
maturinn kemur tilbúinn frá
viðurkenndum veitingasölum.
Eitt er það sem allir bíða
eftir og hefur haldist
óbreytt frá upphafi. Það er
skemmtidagskráin. Hún
er það sem allir bíða eftir
og aldrei bregst. Sú venja
er að allir í nefndinni taka
þátt þó þeim kæmi ekki til
hugar að stíga í pontu eða
á svið á öðrum tímum eða á
öðrum samkomum. Enginn
skorast undan á þorrablóti,
hvorki við að semja og flytja
efni. Oft koma í ljós ýmsir
ÁSKORENDAPENNINN
UMSJ berglindth@feykir.is
duldir hæfileikar, algjörlega
laglaust fólk fer t.a.m. að
syngja og ólíklegustu persónur
reynast hinir bestu leikarar
og eftirhermur. Allir fá einhver
skot, góðlátlegt grín er gert af
fólki og atburðum liðins árs.
Stundum dettur manni meira
segja í hug að þeir sem ekkert
er minnst á fari svolítið sárir
heim og hugsi „var ég svona
H...... litlaus að enginn man
eftir mér (ég verð að bæta
mig í því)“.
Ljóst er að þorrablótsdagarnir
eru ómissandi partur af
vetrardagsskránni. Fólk bíður
eftir þorrablótinu og fer oftar
en ekki á fleiri en eitt hvert
ár. Þá klæðir það sig upp
í sitt fínasta púss, borðar
þorramat, hlustar og horfir
á skemmtiatriði og dansar
gömlu dansana. Ég myndi
því telja þessar samkomur
menningarviðburð hverrar
sveitar sem mikill missir væri
af ef af legðust.
- - - - -
Ég skora á Gudrun Kloes
atvinnuráðgjafa hjá SSNV að
skrifa næsta pistil.
Fimm milljón króna
styrkur til endurbygg-
ingar Riishúss
Borðeyri
Fimm milljónir króna af söluverði fasteignar-
innar Brekkubæjar á Borðeyri munu renna sem
fjárstyrkur til Félags áhugamanna um endur-
byggingu Riishúss á Borðeyri. Sveitastjórn
Húnaþings vestra samþykkti þetta á fundi
sínum sl. föstudag.
Í fundargerð
segir að þess er
vænst að með
fjárframlagi þessu
megi takast að
ljúka endurbótum
á neðri hæð húss-
ins. Samþykkt
þessi er gerð með fyrirvara um að sala fasteignar-
innar Brekkubæjar gangi eftir.
Riishús er eitt elsta húsið við Húnaflóa og var
byggt árið 1862 í kjölfar þess að fyrsti verslunar-
stjórinn kom til Borðeyrar. Samkvæmt heimildum
Vísindavefsins var Riishúsið upphaflega kallað
Faktorshús upp á dönsku því þar bjó verslunarstjóri
Borðeyrar á hverjum tíma en faktor þýðir verslunar-
stjóri. Um 1880 komst verslun á Borðeyri í hendur
Hans A. Clausen en árið 1890 keypti Richard Peter
Riis verslunina. Síðan hefur húsið verið kennt við
hann. /BÞ
Riishús á Borðeyri. Mynd: Vestfirdir.is