Feykir


Feykir - 20.04.2016, Page 7

Feykir - 20.04.2016, Page 7
15/2016 7 Gísli Einarsson, frétta- og dagskrárgerðarmaður á RÚV Afmæliskveðja til Feykis Úr Feyki 1990. Mín fyrstu viðvik fyrir fjölmiðla vann ég fyrir hið ágæta blað Feyki. Það var fyrir um aldarfjórðungi. Þá bjó ég í tæpt ár á Hvammstanga og að beiðni vinar míns, þáverandi ritstjóra Feykis, Þórhalls Ásmundssonar þá skrifaði ég fáeinar fréttir í blaðið úr Húnaþingi vestra. Árinu áður hafði í fyrsta sinn birst mynd af mér í fjölmiðli, svo mér hafi verið kunnugt um. Það var meira að segja á forsíðu! Á forsíðu Feykis að sjálfsögðu. Þetta var mynd sem fyrrnefndur Þórhallur hafði náð af mér í æfingaferð knattspyrnuliðs Neista í Færeyjum. Þetta var ekki mynd af afrekum mínum á íþróttavellinum heldur sýndi hún mig sofandi með danskt Andrésblað í fanginu. Svona er maður sjálfhverfur að þegar maður ætlar að rita afmæliskveðju til einhvers þá er það fyrsta sem manni dettur í hug maður sjálfur. Ég held reyndar að öll séum við sjálfhverf á einhvern hátt þótt margir fari betur með það en ég geri hér. Við höfum mestan áhuga á því sem snertir okkur sjálf og okkar nærumhverfi. Það er einmitt þess vegna sem við þörfnumst, og kunnum að meta okkar héraðs- fréttablöð, á borð við Feyki. Og það er náttúrulega af sömu ástæðu sem nánast allir eru komnir með sinn eigin fjölmiðil í formi svokallaðra samfélagsmiðla. Flest okkar fylgjast að sjálfsögðu með því sem er að gerast í heiminum. Sérstaklega stórum viðburðum sem varða velferð mannskyns. Líka ýmsu skrítnu og skemmtilegu, já og líka miður skemmtilegu, sem er að gerast þarna langt, langt í burtu. Við fylgjumst samt betur með því sem er að gerast á Íslandi og þar er ýmislegt að gerast þessa dagana og þess vegna höfum við kannski sjaldan fylgst eins vel með fréttum á landsvísu. Mesta athygli veitum við þó fréttum af okkar nærumhverfi – úr okkar heima- héraði – af okkar fólki. Það er líka mjög eðlilegt og þannig á það að sjálfsögðu að vera. Sama hversu miklir heimsborgarar menn eru, vilja vera, eða þykjast vera, þá kemur manns eigin hundaþúfa alltaf fyrst. Það er líka margsannað mál að það sigrar enginn heiminn nema að vera í sátt við sitt nærumhverfi. Héraðsmiðlar, með héraðsfréttablöð- in í broddi fylkingar, eiga þannig stóran þátt í að móta sjálfsmynd íbúanna á sínu útbreiðslusvæði. Það sem við lesum um okkur sjálf, heyrum – eða horfum á, það hefur áhrif á það hvaða augum við lítum okkur sjálf og okkar heimasveit. Héraðsmiðlarnir eiga líka stóran þátt í að móta ímynd viðkomandi svæðis útávið. Það eru nefnilega ekki bara Skagfirðingar og Húnvetningar sem lesa Feyki, svo dæmi sé tekið. Það er fólk um land allt, vítt og breitt um heiminn þess vegna, sem hefur áhuga á því sem er að gerast í þessum landshluta. Það hefur líka fjölmiðlafólk á öðrum miðlum. Sérstaklega á fjölmiðlum sem kalla má landsdekkandi. Fréttir og umfjallanir í héraðsfréttablöðum eru endalaus upp- spretta frétta- og dagskrárefnis fyrir miðla sem eru með útbreiðslu um allt land. Margfeldisáhrif lítillar fréttar í héraðsfréttablaði geta því verið umtals- verð. Hlutverk héraðsfréttablaða er ekki lítið og sömuleiðis ábyrgð þeirra sem á þeim starfa. Pressan er líka umtalsverð og krafan um að skrifa „jákvæðar fréttir“ er ávallt til staðar. Í mínum huga er hinsvegar óeðlilegt að skipta fréttum upp í „jákvæðar“ og „neikvæðar“ fréttir eins og mörgum er tamt. Það sem er neikvætt fyrir einn getur verið jákvætt fyrir annan. Ef við horfum á hlutina útfrá samfélaginu þá getur það verið mjög jákvætt fyrir samfélagið að benda á neikvæða hluti. Að benda á eitthvað sem er að því þá eru kannski líkur á að það verði lagað. Sem er jákvætt! Ég er ekki í vafa um gildi héraðs- miðlanna og nauðsyn þess að þeir standi áfram sína vakt. Mér þykir líka vænna um héraðsfréttablöðin en flesta aðra fjölmiðla. Og Feykir er að sjálfsögðu í sérstöku uppáhaldi frá því hann var mitt héraðsfréttablað sem íbúa á Norður- landi vestra. Og svo ég ljúki þessu á sömu sjálf- hverfu nótunum og ég byrjaði, þá spillir heldur ekki fyrir að litla systir mín, sem ég er býsna stoltur af, er hluti af hinu vaska Feykisliði. Ég óska Feyki innilega til hamingju með afmælið. Gísli Einarsson, frétta- og dagskrárgerðarmaður á RÚV ÁLFTAGERÐISBRÆÐUR ÁSAMT GÓÐUM GESTUM Í MIÐGARÐI 28. MAÍ NK. KL. 20:30 Í MIÐGARÐI Það verður enginn svikinn af stórglæsilegum tónleikum hinna söngelsku Álftagerðisbræðra, en þeir koma fram í Miðgarði ásamt fríðu föruneyti þann 28. maí nk. Spé- og söngfuglinn Örn Árnason mun verða þeim til fulltingis ásamt hljómsveit. Miðasala hefst föstudaginn 22. apríl í Blóma- og gjafavörubúðinni Sauðárkróki og í KS Varmahlíð. Verð 4.500,- ATH! Eingöngu tekið við peningum sem greiðslumiðli Gísli við tökur á Burður í beinni í fyrravor. MYND: KSE

x

Feykir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.