Feykir


Feykir - 20.04.2016, Page 13

Feykir - 20.04.2016, Page 13
15/2016 13 Guðmundur Valtýsson á Eiríksstöðum í Svartárdal sér um vísnaþátt Feykis Á sjöunda hundrað vísnaþættir á 29 árum Það er sjaldgæft í seinni tíð að Feyki berist handskrifuð bréf, en þó gerist það hálfsmánaðarlega að ritstjórnarskrifstofunni berast nokkrar arkir með rithönd þess manns sem lengst allra hefur verið fastur penni við blaðið. Þar er á ferðinni vísnaþáttur Guðmundar Valtýssonar á Eiríksstöðum í Svartárdal, sem hóf göngu sína í blaðinu 1. apríl 1987. Sé miðað við að þátturinn hafi hverju sinni verið hálf síða, líkt og hann er í dag, má lauslega áætla að Guðmundur hafi til þessa lagt blaðinu til hátt í 1400 síður í 662 vísnaþáttum. „Þetta kom þannig til að mér var boðið á árshátíð hestamannafélagsins Stíganda í mars 1987. Þar hitti ég Ara Jóhann, sem þá var nýlega tekinn við ritstjórn blaðsins. Ég fór að tala um þetta við hann og kvarta yfir því að mér fyndist mjög slappt að geta ekki haldið úti vísnaþætti í blaðinu,“ rifjar Guðmundur upp. Fram að því höfðu þó öðru hvoru birst vísur í blaðinu sem hagyrðingar og vísnaunnendur sendu inn. Skemmst er frá að segja að Ari fól Guðmundi að sýna fram á að slíkt væri gerlegt og birtist fyrsti vísnaþátturinn í hans umsjá í blaðinu 1. apríl 1987. Guðmundur segist hafa safnað vísum og kveðskap frá barnsaldri. „Ég var farinn að tína þetta saman þegar ég var krakki. Það var til dæmis gömul kona hérna á næsta bæ, en ég fór stundum þangað til að hjálpa þar til, sem hafði orðið vör við þetta hjá mér. Hún fór að klippa út og safna saman ef hún sá blöð eða náði í einhverjar vísur og láta mig hafa það,“ segir hann. „Síðan byrjaði ég á því sjálfur, smá saman, að safna svona löguðu að mér.“ Í safni Guðmundar er ógrynni af vísum og segir hann að það sé þó nokkur vinna að halda utan um það allt saman. „Maður er alltaf að safna þessu saman, sumu kemur maður inn í möppur og annað er í umslögum eða í bunkum og stöflum einhvers staðar innan um blöð og bækur. Svo er maður að róta í þessu alltaf annað slagið, þegar tími gefst til, og fá meira í safnið.“ Í seinni tíð segist Guðmundur reyna að merkja við og halda til haga hvað búið sér að birta í Feyki, enda erfiðara að muna það eftir því sem þáttunum fjölgar. Vísurnar reynir hann að velja á þann hátt að þær tengist árstíðum hverju sinni, þó það sé ekki algilt. Fjölmargir hafa samband vegna vísnaþáttarins Vegna vísnaþáttarins er Guðmundur í sambandi við fjölda fólks víðs vegar um landið, sem gjarnan leggur honum til efni í þáttinn eða biður um áskrift að blaðinu. Segir hann að þar sé aðallega um að ræða eldra fólk og efnið sem berst sé bæði gamalt og nýtt. „Um daginn fékk ég lifandis ósköp frá konu austur í Biskupstungum sem sendi mér bréf og helling af vísum, bæði eftir hana sjálfa og aðra,“ nefnir hann sem dæmi. Gjarnan er spurt um höfunda eða auglýst eftir vísum eftir ákveðna höfunda í vísnaþættinum og fær Guðmundur töluverð viðbrögð frá lesendum. Alltaf kemur fyrir öðru hvoru að vísur séu „rangt feðraðar,“ enda ber mönnum ekki alltaf saman um faðernið, og hann segist kunna vel að meta að fólk leiðrétti það sem missagt kann að vera í þættinum. Sjálfur segir Guðmundur erfitt að velja einhvern ákveðinn hagyrðing eða ákveðinn kveðskap sem er í uppáhaldi. Hann nefnir þó Villu-Gústa og Gísla Stefánsson, sem dæmi um þá sem hann hafi hrifist af í gegnum tíðina. Einnig segist hann hafa hvað mestar mætur á hringhendum, enda sé afar vandasamt að setja þær saman. Þegar blaðamaður innir Guðmund eftir því hvort hann yrki ekki sjálfur segir hann að sér finnist ekki við hæfi að nota vísnaþáttinn sem vettvang til að birta kveðskap eftir sjálfan sig, þó hann geri fáeinar undantekningar á því. Blaðamaður fær þó góðfúslegt leyfi til að birta tvær vísur, ortar til vinkonu í Reykjavík, sem á þeim tíma var þula í sjónvarpinu: Ylur hýr um æðar líður allir þrá að sofna rótt þegar konan besta býður börnum jarðar góða nótt. Lífið ætti létt að falla lánið bætti þennan stað ef ég mætti höfði halla hjartaslætti þínum að. Þeir eru orðnir allmargir starfsmenn Feykis sem Guðmundur hefur átt samstarf við gegnum aðkomu sína að blaðinu. „Ég er ákaflega glaður yfir því hvað það hefur gengið allt saman vel. Það er best að vera ekkert að leiða getum að því hvað þessi þáttur endist lengi, en maður er farinn að gæla við komast í 30 ár með þetta, í apríl á næsta ári. Þessi vísnaáhugi fylgir manni og yfirgefur mann líklega ekki fyrr en á hinstu stundu,“ segir hann að lokum. Guðmundur gluggar í gamlan Feyki í afmælissamkundu í Jarlsstofu sl. föstudag. MYND: KSE VIÐTAL Kristín Sigurrós Einarsdóttir

x

Feykir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.