Morgunblaðið - 01.03.2018, Side 9
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. MARS 2018 9VIÐTAL
þurfa ekki að standa straum af.“
Lífeyrissjóðirnir hafa í vaxandi mæli kosið að
veita lán beint í staðinn fyrir að kaupa í útlána-
söfnum bankanna. „Þeir hafa verið kaupendur
að sértryggðum bréfum sem við höfum gefið út
og eru tryggð með íbúðalánum. Nú kaupa þeir
þessi bréf í minna mæli. Allir bankarnir hafa
fundið fyrir því að heildareftirspurn hefur
minnkað á þessum markaði. Fáir nýir kaup-
endur eru að þessum bréfum, m.a. vegna tak-
markana sem stjórnvöld setja á slík viðskipti.“
Lilja bendir á að það geti komið upp áföll sem
hafi áhrif á útlán, eins og dæmin sanna. „Það
hefur þurft að gera leiðréttingar, til dæmis
vegna kvaða í lánasamningum sem dómstólar
hafa síðan snúið við. Við höfum þurft að gera
stórar leiðréttingar, því þó svo að menn reyni að
vanda sig þá geta slík atvik komið upp. Við erum
með kerfi til að halda utan um slíkt og taka á
slíku. Auðvitað hef ég áhyggjur af því að það sé
verið að þrýsta útlánum út fyrir hið eftirlits-
skylda kerfi.“
Lilja telur að annaðhvort eigi að hafa alla und-
ir eftirliti eða setja meiri skyldur á þá sem eru í
þessari starfsemi. „Maður vill keppa á sama
markaði. Ég skil vel að fólk taki lífeyrissjóðslán,
það eru góð kjör á þeim sem er gott mál fyrir
neytendur. En það er eitthvað skakkt við það að
geta ekki veitt sömu kjör á sama markaði vegna
þess að annar aðilinn er með meiri kvaðir á sér.“
En þýðir þetta að eftir sitji áhættumeiri
íbúðalán í bönkunum? „Hjá okkur er náttúrlega
ungt fólk og fólk sem er að feta sín fyrstu skref
inn á húsnæðsmarkaðinn. Við erum með þá sem
þurfa hærri lán en ég er ekki viss um að þau séu
áhættumeiri. Það þarf alls ekki að vera.“
Munar bankaskatti í erlendri samkeppni
Landsbankinn hefur í gegnum tíðina verið öfl-
ugur á fyrirtækjamarkaði en hann hefur eins og
aðrir íslenskir bankar þurft að horfa á eftir
mörgum stórum viðskiptavinum til erlendra
banka. „Sum stærstu fyrirtækin hér á landi eru
með alþjóðlegan rekstur og við of lítil til þess að
leiða fyrir þau fjármögnun. Þá getur verið gott
að vera samferða erlendum bönkum, þannig að
fyrirtækið sé með banka í hópnum sem þekkir
það vel, jafnvel til áratuga.“ Hún segir hins veg-
ar að kjörin séu þannig, að það sé ekki fyrr en
nýverið sem Landsbankinn hafi getað réttlætt
það að vera þátttakandi í slíkum lánveitingum út
frá eigin fjármögnunarkostnaði.
„Við erum búin að sjá hluta af sjávarútveg-
inum fara úr landi, einkum til norskra banka.
Okkur þykir mjög vænt um sjávarútveginn enda
skapar hann góð störf og er máttarstólpi at-
vinnulífs víða um land. Mörg af okkar öflugustu
fyrirtækjum eru sjávarútvegsfyrirtæki og við
höldum afar góðu sambandi við þessi fyrirtæki.
Það hefur því verið sárt að sjá þau fara úr landi á
kjörum sem við höfum ekki getað keppt við. En
við erum að nálgast þau. Með okkar nýjustu lán-
tökum í erlendum myntum munar ekki miklu, í
raun munar þar fyrst og fremst bankaskatt-
inum. Á móti kemur að nýr atvinnuvegur, ferða-
þjónustan, hefur náð að vaxa og dafna. Ferða-
þjónustan er nýr máttarstólpi sem bankinn
leggur mikla áherslu á að þjóna.“
Í ljósi þeirra miklu breytinga sem eru að
verða á fjármálamarkaðnum, hvernig sér Lilja
Landsbankann fyrir sér á eftir 5 til 10 ár? „Það
verður áfram virði í því eftir 5 og 10 ár að þekkja
fyrirtæki afskaplega vel. Öll fyrirtæki kannast
við það að ef eitthvað kemur upp á viltu tala við
þann sem þekkir þig. Það er heilmikið virði í því
að vinna með góðum samstarfsbanka eins og
Landsbankinn er. Ég held að mjög persónuleg
fyrirtækjaþjónusta haldi áfram en samhliða
munum við kappkosta að veita fyrirtækjum skil-
virkari bankaþjónustu. Við þurfum að gæta þess
að fyrirtækin fái mjög öfluga sjálfvirka þjónustu
þannig að við getum einbeitt okkur að því að að-
stoða þau og þekkja þau, hjálpa til við umbreyt-
ingar og fylgja þeim í þeirra ferðalagi.
Á einstaklingsmarkaði munu viðskiptavinir
væntanlega skipta sér í nokkra hópa. Þar verður
meðal annars hópur sem mun einkum horfa á
samanburðarsíður og verða mjög kvikur. Það
þarf hins vegar að gefa sér tíma til þess að bera
saman kjörin. Ef gervigreind þróast hins vegar
þannig að það dragi úr tímanum sem þetta
krefst, gæti þessi hópur stækkað verulega. Við
ætlum áfram að bjóða upp á mjög góð og
samkeppnishæf kjör og þess vegna er mikilvægt
að ná fram aukinni skilvirkni í bankanum. Svo
verður annar hópur sem vill persónulega og
góða þjónustu, auk góðra kjara. Hann vill setj-
ast niður og ræða við einhvern um stórar
ákvarðanir, t.d. húsnæðislánin sín. Við þurfum
að átta okkur á hvernig við getum veitt hana og í
því skyni höfum við verið að einbeita okkar að
því að búa til hóp fjármálaráðgjafa inni í útibúa-
kerfinu út um allt land.“
Bankinn afar söluvænlegur
Landsbankinn er nánast að fullu í eigu ríkis-
ins en þó liggur fyrir heimild til þess að selja allt
að 30% í bankanum. Hvernig vill Lilja sjá
eignarhaldinu háttað þegar fram líða stundir?
„Ég myndi vilja sjá hann í dreifðu eignarhaldi.
Okkar stefna er mjög skýr: við erum að þjóna
fyrirtækjum og einstaklingum á Íslandi. Þegar
þú fjárfestir í Landsbankanum þá ertu að fjár-
festa í þverskurðinum af Íslandi, sama hvort litið
er til aldursdreifingar viðskiptavina, fyrirtækja,
byggðar eða atvinnuvega. Auk þess erum við
sterkur banki sem leggur áherslu á stöðugleika í
rekstri.“
Lilja segist virða eigendastefnu ríkisins og
engin vandkvæði að vinna undir henni, enda
samrýmist hún þeirri þjónustu sem bankinn
veiti og því sem hann standi fyrir. „En það er
eðlilegt að ríkið losi um eignarhlutinn. Þetta er
stór eign fyrir ríkissjóð og ríkið getur ráðstafað
peningunum vel í aðra málaflokka heldur en að
vera stofnfjárfestir í banka.
Við höfum reynt að gera okkar í að gera bank-
ann að arðbærari fjárfestingu með því að greiða
arð og draga þar með úr eigin fé. Við erum enn
að greiða 60-80% hagnaðar í arð, erum þegar bú-
in að greiða yfir 100 milljarða, og munum vænt-
anlega halda því áfram.“
Lilja segir bankann líta gríðarlega vel út fyrir
fjárfesta um þessar mundir sé litið á þróun
rekstrarins í gegnum síðustu uppgjör og fram-
tíðarsýn. „Ég held að þetta sé mjög góður tími til
þess að selja þessa hluti sem ríkið ætlar sér að
selja, sé litið bara á staðreyndirnar. Uppgjör
bankans fyrir árið 2017 var mjög gott, rekstrar-
kostnaður stendur nánast í stað, kostnaðarhlut-
fallið lækkaði og hagnaður jókst. Bankinn er því
afar söluvænlegur. En ég virði það auðvitað að
hlutirnir verða að hafa sinn gang og eigandinn
hagar sér eftir því hvernig hann telur hags-
munum sínum best borgið. En bankinn er á góð-
um stað, heilmikið hefur áorkast og hann á mikið
inni.“
Morgunblaðið/Eggert
sig vita hvað muni gerast
”
En það er eitthvað skakkt
við það að geta ekki veitt
sömu kjör á sama markaði
vegna þess að annar aðilinn
er með meiri kvaðir á sér.
Landsbankinn kynnti í liðinni viku að bankinn hygðist
semja við Arkþing og C.F. Møller um hönnun og þróun á
nýjum höfuðstöðvum við Austurbakka 2. „Fyrir starf-
semina er stóri ávinningurinn sá, að við getum fært okk-
ur úr um 20 þúsund fermetrum, sem felast að miklu leyti
í stigum, göngum og rangölum, í 10 þúsund fermetra í
nýju húsi. Þetta er hægt með því að nýta vel fáar hæðir
og allt pláss miklu betur,“ segir Lilja. „Í öllum fyrir-
tækjarekstri er vaxandi krafa um að starfsfólk vinni
saman, deili hugmyndum fljótt og geri hugmyndir hratt
að vörum og þjónustu. Núverandi húsnæði er hamlandi
og gerir okkur erfitt um vik við að vera sveigjanleg og
kvik.“
Að sögn Lilju voru margir möguleikar skoðaðir, meðal
annars að byggja annars staðar. „Við áætlum að við get-
um sparað um 500 milljónir árlega með því að flytja und-
ir eitt þak í nýtt hús. Við áttum þessa góðu lóð og getum
byggt þarna hús sem verður verðmæt eign fyrir bank-
ann. Mér finnst hönnunin smekkleg en mín áhersla er á
vinnurýmin og það að við getum minnkað sóun á plássi
og tíma með því að þétta raðirnar.“
Lilja segir að húsið verði blandað verslunar- og skrif-
stofuhúsnæði. „Verslanir verða á fyrstu hæð en við verð-
um með skrifstofur á efri hæðum. Þar verður töluvert af
umframfermetrum sem við ætlum að leigja út eða
selja.“
Framtíð gömlu höfuðstöðvanna til skoðunar
En hvað verður um hinar gömlu og virðulegu höfuð-
stöðvar bankans? „Við skulum segja að við séum með
það í vandlegri skoðun hvaða möguleikar eru í boði með
friðað hús. Það er líka samofið öðrum húsum sem við
erum með í rekstri og við þurfum að greiða úr þeirri
flækju. Við gerum ekki ráð fyrir því í okkar áætlunum að
vera með húsið á okkar bókum áfram en það eru enn
nokkur ár í að við flytjum. Eina sem ég get sagt á þessari
stundu er að við erum með málið í skoðun en við viljum
stuðla að því að fólk geti notið hússins til framtíðar.“
Áhersla lögð á vinnurýmin í nýjum höfuðstöðvum og að draga úr sóun á plássi
Hér getur að líta frumtillögu að innra rými höfuðstöðva Landsbankans sem tekið getur breytingum á hönnunarstigi.