Morgunblaðið - 29.06.2018, Qupperneq 6
6 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 29. JÚNÍ 2018
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Þ
egar við höfum sýnt erlendum að-
ilum WorldFeng þá trúa þeir varla
að svona gagnagrunnur á heimsvísu
skuli vera til um eina hestategund,
og ekki laust við að þeir líti til okk-
ar öfundaraugum enda hvergi að finna nokkuð
þessu líkt, svo ég viti til.“
Þetta segir Jón Baldur Lorange, verkefn-
isstjóri WorldFengs-verkefnisins og fram-
kvæmdastjóri búnaðarstofu MAST.
WorldFengur (www.worldfengur.com) er,
að grunni til, nærri þriggja áratuga gamalt
verkefni sem í dag hefur að geyma hafsjó
upplýsinga um erfðir og eiginleika margra
hundraða þúsunda íslenskra hesta. Gagna-
safnið hefur m.a. nýst vel til að draga fram
æskilega eiginleika í stofninum og verið ómet-
anlegt hjálpartæki við að ná fram þeim miklu
framförum sem orðið hafa í ræktun íslenska
hestsins hér á landi sem annars staðar.
„Fengur var heitið á lokaverkefni sem ég
gerði ásamt tveimur skólafélögum mínum við
tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands sem síðar
rann inn í Háskólann í Reykjavík. Þetta var
árið 1991 og bar þannig til að Búnaðarfélagið,
forveri Bændasamtaka Íslands, hafði óskað
eftir aðstoð við að byggja upp gagnagrunn og
skýrsluhaldskerfi í hrossarækt til að hýsa á
tölvutæku formi ættbók sem hafði verið
geymd á bókum allt frá byrjun 20. aldar,“
segir Jón Baldur.
Ný tækni og ný vinnubrögð
Þegar fyrsta útgáfa Fengs var tilbúin voru
um það bil 9.000 hross í gagnagrunni sem var
notaður til útreiknings á kynbótamati. „Tveir
hrossaræktarráðunautar, Kristinn Hugason
og Þorkell Bjarnason, voru þá hjá Bún-
aðarfélaginu og fengust m.a. við að byggja
upp skipulag í greininni, samræma kynbóta-
dóma og festa í sessi nýtt kynbótamat í
hrossarækt. Tveimur árum eftir að Fengur
leit fyrst dagsins ljós var búið að þróa kerfið
þannig að gögnum frá kynbótasýningum var
safnað jafnóðum, með rafrænum hætti, frá
landinu öllu í miðlægan gagnagrunn. Var það
gert með svokallaðri miðlara- og biðlaratækni,
en þetta var nokkru fyrir tíma netsins eins og
við þekkjum það í dag,“ útskýrir Jón Baldur.
„Það voru vissulega tímamót árið 1993 að
skrá kynbótadóma beint í miðlægan gagna-
grunn hvar sem var á landinu, en nokkuð sem
þætti ekki tiltökumál í dag.“
Um þetta leyti voru einkatölvur að ryðja
sér til rúms og kom fljótlega í ljós að eft-
irspurn var eftir útgáfu af Feng sem fólk gæti
notað heima hjá sér. „Við bjuggum því til
EinkaFeng sem var forrit fyrir PC-tölvur og
þegar mest var kom forritið á 27 disklingum
sem notendur þurftu að hlaða inn í tölvur sín-
ar. ÍslandsFengur kom svo á markað árið
1998 en það var margmiðlunarútgáfa á geisla-
diski. Þótti ÍslandsFengur einnig vera tíma-
mótaútgáfa enda mikið lagt í útlitið og ljós-
myndir sýndar af helstu kynbótahrossum. Þá
var einnig kynnt til sögunnar svokölluð
heimarétt, sem er ennþá mikilvægur hluti af
WorldFeng.“
Með þeim fyrstu á netinu
VeraldarFengur fór í loftið árið 1997 og segir
Jón Baldur að um hafi verið að ræða einn
fyrsta gagnagrunnninn sem var opnaður á
netinu. Með aðstoð Skýrr, nú Advania, tókst
að gera VeraldarFeng að veruleika og þannig
koma til móts við þarfir ræktenda íslenska
hestsins um allan heim. „Um leið skapast
möguleiki á að búa til eina sameiginlega upp-
runaættbók íslenskra hesta í öllum löndum.
Var það m.a. gert sökum þrýstings frá Dön-
um og Svisslendingum, og þökk sé rausn-
arlegum fjárstuðningi frá íslenska ríkinu, þeg-
ar bændavinurinn Guðni Ágústsson var
landbúnaðarráðherra, tókst að opna nýjan og
endurbættan WorldFeng, upprunaættbók ís-
lenska hestsins á heimsmeistaramóti íslenska
hestsins í Austurríki 2001.“
WorldFengur er samstarfsverkefni Bænda-
samtaka Íslands og FEIF, Alþjóðasamtaka
eigenda íslenska hestsins. Í dag má nota
World Feng á níu tungumálum og þegar
keppnir eru haldnar í einu af 20 aðildarríkjum
FEIF eru niðurstöðurnar skráðar jafnharðan
í gagnagrunninn. Strangir staðlar tryggja að
samræmi sé í kynbótadómunum og hægt að
bera saman hæfileika allra íslenska hesta
sama hvar þeir eru staddir í heiminum.
WorldFengur inniheldur núna upplýsingar um
næstum 500.000 íslensk hross í 37 löndum og
af þeim eru um 270.000 hross skráð á lífi.
,,Eitt af markmiðum WorldFengs-verkefnisins
var að geta reiknað út alþjóðlegt kynbótamat
allra íslenskra hrossa en til þess þurfti að
skrá alla heimsbyggðina, ef þannig mætti að
orði komast, og það tókst allt saman á fyrsta
áratug verkefnisins,“ segir Jón Baldur.
Erfðaefni og upptökur
Upplýsingarnar í WorldFeng eru mjög grein-
argóðar og eru allir dómar vandlega skráðir,
eiginleikar hestanna kortlagðir og hægt að sjá
mynd af mörgum þeirra. Fyrir um það bil
áratug tók WorldFengur að halda skrár um
DNA-greiningu hrossa til að staðfesta ætterni
og halda utan um upplýsingar um DMRT3-
arfgerð sem hefur áhrif á ganghæfni íslenskra
hrossa. Í dag senda DNA-rannsóknarstofur í
átta löndum inn gögn um DNA-greiningar í
gagnagrunn WorldFengs, sem ber sjálfkrafa
saman erfðamörk til að staðfesta ætterni fol-
alda. „Við hófumst svo handa við það fyrir
tveimur árum, í samstarfi við Landssamband
hestamannafélaga, að setja inn upptökur frá
öllum landsmótum, með elstu myndskeiðin frá
1954. Nú þegar eru komin inn rúmlega 8.000
myndbönd og búið að klippa efnið þannig til
að notendur WorldFengs geta hratt og örugg-
lega fundið myndskeið með tilteknum hesti á
kynbótasýningu.“
WorldFengur hefur reynst ræktendum
ómetanlegt verkfæri og er hægt að nota hug-
búnað kerfisins til að herma eftir pörun stóð-
hesta og hryssa. „Valpörunarforritið var þró-
að af dr. Þorvaldi Árnasyni og byggist á
vísindalegum aðferðum. Hefur reynslan sýnt
að forritið segir fyrir um það með töluverðum
áreiðanleika hvers konar eiginleika má vænta
hjá folaldinu sem verður til með pörun
tveggja hrossa úr WorldFeng. Ekki bara það
heldur spáir forritið því hvernig folaldið verð-
ur á litinn og varar líka við því ef hætta er á
skyldleikaræktun,“ útskýrir Jón Baldur.
„Vinna sem áður hefði kallað á mikla yfirlegu
og flókna útreikninga tekur með World Feng
aðeins tvær sekúndur.“
Gagnsæi og öryggi
Forritið hjálpar einnig þeim sem eru að
kaupa hross. „WorldFengur tryggir aukið
gagnsæi og er gagnlegt hjálpartæki fyrir selj-
endur og kaupendur hesta. Gagnagrunnurinn
er öruggasta skráningin sem völ er á þegar
kemur að ætterni hvers hross og gefur góða
vísbendingu um hvers ætti að vera hægt að
vænta af ungum hrossum sem skipta um eig-
endur.“
WorldFengur er skilgreindur sem upp-
runaættbók íslenska hestsins skv. reglugerð
um ræktun og uppruna íslenska hestsins.
Hvert aðildarland FEIF útnefnir World-
Fengs-skrásetjara sem ber ábyrgð á skrán-
ingum í sínu landi. Allar skráningar eru rekj-
anlegar og háðar aðgangstakmörkunum. Jón
Baldur segir mikla hagsmuni í húfi og hafi
hann m.a. af þeim sökum tekið þá ákvörðun
að standa sjálfur fyrir utan hrossarækt-
unarheiminn til að koma í veg fyrir minnsta
grun um hagsmunaárekstra í sínu starfi. „Í öll
þessi ár hefur aðeins komið upp eitt tilvik þar
sem ræktunarleiðtogi hafði látið fjarlægja
kynbótadóm fyrir hross í hans eigu, en allar
slíkar breytingar eru rekjanlegar og því var
hægt að bregðast hratt og örugglega við þeg-
ar málið var rannsakað.“
Snjalltæki og gervigreind
Næstu skrefin fyrir WorldFeng munu snúa að
því að gera gagnagrunninn betur aðgengileg-
an í gegnum snjalltæki. „Tvö snjalltækjaforrit
eru líklega að koma í loftið fyrir þetta lands-
mót og opna hestamönnum handhæga gátt
inn í þetta gagnasafn hvar sem þeir eru á
ferðinni,“ segir Jón Baldur. „Við bindum líka
miklar vonir við að geta í framtíðinni notað
gervigreind til að gera WorldFeng að ennþá
betra greiningartæki til rannsókna á eigin-
leikum íslenska hestsins til að ná fram fram-
förum í stofninum, en í dag eru gögn úr
WorldFeng mikið notuð í rannsóknarverk-
efnum m.a. í Landbúnaðarháskólanum í Upp-
sölum í Svíþjóð.“ ai@mbl.is
WorldFengur heldur áfram að vaxa
Gagnagrunnurinn WorldFengur
er hafsjór fróðleiks og á engan
sinn líka í hestaheiminum.
Verkefnið hefur þróast í gegn-
um árin og hjálpað ræktendum
að efla íslenska stofninn
Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Við bindum miklar vonir við að geta í framtíðinni notað gervigreind til að gera WorldFeng að ennþá betra greiningartæki til rannsókna á eiginleikum íslenska hestsins,“ segir Jón Baldur Lorange.
Strangari reglur
um meðferð gagna
Ný Evrópureglugerð um verndun persónu-
gagna hafði þau áhrif að World Fengur
þurfti að taka út upplýsingar sem áður
voru aðgengilegar um eigendur hrossa.
„Tilgangur laganna er á margan hátt góð-
ur en þau hafa reynst hafa þau áhrif að
draga lítilsháttar úr notagildi World
Fengs. Réttilega voru margir óánægðir
með það að við skyldum þurfa að loka
fyrir þennan hluta gagnasafnsins enda oft
gagnlegt að geta séð ítarlegar upplýs-
ingar um eigendasögu hests, og auðveld-
ara að hafa uppi á eigandanum ef þessar
upplýsingar eru fyrir hendi,“ segir Jón
Baldur. „Þetta er samt þröskuldur sem
hægt er að yfirstíga og sjaldan sem það
kallar á mjög erfiða leit að finna eiganda
áhugaverðs hross.“