Morgunblaðið - 29.06.2018, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 29.06.2018, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 29. JÚNÍ 2018 Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is H inum megin á hnettinum, á fallegu býli skammt suður af borginni Auck- land á Nýja-Sjálandi, má sjá nokkra íslenska hesta bíta gras í mestu makindum úti í haga. Þeir gætu ekki verið lengra frá heimaslóðum forfeðra sinna en virðast samt eins og gerðir fyrir aðstæður á Nýja-Sjálandi: „Margir hafa það á orði þegar þeir koma hingað hvað þeim þykir Nýja- Sjáland líkt Íslandi og Írlandi. Hér er mikil orka í jörðinni, virk eldfjöll og hverir, og á þeim slóðum sem heimamenn kalla High Country á suðureyjunni er landslagið hrjóstr- ugt, svartir sandar og lítið um trjá- gróður,“ segir Jennie Boerema hestabóndi og fullvissar blaðamann um að hestarnir hennar séu alveg lausir við heimþrá. Vildi fá meira pláss og gott loftslag fyrir hestana Jennie er hluti af þeim sívaxandi hópi útlendinga sem hafa tekið ást- fóstri við íslenska hestinn. Hún hef- ur samt lagt meira á sig en flestir til að halda íslenska hesta og tók þá með sér yfir hálfan hnöttinn þegar hún flutti frá Hollandi til Nýja- Sjálands fyrir fimmtán árum. „Okkur hjónin hafði lengi dreymt um að finna okkur samastað þar sem við hefðum betra pláss og var hætt að lítast á hvernig hlutirnir voru að þróast heima í Hollandi. Við eigum ættingja í Ástralíu sem við heimsóttum árið 2000 og upp- götvuðum þar ágæti þessa heims- hluta. Við sáum samt líka í sömu ferð að Nýja-Sjáland yrði hentugra, sérstaklega fyrir hestana, enda mun heitara loftslag í Ástralíu. Um þetta leyti voru börnin okkar vaxin úr grasi og manninum mínum bauðst gott starf á Nýja-Sjálandi svo við ákváðum að taka stökkið.“ Smár stofn fer stækkandi Þó að ferðalagið til Ástralíu og Nýja-Sjálands sé langt þá er þar að finna allnokkur íslensk hross. Jen- nie segir að samkvæmt upplýs- ingum í WorldFeng séu í kringum 170 hestar í íslenska stofninum á Nýja-Sjálandi og nokkrir til við- bótar sem ekki eru skráðir í Fengs- kerfið. „Stofninn fer vaxandi, en vex hægt, og munar þar ekki síst um að það kostar í kringum 16.000 evrur, tæpar tvær milljónir króna, að fljúga með hesta hingað frá Evr- ópu. Eftirspurnin eftir íslenskum hestum er greinilega fyrir hendi og margir sem vita hvað íslenski hest- urinn er góður reiðhestur með áhugaverðar gangtegundir,“ út- skýrir Jennie. „Það eru líka ákveðnir flöskuhálsar sem innflytj- endur hesta þurfa að glíma við, því innflutningsreglur eru strangar og allir hestar þurfa að dvelja í ein- angrun í að lágmarki þrjár vikur. Vandinn er sá að einangrunarstöðin er í eigu veðreiðafélags sem nýtir nær öll laus pláss undir sína hesta sem eru á ferðinni á milli ræktenda til að búa til ný afkvæmi. Ef hægt væri að flytja hestana hingað beint frá Íslandi gætu þeir sloppið við einangrun en beinu flugi er ekki til að dreifa og gilda einangrunarregl- urnar um alla hesta sem ýmist koma frá Evrópu eða öðrum heims- hlutum eða hafa viðkomu einhvers staðar á leiðinni.“ Afdrifaríkur reiðtúr Jennie ólst upp í kringum stór evr- ópsk reiðhestakyn og var komin yf- ir tvítugt þegar hún fyrst kynntist íslenska hestinum fyrir alvöru. „Það var í gegnum vinafólk sem átti nokkra íslenska hesta að ég fékk að fara á bak. Mér þótti tegundin for- vitnileg og líta út eins og stór út- gáfa af Hjaltlandseyja-smáhest- inum. Í mínum huga var ég samt löngu vaxin upp úr smáhestum og fannst íslenski hesturinn líka virka silalegur þar sem ég fylgdist með honum álengdar.“ En svo gerðist svolítið óvænt þegar Jennie ætlaði að setjast á bak. „Mér tókst bara að koma öðr- um fætinum fyrir í ístaðinu og þá tekur hesturinn af stað á harða- spretti. Mér tókst samt að koma mér fyrir og setja fótinn í hitt ístað- ið og á endanum fá hestinn til að staðnæmast. Vinafólkið sem ætlaði að ríða með mér hafði miklar áhyggjur þegar það sá hestinn þjóta af stað með mig, og hefði get- að farið verr á stærri hesti, en þeg- ar þau loksins náðu í skottið á mér og hestinum var ég með tár í aug- unum af hlátri. Mér þótti þetta uppátæki hjá hestinum svo afskap- lega fyndið og fann hvað hann var kröftugur og með sterkan persónu- leika. Reiðfélagar mínir sýndu mér hvernig ég gæti stjórnað hestinum betur og látið hann tölta, og ég varð hugfangin þar sem við riðum um fallega sveitavegi og heilluð af að sjá voldugt faxið á þessum smáa hesti sveiflast til og frá fyrir fram- an mig.“ Jennie, sem er núna á leið á sitt fyrsta landsmót, segir það sama eiga við um flesta sem uppgötva ís- lenska hestinn. „Margir líta svo á að smærri hestar séu bara fyrir börn og unglinga og alvöruhest- menn séu taka niður fyrir sig með því að setjast á íslenskan hest. Fólk verður fyrst að prufa að fara á bak og þá er yfirleitt ekki aftur snúið því íslenski hesturinn heillar alla upp úr skónum.“ Í reiðtúr um svarta sanda Nýja- Sjálands. Margt minnir á Ísland. Ljósmynd / Peter Schreuder Jennie (t.v.) á góðri stundu á hestinum Þótta frá Wetshinge og Judith Benignus á Biskup ásamt Gandalfi. Ljósmynd / Jennie Boerema Dökkvi, Biskup, Hilmir og fyrir aftan hann Gandálfur á landi Jennie. Grét af hlátri í fyrsta reiðtúrnum Eins og svo margir erlendir hestamenn þurfti Jennie Boerema bara að prufa að setjast á bak íslenska hestinum til að falla kylliflöt fyrir honum. Hún rekur núna litla hestarækt á Nýja-Sjálandi og heimsækir landsmótið í fyrsta sinn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.