Morgunblaðið - 08.02.2019, Qupperneq 8
8 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 8. FEBRÚAR 2019
Skúli Halldórsson
sh@mbl.is
Í
samtali við 200 mílur segir Holy-
oake að þessi tímasetning sé sú
rétta fyrir sig til að draga sig úr
stjórninni, þrátt fyrir að hann
muni áfram eiga stóran hlut í
ISI.
„Ég held að við upphaf þessarar
fjárfestingar hafi ég ekki hugsað mér
að sitja lengur í stjórninni en þennan
tæpa áratug. Í ljósi þeirra jákvæðu
breytinga sem átt hafa sér stað í fyr-
irtækinu undanfarin misseri fannst
mér þetta vera rétti tíminn til að
stíga til hliðar og hleypa öðrum að,“
segir hann.
Fyrirtækið tífaldast að stærð
„Við erum með frábæran hóp, þar
sem Bjarni Ármannsson er að taka
við stöðu forstjóra og nýir stjórnar-
menn að koma inn. Maður sér að
hópurinn er fullur orku og vill keyra
fyrirtækið áfram og upp í frekari
hæðir.“
Frá því Holyoake fjárfesti í ISI ár-
ið 2010 hefur fyrirtækið tífaldast að
stærð. „Þetta er í raun einstakur
vöxtur. Við höfum notið þess að eiga
virkilega sterkan kjarna, undir for-
ystu Helga Antons Eiríkssonar sem
forstjóra, og Benedikts Sveinssonar
sem stjórnarformanns, sem hefur
starfað í geiranum í yfir fjörutíu ár,“
segir hann og bendir á að aðstæður á
mörkuðum hafi verið gjörólíkar árið
2010.
„Bankakerfið var tiltölulega ný-
hrunið og bankarnir voru að vinna að
því að byggja sig aftur upp. Efna-
hagur landsins var óstöðugur en við
horfðum á styrkleika fyrirtækisins
og ákváðum að láta slag standa. Í
kjölfarið hefur ISI keypt fjölda ann-
arra fyrirtækja og fært sig nær hlut-
verki virðisauka, með fjárfestingu í
vinnslum, og fjær því hlutverki að
sinna aðeins kaupum og sölu sjáv-
arafurða. Þannig hefur ISI tekist að
auka arðsemi sína jafnt og þétt.“
Holyoake tekur fram að enginn
hafi setið auðum höndum. „Þetta
hafa verið mjög annasöm ár.“
Samþættingin mikilvæg
Spurður hverjar séu mestu áskor-
anirnar sem blasi við fyrirtækinu á
þessum tímamótum segir hann ISI
vera í mjög góðri stöðu núna, sem
geri honum einmitt kleift að stíga úr
stóli stjórnarmanns.
„Næstum fjórðungur fiskframleið-
enda landsins eru hluthafar og fyr-
irtækið býr yfir ótrúlega sterkri getu
til markaðssetningar og framleiðslu
afurða, sem þýðir að hægt er að taka
vöruna innan fyrirtækisins alla leið
frá upphafi til enda virðiskeðjunnar.
Ég held að í þessum iðnaði núna, ef
þú getur ekki nýtt þér þessa lóðréttu
samþættingu, þá mun reynast þér
virkilega erfitt að skila almennileg-
um hagnaði til langs tíma,“ segir Ho-
lyoake.
„Það sem mestu máli skiptir er að
geta ráðið yfir vörunni frá uppruna
og þar til hún kemur á disk neytand-
ans. Þess vegna einbeittum við okkur
að því hvernig við gætum aukið virði
vörunnar og fjárfestum í fyrir-
tækjum í þeim löndum þar sem neyt-
endur vörunnar búa,“ bætir hann við
og nefnir Bretland og Spán sem
dæmi. „Áherslan á þetta, ásamt því
að fá eigendur aflaheimilda í raðir
hluthafa, gerir það að verkum að ISI
er í virkilega sterkri stöðu gagnvart
sínum keppinautum.“
Varðveist á milli kynslóða
Glöggt er gests augað, segir mál-
tækið, og stöðu sinnar vegna hefur
Holyoake eflaust öðlast góða innsýn í
sjávarútveg á Íslandi, til hliðsjónar
við önnur lönd. Því liggur beint við að
spyrja hann hvort Ísland hafi ein-
hverja sérstöðu í þessum saman-
burði. Hann er snöggur til svars:
„Þekkingargrunnurinn, verkkunn-
áttan og almenn viðurkenning sam-
félagsins á að sjávarútvegur sé
alvöruatvinnugrein. Í viðskipta-
umhverfinu í Evrópu er litið á sjáv-
arútveg sem nokkurs konar hliðar-
grein, en ekki meginatvinnugrein,“
segir hann.
„Þegar öllu er á botninn hvolft
snýst þetta líka um þá reynslu og
þekkingu sem varðveist hefur á milli
kynslóða. Ísland á sér langa sögu
hvað varðar að ná árangri í sjávar-
útvegi, og af því geta Íslendingar
verið stoltir.“
Hann segist telja að á næstu árum
muni eiga sér stað enn frekari sam-
þjöppun innan greinarinnar hér á
landi.
„Sjávarútvegurinn er enn að
nokkru leyti svolítið sundurskiptur,
og ég held að fyrirtækin eigi eftir að
þjappa sér meira saman. Ein helsta
ástæða þeirra breytinga sem við réð-
umst í hjá ISI á sínum tíma var sú að
við vildum ná stærð sem gerði okkur
kleift að keppa við fyrirtæki á al-
þjóðavísu. Í kjölfarið hefur maður
séð tvö eða þrjú fyrirtæki hér á Ís-
landi sem hugsa á svipaðan máta og
horfa til okkar árangurs.“
Erfitt að taka ákvörðunina
Holyoake hefur starfað í rúma tvo
áratugi í sjávarútvegi, en hann steig
fyrst inn í geirann árið 1996, og ein-
beitti sér þá að framleiðslu sjávar-
afurða í Asíu.
„ISI kom svo fyrst inn á ratsjána
mína á árunum 2008 og 2009. Þá ríkti
auðvitað ákveðin upplausn í efna-
hagslífinu. Fyrir mér virtist fyr-
irtækið þá gegna mjög mikilvægu
hlutverki, en á sama tíma í nokkru
mótlæti. Það hafði vaxið umfram bol-
magn að einhverju leyti en við horfð-
um vel og lengi á þennan fjárfesting-
armöguleika og komumst að því að
innan veggja fyrirtækisins var úr-
valslið fólks, sem enn er raunin í dag.
Um leið og okkur varð það ljóst töld-
um við að við gætum lagt okkar af
mörkum til að bæta reksturinn og
færa hann til betri vegar.“
Hann viðurkennir þó að erfitt hafi
verið að taka ákvörðun um að fjár-
festa í ISI á þessum tíma. „Til marks
um það – ef þú hefðir sagt fólki fyrir
tíu árum hvar Ísland væri statt í dag,
þá held ég að það væri mjög ánægt
og fegið. Þetta voru allt aðrir tímar
og viðskiptalífið eins og það lagði sig
var í uppnámi. Það fylgdi töluverð
áhætta þessari fjárfestingu en hún
reyndist vera hárrétt þegar litið er
til baka.
Þessi níu ár hafa verið frábær fyr-
ir okkur. Fyrirtækið nær mark-
miðum sínum aftur og aftur, það hef-
ur vaxið í réttar áttir og 80%
hagnaðarins koma nú frá virðis-
aukningu hráefnisins, í stað kaupa og
sölu, en þegar ég leit fyrst á tölur fé-
lagsins var því nokkurn veginn öfugt
farið.“
Óstöðugleiki hræði fjárfesta
Spurður hvernig íslenskur sjávar-
útvegur komi honum fyrir sjónir í
dag, sem vettvangur fjárfestingar-
tækifæra, byrjar Holyoake á að
nefna að yfir þetta níu ára skeið hafi
hann smám saman orðið mikill aðdá-
andi Íslands og eignast hér nokkurn
fjölda vina og kunningja.
„Á þann hátt er ég í raun farinn að
auglýsa Ísland, kosti þess og gæði.
En hvað tækifæri til fjárfestinga
varðar má enn bæta suma þætti.
Óstöðugleiki gjaldmiðilsins – og
hann er óstöðugur – er nokkuð sem
hræðir fjárfesta. Skrifræði tengt
fjármagnsflutningum hefur þó
minnkað til muna og eins og staðan
er í dag ætti Ísland að geta boðið upp
á góðar fjárfestingar, ef það er það
sem fólk vill,“ segir hann.
„Það er á vissan hátt kaldhæðnis-
legt að núna tíu árum seinna finnst
mér mitt land, Bretland, stefna í
ringulreið, þótt ef til vill verði
ástandið skárra en það sem ríkti á Ís-
landi í bankahruninu. Ef Brexit verð-
ur að veruleika mun það líklega valda
töluverðum skaða í efnahagslífinu,
en að sama skapi hafa í för með sér
einstök tækifæri til fjárfestinga.“
Óumflýjanleg spurning fylgir: Tel-
urðu að brottganga Bretlands úr
Evrópusambandinu verði að veru-
leika?
„Ég hreinlega veit það ekki leng-
ur. Og það sorglega er að ég held að
ekki nokkur maður viti það.“
Stígur sáttur frá borði eftir frábær ár
Breski fjárfestirinn Mark
Holyoake lét í vikunni af
níu ára setu í stjórn Ice-
land Seafood Inter-
national. Hann keypti
ráðandi hlut í fyrirtæk-
inu árið 2010 og hefur
tekið þátt í uppbyggingu
þess og kaupum á er-
lendum sjávarútvegs-
fyrirtækjum æ síðan.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Holyoake hefur starfað í rúma tvo áratugi í sjávarútvegi. Hann segist eiga von á frekari samþjöppun í greininni hér á landi.
Stjórn Iceland Seafood International
réð Bjarna Ármannsson sem forstjóra
félagsins í janúar. Bjarni hafði setið í
stjórn ISI frá september á síðasta ári
og tekur við starfi Helga Antons Ei-
ríkssonar sem óskaði eftir að stíga til
hliðar eftir níu ár í stóli forstjóra.
„Helgi hefur verið forstjóri félagsins
frá 2010 og hefur leitt uppbyggingu
félagsins sem alþjóðlegs framleiðanda
á sjávarafurðum, byggða á hinum
sterka íslenska grunni félagsins og í
samstarfi við íslenska framleiðendur,“
sagði Bjarni Ármannsson við það til-
efni.
„Félagið stendur eftir fjárhagslega
sterkt og er tilbúið fyrir enn frekari
vöxt. Ég vil þakka Helga fyrir það
mikla starf sem hann hefur innt af
hendi við uppbyggingu félagsins. Það
hefur leitt af sér mikinn og eftirtekt-
arverðan árangur undanfarin ár. Fram
undan eru spennandi tímar hjá Iceland
Seafood International,“ bætti hann
við og benti á að félagið hygði á skrán-
ingu á aðalmarkað Kauphallar Íslands
síðar á þessu ári.
Hyggja á skráningu í Kauphöllinni
Bjarni Ármannsson, nýr forstjóri ISI, segir félagið fjárhagslega sterkt og tilbúið fyrir enn frekari vöxt. Segir hann að stefnt sé að skráningu í Kauphöllinni.