Morgunblaðið - 08.02.2019, Síða 20

Morgunblaðið - 08.02.2019, Síða 20
20 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 8. FEBRÚAR 2019 Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is S ennilega er leitun að þeim íslenska matreiðslumanni sem er færari en Ari Gunnarsson að elda fisk. Ari er yfirkokkur hjá Fiskfélaginu og hóf störf hjá veit- ingastaðnum fyrir tæpum tíu ár- um, mánuði eftir opnun. „Ég er orðinn hálfgert húsgagn hérna,“ gantast hann með en Ari kláraði matreiðslunámið á veitingastaðn- um, tók síðar við stjórn eldhúss- ins, og er þar eins og blómi í eggi. Ekki ætti að koma lesendum á óvart að nóg er að gera hjá Fisk- félaginu árið um kring. Veitinga- staðurinn er á besta stað í mið- borg Reykjavíkur og mikið sóttur bæði af heimamönnum og erlend- um ferðamönnum. Ari segir kom- ur ferðamanna sveiflast eftir árs- tímum en allstór hópur íslenskra fastakúnna komi í hádegismat. Fiskfélagið býður upp á græn- metis- og kjötrétti en eins og nafnið gefur til kynna eru sjáv- arréttir í fyrirrúmi. Að sögn Ara er bleikjan mikið pöntuð, þorsk- urinn sömuleiðis, og bæði Íslend- ingar og útlendingar hrifnir af saltfiskinum. „Tegundir eins og skötusel höfum við ekki getað haft á matseðlinum því þó að hráefnið sé mjög skemmtilegt gengur mis- vel að fá skötuselinn eins ferskan og við viljum hafa hann,“ segir Ari en bætir við að veitingastaðurinn versli við yndislegan fisksala, Litlu fiskbúðina í Hafnarfirði, og fái þar allt nema bleika fiskinn sem kemur í gegnum Nora Sea- food frá lax- og bleikju-fiskeldi á landi, bæði frá Austurlandi og Vesturlandi. Væri rómantískara að vera myglaður á fiskmarkaði Ekki þarf að hafa mikið fyrir því að finna gæðafiskinn og segir Ari að frauðplastskassarnir komi í hús í byrjun dags þegar starfsfólkið er um það bil að hefjast handa við að undirbúa eldhúsið fyrir hádegisös- ina. Fiskurinn fer rakleiðis í kæli og svo byrjar ballið strax; kveikt er á gashellunum og pantanirnar taka að streyma inn. Ara þykir afskaplega gott að fá fiskinn til sín með þessu móti en gantast með að það væri samt rómantískara ef hann þyrfti, eins og sumir kokkar í útlöndum, að fara á lappir fyrir allar aldir til að handvelja besta fiskinn á fisk- markaði. „Ég er ekki frá því að þessa menningu vanti hér á Ís- landi: að mæta dálítið myglaður á morgnana á markað í leit að fal- legum fiski til að bera á borð fyrir matargesti.“ Meira í boði en ýsa í raspi Er meira að segja búið að snyrta fiskinn vel og gera úr hon- um falleg flök. Sumar tegundir koma jafnvel roðflettar. „Við þurf- um ekki annað en að skera flökin í bita: hnakkastykkin notum við í fallegustu fiskbitana á meðan end- astykkið og minni bitar eru not- aðir í súpugerð. Við reynum að nýta hvert einasta snitti og ef eitt- hvað gengur af má gera úr því nú- tímalega útgáfu af plokkfiski, ell- egar salta og reykja til að nota sem grunn í góða sósu. Ekkert þarf að fara til spillis.“ En hvernig má ná fram allra bestu eiginleikum fisksins? Ari segir alls ekki flókið að elda prýði- legan fiskrétt en með æfingunni læri fólk að ólíkar fisktegundir kalla á ólík vinnubrögð. „Það fer eftir fituinnihaldinu og hversu þéttur fiskurinn er í sér hvort hentar betur að steikja hann, grilla eða hægelda á sous-vide máta. Hlýrinn er t.d. mjög þægi- legur á grillið á meðan þorskurinn er ákaflega fjölhæfur þó að fara þurfi varlega ef hann eigi ekki að losna í sundur.“ Þegar kemur að því að krydda fiskrétti þykir Ara ágætt að fara einföldu leiðina með salt, pipar og smá sítrónu, og leyfa ferskleik- anum að njóta sín. Matseðillinn hjá Fiskfélaginu sýnir samt að gera má alls kyns skemmtilegar útfærslur af fiski og krydda á ótal vegu: „Við höfum ákveðna hug- myndafræði í matreiðslunni sem við líkjum við heimsreisu. Inn- blásturinn kemur úr ýmsum áttum og t.d. hægt að fá fiskrétt undir marokkóskum áhrifum, dönskum, frönskum og ítölskum. Hágæða ís- lenskt hráefni er samt alltaf það sem myndar grunninn.“ Sjálfur játar Ari að hann hafi seint lært að meta fiskinn að verð- leikum og segir hann að ástæðuna að á sínum yngri árum hafi hann sjaldan fengið annað en ofeldaðan fisk. „Þetta var því ekki sá matur sem var mér efst í huga þegar kom að því að velja eitthvað til að elda sjálfur, eða panta á veit- ingastað. Sem betur fer eru Ís- lendingar í dag að elda fisk mun styttra en áður, og ekki jafn mikið um að fiskbita sé einfaldlega hent í pott og leyft að malla þar.“ Aðspurður hvaða trix ættu helst að koma að gagni í eldhúsum les- enda ráðleggur Ari að spara ekki smjörið. „Ég er smjöróður maður og finnst mikilvægt að hafa bæði mikið smjör á pönnunni þegar fiskurinn er steiktur, en líka að hafa pönnuna nógu heita. Held ég að það sé oft helsti munurinn á fiski sem eldaður er á veitinga- húsum annars vegar, og á heim- ilum hins vegar, að þegar fólk eld- ar heima þá gætir það þess ekki að bíða ögn til að leyfa pönnunni að hitna vel.“ Pannan þarf að vera vel heit Ari á Fiskfélaginu uppgötvaði það allt of seint á lífs- leiðinni hvað fiskur getur verið mikill herramanns- matur. Hann gætir þess að spara ekki smjörið við eldamennskuna og leikur sér með kryddin. Morgunblaðið/Eggert Ari er afskaplega lukkulegur með þjónustu fisksala síns, þótt honum þætti róm- antískt að þurfa að mæta á markað í morgunsárið til að velja fallegustu fiskana. Fyrir fjóra Steiktur þorskur 800 g þorskur (hnakkastykki) 200 g smjör ¼ sítróna salt 1. Snyrtið þorskinn og skerið í 4 jafna bita. 2. Hitið pönnu vel. 3. Setjið skvettu af olíu og ögn af salti á pönnuna. 4. Setjið fiskinn á heita pönnuna og leyfið að steikjast þar til léttbrúnaður ásamt smá salti. 5. Setjið sítrónusneiðina út á ásamt smjörinu, minnkið hitann og hallið pönnunni. 6. Ausið freyðandi smjör- inu yfir fiskinn, passið að smjörið brenni ekki, haldið áfram að ausa yf- ir fiskinn þar til hann er næstum eldaður í gegn. 7. Takið fiskinn af pönnunni og setjið á bakka. 8. Hell- ið afgangssmjörinu yfir fiskinn og leyfið honum að hvíla í eina mínútu. Maltpikklaður laukur 2 stk. hvítur laukur 100 g púðursykur 30 g maltsíróp 260 ml malt 240 ml maltedik 1. Skrælið laukinn og skerið í helm- inga. 2. Hitið pönnu og þurrsteikið laukinn með sárið niður þar til sárið er brennt (virkar líka vel að grilla). 3. Hitið saman restina af hráefninu og setjið laukinn út í sjóðandi löginn. 4. Takið pottinn af hita og leyfið lauknum að liggja í 20-30 mín. Sellerírótarmauk 300 g sellerírót 100 g heitur rjómi ½ stk. sítróna 1. Skrælið sellerírótina og skerið niður í jafna bita. 2. Setjið sell- erírótina í pott með vatni og smá salti og sjóðið þar til sellerírótin er elduð í gegn. 3. Sigtið sellerírótina og maukið í blandara ásamt rjóman- um þar til maukið hefur náð mjúkri og sléttri áferð. 4. Smakkið maukið til með salti og safanum úr sítrón- unni. Kræklingasósa 1 stk. skalottlaukur (skrældur og skorinn gróft niður) 1 stk. hvítlauksgeiri (skrældur og kraminn) ½ stk. sellerístöngull (skorinn gróft niður) 2 cm engifer (skrældur og sneiddur) 500 g kræklingur 200 ml hvítvín 300 ml rjómi sítróna salt 1. Hitið meðalstóran pott (þarf að rúma kræklinginn). 2. Hellið smá- skvettu af olíu í pottinn og svitið laukinn, hvítlaukinn, sellerí og engi- fer við meðalhita þar til laukurinn er orðinn glær, passa að hann brúnist ekki. 3. Bætið kræklingnum út í pottinn ásam hvítvíni og setjið lok á pottinn og sjóðið í 10 mínútur. 4. Bætið rjómanum við og sjóðið þar til sósan er farin að þykkna örlítið. 5. Sigtið sósuna og haldið áfram að sjóða niður þar til hæfilega þykk. 6. Smakkið til með sítrónusafa og salti. Smælki 12 stk. smælki olía 50 g smjör salt 1. Setjið smælkið í pott og sjóðið þar til eldað í gegn, kælið. 2. Skerið smælkið í helminga. 3. Hitið pönnu með skvettu af olíu og steikið kartöfl- urnar þar til rétt brúnaðar. 4. Bætið smjöri á pönnuna og eldið kartöfl- urnar áfram þar til fallega gullnar, passa að brenna ekki smjörið. Ferskt sellerí 1 stk. sellerístöngull Skerið í þunnar sneiðar. Steiktur þorskur Með maltpikkluðum lauk, sellerírótarmauki, steiktu smælki, fersku selleríi og kræklingasósu Morgunblaðið/Eggert Fyrir skemmstu rataði í fréttir að íslenski humarstofninn virðist enn fara minnkandi. Hafa vísindamenn haft áhyggjur af þróun stofnsins um alllangt skeið og er útlit fyrir að draga þurfi verulega úr veiðum. Ari segir vandann birtast veitingafólki í minnkuðu framboði og hærra verði. „Við þurftum að grípa til þess ráðs að taka íslenskan humar af matseðlinum og finna annan skelfisk í staðinn. Stóðum við frammi fyrir því að sá humar sem var í boði væri ekki af hentugri stærð, gæðin minni og verðið mun hærra en áður,“ út- skýrir hann. „Í staðinn höfum við tekið inn kóngarækju sem er nokkuð vel kjötuð rækja og með vorinu munum við gera tilraunir með Maine-humar. Von- um við að fleiri veitingastaðir geri slíkt hið sama og leggi sitt af mörkum við að hvíla íslenska humarstofninn.“ Tóku íslenskan humar af matseðlinum

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.