Morgunblaðið - 07.03.2019, Side 6
Ef gefin yrði út reglugerð fyrir mak-
rílveiðar á árinu 2019, sem byggð
væri á veiðireynslu áranna 2013 til
2018, er líklegt að úthlutun aflaheim-
ilda samkvæmt henni myndi skapa
ríkinu skaðabótaskyldu.
Þetta er ein af meginniðurstöðum
starfshóps, sem fenginn var til að
fara yfir þýðingu þeirra dóma
Hæstaréttar sem féllu í byrjun des-
ember og vörðuðu úthlutun afla-
heimilda í makríl á árunum 2011 til
2014. Með dómunum var viðurkennd
skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins
vegna tjóns tveggja útgerðarfélaga,
en talið var að skipum þeirra hefði
verið úthlutað minni aflaheimildum
en skylt var samkvæmt lögum.
Starfshópurinn hefur nú skilað
skýrslu sinni til sjávarútvegs- og
landbúnaðarráðherra þar sem meðal
annars er farið yfir valdheimildir
ráðherra að óbreyttum lögum og
jafnframt helstu valkosti ef valið
verður að bregðast við dómunum
með lagasetningu.
Hópurinn bendir í fyrsta lagi á að
ráðherra sé samkvæmt núgildandi
lögum skylt að ákveða leyfilegan
heildarafla í makríl fyrir næsta
veiðitímabil. Þá sé honum aðeins
heimilt að ákveða með reglugerð að
miða aflahlutdeild í makríl við veiði-
reynslu þriggja bestu veiðitímabil-
anna af síðustu sex árum, þ.e. 2013
til 2018, en eins og áður sagði er talið
líklegt að slík úthlutun myndi skapa
ríkinu skaðabótaskyldu. Ráðherra
myndi með þeim hætti halda áfram
að baka þeim útgerðum tjón sem
fengju minna úthlutað en þær hefðu
fengið á grundvelli veiðireynslu fyrir
árið 2011.
Með öðrum orðum væri slík reglu-
gerð byggð á formlega fullnægjandi
lagastoð en efnislega myndi hún við-
halda ólögmætu ástandi.
Fjórir valkostir reifaðir
Bendir hópurinn þess vegna á að
löggjafinn hafi ýmsa kosti til að
greiða úr núverandi ástandi með
lagasetningu.
Í 3. málslið 1. greinar laga nr. 116/
2006 um stjórn fiskveiða segir að út-
hlutun veiðiheimilda samkvæmt lög-
unum myndi ekki eignarrétt eða
óafturkallanlegt forræði einstakra
aðila yfir veiðiheimildum. Með hlið-
sjón af þessu ákvæði og dómafram-
kvæmd Hæstaréttar er það mat
starfshópsins að löggjafinn hafi
nokkuð rúmar heimildir til að
ákveða veiðistjórnun og úthlutun
hlutdeilda samkvæmt eigin mati.
„Lagabreyting sem fæli í sér hóf-
lega skerðingu á úthlutuðum eða
væntum aflahlutdeildum á grund-
velli lögmætra markmiða og reist
væri á efnislegum mælikvarða væri
ekki til þess fallin að skapa bóta-
skyldu,“ segir í skýrslu hópsins.
Í þeim tilgangi að auðvelda undir-
búning mögulegrar lagasetningar
eru í kjölfarið reifaðir fjórir ólíkir
valkostir við stefnumörkun sem
mögulegt væri að ráðast í, án þess að
skapa ríkinu bótaskyldu að mati
hópsins.
Í fyrsta lagi er nefndur sá kostur
að veita ráðherra heimild til að miða
við veiðireynslu áranna 2005 til 2010
við úthlutun aflaheimilda. Með því
væri undið ofan af ólögmætri stjórn-
sýsluframkvæmd og ráðherra gefin
heimild með lögum til að láta af
slíkri framkvæmd. Hins vegar væri
með lagasetningu af þessum toga
verið að skerða verulega hagsmuni
þeirra sem veitt hafa makríl og eftir
atvikum fjárfest í þeirri sókn í góðri
trú allt frá árinu 2011. Hugsanlegt
sé að koma einhvern veginn til móts
við þá skerðingu með því að taka frá
hluta aflamagns hvers árs og úthluta
sérstaklega til þeirra. Fordæmi fyrir
slíku séu til staðar.
Í öðru lagi er nefndur sá kostur að
veita ráðherra heimild við ákvörðun
aflahlutdeilda til að festa núverandi
úthlutun í sessi. Með því væri tekið
tillit til hagsmuna fleiri aðila og lög-
gjafinn tæki þá nokkra ábyrgð á því
fyrirkomulagi sem þrifist hefur um
sjö ára skeið, að því er segir í
skýrslu hópsins. Vandséð sé að þessi
leið gæti bakað ríkinu bótaskyldu.
Það sé ekki náttúrulögmál að afla-
hlutdeild sé alltaf ákveðin á grund-
velli veiðireynslu.
Í þriðja lagi er nefndur sá kostur
að veita ráðherra heimild til að miða
veiðireynslu við lengra tímabil við
úthlutun aflaheimilda en samkvæmt
gildandi lögum, á sama hátt og gert
hafi verið við úthlutun aflaheimilda
úr norsk-íslenska síldarstofninum.
Bent er á að verði þessi leið fyrir val-
inu mætti segja að rétt væri að horfa
á heildarveiðireynslu frá árinu 2005
eða 2006 til ársloka 2017.
„Með því móti fengist ákveðin
viðurkenning á því sjónarmiði að
veiðar fyrstu árin hefðu aukið vægi
en að tillit væri einnig tekið til hags-
muna þeirra sem stunduðu veiðar
eftir árið 2017 (án veiðireynslu) á
grundvelli reglugerða ráðherra sem
nú hafa verið metnar ólögmætar,“
segir í skýrslunni. Einnig sé það
kostur að Hæstiréttur hafi áður
fjallað um þessa leið.
Ekki langur tími til stefnu
Í fjórða lagi er nefndur sá kostur
að veita ráðherra heimild til að
ákveða aflahlutdeild með blönduðum
hætti þar sem að hluta væri byggt á
fyrsta kostinum sem nefndur var
hér að ofan, og að hluta á öðrum
kostinum sem nefndur var, með
áþekkum hætti og gert hafi verið
með sérstökum lögum um veiði-
stjórn á úthafsrækju. „Væri þessi
fyrirmynd hagnýtt mætti sjá fyrir
sér að ákvörðun aflahlutdeilda
byggðist að mestu leyti á veiði-
reynslu næstliðinna ára en að
nokkru á veiðireynslu áranna fyrir
árið 2011,“ segir í skýrslunni.
Bent er á að þessir fjórir kostir
séu ekki þeir einu í stöðunni, en þeir
séu settir fram með hliðsjón af mála-
vöxtum og þeim fyrirmyndum sem
finna megi í eldri löggjöf á sviði fisk-
veiðistjórnar. Þá vekur hópurinn at-
hygli á því að komi til nýmæli um
veiðistjórn í makríl með lögum þurfi
þau að öðlast gildi fyrir upphaf
næsta veiðitímabils. Því sé ekki ýkja
langur tími til stefnu.
Óbreytt veiði-
stjórn makríl-
veiða ekki í boði
Skúli Halldórsson
sh@mbl.is
Ráðherra getur ekki við-
haldið þeirri veiðistjórn
makrílveiða sem hefur ver-
ið lítt breytt frá árinu 2011, í
kjölfar þeirra dóma Hæsta-
réttar sem féllu í desember.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Leyst úr poka. Með dómunum var viðurkennd skaðabótaábyrgð ríkisins vegna tjóns tveggja útgerðarfélaga.
6 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 7. MARS 2019
Bílaviðgerðir
Almennar
bílaviðgerðir
fyrir
tegundir bíla
Opið mánudaga til fimmtudaga kl. 7.45-17.00, föstudaga kl. 7.45-16.00
Flatahrauni 7 | 220 Hafnarfirði | Sími 565 1090 | www.bjb.is
SAMEINUÐ GÆÐI
Frá 1940
www.velasalan.is
Sími 520 0000, Dugguvogi 4 , 104 Reykjavík
Bjóðum úrval af rafstöðvum og bátavélum frá Cummins
BÁTAVÉLAR RAFSTÖÐVAR
K38 850-1000HP C44 D5 / 72 kW
K50-CP 1050kW
K38-CP 762 kW
QSK 19 660-800HP
QSK38 920-1400HP
Þjónusta við
skip og báta
Varahluta
þjónusta