Morgunblaðið - 22.08.2019, Qupperneq 60

Morgunblaðið - 22.08.2019, Qupperneq 60
60 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. ÁGÚST 2019 Árni Blandon arnibl@gmail.com Nýja uppfærslan á Tannhäuser Richards Wagners í hátíðarleik- húsi hans í Bayreuth var frumsýnd 25. júlí síðastliðinn. Angela Merkel kanslari lét sig að sjálfsögðu ekki vanta frekar en fyrri daginn þegar þessi rúmlega mánaðarlanga hátíð fer af stað í lok júlí. Stjórnandi há- tíðarinnar, Katharina Wagner, barnabarnabarn tónskáldsins, er þekkt fyrir að velja leikstjóra að hátíðinni sem eru óhræddir við að gera tilraunir með verk Wagners, enda var Wagner sjálfur mikill frumkvöðull á óperu- og tónlistar- sviðinu. Faðir Katharinu, Wolf- gang Wagner, var Íslandsvinur sem átti stærstan þátt í því að Íslendingum leyfðist að setja á svið stytta útgáfu af hinu mikla fjögurra kvölda músíkdrama Wagners Niflungahringnum. Fórnarlamb núvitundar Leikskrárnar í Festspielhaus í Bayreuth eru afar vandaðar, hver leikskrá á þremur tungumálum: þýsku, ensku og frönsku. Í leik- skránni sem fylgir Tannhäuser- uppfærslunni í ár er vitnað í bók Carls Dahlhaus frá árinu 1979 sem fjallar um verk Wagners. Þar bendir Dahlhaus á að Tannhäuser sé „fangi augnabliksins“ sem sveiflist á milli öfga: nautnalíf með sjálfri Venus annars vegar og göf- ugt tilfinningalíf hins vegar með hinni elskulegu Elísabetu frá Brabant. Leikstjóri sýningarinnar, Þjóðverjinn Tobias Kratzer, kýs að gera sem minnst úr þessum grein- armun kvennanna, velur einhverja holdrýrustu söngkonu sem sögur fara af til að syngja fyrir Venus, sú heitir Elena Zhidkova, rússnesk kona með mikla rödd og skemmti- lega leikhæfileika, ekki síst fyrir gamanleik. En Elísabet, sungin og leikin af hinni norsku þokkagyðju Lise Davidsen, er hins vegar ákaf- lega Venusarlega vaxin og jafnvel rúmlega það, rödd hennar er svo sterk og sviðsþokkinn svo mikill að það er nokkuð víst að Wagner hefði viljað hafa hana í öllum sín- um óperuuppfærslum. Og aum- ingja Tannhäuser sveiflast stjórn- laust á milli þessara tveggja kvenna í núvitund hvorrar um sig. Það er tvennt sem er sérstakt við uppfærslu Tóbíasar á Tann- häuser og söngvastríðinu: mikil notkun á myndböndum og einnig er tveimur persónum bætt við verkið og fer alls ekki illa á því. Auk þess má segja að einni per- sónu í viðbót sé að hluta til bætt við verkið, það er að segja Venusi er troðið inni í hluta verksins þar sem Wagner ætlaðist ekki til að hún kæmi fram. En þetta er svo skemmtilega gert í uppfærslunni þar sem söngvastríðið fer fram í öðrum þætti að það fyrirgefst. Allar tilraunir með gömul verk og breytingar á þeim standa og falla með því hvort leikstjórinn kann sitt fag eða ekki og Tóbías er góð- ur leikstjóri. Það er hinn sviss- nesk-franski myndameistari Man- uel Braun sem hefur haft veg og vanda af afar listrænni gerð mynd- bandsverkanna sem prýða sýning- una. Blanda kvikmyndalistar og sviðslista er mjög í deiglunni þessa dagana og mér er til efs að betur hafi tekist til í þeim tilraunum en í þetta sinn. Forleikur og sviðsleikur Undanfarinn áratug hafa gömul óperutónskáld þurft að láta það yf- ir sig ganga, án þess að geta snúið sér við í gröfinni, að forleikir þeirra væru ekki virtir sem sjálf- stæð listaverk; leikstjórar og mis- vitrir svokallaðir dramatúrgar hafa troðið aðallega vondum sjónrænum hugmyndum sínum yfir forleikina þannig að tónlistin lendir „óvart“ í bakgrunni: augu áhorfandans gleypa myndir og deyfa næmi eyrnanna. Dramatúrg uppfærsl- unnar á Tannhäuser í Festspiel- haus þetta árið, og næstu fjögur árin, er Konrad Kuhn og er hann einn sá gáfaðasti sem ég hef orðið var við í leikhúsi hingað til. Hann leyfir forleiknum að Tannhäuser að lifa í friði fyrstu fimm mín- úturnar, en þá fer tjaldið frá og enn er mikið eftir af hinum fræga forleik verksins. Bak við fortjaldið er hálfgagnsætt tjald sem fyllir út í sviðsopið og þar birtist hin feg- ursta vídeómynd af landslagi sem rís upp úr sviðsgólfinu, Wartburg-kastalinn kemur í ljós og við sjáum síðan bíl framúr- stefnulistakonunnar Marinu Abramovic sem hún ferðaðist í með ástmanni sínum Ulay þegar þau frömdu alls konar listir í lífi sínu og alls konar líf í list sinni ár- ið 1980. Síðan skildi leiðir þeirra. Vitnað í Blikktrommuna Í leikskrá sýningarinnar er vitn- að í skáldverk Günters Grass Blikktrommuna frá árinu 1959. Það er dvergurinn Manni Lauden- bach sem túlkar Óskar litla með blikktrommuna í sýningunni, fær að vísu hvorki að segja neitt né syngja neitt. Þannig kallast hann á við svart-hvítu myndböndin í upp- færslunni sem vísa til látbragðs- leiks í gömlu þöglu kvikmynd- unum. Tveir vídeótökumenn fylgja söngvurum baksviðs svo við sjáum stundum í öðrum þætti verksins bæði það sem er að gerast á svið- inu, á innrömmuðum hluta þess, og líka það sem á sér stað baksviðs sem er sýnt í svarthvítu á kvik- myndatjaldi á efri hluta sviðs- opsins. Önnur látbragðspersóna í uppfærslunni er klæðskiptingurinn Le Gateau Chocolat sem leikur sjálfan sig og það er unun að horfa á hversu fallega og örugglega hann gengur um á mjög svo há- hæluðum skóm. Annan svipaðan sá ég meðal áhorfenda: risastóran mann í karlmannsklæðum á 15 sentimetra háum svörtum pinna- hælum. Í fyrsta þætti uppfærslunnar mynda Óskar, Venus og Chocolat, ásamt trúðnum Tannhäuser, gengi sem tekur upp á því í öðrum þætti þegar fylgst er með þremur þeirra á vídeóupptöku í rauntíma brjótast inn til okkar í Festspielhaus og fylgjast með Tannhäuser þar sem hann tekur þátt í söngkeppninni í Wartborgarkastala. Þar setur Tannhäuser allt á annan endann með því að hallmæla ekki Venusi og nautnalífi hennar. Þegar komið er út úr leikhúsinu í hið klukku- tíma langa hlé blasir þá ekki langi stiginn við sem þau skötuhjúin notuðu til að brjótast inn í óperu- húsið. Áhorfendur héldu að þetta væri bara myndbandsgabb en bet- ur sjá augu en vídeó. Þegar Wagner reyndi að slá í gegn sem óperuhöfundur í París, sem honum tókst ekki í lifanda lífi, var hann hvattur til að bæta við ballett í verkið. Frakkar voru van- ir því að hafa ballett í óperum í öðrum þætti, en Wagner fékkst ekki til að hafa ballettinn þar held- ur hafði hann í fyrsta þætti hjá Venusi. Þetta olli miklum úlfaþyt svo ekki reyndist unnt að halda sýningum áfram. Það er því hin gamla róttæka útgáfa verksins sem fylgt er í Bayreuth þessa dag- ana en ekki hin ballettvæna Par- ísarútgáfa. 1849 tók Wagner þátt í byltingarstarfi sem gerði hann út- lægan frá Þýskalandi í 11 ár. Þetta sama ár birti hann byltingargrein sem talsvert er vitnað í í leikskrá uppfærslunnar og í sýningunni sjálfri, meðal annars: Frelsi í vilja, frelsi í framkvæmd, frelsi til að njóta. Pílagrímakórinn Sú var tíð á Íslandi að ekki mátti leika útgáfu Karls Sighvats- sonar af Pílagrímakór Wagners úr Tannhäuser í Ríkisútvarpi Íslend- inga. Þá var í hávegum haft hið mesta bil milli hámenningar og lágmenningar. Tannhäuser neyðist til að fara í pílagrímsför til páfans í Rómaborg vegna þátttöku sinnar í holdsins fýsnum með Venusi og dirfsku hans við að réttlæta slíkt lágstéttamakk í söngvakeppninni í öðrum þætti verksins. Og hvað gerir kaþólski páfinn: hann teflir á tæpasta vað og neitar að veita Tannhäuser syndaaflausn. Sem er slæmt fyrir Tannhäuser, enda bregst hann reiður við og syngur langt eintal í anda Shakespeares; enn verra er þetta fyrir Elísabetu sem bregður á það ráð að deyja til að bjarga sálartetri Tannhäusers. Enginn dó þegar Karl Sighvats- son fékk ekki að spila útgáfu sína af Pílagrímakórnum á landsins gufu sem var einokunarrás á Íslandi þeirra daga (rás tvö fædd- ist miklu síðar). Sú íhaldsforneskja sem ríkti hér á landi fyrir nokkr- um áratugum var af þeirri tegund sem verið er að mótmæla með þeim fjölbreytileika í mannlífinu sem settur er á svið í Bayreuth þessar vikurnar: trúður, dvergur, klæðskiptingur (Chocolat), Venusarhæðir o.s.frv., allt á þetta rétt á sér í lífinu. Enn er ég þó að velta fyrir mér hvort það hafi verið nauðsynlegt að Elísabet, áður en hún hélt til himna, svæfi hjá Wolfram, sem elskaði hana svo innilega á and- legan hátt. Hvað hefði Wagner sagt? Það má líka spyrja sig hvers vegna Wagner lét Tannhäuser deyja í lok verksins; alltaf ein- hverjar spurningar sem engin endanleg svör fást við. Tannhäuser og söngvastríðið Tilraunir leikstjórans Tobiasar Kratzer með Tannhäuser á Wagner- hátíðinni í Bayreuth þetta sumarið heppnast vel að mati greinarhöf- undar. Seinni greinin um valdar sýningar hátíðarinnar birtist á laugardaginn kemur. Ljósmyndir/Bayreuther Festspiele, Enrico Nawrath Le Gateau Chocolat Nígeríski klæðskiptingurinn og kabarett- stjarnan leikur sjálfan sig. Trúðurinn Tannhäuser Ameríski hetjutenórinn Stephen Gould, Elena Zhid- kova í hlutverki sínu sem Venus og Manni Laudenbach sem túlkar Óskar. Fallegt myndband Fyllir út í stórt sviðsopið í Festspielhaus. Farartækið vísar í bíl Marinu Abramovic. VÍKURVAGNAR EHF. Víkurvagnar ehf. | Hyrjarhöfða 8 | 110 Reykjavík Sími 577 1090 | vikurvagnar.is | sala@vikurvagnar.is Setjum undir á staðnum Dráttarbeisli undir flestar tegundir bíla
Qupperneq 1
Qupperneq 2
Qupperneq 3
Qupperneq 4
Qupperneq 5
Qupperneq 6
Qupperneq 7
Qupperneq 8
Qupperneq 9
Qupperneq 10
Qupperneq 11
Qupperneq 12
Qupperneq 13
Qupperneq 14
Qupperneq 15
Qupperneq 16
Qupperneq 17
Qupperneq 18
Qupperneq 19
Qupperneq 20
Qupperneq 21
Qupperneq 22
Qupperneq 23
Qupperneq 24
Qupperneq 25
Qupperneq 26
Qupperneq 27
Qupperneq 28
Qupperneq 29
Qupperneq 30
Qupperneq 31
Qupperneq 32
Qupperneq 33
Qupperneq 34
Qupperneq 35
Qupperneq 36
Qupperneq 37
Qupperneq 38
Qupperneq 39
Qupperneq 40
Qupperneq 41
Qupperneq 42
Qupperneq 43
Qupperneq 44
Qupperneq 45
Qupperneq 46
Qupperneq 47
Qupperneq 48
Qupperneq 49
Qupperneq 50
Qupperneq 51
Qupperneq 52
Qupperneq 53
Qupperneq 54
Qupperneq 55
Qupperneq 56
Qupperneq 57
Qupperneq 58
Qupperneq 59
Qupperneq 60
Qupperneq 61
Qupperneq 62
Qupperneq 63
Qupperneq 64

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.