Vísbending - 07.03.2016, Page 4
Aðrir sálmar
VíSBENDING _________
Sjö spora endurhæfing
fyrir stjórnmálamenn
eir sem villast af réttri leið þurfa
að finna hana aftur, en það er ekki
alltaf svo auðvelt. Aukakílóin fara
ekki öll á einum degi og alkóhólistinn þarf
að taka einn dag í einu. Margir fylgja svo-
nefndu tólf spora kerfi. Blinder sem vitnað
er til á forsíðu gefur villuráfandi stjómmála-
mönnum eftirfarandi ráð. Margir töldu að
í kjölfar kreppunnar myndi koma fram ný
tegund stjórnmálamanna. Menn sem ein-
beittu sér að lausnum á vanda samfélagsins
en ekki eigin pólitískum markmiðum og
karpi um aukaatriði. Vandaðir stjórnarhætt-
ir yrðu settir í forgang. Raunin hefur verið
önnur. Lýðskrum hefur aldrei verið meira
og kjósendur fagna loddurum með einfald-
ar lausnir eins Trump hinum bandaríska,
þó að einnig megi finna nærtækari dæmi.
Skrefin sjö
Eins einkennilegt og það virðist hafa fáir Is-
lendingar sem voru í hringiðu atburðanna
árið 2008 reynt að skrifa um lærdóminn
af hruninu. Sumir hafa lýst sinni upplifun,
sem auðvitað er mikils virði og aðrir eyða
miklum krafti í að skýra að allt hafi verið
öðrum að kenna. Mest væri gagnið að því
að menn litu í eigin barm í ljósi reynslunnar
og hugsuðu hvað hefði verið hægt að gera
betur. Meðan beðið er eftir slíkri bók verða
ráð Blinders að duga í bili:
1. Ekki reyna að gera of margt í einu
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tókst
á við mörg stórverkefni samtímis: Umsókn-
ina að Evrópusambandinu, breytingar á
stjórnarskránni og umbyltingu skattkerfis-
ins. Oll verkefnin biðu skipbrot vegna þess
að um þau var ekki víðtæk sátt og ekki var
reynt að skapa slíka sátt. Það var ekki einu
sinni samstaða innan stjórnarliðsins, hvað
þá að reynt væri að ná til stjórnarandstöð-
unnar.
2. Utskýrið vandann fyrir almenningi
Ef menn æda að fara í grundvallar-
breytingar er nauðsynlegt að hafa sterkan
talsmann. Jóhanna Sigurðardóttir var ef-
laust eini mögulegi forsætisráðherrann fyr-
ir vinstri flokkana á þessum tíma, en hún
hafði ekki hæfileika til þess að vera leiðtogi
sem skýrði hvert hún vildi stefna og fylkti
fólki að baki sér.
3. Notið mál sem almenningur skilur
Stjórnmálamenn með mikla reynslu segja
frá því að um leið og einhver nefnir hag-
vöxt, framleiðni eða raungengi sé eins og
þoka setjist milli ræðumanns og áheyrenda.
Þess vegna er það sem menn eins ogTrump
og Bill Clinton ná vinsældum. Þeir tala mál
sem fólk skilur og setja sínar skoðanir fram
á skiljanlegan hátt.
4. Endurtakið skref 2 og 3
Róm var ekki byggð á einum degi og það
er stuðningur almennings ekki heldur. Þess
vegna þurfa menn að flytja fagnaðarerindið
aftur og aftur, kannski með nýrri og nýrri
aðferð hverju sinni. Góð vísa er aldrei of oft
kveðin.
5. Stillið væntingum í hóf
Þessu ráði er erfitt að fylgja. Almenningur
skilur ekki hvers vegna hann á að fá smá-
vægilega hækkun launa meðan stjórnendur
og eigendur fyrirtækja fá fúlgur fjár.
6. Fylgist með viðhorfi almennings, for-
dómum og misskilningi
Menn eiga ekki að elta almenningsálitið,
en þeir þurfa samt að fylgjast með því.
Það er ekki létt verk að æda að breyta lífs-
viðhorfi fólks, en það getur þó gerst þegar
meiriháttar viðburðir eins og hrunið verða.
Þeir stjórnmálamenn sem skilja það verða
ofan á, hvort sem það verður almenningi
svo til góðs eða ills. Heimsstyrjöldin fyrri
leiddi til sjötíu ára kommúnisma í Sovét-
ríkjunum og kreppan til uppgangs nasista í
Þýskalandi.
7. Setjið sanngimi í algeran forgang
Ef það er eitthvað sem almenningur þolir
ekki þá er það að mismunað sé milli Jóns
og séra Jóns. Leiðin til þess að komast
hjá þessu er að ástunda vandaða stjórn-
sýslu, gagnsæi og jafnræði. Ekkert af þessu
tryggir að menn verði ekki fyrir gagnrýni,
en ef almenningur hefur tilfinningu fyrir
því allir séu meðhöndlaðir eins dregur það
úr tortryggni. Ekkert er stjórnmálamanni
jafnmikils virði og traust. Menn eru lengi
að ávinna sér það og fljótir að tapa því aft-
ur. Og þá þurfa þeir að byrja á nýjan leik,
sem vel að merkja tekst oft, bæði vegna þess
að fólk er gleymið og líka vegna þess að al-
menningur á auðvelt með að fyrirgefa þeim
sem iðrast og sýnir yfirbót.
Margir spyrja: Eyddum við hruninu til
einskis? Þurfti almenningur víða um lönd
að fara gegnum ótrúlegar hremmingar án
þess að af því væri dreginn nokkur lær-
dómur? Hjá stjórnmálamönnum gildir það
sama og alkóhólistanum: Enginn nær ár-
angri fyrir þá. Og þó. Það er hægt að skipta
um stjórnmálamenn. Q
Aftur á kreik
Nýlega kom út á íslensku þýðing á
bók eftir þýskan höfund um sjálfan
Adolf Hitler. I kynningu útgefanda segir:
,Adolf Hider vaknar einn góðan veður-
dag árið 2011 í almenningsgarði í Berlín
eftir að hafa sofið frá árinu 1945. Hann
veit ekkert hvað hefur gerst í millitíðinni
en hyggst halda sínu striki hvað sem á
dynur. Allir sem á vegi hans verða telja að
hér sé snjall leikari á ferð og hann vek-
ur hvarvetna hrifningu fyrir sannfærandi
gervi og ótrúlega innlifun í hlutverk For-
ingjans. Fljótlega kemst hann í kynni við
framleiðendur skemmtiþáttar í sjónvarp-
inu og fær þar tækifæri til að láta Ijós sitt
skína. Hann slær í gegn og myndskeið
með ræðuhöldum hans slá öll áhorfsmet
á YouTube. Leiðin virðist greið á ný ...”
Bergþóra Gísladóttir skrifar nýlega
um söguhetjuna á blog.is: „Hann kann
ekkert á þennan nýja heim og saknar
samstarfsmanna sinna úr fyrra lífi. En
Hitler er eldklár og nær ótrúlega fljótt að
átta sig nægilega vel á aðstæðum til þess
að ná völdum á ný. Hitler hefur ekkert
breyst. Okkur gefst tækifæri til að skoða
heiminn, okkur sjálf frá sjónarhorni
Hiders.
Mér fannst þetta satt að segja afar
óþægilegt og það hefur eflaust verið enn
erfiðara fyrir Þjóðverja sjálfa, því að þeim
beinist gagnrýnin. Bókin er fyndin á ein-
hvern vandræðalegan hátt, maður veit
aldrei almennilega hvort maður hafi leyfi
til að hlæja. ... Það er afar óþægileg til-
finning þegar maður stendur sig að því
að vera sammála Hitler í gagnrýni hans
á nútímann. Réttlætingar hans á gjörð-
um koma illa við mann, ónotaleg fyndni.
Verst þótti mér þó þegar mér fannst
Hitler vera að tala beint inn í íslenska
orðræðu.“
Hvað ef á íslandi kæmi út bók um
Hriflu-Jónas endurborinn: „Stífan,
húmorslausan, smámunasaman ... yfir-
þyrmandi og orðljótan ...“ svo vitnað
sé í gagnrýni Sunday Times á bókina um
Hitler. Jónas væri kominn aftur í samtím-
ann og berðist fyrir sérhagsmunum sveit-
anna, talaði niður til borgarbúa og vildi
endurreisa þjóðlega list og arkitektúr.
Gerði lítið úr andstæðingum sínum og
svaraði allri gagnrýni með skætingi.
En kannski þarf ekki slíka bók, við
leysum málið öðruvísi. bj
Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Benedikt Jóhannesson
Útgefandi: Heimur hf., Borgartúni 23,105 Rvík.
Sími: 512 7575.
Netfang: benedikt@heimur.is.
Prentun: Heimur. Upplag: 700 eintök.
Öll réttindi áskilin. © Ritið má ekki afrita
án leyfis útgefanda.
4 VÍSBENDING • 9.TBL. 2016