Feykir


Feykir - 23.10.2019, Blaðsíða 9

Feykir - 23.10.2019, Blaðsíða 9
Ég mun ná þessum 100 leikjum! Brynhildur Ósk Ólafsdóttir á Sauðárkróki gerði garðinn frægan með meistaraflokki Tindastóls á árum áður í fótboltanum. Hennar fyrsti skráði meistaraflokksleikur var á móti Sindra í B riðli 1. deildar kvenna í maí 2008 en þá var Brynhildur 15 ára gömul en síðasti leikurinn var níu árum síðar gegn ÍA í maí 2017. Alls lék hún 97 meistaraflokksleiki og skoraði fimm mörk. Brynhildur svara spurningum í Liðinu mínu þessa vikuna. Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Ég held ég spái þeim sjötta sætinu svona miðað við hvernig þetta fer af stað hjá þeim en ég hef trú á að þeir rífi sig í gang þegar líður á. Ertu sátt við stöðu liðsins í dag? -Nei ég get því miður ekki sagt það, þeir eru búnir að vera heldur slappir það sem af er móti. Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Já oft og mörgum sinnum, það fylgir þessu sporti. Poolararnir eru margir hverjir erfiðir þegar kemur að deilum milli liðanna en annars er bróðir minn Arsenal maður og í gegnum tíðina hafa komið upp deilur milli okkar eftir leiki en aldrei neitt alvarlegt. Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Alveg klárlega David Beckham, hann hefur verið uppáhaldið mitt frá byrjun og er enn þó svo að hann sé hættur. Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Já ég fór á Old Trafford 2015 á leik Manchester United og WBA sem endaði með 2-0 sigri minna manna. Ég stefni á að fara á fleiri leiki í framtíðinni. Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Já ég á fullt af dóti, t.d. treyjur, bolla og Man. Utd. boxhanska sem ég er með í bílnum mínum svo eitthvað sé nefnt. Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? –Pabbi er grjótharður United maður en mamma er Arsenal og við pabbi reyndum nú að ala bróður minn upp sem United mann en það gekk ekki. Þar hafði mamma betur. Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Ekki beint skipt um félag, hef alltaf haldið með Manchester United en þegar Beckham fór í Real Madrid þá hélt ég líka með þeim. Uppáhalds málsháttur? -Ég held ég eigi nú engan uppáhalds en málshátturinn „Aldrei er góð vísa of oft kveðin“ er góður. Einhver góð saga úr boltanum? -Þær eru nú svo margar! Mér dettur svona helst í hug mjög eftirminnileg ferð sem við fórum til Svíþjóðar í 3. flokki á Gothia cup og svo ferðin sem mfl. kvenna fór vestur á Flateyri í sannkallaða ævintýraferð. Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Ég man ekki eftir neinu eins og er, en þeir hafa eflaust verið nokkrir í gegnum tíðina. Spurning frá Snæbjörtu Pálsdóttur: -Hvenær á að reima aftur á sig takkaskóna og spila þessa þrjá leiki fyrir Tindastól sem þú átt eftir til að ná 100 leikjum fyrir félagið? -Ég mun ná þessum 100 leikjum! Aldrei að vita nema það verði næsta sumar. Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? Væri til í að sjá bróður minn, Jónas Aron, svara þessu. Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Heimskulegasta spjald sem þú hefur fengið fyrir félagið? Brynhildur Ósk Ólafsdóttir. MYND: ÚR EINKASAFNI ( LIÐIÐ MITT ) palli@feykir.is Brynhildur Ósk Ólafsdóttir - Manchester United Eins og kemur fram á íþróttasíðu blaðsins hefur knattspyrnudeild Tindastóls samið við Murielle Tiernan og Jackie Altschuld, um að leika áfram með liði Tindastóls í 1. deildinni næsta sumar, sem eru sannarlega góðar fréttir, sem og nokkrir reynsluboltar sem endurnýjuðu sína samninga. Feykir hafði samband við Guðna Þór Einarsson, þjálfara stelpnanna, og forvitnaðist örlítið um komandi tímabil. Guðni segir að verið sé að leita að meðþjálfara eða aðstoðarþjálfara fyrir tímabilið og verður vandað vel til verka. Stjórnin, ásamt þjálfaranum, ætla að gefa sér góðan tíma í valið og vonast Guðni til að sá aðili hefji störf fljótlega. En hvaða þýðingu skyldi það hafa fyrir liðið að fá þær Murr og Jakie aftur? „Það hefur auðvitað mikla þýðingu. Að halda Murielle þriðja árið í röð er mjög sterkt fyrir okkur, við vitum hversu öflugur leikmaður hún er. Jackie er fjölhæfur og skapandi leikmaður sem getur leyst margar stöður á vellinum. Báðar þessar stúlkur hafa smellpassað í hópinn og ekki eru þetta eingöngu frábærir leikmenn heldur gefa þær mikið af sér til okkar heimastúlkna. Þrátt fyrir tilboð frá liðum í efstu deild vildu þær koma aftur á Krókinn. Þær hafa mikla trú á að liðið geti náð langt og vilja leggja sitt af mörkum til að koma liðinu hærra upp töfluna,“ segir Guðni sem fagnar því líka að reynsluboltar eins og Bryndís og Jenný hafi þegar skrifað undir nýja samninga. „Þeirra framlag sem leiðtogar liðsins er ómetanlegt innan sem utan vallar og þær eru mjög mikilvægar fyrir liðið okkar. Þær eru frábærar fyrirmyndir, baráttuglaðar og miklir liðsfélagar. Einnig hefur Hugrún Páls framlengt sem er ekki síður reynslumikill leikmaður með tæpa 100 leiki fyrir Tindastól. Þá hafa þær Bergljót, Krista Sól og Eyvör framlengt, þær eru bráð- efnilegar og eiga bjarta framtíð fyrir sér.“ Guðni segir að gera megi ráð fyrir því að penninn verði á lofti á næstu vikum þegar fleiri stelpur munu framlengja samninga sína við Tindastól. Lauren Amie Allen stóð á milli stanganna í sumar en ljóst er að þar verður breyting og markmannsmálin eru að sögn Guðna í skoðun. „Við eigum bráðefnilega stúlku, hana Margréti Rún 15 ára, sem fær mikla ábyrgð í leikjum vetrarins. Hún hefur æft með liðinu frá því í sumar og er tilbúin í vetrarmótin. Einnig mun Bryndís Heiða æfa með liðinu en hún hefur verið nokkuð fjarverandi vegna meiðsla.“ Hvernig líst þér á komandi tímabil? „Mér líst mjög vel á komandi tímabil. Eftir eitt ár í Inkasso deildinni og mikilli reynslu ríkari þá er mjög áhugavert tímabil framundan. Í sumar vorum við algjörlega pressulausar og fáir höfðu trú á að við gætum endað ofarlega. Næsta sumar verður öðruvísi að því leyti að fleiri augu beinast að okkur og gerðar verða meiri væntingar til liðsins. Hafandi verið spútnik lið deildarinnar í sumar og fara svo í að vera lið sem á að berjast um efstu tvö sætin, fylgir aukin pressa. Við höfum í höndunum afar spennandi lið með góðri blöndu af reynsluboltum, efnilegum stúlkum og erlendum leikmönnum og við vitum að ef allir róa í sömu átt munu góðir hlutir gerast. Í sumar fórum við langt á góðri liðsheild og vinnusemi, allar voru tilbúnar að berjast fyrir Tindastólsmerkið og þannig verður það áfram.“ Guðni segir að æfingar hefjist að nýju í byrjun nóvember en hópurinn verður nokkuð dreifður að þessu sinni. Um tólf stelpur munu æfa á Króknum meðan aðrar æfa hjá liðum á höfuðborgarsvæðinu eða erlendis. „Við munum reyna að fá æfingaleik á okkar heimavelli fyrir jól og svo hefst Lengjubikarinn eftir áramót. Við stefnum svo á að fara í æfingaferð í apríl. Það höfum við gert fyrir síðustu tvö tímabil og heppnast alveg ljómandi vel.“ /PF Næsta sumar verður öðruvísi Guðni Þór Einarsson þjálfari meistaraflokks kvenna Tindastóls Guðni þjálfari með reynsluboltana Guðrúnu Jenný Ágústsdóttur, Murielle Tiernan og Bryndísi Rut Haraldsdóttur. MYND: JÓHANN SIGMARSSON Guðni Þór Einarsson, þjálfari kvennaliðs Tindastóls, ásamt Jóni Stefáni Jónssyni sér á vinstri hönd, meðþjálfara sínum síðasta sumar og Sunnu Björk Atladóttur, fyrrv. leikmanni og fyrirliða liðsins. MYND: JÓHANN SIGMARSSON 40/2019 9

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.