Bæjarins besta


Bæjarins besta - 30.06.2016, Side 8

Bæjarins besta - 30.06.2016, Side 8
8 FIMMTudagur 30. JÚNÍ 2016 henni var gefið á Rauðamýri, en fékk ekki afsal af skika á eigin jörð undir hann og fékk hún því land hjá bróður sínum. Hún segir að foreldrar þeirra hafi tryggt að mestu veraldlegu verðmæti þeirra, Rauðamýri sjálf sem telur 5000 hektara með heitu vatni og laxveiðihlunnindum hafi farið í eigu þeirra systkinanna, en þar hafi ekkert verið gert og ekkert þeirra mátt byggja sér bústað þar vegna deilanna, sem sé innileg synd og skömm. „Ég held að ef þeir myndu koma og sjá móður sína þá myndu þeir hætta við þetta, en þeir hafa ekki séð hana síðan þeir fóru af stað í málaferlin og aldrei mætt í dómssal sjálfir, heldur bara sent lögfræðinga sína. Ég held að það myndi enginn vilja horfa upp á móður sína líkt og móður okkar í dag. Ég held að það sé svo sem ekkert náttúru- lögmál að elska foreldra sína, en mér finnst að enginn ætti að vera vondur við þá. Ég get engan vegin skilið hvernig einhver getur gert svona nokkuð og ég vona satt að segja að ég skilji það aldrei.“ Hjálpar fólki að hjálpa sér sjálft Tal okkar berst að vinnu Auðar með fólki í gegnum HAM (hug- ræn atferlismeðferð) sem hún hefur tileinkað sér af miklum krafti og einlægni. Hún hefur alltaf haft áhuga á geðheilbrigð- isgeiranum og á kjörári hennar eftir hjúkrunarfræðinámið valdi hún að vinna á geðdeildum og undanfarin fimm ár hefur hún í æ meira mæli helgað honum krafta sína. Auður segir að það hafi oft verið erfitt að vinna inn á geðdeildum á þeim tíma sem hún var þar, þeim hafi verið þröngt skorinn stakkurinn og þó að fólkið þar inni væri allt af vilja gert þá hafi oft þurft að útskrifa skjólstæðinga of fljótt af yfir- fullum deildunum og segir hún ástandið í geðheilbrigðismálum ekki hafa batnað síðan þá, því fari síður og heilbrigðiskerfið í raun allt að hruni komið verði ekkert að gert. „Eftir að ég kom til Ísafjarðar þá var ekki mikið um úrræði fyrir fólk sem hafði beðið einhver skipsbrot í lífinu, ef einhver leitaði til okkar þá fannst mér mjög vont að það væri ekkert í boði fyrir einstaklingana eftir að þeir útskrifuðust frá okkur, til að hjálpa þeim að fóta sig í lífinu að nýju. Á þessum tíma var Harpa Guðmundsdóttir iðjuþjálfi að vinna með mér og við fórum að hitta fólk utan vinnutíma í litlum hópum. Harpa fór svo í frumkvöðlanám á Bifröst sem bar heitið „Í krafti kvenna” og þar varð geðræktarmiðstöðin Vesturafl til í kjölfarið. Svo gerir Heilbrigðisstofn- unin geðheilbrigðissamning við Landsspítalann sem fól í sér komu sálfræðinga vestur. Fyrst voru tveir sálfræðingar sem komu aðra hvora viku með viðtöl og HAM námskeið, en þjónustan var mjög háð því hvort það var flogið. Elfa Björt Hreinsdóttir tók svo við starfinu og ákveður að fá hjúkrunarfræðinga við stofnunina með sér við umsjón HAM námskeiðanna, bæði til að geta verið með þau vikulega og líka að ef ekki væri flogið þá þyrfti námskeiðið ekki að falla niður. Þannig að hún þjálfaði tvo hjúkrunarfræðinga, mig og Svönu Guðnadóttur í þetta.” Auður segist afar þakklát fyrir að hafa fengið tækifærið til að læra þetta af Elfu og samstarfið hafi verið frábært og svo hafi það þróast þannig að hún hafi haldið starfinu áfram. „Í kjölfarið hef ég sótt fjölmörg námskeið til að dýpka og þróa skilning minn á sálrænum stuðningi og hugrænni atferlismeðferð.” Hún segist algjörlega elska að fá að liðsinna fólki við að finna leiðir til að rétta sig af með aðferðum hugrænnar at- ferlismeðferðar og segir hún fólk almennt svo frábært og hafa svo mikla hæfni til að finna sjálft svörin sem það leitar eftir og með smávægilegri handleiðslu geti það gert við sig sjálft, ef svo megi að orði komast. „Mér finnst gott að líta á þetta þannig að ef að þú tekur egg og brýtur það utan frá, þá slokknar líf, en ef að egg brotnar innan frá, þá kviknar líf. Þú getur ekki troðið einhverjum skoðunum og hugmyndum inn hjá fólki, fólk verður að fá að finna sjálft svörin í eigin lífi. Ég sé svo oft hvernig það kviknar ljós hjá fólki þegar það áttar sig sjálft á leiðum sem það vill fara í aðstæðunum sem það er í.“ Auður segir að með einfaldaðri nálgun HAM sé það hvernig við hugsum um hlutina, fremur en hluturinn sjálfur sem getur valdið okkur vanlíðan og við höfum vald yfir hugsunum okkar og þar af leiðandi vald til að láta okkur líða vel í lífinu. Hún segir að af öllu sem hægt er að taka frá okkur sé ekki hægt að taka það frá okkur að geta hugsað eins og við viljum. Auður segir að stund- um sé það svo að einstaklingar þurfi á dýpri meðferð að halda og stundum þurfi lyf til að geta tekist á við vandann og oft þurfi að leiða fólk í gegnum vandann og styðja þangað til að það hefur lært að labba sjálft. Nýjar áskoranir Fyrir átta árum var Auði sagt upp starfi sínu sem deildarstjóri við Heilbrigðisstofnunina vegna skipulagsbreytinga er stjórn- endastöðum þar var fækkað og var hún á biðlaunum í eitt ár eftir uppsögnina og mátti í raun ekki vinna annað starf á meðan. „Ég var mjög hrædd um að ég yrði þunglynd við aðgerðar- leysið, svo ég ákvað strax að ég myndi halda áfram að vakna á morgnanna líkt og ég var vön og finna mér einhver verkefni. Svo það varð úr að Bryndís Friðgeirs hjá Rauða krossinum ættleiddi mig og sendi mig til dæmis á námskeið í sálrænum stuðningi og almennri skyndihjálp, þannig að ég öðlaðist kennsluréttindi í því.” Eitt hefur leitt af öðru í störfum Auðar fyrir Rauða krossinn og fyrir nokkru síðan þurfti hún að skjótast á Ísafjarðarflugvöll með pakka og þar var fyrir Jóhann Thorarensen sálfræðingur, sem meðal annars hefur mikið starfað í áfallateymi Rauða krossins. „Hann spyr mig þarna hvort hann megi benda á mig sem fulltrúa í alþjóðlegt áfallahjálparteymi sem Rauði krossinn var að koma á laggirnar og þar sem ég kann ekki að segja nei þá sagði ég strax já við því, enda þótti mér það afar spennandi.“ Auður fékk í kjölfarið boð um að koma í viðtal og hefur hún nú verið valin ein af níu íslendingum til starfans. Auður segist afar montin af því að hafa verið valin í þennan hóp og er hún eini hjúkr- unarfræðingurinn í hópnum, sem að mestu samanstendur af sálfræðingum. Hún hefur verið við þjálfun um hríð og á eftir að ljúka tveimur námskeiðum með félögum sínum í teyminu áður en byrjað verður að senda þau á vettvang þar sem þau munu þjálfa upp fólk um allan heim, oftar en ekki á hamfarasvæðum, við að veita sálrænan stuðning. Ef hamfaraástand skapast eða flóttamannaaðstoðar er þörf getur teymið með stuttum fyr- irvara verið kallað til og er þá í þeirra verkahring að þjálfa upp fólk á vegum Rauða krossins á viðkomandi stað, bæði í að veita sálrænan stuðning og að vinna að verkefnum líkt og að skapa skjól fyrir börn sem eru afar varnarlaus inn í aðstæðum sem þessum. „Mér finnst þetta verkefni gíf- urlega spennandi og á sama tíma upplifi ég líka raunveruleikann við að þurfa að fara inn í aðstæður sem kunna að vera afar krefjandi. Á námskeiði sem ég sat um daginn fengum við að leita lausna við aðstæðum sem höfðu í raun og veru skapast og ég fann alveg fyrir þunganum af því.” Mikil tengsl á milli andlegrar og líkamlegrar heilsu Auður virðist með öllu óþreyt- andi í störfum sínum að bættri líðan fólksins í samfélaginu, því auk þess að vera að vinna fulla vinnu við Heilbrigðisstofnunina kennir hún námskeið bæði við Fræðslumiðstöð Vestfjarða sem og Starfsendurhæfinguna. Hún segir að sennilega megi finna hjá henni einhverja ofvirkni- tendensa en á sama tíma finnist henni líka bara svo gaman að vinna þetta gefandi starf. „Fjölskyldan mín myndi reyndar segja að ég væri meira en lítið ofvirk og ég veit ekki hvað það eru mörg ár síðan ég horfði síðast á sjónvarpsfréttir. Mér finnst manneskjur bara svo ofboðslega spennandi að ég er yfirleitt alltaf að sækja mér meiri þekkingu á hvernig við virkum. Ég hef svo gaman af fólki, sérstaklega þeim sem hugsa á annan hátt en ég, einu sinni var það þannig að ég var næstum því hneyksluð ef fólk var með aðrar skoðanir en ég, en í dag elska ég það. Ég myndi ekki vilja vera að ganga í gegnum þessar hörm- ungar sem við höfum skapað í minni fjölskyldu með sama hugarfar og ég var með fyrir 10- 15 árum þar sem ég var sannfærð um að öll dýrin í skóginum þyrftu að vera vinir og ég var alltaf að passa að það yrðu engir árekstrar. Það er svo vonlaus staða að vera í, því höfum ekki vald yfir öðru fólki og þar af leiðandi getum við ekki borið ábyrgð á því.” Auður segist í starfi sínu sjá gífurleg tengsl á milli andlegs og líkamslegs heilbrigðis. „Það er svo miklu auðveldara í okkar samfélagi að leita sér aðstoðar ef maður er með verk í bakinu, held- ur en vegna andlegrar vanheilsu, þá mætum við oft fordómum og þá ekki síst okkar eigin. Þó það hafi verið mikil opnun þá er enn fólk sem sífellt leitar lækninga vegna líkamlegra einkenna þegar það er í raun eitthvað andlegt sem er að hrjá það, en eins og heilbrigðisþjónustan er upp- byggð þá er yfirleitt ekki hægt að komast að því í 15 mínútna læknisheimsókn. Tökum sem dæmi vefjagigt, þar sem oftar en ekki eiga í hlut einstaklingar með áfallasögu. Þetta eru raunverulega mjög sárir verkir og fólki líður alveg hræðilega, en við vitum að rótin er af andlegum toga og þá er ég alls ekki að tala um að fólk þjáist af einhverri ímyndunarveiki. Heldur er búið að berja svo á fólki tilfinningalega að það er komið út í líkamleg einkenni. Við þurfum að horfa miklu meira á manneskjur sem bæði líkama og sál og andleg veikindi eru ekki þannig að það sé bara hægt að gefa fólki einhverjar töflur og þá lagist það bara. Það þarf hjálpa fólki að finna lausn. Alveg eins og að fólk hamast við að halda líkamanum í lagi þá þarf að leggja rækt við andlegu hliðina og við megum alveg spyrja okkur reglulega hvað við séum að gera til að viðhalda andlegu heilbrigði. Við getum ekki hlaðið endalaust á okkur án þess að taka reglulega til. Ég held að við þurfum að læra að stoppa og finna leiðir til að hlaða batteríin og taka ábyrgð á góðri geðheilsu. Þetta er líka spurning um af- stöðu, við getum valið að horfa alltaf á það sem okkur vantar frekar en að horfa á það sem við höfum og eftir að grunnþörfum hefur verið mætt þá er ham- ingjugenið í fólgið í því að vera þakklát fyrir það sem við höfum,” segir Auður að lokum. annska@bb.is

x

Bæjarins besta

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.