Víðförli - 01.11.2005, Qupperneq 7
NÓVEMBER 2005
V í Ð F Ö R L I
7
Verndum bernskuna - og verum
til staðar fyrir barnið
Þjóðkirkjan gengst fyrir átaki undir yfirskriftinni Verndum
bernskuna ásamt forsætisráðuneytinu, umboðsmanni
barna, Heimili og skóla, og Velferðarsjóði barna. Tilgangur-
inn er að styrkja foreldra og uppalendur í því verkefni að
koma börnum til manns.
Nú í haust kom út bæklingur með yfirskriftinni Verndum
bernskuna sem dreift var inn á hvert heimili í landinu. Þar
var að finna tíu heilræði um uppeldi. Bæklingurinn hefur
síðan verið notaður til kynningar á verkefninu á ýmsum
stöðum þar sem foreldrar og börn koma saman, m.a. í
kirkjum landsins. Þannig hafa prestar verið hvattir til að
nota þetta efni á fundum með foreldrum fermingarbarna,
foreldrum sunnudagaskólabarna og á foreldramorgnum.
Nú á aðventunni er áherslan á heilræðið _Verum til
staðar fyrir barnið“. Við þekkjum öll annríkið sem einkennir
komu jólanna. Stundum vill það gleymast á þessum tíma
þegar við undirbúum komu jólabarnsins að vera okkar
eigin börnum nær, að verja tímanum í skemmtilegar og
uppbyggilegar stundir með þeim.
Börnin þurfa mikinn tíma. Það er mikilvægt að við gefum
okkur tíma til að njóta samvista við þau, taka eftir því sem
þau eru að gera og deila með þeim gleði og sorgum.
Fullorðið fólk gegnir mörgum ólíkum hlutverkum sem oft
getur reynst erfitt að samræma. Tímaskortur og streita
bitna oft á þeim sem síst skyldi, börnunum. Þess vegna er
mikilvægt að forgangsraða í lífinu og ákveða hvað skiptir
mestu máli.
Þess vegna beinum við sjónum okkar að tímastjórnun
núna í desember þegar við hugleiðum heilræðið Verum til
staðar fyrir barnið. Tímastjórnun er þegar öllu er á botnin
hvolft, spurning um að raða því fyrst sem við teljum
mikilvægast í lífi okkar. Eru það börnin, eða er það vinnan
og áhugamálin?
Nánari upplýsingar um átakið Verndum bernskuna er að
finna á vefslóðinni; http://verndumbernskuna.is/
Halldór Reynisson
Nýr
söngmálastjóri
Kristján Valur Ingólfsson, verkefnisstjóri helgihalds, Hörður
Áskelsson söngmálastjóri og Karl Sigurbjörnsson biskup
gleðjast yfir fyrsta starfsdegi Harðar.
Hörður Áskelsson organisti og kórstjóri Hallgrímskirkju í
Reykjavík hóf störf á Biskupsstofu í október sem nýr
söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar í hálfu starfi.
Hlutverk söngmálastjóra er að hafa umsjón með kirkju-
tónlistinni og framfylgja stefnu Þjóðkirkjunnar í kirkjutón-
listarmálum, vera ráðgefandi um kirkjutónlistarmál við
biskupsembættið og hafa umsjón með tónlistarstarfi safn-
aðanna. Söngmálastjóri heyrir beint undir biskup íslands.
Meðal verkefna nýs söngmálastjóra verða að hans sögn
að auka fjölbreytni í messusöngvum og sálmasöng. Þá
nefndi Hörður að efla þyrfti almennan safnaðarsöng og
útgáfu á nýju efni fyrir kirkjukórana til að koma í staðinn
fyrir fjögurra radda sálmasöng. Einnig mun hann huga
sérstaklega að orgeltónlist, barnakórum og tengslum við
barnastarf, svo og útgáfu á tónlistarefni með tilliti til
markmiða tónlistarstefnu Þjóðkirkjunnar.
Hörður Áskelsson hefur verið organisti Hallgrímskirkju
frá árinu 1982. Sama ár stofnaði hann Listvinafélag og
Mótettukór Hallgrímskirkju og setti á laggirnar Kirkjulista-
hátíð og sumarkvöld við orgelið. Þá stofnaði Hörður kammer-
kórinn Schola cantorum 1996. Hann hefur kennt orgelleik
og kórstjórn við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og á árunum
1985-95 var hann lektor í litúrgískum söngfræðum við guð-
fræðideild Háskóla íslands. Hann hefur hlotið fjöldamargar
viðurkenningar fyrir störf sín að tónlistarmálum.
Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir
Digital klassískt orgel til sölu
Til sölu 38 radda digital klassískt orgel, 3ja borða með
fullum pedal. Gerð: Johannus Opus 30. Hentar minni
eða millistóru rými, eða sem æfingahljóðfæri fyrir
orgelnema.
Verð 700.000 eða tilboð.
Upplýsingar í síma 898 2016.