Víðförli - 01.11.2005, Blaðsíða 11
NÓVEMBER 2005
VÍÐFÖRLI
11
að störfum á gömlum slóðum í Pókot héraði og Kristín
Bjarnadóttir, kristniboði sem starfar við skóla norska kristni-
boðsins í Nairobi í Kenýja. Ferðafélagarnir þrír frá íslandi
dvöldu í norska kristniboðsskólanum áður en haldið var til
Pókots héraðs, en þar dvöldu þeir hjá þeim hjónum Skúla og
Kjellrun við gott atlæti. Kristín Bjarnadóttir var leiðsögumaður
í ferðinni þangað upp i fjallasvæðið en þangað er dagsferð í
vesturátt frá Nairobi, yfir stórbrotið landslag Kenýja.
Sr. Sigurður sneri heim að lokinni biskupsvígslu en Þor-
valdur og Jónas héldu áfram för sinni til Úganda til að huga
að og kynnast af eigin raun því starfi er Hjálparstarf kirkj-
unnar hefur stutt þar. Starfið er einkum í þágu fjölskyldna
alnæmissmitaðra og ekki síst munaðarlausra barna. Því er
stýrt af skrifstofu Lúterska heimssambandsins í höfuðborg-
inni Kampala Börnin hafa misst foreldra sína vegna þessa
skæða sjúkdóms er liggur sem dökkur skuggi yfir þessu
frjósama landi og því góða fólki sem þar býr.
Þorvaldur Karl Helgason
Hlnn nývígðri biskup.
Trú og trúariðkun auðgar
samfélagið en ógnar ekki
Höfuðbiskupar Lúthersku þjóðkirknanna á Norðurlöndum,
lútherskra kirkna í Eystrasaltslöndunum og anglíkanskra
kirkna í Englandi, Skotlandi, Wales og á írlandi hittust í
Þrándheimi þann 11. október síðastliðinn. Þessar kirkjur
eru aðilar eða áheyrnaraðilar að samkomulagi sem kallað
er Porvoo samfélagið og er markmið þess að efla einingu
þessara kirkna með samstarfi og viðurkenningu á em-
bættum og sakramentum.
í kveðju biskupanna til kirkna sinna segir meðal annars:
„Kirkjurnar starfa í Evrópu á tímum mikilla breytinga.
Einingarferli álfunnar er áskorun sem leiðtogar hennar
þurfa að takast á við af hugrekki og vilja til að haida fast við
sameiginleg grunngildi okkar um mannréttindi og frelsi. Við
teljum að trú og trúariðkun sé ekki ógn heldur auðgi hún
opinbert líf þjóða okkar og álfunnar allrar.
Það er hlutverk okkar allra að bera vitni frelsi fagnaðar-
erindisins, virðingu hverrar einstakrar manneskju og leggja
okkar af mörkum til þessa að bæta líf allra íbúa álfu okkar.
Mengun hefur alvarlega skaðað jörðina okkar og mis-
skipting auðs er mikil í heiminum. Við skuldbindum okkur til
að biðja fyrir og vinna að ábyrgri ráðsmennsku yfir sköpun
Guðs. Við sem búum umhverfis höfin í Norður Evrópu ber-
um fyrir brjósti lífið í þessum höfum sem eru uppspretta
fæðu fyrir okkur öll.
Hér á fundinum í Þrándheimi deilum við með þeim íbú-
um lands okkar sem eru af asískum uppruna, þeirri sorg og
ótta sem hamfarir jarðskjálfta í Asíu hefur valdið. Við biðjum
fyrir fórnarlömbunum, fjölskyldum þeirra og hjálparstarfs-
fólki. Neyðarhjálp frá öðrum löndum verður að vera nægi-
leg og áreiðanleg."
Biskupar Porvoo kirknanna á fundi í Þrándheimi, 11.
október 2005. Fremri röð frá vinstri: Bruce Cameron,
höfuðbiskup skosku biskupakirkjunnar, Jukka Parma,
erkibiskup í Finnlandi, Ftowan Williams,erkibiskup af
Kantaraborg, Englandi; Barry Morgan, erkibiskup f Wales,
John Neill, Erkibiskup, írlandi. Aftari röð frá vinstri: Andres
Pöder, erkibiskup í Eistlandi, Janis Vanacs, erkibiskup í
Lettlandi, Finn Wagle, höfuðbiskup í Noregi, KG Hammar,
erkibiskup í Svíþjóð, Mindaugas Sabutis, erkibiskup í
Litáen, Karl Sigurbjörnsson, biskup íslands, Erik Norman
Svendsen, biskup í Kaupmannahöfn.
Á næsta ári eru tíu ár frá undirritun Porvoo samningsins
og verður þess minnst með ýmsum hætti. Kirkjuleiðtogar
munu koma saman í Wales í mars og meðal annars skoða
hvernig kirkjurnar geta sameiginlega unnið að bættri
leikmannaþjálfun, eflingu trúariðkunar og Biblíuþekkingar.