Börn og menning - 01.09.2004, Page 18
16
Börn og menning
Á undanförnum 10 árum hef ég komið
víða við í barnamenningunni sem leikari,
rithöfundur og þáttastjórnandi og hefur
þessi vinna veitt mér mikla ánægju. í
þessu greinarkorni leitast ég við að miðla
til lesenda reynslu minni og skoðunum á
sjónvarpsefni fyrir börn. Þar tel ég að við
íslendingar séum í ákveðnum vandræðum í
annars ágætu samfélagi barnamenningar.
Við stöndum okkur vel í leikhúsinu og í
bókmenntunum og jafnvel i tónlistinni. En
hvers vegna erum við komin svona skammt
á veg þegar kemur að sjónvarpsefni fyrir
börn?
Felix Bergsson
Fræðsla, skemmtun og virðing
Reynslusaga úr sjónvarpi
Á árunum 1994 -1996 var ég þess heiðurs
aðnjótandi ásamt Gunnari Helgasyni að
stjórna Stundinni okkar hjá Ríkissjónvarpinu.
Þriðja aflið í þeirri vinnu var upptökustjórinn
okkar, Ragnheiður Thorsteinsson. Þegar við
þrjú komum að verkefninu fundum við strax
fyrir ákveðinni tregðu gagnvart hugmyndum
okkar. Þær þóttu of „leikhúslegar" og
við fengum oft að heyra setningar eins
og: „Þetta mun aldrei virka í sjónvarpi"
eða „Sjónvarp í dag hefur breyst. Börnin
eru vön hraðari klippingum, meiri litum,
meiri látum". Fljótlega rann upp fyrir mér
að það sem pirraði sjónvarpsmenn var
krafa okkar um að taka góðan tíma í efni
þáttarins. Menn höfðu vanist því að efnið
væri stutt og hraðsoðið. Stundin okkar
hafði á þessum tíma verið stytt úr 60 í 25
mínútur og mönnum þótti sem allt efni yrði
að vera knappt og hratt. Mikil áhersla var
á leikmyndir og upptökutækni. Það þótti
mikilvægt að allt væri litríkt og flott. Sagan
eða efnið skipti minna máli. Hvernig datt
okkur „leikhúsmönnunum" í hug að 5-7
mínútna ævintýri, sagt af einum sögumanni
sem brá sér í hlutverkin með höttum og
skuplum í stað búninga, myndi virka í
sjónvarpi? Börnin myndu aldrei una sér við
slíkt. En við vorum þrjósk. Okkar skoðun
- kannski vegna einfeldni - var sú að efnið
skipti meira máli en efnistökin. Þannig
tókum við peninga út úr sjónvarpsgerðinni
sjálfri en settum þá í að fá rithöfunda og
atvinnuleikara til samstarfs við okkur.
Lykilorð
Við unnum eftir lykilorðum fyrir hvern þátt.
Umfjöllunarefnið var alltaf eitthvað sem
við tókum úr veruleika íslenskra barna.
Lykilorðin voru margvísleg: vinir, rafmagn,
sjórinn, hræðsla, umferðin og svo framvegis.
Mottóið að baki allrar okkar vinnu var sett
fram í þremur orðum: fræðsla, skemmtun,
virðing. Ég fullyrði að þetta fór strax að skila
sér. Hver og einn þáttur stóð sem heild.
Börnin voru tilbúin að slaka á fyrir framan
sjónvarpið og athygli þeirra var gripin með
því að segja þeim sögur. Þetta var það sem
þau vildu. Hin gömlu, hægu ævintýri, sögð
með gamaldags aðferðum, urðu vinsælustu
atriðin í þáttunum. En fyrir hvað stendur
mottóið okkar í raun?