Börn og menning - 01.09.2004, Page 24

Börn og menning - 01.09.2004, Page 24
22 Börn og menning bókmenntir VORVINDAR Viðurkenningar IBBY á íslandi 2004 Laugardaginn 8. maí sl. voru Vorvinda- viðurkenningar IBBY afhentar í Norræna húsinu. Eftirtaldir hlutu viðurkenningar að þessu sinni fyrir framúrskarandi framlag til barnamenningar á íslandi: Guðni Kolbeinsson fyrir þýðingarstörf. Guðni hefur þýtt fjölmargar bækur fyrir börn og unglinga og er þekktur fyrir vandað og lipurt málfar. Kristín Helga Gunnarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir nýjustu bók sína Strandanornir. Kristín Helga hefur fyrir löngu áunnið sér sess i hjörtum íslenskra lesenda á öllum aldri. Þórunn Björnsdóttir fyrir tónlistarstarf í Kársnesskóta þar sem hún hefur verið kórstjóri frá 1975 og er löngu landsþekkt fyrir öflugt starf sitt innanlands sem utan. Þórunn tók með sér karlakvartett sem skemmti samkomugestum konunglega. Hann skipuðu fyrrverandi kórfélagar i Kársnesskóla sem ekki hafa fengið sig til að yfirgefa hreiðrið alveg. Guðni og Kristín Helga ávörpuðu gesti og birtum við tölur þeirra hér fyrir þá sem ekki gátu verið viðstaddir. Ávarp Guðna Sem ungur drengur var ég mjög viss um eigið ágæti á ýmsum sviðum og gamlir sveitungar mínir úr Laugardalnum hafa oft sagt sem svo: „Rosalega var hann nú montinn þegar hann var lítill, hann Guðni í Hólabrekku." Ég var nefnilega alinn upp við það að fá hrós fyrir það sem ég gerði vel - og þótt líka væri reynt að kenna mér að haga mér skikkanlega - sérstaklega af bæ - tókst umheiminum illa að koma því inn í höfuðið á mér að ég ætti helst að biðjast fyrirgefningar á því að gera eitthvað álíka vel og aðrir - og kannski stöku sinnum betur. Árin hafa kennt mér að láta sjálfumgleðina ekki alveg jafnberlega í Ijós og þegar ég var lítill strákur í sveitinni - og kannski dregið eitthvað úr henni. Að minnsta kosti var það svo að á sjálfshjálparnámskeiðinu sem við kennararnir í skólanum mínum vorum skikkaðir á í hitteðfyrra gekk mér bölvanlega að telja upp fimm helstu kosti mína - og það var ekki vegna þess að ég gæti ekki ráðið við mig hvaða fimm stæðu upp úr í öllum kostabunkanum. Eitt af því sem ég tel mér til kosta er að ég þykist kunna býsna vel að fara með íslenskt mál og skrifa að jafnaði allgóðan texta. Og hverju þakka ég það? Fyrst og fremst bóklestri. í uppvexti mínum var ég pasturslítill og kirtlaveikur framan af, smér vexti og því enginn áhlaupamaður til erfiðisvinnu né íþrótta. Ég lagðist því i bækur. Þar fann ég minn eigin heim; kynntist til dæmis hinum náttúrulausa Tom Swift, Bud vini hans og vinkonum þeirra tveimur; kynntist Finni og Dísu, Jonna og Önnu í ævintýrabókum Enid Blyton, horfnum góðhestum Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp sem fóru yndisspori (sem nú heitir tölt) yfir mela og grundir - hreifst af geigvænlegum þrekraunum í Hrakningum á heiðarvegum, og þá ekki síður af Gunnari á Hlíðarenda sem vó menn upp á atgeirnum og kastaði þeim út á Rangá. Við bóklestur gleymdi ég þvi hvað ég var sjálfur mikill vesalingur að líkamlegu atgervi og gat alveg orðið frægur uppfinningamaður, frækinn vígamaður, hestamaður með afbrigðum eða einstaklega ratvis ferðalangur sem lá úti í illviðrum og kom jafnan heill til byggða. Afrakstur þessarar æskuskemmtunar minnar varð alldrjúgur orðaforði og þokkaleg málkennd, þótt hún sé fjarri því að vera óbrigðul. Ég álít bóklestur gríðarlega mikilvægan þátt i málfarslegu uppeldi - og raunar öllu uppeldi - og lít á það sem mikinn heiður að fá viðurkenningu fyrir að hafa lagt mitt af mörkum til þess að íslensk börn og unglingar lesi - og heyri i upplestri foreldra sinna - góðan texta. Ég hef þá kannski goldið litla afborgun af þeirri skuld sem ég er í við íslenska bókmennt - forna og nýja. Þökk fyrir.

x

Börn og menning

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.