Fréttablaðið - 19.03.2021, Síða 12

Fréttablaðið - 19.03.2021, Síða 12
KÖRFUBOLTI Dagný Lísa Davíðs- dóttir verður á mánudaginn önnur íslenska konan og fjórði Íslend- ingurinn frá upphafi eftir því sem Fréttablaðið kemst næst til að taka þátt í úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans, marsfárinu (e. March Madness). Lið Dagnýjar, Wyoming Cowgirls, tekur í ár þátt í marsfárinu í annað sinn í sögunni en þess bíður einvígi gegn UCLA sem er að taka þátt fimmta árið í röð. Líkurnar eru UCLA hliðhollar en Dagný Lísa og stöllur koma inn í mótið á mikilli siglingu eftir að hafa unnið sex leiki í röð. Þessi 24 ára gamli Hvergerðingur hefur verið í námi í Bandaríkjunum í tæp sjö ár og leikið körfubolta samhliða náminu. „Það er þvílík spenna komin í hópinn enda er þetta mjög spenn- andi tækifæri. Þegar ég fór fyrst út, fyrir sjö árum síðan, ætlaði ég mér að komast í háskólakörfuboltann og í marsfárið. Núna tókst okkur að vinna titil og komin í marsfárið sem er ákveðinn léttir á lokaárinu,“ segir Dagný létt í lund og heldur áfram: „Ég hef ekki unnið titil áður og í raun ekki fengið mörg tækifæri til þess áður. Kannski er það ákveðin heppni að fá að enda ferilinn minn í Bandaríkjunum á þennan hátt.“ Undanfarnar vikur hefur verið leikið þétt og hver leikur skipt máli í baráttunni um að komast í mars- fárið. Um leið vann Wyoming sinn fyrsta titil í Mountain West-deild- inni. „Skólinn hefur oft verið nálægt því að komast áfram en bara einu sinni komist í marsfárið. Líkurnar voru okkur ekkert endilega í hag enda þurftum við að spila fjóra leiki á stuttum tíma þegar önnur lið léku þrjá,“ segir Hvergerðingurinn og viðurkennir að því hafi ekki gefist mikill tími til að fagna sigrunum. „Í úrslitakeppninni í deildinni okkar var lítið um fagnaðarlæti eftir sigurleikina. Við fórum bara beint í að skoða næsta andstæðing og undirbúa næsta leik. Það var í raun ekki fyrr en eftir úrslitaleikinn sem við gátum leyft okkur að fagna aðeins. Þá vissum við að við hefðum smá tíma en fagnaðarlætin voru auðvitað takmörkuð af sóttvarna- reglum. Ég og ein önnur í liðinu fengum kórónaveiruna fyrr í vetur þannig það eru mjög strangar reglur en samt eru smit að koma upp hjá öðrum liðum,“ segir Dagný. Eftir að hafa leikið fyrir Niagara University fyrstu árin í Bandaríkj- unum skipti Dagný yfir til Wyom- ing í fyrra. Meiðsli á öðru ári í Niag- ara gerðu henni kleift að fá auka ár í bandaríska háskólakörfuboltanum (e. Redshirt) og er hún því að klára aðra meistaragráðu sína í Wyoming. „Ég byrjaði í Niagara þar sem ég var í fjögur ár en vegna meiðslanna stóð til boða að leika eitt ár í viðbót. Ég fann að ég var ekki búin að fá nóg út úr þessu og vildi halda áfram og skellti mér því í annað masters- nám. Þetta er mun stærri skóli og ég er ofboðslega ánægð með að hafa tekið þessa ákvörðun.“ Þetta er aðeins í annað skiptið sem kvennalið Wyoming kemst í marsfárið og fyrsti meistaratitillinn sem liðið vinnur. „Það hefur verið frábært að taka þátt í því að vinna fyrsta titil kvennaliðsins og brjóta ísinn þar. Um leið er gott að vita hvað þetta gerir fyrir stuðningsmenn okkar sem eru meðal þeirra bestu á lands- vísu og elska liðið. Skólinn er ekki í stórborg og það er ekkert atvinnu- mannalið hér þannig að þau leggja allt í háskólaliðin og styðja vel við bakið á liðinu. Fyrir vikið verður íþróttafólkið hér að hálfgerðum stjörnum, innan sem utan vallar.“ Fyrir fram má búast við sigri UCLA en í marsfárinu skiptir styrk- leikaröðunin yfirleitt engu máli. Fyrir vikið er keppnin einn af vin- sælustu íþróttaviðburðum hvers árs vestanhafs þar sem minni spámenn slá oft í gegn á móti liðum sem eru talin sterkari á blaði. „Fegurðin er að það getur allt gerst í þessum leikjum. Marsfárið eins og það leggur sig byrjar í raun í úrslitakeppni deildanna og endar á því að lið verður meistari á lands- vísu. Í úrslitakeppninni í okkar deild vorum við í sjöunda sæti á styrkleikalistanum eftir að hafa misst marga leiki úr höndum okkar á tímabilinu en við fórum alla leið. Fyrir vikið vitum við að við getum unnið hvaða lið sem er og kunnum að mörgu leyti vel við okkur sem litla liðið á pappírnum.“ Dagný fór út aðeins sautján ára gömul og segist koma aftur til Íslands sem mun heilsteyptari leik- maður. „Ég hef tekið gríðarlegum fram- förum á þessum árum sem var ein af ástæðunum fyrir því að ég fór út á sínum tíma. Samkeppnin er meiri hér og ég hef unnið með frábærum liðsfélögum og þjálfurum, samt erum við ekki meðal tuttugu bestu liða Bandaríkjanna. Samkeppnin er slík að það drífur mann áfram að taka bætingum. Ég kem því heim sem mun heilsteyptari leikmaður,“ segir Dagný sem á von á því að leika á Íslandi á næsta tímabili. kristinnpall@frettabladid.is Kórónar frábær ár í Bandaríkjunum Dagný Lísa Davíðsdóttir verður fjórði Íslendingurinn sem tekur þátt í marsfárinu í körfubolta með liði sínu á næstu dögum. Dagný Lísa hélt sautján ára út í nám í Bandaríkjunum og var hluti af meistaraliði Wyoming á lokatímabili sínu í háskólakörfuboltanum. Dagný Lísa sem er á sjöunda tímabili sínu í Bandaríkjunum kveðst ánægð með að hafa skipt yfir til Wyoming í fyrra og tekið aukaár vestanhafs. MYND/AÐSEND FÓTBOLTI Hugbúnaðarfyrirtækið OZ fékk á dögunum verðlaun í samkeppni sem Fast Company stóð fyrir en þar var OZ valið eitt af tíu frumlegustu fyrirtækjunum í íþróttaheiminum. OZ hefur verið með ýmis verkefni á sínum snærum sem snúa að íþróttamarkaðnum, annars vegar er það þróun á hug- búnaði fyrir VAR-myndbandsdóm- gæslu og hins vegar app sem hefur það að markmiði að færa þá sem horfa á íþróttaviðburði heima í sófa nær þeirri tilfinningu að þeir séu á vellinum. Knattspyrnudómarinn Vilhjálm- ur Alvar Þórarinsson sem hefur unnið að VAR-verkefninu fyrir OZ segir hugbúnað fyrirtækisins enn vera í þróun og markmiðið sé að gera VAR eins aðgengilegt og hægt er fyrir knattspyrnusambönd. Þannig sé hugmyndin að þau geti hafið innleiðingu án þess að fara í stórar fjárfestingar á innviðum. Þannig geti dómarar unnið saman og líkt eftir því að vera í VAR-her- bergi heiman frá sér, notandi búnað sem er til á f lestum heimilum. „Við erum að miða við að dóm- arar og þeir sem noti VAR geti æft sig í því að nota myndbandsdóm- gæslu á stafrænan hátt þannig að þeir geti gert það hvar sem er og hvenær sem er,“ segir Vilhjálmur Alvar um vöruna. „Með okkar búnaði geta knatt- spyrnusambönd hafið innleiðingu á VAR án þess að fara út í mikinn kostnað. Með þessu geta dómarar æft sig í því að nota myndbands- dómgæslu í einhvern tíma áður en það er notað. Þannig kemst reynsla á það að nota kerfið sem er líklegt til þess að fækka mistökum og slípa af vankanta þegar kerfið er svo tekið í notkun,“ segir dómarinn. Lönd sem hafa verið að vinna með VAR í talsverðan tíma hafa sýnt kerfinu áhuga. FIFA hefur fengið OZ til þess að vinna fyrir sig að ákveðnu verkefni þar sem notaðar eru vörur sem fyrirtækið hefur verið að þróa og snýr að myndbandsdómgæslu. Þá segir Vilhjálmur Alvar að við- ræður standi yfir við knattspyrnu- sambönd um mögulegt samstarf á næstu misserum. – hó OZ í viðræðum um samstarf með VAR Dagný Lísa er fjórði Íslendingurinn sem kemst í marsfárið í bandaríska háskólakörfuboltanum á eftir Helenu Sverrisdóttur (2009), Frank Aaroni Booker (2015) og Jóni Axeli Guðmundssyni (2018). Damir Skomina var fyrstur til að nota VAR á Íslandi á síðasta ári. 1 9 . M A R S 2 0 2 1 F Ö S T U D A G U R12 S P O R T ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð SPORT

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.