Morgunblaðið - 29.01.2021, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 29.01.2021, Blaðsíða 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 29. JANÚAR 2021 hafði mikið keppnisskap sem birtist sérstaklega á körfubolta- vellinum. Það var því oft erfitt að eiga við hann einn á móti einum, þar sem heiðurinn var að veði. Stebbi hafði strax sem barn einstakt lag á því að fá fólk til þess að vinna saman. Hann hafði frumkvæði að því að halda fót- boltamót á milli bekkja á miðstigi í Snælandsskóla, sat í nemenda- ráði og var fastráðinn kynnir á öllum bekkjarskemmtunum. Síð- ar átti hann eftir að nýta þessa hæfileika á ýmsum sviðum, bæði í einkalífinu sem fyrirmyndar- fjölskyldufaðir en einnig naut hann mikillar velgengni í öllum þeim störfum sem hann tók að sér. Útgeislun hans náði til fólks og Stebbi náði að fanga athygli allra í kringum sig. Elsku Stebbi minn, mikið rosalega þykir mér vænt um þig góði vinur og mikið sakna ég þín. Ég ylja mér við góðar minn- ingar. Elsku Silla, Kristófer, Rúnar og Ingimar, hugur minn er hjá ykkur. Þinn vinur, Kristinn Sverrisson. Stebbi kom inn í líf mitt og okkar vinkvennanna þegar við vorum unglingar. Stebbi var kærastinn hennar Sillu okkar. Fljótlega varð hann mikið meira en bara það. Hann varð traustur og góður vinur. Stebbi tók það sem hann gerði með trompi. Allt sem hann tók sér fyrir hendur gerði hann vel. Eitt af því var að styðja við bakið á Sillu í handboltanum. Við stelp- urnar nutum hans stuðnings ekki síður. Hann lét sér ekki nægja að mæta á pallana eins og flestir. Rétt rúmlega tvítugur var Stebbi kominn í meistaraflokksráð kvenna og varð síðar formaður handknattleiksdeildar Vals, því næst fjármálastjóri félagsins og svo framkvæmdastjóri þess. Eft- ir að strákarnir fæddust studdi hann við bakið á þeim, var þeim frábær faðir og fyrirmynd, svo eftir var tekið. Svona var hann Stebbi, hann lét sitt ekki eftir liggja. Hann vildi Sillu allt það besta, eins og drengjunum sínum, fólkinu og fé- laginu. Stebbi var okkar besti maður. Sannur dáðadrengur. Þegar ég hélt upp á 40 ára af- mælið fyrir rúmu ári var Stebbi að sjálfstöðu mættur. Þegar gleðskapnum þurfti að ljúka í Fjósinu, félagsheimili okkar Valsara, langaði mig að halda áfram að fagna með því að fara á stað sem vinahópurinn fer gjarn- an á þegar glatt er á hjalla. Það leist Stebba vel á enda var hann alltaf til í að hafa gaman. Stebbi tók ekki í mál að einhver úr nán- asta vinahópnum færi heim og talaði um fyrir þeim sem voru á þeim buxunum. Áfram skyldi haldið við að gleðja afmælisbarn- ið. Þetta væri mitt kvöld, það ætti að vera eftirminnilegt og eft- ir mínu höfði. Auðvitað fylgdu allir fyrirmælum Stebba og við dönsuðum saman inn í nóttina. Þetta lýsir Stebba. Hann var leiðtogi í sínum hópi og vildi öðr- um alltaf svo innilega vel. Þrátt fyrir að sorgin sé svo nístandi sár finn ég líka fyrir svo miklu þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem ég átti með Stebba og Sillu. Síðasta sumar tóku þau mig upp á sína arma og buðu mér alltaf með sér á golf- völlinn. Um sumarið og haustið spiluðum við ófáa hringi saman. Ég byrjandi, Silla betri en Stebbi auðvitað góður. Hann var góður í öllu. Stebbi var óþreytandi að hrósa mér, leiðbeina og gera góð- látlegt grín að mér þegar ég lenti úti í mýri. Þetta voru mínar bestu stundir síðasta ár. Það var bara svo gott og auðvelt að um- gangast Stebba. Það var mann- bætandi. Ég lofa þér Stebbi minn að ég mun láta minningarnar ylja. Elsku Silla, Kristófer, Rúnar og Ingimar. Missir ykkar er ólýs- anlegur. Ég vildi óska að ég hefði nægilega sterk orð til að segja ykkur hversu mikið ég sam- hryggist ykkur. Mínar innilegustu samúðar- kveðjur sendi ég fjölskyldu Stebba og öllum hans vinum. Missir ykkar er líka mikill. Sofðu rótt dáðadrengurinn minn. Þín vinkona, Hafrún Kristjánsdóttir. Hinsta kveðja! Hver hefði trúað því að við sætum hér og rifjuðum upp allt það góða sem einkenndi okkar kæra vin, Stefán Karlsson? En því miður vitum við að vegir lífs- ins eru órannsakanlegir og eng- inn veit hvað leynist í hugskoti okkar nánustu. Við urðum þeirrar gæfu að- njótandi að kynnast Stefáni í gegnum tuttugu ára starf hans fyrir Knattspyrnufélagið Val. Það var mikill happafengur þegar Silla konan hans fékk hann til að koma úr Kópavogi til starfa á Hlíðarenda enda fáir félagar hon- um traustari og tryggari. Stefán vann fjölmörg ábyrgð- arstörf fyrir félagið, bæði sem fjármála- og markaðsstjóri, fram- kvæmdastjóri, stjórnarmaður og formaður í handknattleiksdeild- inni. Í gegnum árin tók Stefán að sér ýmis tilfallandi störf fyrir fé- lagið, allt var unnið af vandvirkni með bros á vör og gott viðmót var það sem mætti öllum sem sam- skipti áttu við hann. Við unnum þétt saman í gegn- um árin og á milli okkar skap- aðist traust, samheldni og innileg vinátta enda erfitt að finna vinnu- samari, ábyrgari eða betri vin en Stefán. Stefán var mikill fjölskyldu- maður og í raun má segja að líf þeirra hjóna hafi snúist að stórum hluta um handbolta og gefandi samverustundir með fjöl- skyldu og vinum. Við fylgdumst með Stefáni setja sér markmið, sáum hann vinna að þeim, lagði oft mikið á sig og uppskar í sam- ræmi við það. Að leiðarlokum viljum við þakka Stefáni fyrir trygga vin- áttu og farsælt samstarf. Við get- um yljað okkur við ótal góðar minningar sem samveran með Stefáni gaf okkur enda erum við sannfærð um að vinátta Stefáns auðgaði líf okkar. Það er erfitt að sjá fyrir sér Hlíðarenda án Stef- áns og skarð hans í vinahópnum verður ekki fyllt. Við óskum þess að góður Guð styrki Sillu, Krist- ófer, Rúnar, Ingimar og fjöl- skyldu í þeirra miklu sorg. Bless- uð sé minning gengins góðs vinar. Hörður og Fanný, Sveinn og Dagný. Kær vinur er fallinn frá. Eftir sitjum við skilningsvana og með hjartað fullt af sorg. Allir sem þekktu Stefán Karlsson vita að þar fór góður drengur og gull af manni. Hugulsamur, eldklár og skemmtilegur eru orðin sem fyrst koma upp í hugann til að lýsa Stebba eins og hann var þeg- ar við kynntumst honum fyrst fyrir öllum þessum árum. Þessi orð eiga enn við þótt tíminn hafi liðið en eftir að við urðum full- orðin bættust fleiri orð við; fjöl- skyldumaður, traustur vinur og fyrirmynd eru orð sem lýsa hon- um hvað best. Við njótum þeirrar lukku að vinahópurinn okkar er þéttur en með fráfalli Stebba hefur stórt skarð verið höggvið í hann sem ekki verður fyllt. Þótt við séum svo miklu fátækari eftir erum við samt rík af minningum en þær eru margar og dýrmætar eftir meira en tuttugu ára vináttu. Þær sefa sorgina þegar frá líður. Elsku Stebbi, við gerum okkar allra besta til að passa vel upp á Sillu þína og strákana. Þín Lilja, Vignir (Viggi) og fjölskylda. Missir Controlant er mikill. Vinnufélagi og kær vinur er fall- inn frá langt fyrir aldur fram. Stebbi var þeim eiginleika gæddur að ná til allra, vildi allt fyrir alla gera. Hann var sá sem nýir starfsmenn hittu fyrst og fundu strax að hann geymdi hjarta og sál Controlant-fjöl- skyldunnar. Hann smitaði okkur öll af gleði sinni og jákvæðni. Árangur okkar í dag byggist vissulega á góðri tækni og fram- sæknum hugmyndum stofnenda Controlant; Stebba, Gísla, Ella, Atla og Trausta. Þar hafa marg- ir lagt hönd á plóginn því góð hugmynd og tækni duga ekki ein og sér. Þegar upp er staðið snýst þetta allt um fólk. Sköpum skiptir að safna saman besta fólkinu til þess að ná framúr- skarandi árangri, ekki bara á líð- andi stundu heldur um ókomna tíð og mynda farveg þar sem fólk fær tækifæri til að gera sitt allra besta og njóta sín í starfi með göfugt markmið að leiðar- ljósi. Það gerði Stebbi; þannig leið okkur í návist Stebba. Eitt af gildum Controlant er „fun“ og það lýsir Stebba vel, það er Stebbi. Gleði blandin um- hyggja og hjartahlýja streymdi í gegnum öll hans verk og lýstu sem sól á markmið og ásetning okkar sem störfuðum með hon- um. Stebbi sannaði á hverjum degi að „eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt“. Blessaðar séu minningarnar um Stebba, þessa fallegu mann- eskju, sem kunni þá list svo vel að brosa með sálinni allri. Fyrir betri heimi munum við öll leggja okkur fram um að tileinka okkur eiginleika hjartfólgins leiðtoga og fyrirmyndar. Kæru Silla, Kristófer, Rúnar og Ingimar, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Fyrir hönd samstarfsfélaga, Aðalheiður Pálmadóttir. Þegar við systkinin minnumst þín koma þó nokkur atriði upp í huga okkar sem við viljum deila með öðrum. Þú varst nefnilega fyrirmynd okkar allra! Þú varst alltaf fyrstur til að bjóða fram aðstoð, sama hvort um var að ræða hjálp í námi, lífi eða skítmokstri. Þú varst ætíð áhugasamur um okkur, spurðir af einlægni hvað við værum að fást við á hverri stundu og hlustaðir af vand- virkni. Gleðin sem umvafði þig og geislaði frá þér mun lýsa okkur leiðina áfram og minningarnar um þig hlýja okkur um hjarta- rætur. Þú ert og verður okkar fyr- irmynd! Hanna Valdís, Helgi Karl og Maria. Elsku besti Stefán okkar er farinn alltof snemma. Það er óhugsandi að hann birtist ekki aftur með brosið sem var ein- kennismerki hans og faðminn opinn. Það var lífsins lukka þeg- ar við röðuðumst saman í vinnu- hóp í MBA-náminu. Hópur 5 varð strax Hópurinn með stóru H. Sérhannað lógó, vefsíða, síma- númer með símsvörun, búningur og háleit plön. „All in“ frá upp- hafi. Einstök vinátta sem mynd- aðist og heldur ævina á enda. Þín hefði átt að vera miklu lengri kæri vinur. Stebbi var „all in“ í öllu sem hann gerði. Hann virtist eiga alla vini heimsins og einu skiptin sem það var vesen var þegar hann hringdi afsakandi í okkur til að láta vita að hann hefði færst að- eins of mikið í fang, hann var tví- ef ekki þríbókaður í einhverja vinahittinga og þurfti að fá leyfi til að hnika dagskrá svo hann næði að sinna öllum. Að öðru leyti var aldrei vesen. Hann hafði einstakt lag á að sameina sjón- armið, leyfa okkur öllum að láta ljós okkar skína í hópverkefnun- um en koma svo í skjóli nætur og snurfusa eitt og annað – oft án þess að við vissum af – við feng- um bara að vera í styrkleikunum okkar. Svona var Stefán. Hann var óþrjótandi í að gefa af sér til allra í kringum sig en sparari á að þiggja. Við erum þakklát fyrir hafsjó minninga þótt það sé ekki svo langt síðan við kynntumst enda hver hittingur ævintýri. Köben, New York, Boston, Sigló. Hebbi, Maggi, Jólasveinn í september, listgjörningar, Frikki Dór, Elvis og hann að sjálfsögðu töfraður úr skyrtunni. Stebba fannst fátt skemmtilegra en að standa að óvæntum uppákomum sem gerðu samverustundir okkar enn eftir- minnilegri. Hann kunni að skapa stemningu, halda uppi fjörinu og tryggja að allir nytu sín. Við minnumst með hlýju síðasta hitt- ingsins með Stefáni í aðdraganda jóla, hann nýbúinn að jafna sig á Covid og þar af leiðandi með mótefnið eftirsótta. Við fengum því öll Stebbaknúsið sem var það allra besta. Elsku Stefán – það verður seint hægt að færa í orð hvað þú varst einstakur. Hlýr, eldklár, hógværðin uppmáluð með hjarta úr gulli. Elsku vinur, við munum sakna þín. Nú og alla daga. Mun- um þig brosandi, alltaf á tánum, tékka hvort ekki allir væru í góðu og lofum því að það verður ekki neitt vesen! Elsku Silla, Krist- ófer, Ingimar og Rúnar, hugur okkar er hjá ykkur, minning um einstakan mann mun lifa. Skilyrðislaust elsku vinur, skilyrðislaust! Arnþór, Elva, Sif og Yngvi. Minnst er manns með risa- stórt hjarta, kærleiksríkt breitt bros og létta lund. Það ríkir ólýsanleg sorg í hjörtum okkar hóps eins og svo margra annarra. Stefán var vin- margur og vinsæll enda einstakt gull af manni og missir okkar allra er mikill. Árið 2016 hófum við MBA-nám í Háskólanum í Reykjavík. Við vorum 46 manna hópur úr öllum áttum og okkar á meðal leyndist Stefán sem fljótt varð lykilmaður. Brosmildur og hlýr með hæfileika til að hlusta af áhuga á okkur öll um hugðarefni okkar. Réttsýnn og fær um að draga það besta fram hjá náung- anum. Sá okkar sem við höfum flest, ef ekki öll, leitað til með einhver mál sem þörfnuðust úr- lausnar enda var Stefán úrræða- góður og eldklár þótt hann væri ekki mikið að hampa því. Hann fór vel með sitt. Stefán lýsti upp veröldina með nærveru sinni. Hann var fyrstur inn í partíin og síðastur út, fyrst- ur á dansgólfið og við hin fylgd- um síðan á eftir – oftar en ekki með bindið um höfuðið. Hann létti alla stemningu, var lítið gefinn fyrir vesen en einlæg- ur þegar hann opnaði sig. Þessi tvö ár sem námið tók var ferða- lag fyrir okkur öll. Í náminu lærðum við ekki síður af sam- nemendum og hann Stebbi gerði okkur öll að ríkari, betri og dýpri einstaklingum. Á þessum tveimur árum mynduðust afar traust bönd. Síð- astliðna daga höfum við þétt rað- ir okkar enn á ný, sameinast í sorg, en jafnframt yljað okkur við svo ótalmargar minningar um einstakan og ómetanlegan félaga og vin. Myndirnar sem við eigum af Stefáni eru óteljandi, enda myndaðist hann svo vel, fallegur að innan og utan, alltaf brosir hann sínu breiðasta, alltaf að gefa af sér, alltaf að vera góður vinur og hrókur alls fagnaðar. Við erum auðmjúk og þakklát fyrir að hafa kynnst Stefáni og fyrir allar samverustundirnar. Fyrir hlátursköstin sem hófust með honum og leið hans til að létta stemninguna, fyrir brosið breiða og kærleikann sem hann sýndi okkur öllum. Við munum halda minningu hans á lofti í okk- ar hópi og leitast við að endur- spegla hans góðu gildi. Faðma hvert annað fastar, sýna um- hyggju og umfram allt vera til staðar hvert fyrir annað eins og Stefán var fyrir okkur. Hugur okkar og hjarta er hjá Sillu, Kristófer, Rúnari og Ingi- mar og þeim sendum við alla okkar hlýju, kærleika og styrk. Kærleikurinn lifir um ókomna tíð. F.h. MBA 2018 hópsins, Gróa Helga. Mín fyrstu kynni af Stefáni voru þegar hann birtist í tengslum við hluthafafund og var ekki orðinn starfsmaður Control- ant að nýju. Í ungu og smáu ný- sköpunarfyrirtæki er ekki verið að velta sér mikið upp úr form- legheitum, frekar að láta hlutina ganga, og því fór lítið fyrir kynn- ingu á manninum og því var mér óljóst hver hann væri, hugsaði sem svo að þarna væri sjálfsagt einn hluthafi félagsins. Mér er tamt, eftir ríflega áratuga veru á fyrrverandi vinnustað þar sem býsna mikill fókus er á það hvernig menn ganga, og enn ekki rjátlast af mér; að taka eftir göngulagi manna. Einmitt þess vegna tók ég eftir hvernig Stebbi gekk – eins og hann væri ávallt hálfpartinn að stíga vörn í hand- bolta og minnisstætt þegar hann valsaði um þröng húsakynni á Grensásveginum og í þokkabót eins og hann einhvern veginn ætti þetta allt saman. Þetta var mín fyrsta greining á Stebba. Síðan, eftir að mér var kunnugt um hver þessi öðlingur væri, var það deginum ljósara að hann átti þetta, sem einn af upprunalegum stofnendum félagsins og mikill Valsari í þokkabót, þótt úr Kópa- voginum kæmi. Þetta með göngulagið læt ég liggja á milli hluta. Svokölluð „111-kenning“ er ein af mínum uppáhalds í við- skiptum; 1 fyrir hugmyndina, 10 fyrir að koma henni í fram- kvæmd og 100 fyrir sjálfbærni og að hagnast af tilverknaðinum. Að hafa hugmynd eða lausn, koma henni tæknilega á legg, byggja upp viðskiptaáætlanir, gera kynningar og afla viðskipta- tengsla er oft það augljósa þegar litið er til efnilegra nýsköpunar- fyrirtækja og því hampað á tíma- mótum. Þetta frá 10 og upp í 100 er hins vegar þar sem virkilega reynir á. Það eru ótalmörg hand- tökin sem þarf að inna af hendi og í mýmörg horn að líta – og það var einmitt þar sem Stebbi lét einkum til sín taka. Stebbi brann af hug og hjarta fyrir framgangi Controlant. Hans óbilandi áhugi og trú á vexti og framgangi fé- lagsins var ótæmandi. Ekkert verk, lítið eða stórt, var honum óviðkomandi og hann myndaði, með beinum og óbeinum hætti, kúltúr félagsins – nokkuð sem hann hlúði stöðugt að og viðhélt. Hans létta lund og atorka sáu til þess. Á fámennum, fjörugum og öflugum vinnustað sem við bjuggum við á Grensás var óhjá- kvæmilegt að kynnast náið, mik- ið gantast og grínast, allt mögu- legt. Öflug vinatengsl flestra SJÁ SÍÐU 22 Okkar ástkæri eiginmaður, faðir, fóstri, tengdafaðir, afi og langafi, GUÐMUNDUR EINARSSON, Suðurhópi 1, Grindavík, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sunnudaginn 24. janúar. Útförin fer fram frá Grindavíkurkirkju mánudaginn 1. febrúar klukkan 15 að viðstöddum fjölskyldu og nánustu vinum. Streymt verður frá athöfninni á slóðinni: https://youtu.be/EooqBf3zicU Þökkum auðsýnda samúð. Guðrún H. Jóhannesdóttir Bjarki Guðmundsson Margrét Magnúsdóttir Víðir Guðmundsson Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Fríða Egilsdóttir Bergsteinn Ólafsson afa- og langafabörn Elsku eiginmaður, faðir, tengdafaðir, afi og langafi okkar, HAUKUR HELGASON, fv. skólastjóri, sem lést 22. janúar, verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði mánudaginn 1. febrúar klukkan 13. Nánustu aðstandendur verða við athöfnina og henni streymt: https://youtu.be/S-m1UuSDCLg Sigrún Davíðsdóttir Helgi J. Hauksson Unnur A. Hauksdóttir Alda M. Hauksdóttir tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, JÓN V. JÓHANNESSON, Espihóli, Eyjafjarðarsveit, lést 23. janúar. Útför hans fer fram frá Grundarkirkju föstudaginn 5. febrúar klukkan 13:30. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu verða einungis nánustu ættingjar viðstaddir en athöfninni verður streymt á facebooksíðunni Jarðarfarir í Grundarkirkju – beinar útsendingar. Sigrún Eydís Jónsdóttir Guðmundur Bj. Guðmundsson Kristinn Viðar Jónsson Ásta Guðrún Sveinsdóttir Jóhannes Ævar Jónsson Sigurlaug Björnsdóttir Valgerður Anna Jónsdóttir Rúnar Ísleifsson barnabörn og barnabarnabörn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.