Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.02.2021, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.02.2021, Blaðsíða 12
VIÐTAL 12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14.2. 2021 P assaðu þig! Það kemur varðhundur á móti þér,“ kallar Óskar Finns- son hátt og snjallt niður stigann til mín. Ég set mig í stellingar en öll spenna líður úr mér um leið og ég sé heimilishundinn Lion V. enda er hann af gerðinni Yorkshire Terrier og stendur frómt frá sagt varla upp úr gólfinu. Upplifir sig þó ugglaust margfalt stærri, eins og gjarnt er með smáhunda. Og sterkan eftir því. Lion V. er, svo sem rómverska talan gefur til kynna, fimmta gæludýr Óskars og fjölskyldu með téðu nafni en það hafa bæði verið hundar og kanínur sem hlotið hafa misjöfn örlög. Óskar tekur glaðlega á móti mér og ekkert í fasi hans bendir til þess að hann sé að glíma við erfið veikindi. Ég hef orð á þessu og hann svarar því til að þetta sé góður dagur hjá sér. „Síðan gætir þú rekist á mig úti í búð á morg- un og ég aðeins verið skugginn af sjálfum mér. Það getur verið mikill dagamunur á mér.“ Við komum okkur fyrir við eldhúsborðið og Óskar býður upp á Herbalife-te sem reynist ljúffengt. Hann hleypti Herbalife inn í líf sitt fyrir meira en tuttugu árum og segir það hafa gert sér mjög gott – og geri enn. „Ég var orð- inn of þungur á þeim tíma og vinir mínir Jón Óttar [Ragnarsson] og Magga [Margrét Hrafnsdóttir] grípu í taumana og kynntu mér töfra Herbalife. Allar götur síðan hefur þetta verið hluti af mínum lífsstíl,“ segir hann. Við horfum út um eldhúsgluggann og ys og þys er á bensínstöðinni handan götunnar en Óskar býr í Húsahverfinu í Grafarvogi. „Þegar við keyptum þessa íbúð fyrir rúmu ári fannst mér þetta ótvíræður galli. Mig langaði ekki að búa á bensínstöð,“ útskýrir hann hlæjandi. „En við létum það þó ekki stöðva okkur, enda íbúðin frábær, við stækkuðum við okkar, erum hérna í 200 fermetrum á tveimur hæðum, þannig að krakkarnir eru með sér efri hæð. Ég er Sigga bróður innilega þakklátur því hann mætti með hóp manna og snýtti íbúðinni á nokkrum dögum þannig að hún leit út eins og ný. Vegna veikinda minna hef ég verið mikið einn heima á daginn síðasta árið og ég við- urkenni að það gefur mér mikið að fylgjast með mannlífinu á bensínstöðinni.“ Já, maður er manns gaman og hvern getur bensínstöð svo sem svikið? Vann ekki næst- frægasta þríeyki Íslandssögunnar á bensín- stöð, Ólafur Ragnar, Daníel og Georg Bjarn- freðarson? Og skemmti sér og þjóðinni hið besta. Meira en flensa Margir kannast við Óskar úr veitingabrans- anum, þar sem hann hefur verið áberandi und- anfarna þrjá áratugi. Hugmyndaríkur og atorkusamur. Líf hans breyttist á hinn bóginn sem hendi væri veifað á Þorláksmessu 2019. Sá dagur hófst raunar eins og hver annar, jóla- stúss og ræktin í hádeginu. Eftir það hringdi Klara, dóttir Óskars, í hann og spurði hvort hann hefði tök á að koma og hjálpa til við eftir- réttina á veitingastaðnum GOTT Reykjavík, þar sem hún var einn af eigendum og rekstrar- stjóri. Það var auðsótt. „Fljótlega eftir að ég mætti á GOTT fór ég að finna til í höfðinu og barmaði mér yfir því að flensa væri að hellast yfir mig svona rétt fyrir jólin. Verkurinn ágerðist hins vegar og ég átt- aði mig smám saman á því að þetta væri ekki flensa. Ég entist í þrjá tíma á veitingastaðnum en þá fór konan mín með mig heim. Ég yrði að hvíla mig. Ég var alveg að drepast þegar við komum heim; fór úr úlpunni og lagðist beint í sófann. Þegar hér er komið sögu gat ég varla hreyft mig. Það var eins og ég væri með hníf í höfðinu.“ Maríu Hjaltadóttur, eiginkonu Óskars, varð ekki um sel og hringdi beint í Neyðarlínuna. „Hún þurfti reyndar að byrja á því að sann- færa 112 um að ég væri ekki fullur; hefði ekki drukkið dropa í tæp þrjátíu ár,“ segir Óskar sposkur. „Síðan kom sjúkrabíll og sótti mig og flutti á bráðamóttökuna. Þangað var ég kom- inn um klukkan ellefu um kvöldið. Ég var skoðaður í bak og fyrir og myndir teknar og ég engdist allan tímann af kvölum; það var eins og höfuðið á mér væri að springa. Það var ekki fyrr en komið var með fullorðinsskammt af morfíni að mér fór að líða betur.“ Ótrúlegt sjokk Vakthafandi læknir hafði símasamband við Halldór Skúlason, heila- og taugaskurðlækni, og bað hann um að kíkja á höfuðmyndirnar í tölvunni sinni heima. Í framhaldi af því tók hann ákvörðun um að ræsa út mannskap til þess að taka MRI-skönnun af höfðinu. Þetta var um kl. 3 aðfaranótt aðfangadags. „Finnur, yngsti sonurinn, og Klara ásamt Maríu voru hjá mér þangað til ég fór í MRI-skannann. Þá var ákveðið að þau færu heim og María og Guðfinnur, elsti strákurinn minn, kæmu kl. 8 um morguninn.“ Halldór mætti síðan á spítalann um kl. 7:30 á aðfangadagsmorgun og sagði að myndir sýndu að fyrirferð á stærð við meðalsítrónu væri í höfðinu á Óskari. „Hann lagði þó áherslu á að ekki væri vitað hvað þetta væri og engin ástæða til að draga neinar ályktanir. Hálftíma síðar fór hann betur í gegnum þetta með eig- inkonu minni og Guffa, þegar þau mættu á staðinn. Framundan væri aðgerð af stærstu gerð en ekki væri laust í hana fyrr en eftir um mánuð, í lok janúar. Maður var engan veginn að ná þessu. Ég meina, ég hafði vaknað full- frískur, að ég taldi, daginn áður. Allt í einu var ég á leið í stóra aðgerð á höfði.“ Á jóladag fékk Óskar þau tíðindi að aðgerð- inni hefði verið flýtt; hann yrði fyrsti maður undir hnífinn á nýju ári. „Eftir sem áður var mér sagt að hafa ekki áhyggjur. Það var ekki fyrr en seinna að ég komst að því að annar sjúklingur hafði gefið eftir sinn tíma svo hægt væri að flýta aðgerðinni minni.“ Biðin var erfið Hann fékk að skreppa heim á jóladag en sneri aftur á spítalann fyrir nóttina. Búið var að dæla í hann sterum til að freista þess að minnka bólgurnar við heilann. „Biðin eftir aðgerðinni var erfið, ég get al- veg viðurkennt það, enda hugsaði maður ým- islegt á meðan. Gagnvart fjölskyldunni var ég samt alltaf jákvæður; sagði þeim að hafa ekki áhyggjur, læknarnir myndu bara hreinsa meinið út og allt yrði í góðu. Lífið héldi áfram.“ Aðgerðin fór fram 6. janúar og heppnaðist vel. Stór hluti meinsins var skorinn burt, eða um það bil 90%. Við tók tíu daga bið eftir niðurstöðum sýna. 17. janúar, á afmælisdegi Klöru, dóttur Óskars, rann svo stund sannleik- ans upp. „Þegar við hjónin mættum til Halldórs kom hann sér beint að efninu. Hann hefði því miður ekki góðar fréttir handa okkur. Þetta væri ill- kynja æxli af verstu gerð, Glioblastoma, komið á fjórða stig. Hvernig gat það verið? Ég sem hafði ekki fundið fyrir neinu fyrr en á Þorláks- messu og ekki verið með nein einkenni. María brotnaði eðlilega niður og spurði hvað þetta þýddi. Lifir hann bara í tíu ár, fimm? Halldór svaraði því ekki beint en staðfesti að þetta væri eins slæmt og gæti orðið.“ Flæddi bara fram – Hver voru þín fyrstu viðbrögð? „Ég byrjaði á því að fara með æðruleysis- bænina mína, sem ég lærði í AA-samtökunum. Síðan kom bara yfir mig ofboðslegt þakklæti. Ég þakkaði fyrst Halldóri fyrir það sem hann hefði gert fyrir mig og hvernig hann hefði höndlað þetta allt saman. Síðan varð mér hugsað til eiginkonu minnar og barnanna þriggja, sem ég er óendanlega stoltur af. Ég hugsaði líka um það hversu lánsamur ég hefði verið í starfi; árin dásamlegu á Argentínu steikhúsi og árin þrettán sem við fjölskyldan bjuggum erlendis. Ég hef borðað góðan mat í öllum heimsálfum, eldað ofan í ráðherra, for- seta, kónga og Guð má vita hverja. Ég féll á samræmdu prófunum en um leið og ég kynnt- ist eldhúsinu var ég á grænni grein í lífinu. Frúin starði bara undrandi á mig og hélt að ég hefði æft þessa ræðu. Svo var ekki, þetta flæddi bara fram þarna á staðnum.“ Eftir þennan mikla skell lá leiðin heim, þangað sem búið var að stefna börnunum þremur, Klöru, Finni og Guðfinni Þóri og tengdadótturinni Sigrúnu Eggertsdóttur til að færa þeim fréttirnar. „Við höfðum ekki gert mjög mikið úr þessum veikindum mínum enda bjartsýn á að allt yrði í lagi og það var gríðar- lega erfitt að tilkynna börnunum niðurstöðuna úr rannsókninni. Á því augnabliki brotnaði ég niður,“ segir Óskar og gerir hlé á máli sínu meðan tilfinningarnar hellast yfir hann. „Þetta tók rosalega á og er það langerfiðasta sem ég hef þurft að gera um dagana,“ bætir hann við, þegar hann er búinn að jafna sig á Hver hefur gefið þér leyfi til að deyja? Óskar Finnsson matreiðslumeistari greindist með ólæknandi krabbamein í höfði, Glioblastoma, fyrir rúmu ári. Hann hefur mætt veikindum sínum af æðruleysi og lofað fjölskyldu sinni að gera allt sem í hans valdi stendur til að lengja tíma sinn með henni en að meðaltali lifir fólk, sem greinist með krabba- mein af þessu tagi, ekki nema í hálft annað ár. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.