Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.03.2021, Síða 8
VIÐTAL
8 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 28.3. 2021
Í
fyrirtækinu Íslenskri hollustu má sjá í
hillum te, krydd, vínflöskur, berjasaft,
þurrkuð söl og fjallagrös, og allt í afar
fallegum umbúðum. Blaðamanni er boð-
ið inn og fær strax smakk af dýrindis
bláberjasafa sem rennur ljúflega niður. Eig-
andinn, Eyjólfur Friðgeirsson, stendur þar
vaktina og slær ekki af þótt hann sé kominn
hátt á áttræðisaldur, en fyrirtækið sérhæfir
sig í sölu á íslenskum heilsuvörum búnum til
úr úrvals hráefnum úr íslenskri náttúru.
Eyjólfur hefur komið víða við; hann bjó í
Sovétríkjunum á námsárunum, var á sjó,
stundaði fiskeldi, dvaldi í munkaklaustrum og
hefur rekið fyrirtæki sitt, sem sífellt setur nýj-
ar heilsuvörur á markaðinn. Eyjólfur talar af
yfirvegun og ró, enda ekki að undra. Hann er
nefnilega zen-búddamunkur.
Líffræði á rússnesku
„Ég fór mjög ungur að heiman og fór í skóla.
Eftir menntaskólann og stýrimannaskólann
fór ég árið 1967 í líffræðinám til Moskvu. Þetta
var bara Sovét!“ segir Eyjólfur og neitar að
hafa verið kommúnisti þegar hann fór þangað.
„En ég hef nú verið vinstrisinnaður í gegn-
um tíðina.“
Eyjólfur segir námsárin hafa verið dásam-
leg. Hann ber Rússunum vel söguna og segist
hafa haft það gott, enda á fínum námsstyrk.
„Þetta er svo langt síðan. Á þessum tíma var
ekkert hægt að hringja heim nema með erf-
iðismunum og bréf voru mánuði á leiðinni. Ég
fór þangað einn, en konan mín, Bergþóra Ein-
arsdóttir, kom svo seinna og var í nokkur ár en
ég kynntist henni áður en ég fór út. Hún lærði
rússnesku þarna og var svo lengi blaðamaður
fyrir APN-fréttastofuna. Í Moskvu kláraði ég
meistarapróf í líffræði með fiskifræði sem sér-
grein,“ segir hann en hann bjó þar í sex ár og
lærði þá reiprennandi rússnesku.
„Það var allt kennt á rússnesku. Það vildi
mér til happs að þá var nýkomin út rússnesk-
dönsk orðabók. Ég þurfti bara að setja undir
mig hausinn, læra rússnesku og þræla mér í
gegnum námsbækurnar með hjálp dönsku
orðabókarinnar.“
Var KGB ekkert að fylgjast með þér?
„Það getur vel verið, ég hafði aldrei neinar
áhyggjur af því. Ég var bara ungur og
áhyggjulaus.“
Hugmynd kviknaði í klaustri
Eftir heimkomuna frá Moskvu fékk Eyjólfur
vinnu hjá Hafrannsóknastofnun þar sem hann
vann í rúman áratug.
„Þá fór ég yfir í fiskeldi og vann við það
lengi. Ég hef nú verið að gera hitt og þetta,
unnið á sjó til dæmis. Svo gerðist ég búddisti,“
segir hann.
„Ég hef haft áhuga á búddisma frá því ég
var ungur og fór svo að iðka hugleiðslu með
zen-búddistum hérna heima fyrir örugglega
þrjátíu árum . Ég er í dag vígður munkur. Á
Íslandi erum við í tengslum við búddista sem
eru í Kaliforníu Þeir eru tengdir zen-
búddistum í Japan. Það eru hér að minnsta
kosti á annað hundrað íslenskir búddistar,“
segir Eyjólfur.
„Ég hef farið mikið í klaustur erlendis, eins
og til Sonomasvæðisins í Kaliforníu. Þar er
aðalklaustrið okkar. Ábótinn þar er minn gúrú
og það var hann sem vígði mig á sínum tíma.
Svo hef ég oft farið í klaustur í Suður Frakk-
landi, Kanshosji, og er þá þar í einn til þrjá
mánuði í senn,“ segir Eyjólfur.
„Ég fór til Sonoma vorið 2005 og bjó í
klaustrinu í þrjá mánuði. Þar er mikið af jap-
önskum mat á borðum og notað mikið af þara, í
mísó-súpur og hitt og þetta. Það kveikti áhuga
minn og þegar ég kom heim fór ég að skoða
þetta. Ég fór að tína þara og lesa mér til en
hann hafði þá sáralítið verið notaður hér
heima. Upp úr því stofnaði ég þetta fyrirtæki,
Íslenska hollustu sem hét upphaflega Hollusta
úr hafinu. Þá var ég nær eingöngu með þara
en smám saman næstu ár fór ég að safna ís-
lenskum jurtum og tína ber. Í dag eru þetta
meginstoðir fyrirtækisins; þarinn, jurtir og
ber. Úr því hráefni gerum við lúxusvörur,“
segir Eyjólfur og segir vörurnar frá Íslenskri
hollustu aðallega fást í sérverslunum, s.s.
Fjarðarkaupum, Melabúðinni, Frú Laugu,
heilsubúðum og á mörkuðum. Sölin fást í ýms-
um verslunum eins og Krónunni og Bónus auk
þess sem heildverslunin Garri selur til veit-
ingahúsa og mötuneyta.
Losnar við fargið í höfðinu
Hvað var það við búddisma sem heillaði þig?
„Þetta er lífsspeki frekar en trú og snýst um
að kafa djúpt og þekkja sjálfan sig. Hug-
leiðslan er kyrrðarslökun þar sem maður fær
tóm til að skoða sjálfan sig og velta fyrir sér
tilfinningum sínum. Svo verður maður smátt
og smátt meðvitaðri og lifir meira í núinu.
Hættir að velta fyrir sér framtíðinni eða því
sem er liðið. Liðin tíð er oft að angra fólk,“ seg-
ir Eyjólfur.
„Þetta breytir manni; kyrrir mann. Þegar
maður er ungur er maður eins og vatn í roki
sem frussast út um allt en hugleiðslan kyrrir
hugann.“
Þurftir þú á því að halda?
„Það þurfa allir á því að halda. Þetta hefur
hjálpað mér mjög mikið því það sem er að
trufla mann í daglegu lífi er kjaftæðið í hausn-
um á manni. Þú situr hér á móti mér og ert
kannski allt í einu farin að hugsa um einhvern
kjól niðri í Kringlu,“ segir hann og blaðamaður
sannfærir hann um að hann eigi hans óskiptu
athygli.
„Það sem gerist í hugleiðslu er að maður
losnar við þetta farg í höfðinu,“ segir Eyjólfur
og segist hugleiða daglega.
Hugleiðsla tíu tíma á dag
Þegar Eyjólfur fer í klaustur fylgir hann
ákveðinni dagskrá.
„Það er vaknað snemma og hugleitt í tvo
tíma fyrir morgunmat. Svo er unnið í tvo, þrjá
tíma og svo er hugleitt með hléum fram á
kvöld. Maður situr kannski allt upp í tíu tíma
yfir daginn í hugleiðslu,“ segir Eyjólfur.
„Þetta er lífsspeki frekar en trú og
snýst um að kafa djúpt og þekkja sjálf-
an sig. Hugleiðslan er kyrrðarslökun
þar sem maður fær tóm til að skoða
sjálfan sig og velta fyrir sér tilfinn-
ingum,“ segir Eyjólfur Friðgeirsson.
Morgunblaðið/Ásdís
Að kafa djúpt og þekkja sjálfan sig
Eyjólfur Friðgeirsson, líffræðingur og fiskifræðingur, selur af miklum móð fjallagrös, söl, te og ber sem
framleitt er í fyrirtæki hans, Íslenskri hollustu. Hugleiðsla er honum hugleikin og er Eyjólfur vígður
zen-búddamunkur. Hann segir hugleiðslu bestu gjöf lífsins.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
’
Það var allt kennt á rúss-
nesku. Það vildi mér til happs
að þá var nýkomin út rússnesk-
dönsk orðabók. Ég þurfti bara að
setja undir mig hausinn, læra
rússnesku og þræla mér í gegnum
námsbækurnar með hjálp dönsku
orðabókarinnar.