Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.03.2021, Blaðsíða 10
VIÐTAL
10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 28.3. 2021
Hvernig er það hægt, ég myndi verða brjáluð!
„Já, þú myndir verða brjáluð, en eftir að
hafa stundað þetta í tvö, þrjú ár myndi það
ekkert gerast,“ segir hann og hlær.
„Þetta snýst um það að kyrra hugann og
maður hverfur inn í sjálfan sig.“
Finnst fólki í kringum þig þetta ekkert
skrítið?
„Konu minni finnst þetta fínt; ég er miklu
rólegri. Það fer úr manni æsingurinn og lætin.
Hugleiðsla er dásamleg; maður fær stórkost-
legar gjafir.“
Eyjólfur segir hugleiðsluna hafa hjálpað
honum í daglegu lífi, bæði hvað varðar sam-
skipti við fólk og ákvarðanatöku í vinnu.
„Þú færð meiri frið til að hugsa og einbeita
þér að því sem skiptir máli í kringum þig.“
Fjallagrasate feikivinsælt
Eftir að hugmyndin kviknaði í klaustrinu fór
Eyjólfur að undirbúa tínslu og sölu á þara og
brátt var hann kominn út í aðrar náttúru-
afurðir.
„Það kom fljótt í ljós að markaðurinn var lítill
og fólk þekkti þetta ekki. Eftir að ég var kom-
inn af stað var ég beðinn um að útvega fjalla-
grös og í dag erum við langstærst á mark-
aðnum í fjallagrösum,“ segir Eyjólfur og nær í
lítinn kassa af grösunum til að sýna blaða-
manni.
„Ég nota þetta í te. Þegar túrisminn var rétt
að byrja fór ég að selja teblöndu á Keflavíkur-
flugvelli. Svo þegar ferðamennskan tók við sér
varð þetta feikivinsælt en í þessu eru fjalla-
grös, birki og hvönn. Þetta er hryggjarstykkið
í þessum túristavörum,“ segir Eyjólfur og hell-
ir heitu tei í bolla fyrir blaðamann.
„Í gamla daga voru fjallagrös möluð og not-
uð í brauð en í þeim er jafnmikið af kolvetnum
og í hveiti. Það vantaði mikið korn á Íslandi og
því var þetta notað í brauð og grauta, en vin-
sælast var að nota fjallagrös í mjólkurgraut,“
segir Eyjólfur.
Í framhaldi af framleiðslu á vörum sem inni-
héldu jurtir og söl fór fyrirtækið að snúa sér að
berjum líka.
„Ég kaupi árlega frá átta og upp í tólf tonn
af berjum. Ég er með áttatíu manns í vinnu á
haustin sem tína fyrir okkur ber og jurtir. Við
búum til sultur og saft og seljum líka mikið af
frosnum berjum, frosin ber frá okkur fást
meðal annars í Bónus. Veitingahúsin kaupa
líka mikið af berjum.“
Þekkt hjá eðalveitingastöðum
„Við fórum að safna jurtum til að selja túr-
istum. Í framhaldi af því keyptum við fyrir-
tækið Arctic Mood í hittifyrra sem var íslenskt
fyrirtæki sem seldi lífrænar teblöndur.“
Eyjólfur segir að með ferðamönnunum hafi
lifnað yfir veitingabransanum og þar sköp-
uðust enn fleiri tækifæri.
„Þeir hafa keypt vörurnar, enda vildu þeir
leggja áherslu á allt íslenskt,“ segir hann og
segist líka selja vörur til hinna Norður-
landaþjóðanna.
„Kokkurinn Gunnar Karl á Dill fór að vinna
hjá Noma í Kaupmannahöfn, en sá staður er
miðstöð norrænnar matargerðar. Þar fara í
gegn feikilega margir ungir kokkar frá öðrum
Norðurlöndum sem vinna þar í nokkra mánuði
í senn. Gunnar Karl vann þar um skeið og fékk
hjá okkur jurtir og söl og það varð til þess að
Noma fór að kaupa af okkur,“ segir hann og
segir að eitt hafi leitt af öðru.
„Þarna voru sem sagt margir ungir kokkar
sem kynntust vörunum okkar og við erum nú
mjög þekkt fyrirtæki hjá öllum bestu veit-
ingastöðum í Skandinavíu,“ segir Eyjólfur og
nefnir að tíu prósent af veltu fyrirtækisins séu
komin frá útflutningi, þar af stór hluti vegna
beinnar sölu til erlendra veitingastaða.
„Nýjasta í þaranum hjá okkur er þang-
skegg. Það sem er sérkennilegt við það er að
lyktin og bragðið af því er eins og af trufflum,“
segir Eyjólfur og gefur blaðamanni smakk.
Trufflulyktin og -bragðið finnst greinilega.
„Svo er svo mikið þarabragð af þessu líka.
Kokkar eru alveg vitlausir í þetta. Kokka-
landsliðið notar þetta oft.“
Mikill áhugi á vínum
Íslensk hollusta er fjölskyldufyrirtæki en bæði
kona Eyjólfs og dóttir vinna við fyrirtækið.
Dóttirin Ragnheiður, sem vinnur þar í fullu
starfi, er á þönum, en hún byrjaði fyrir fimm
árum.
„Hún hafði svo mikinn áhuga á að fara í
áfengisframleiðslu sem var rökrétt framhald
þar sem við erum með öll hráefnin í slíka fram-
leiðslu,“ segir Eyjólfur og leiðir blaðamann inn
í sal fullan af risastórum stáltönkum.
„Hérna er bruggverksmiðja en við keyptum
tækin frá Kína. Hér eru framleidd krækiberja-
vín, rabarbaravín og eimað gin en við erum
eina fyrirtækið sem er að framleiða vín úr ís-
lenskum hráefnum. Við seldum vel úti á Kefla-
víkurflugvelli en það datt niður í faraldrinum,“
segir Eyjólfur og brosir út í annað.
Ragnheiður er í bruggsalnum við vinnu og
bætir við: „Það hafa ekki selst eins margar
flöskur í faraldrinum, en það kemur aftur,“
segir Ragnheiður en hún er með bakgrunn í
áfengisframleiðslu.
„Þessi vín eru gjarnan drukkin með eftir-
réttum eða jafnvel hreindýri eða paté. Svo er-
um við að leika okkur við að búa til bjór og til-
búna kokteila því við höfum meiri tíma. Við
erum líka með ginlínu, kryddaða með villtum
íslenskum jurtum og berjum,“ segir Ragnheið-
ur sem segir þau hafa notað tækifærið, þar
sem árið hafi verið rólegt, til vöruþróunar, ný-
sköpunar og tilraunamennsku.
„Íslendingar hafa áhuga á þessum vínum.
Við erum búin að fjárfesta mikið í tækjum en
horfum til framtíðar.“
Hörmungarárið byrjaði vel
Eyjólfur er með mörg járn í eldinum og fær sí-
fellt nýjar hugmyndir að vörum.
„Ég er að reyna að draga úr vinnunni en
hún tekur sinn tíma. Ég held enn utan um fjár-
málin. Ríkið eiginlega bjargaði lífi okkar í
fyrra með hlutabótaleiðinni og láni,“ segir
hann og segir að nú þegar ferðamennirnir séu
horfnir hafi salan dregist mikið saman.
„Sextíu prósent af sölunni var til túristanna,
bæði gegnum ferðamannaverslanir og til veit-
ingastaða. Hörmungarárið 2020 byrjaði rosa-
lega vel hjá okkur en svo bara hrapaði þetta
niður. Við sem vorum háð túristunum erum
með þessi þungu lán sem nú þarf að fara að
borga á sama tíma og við erum að reyna að
komast upp á lappirnar. En í vor fengum við
tekjufallsstyrk sem hjálpaði mikið.“
Við ákveðum að drífa okkur út úr fyrirtækinu
í Hafnarfirði og fáum okkur bíltúr út fyrir borg-
ina. Við leggjum bílnum við sjóinn og röltum
niður í fjöru þar sem Eyjólfur er vel kunnugur
sjávargróðrinum. Eyjólfur stikar um steinana
og rífur upp þang og þara og sýnir blaðamanni
á meðan hann mundar myndavélina.
„Ég fer oft út á Reykjanes að tína þangskegg
og söl,“ segir hann og rífur upp handfylli.
Þessi kraftmikli sölvasölumaður og búdda-
munkur er hvergi nærri hættur að vinna, þrátt
fyrir að vera orðinn 77 ára. Bjartari tímar eru
fram undan með hækkandi sól og einn góðan
veðurdag hverfur veiran og túristarnir mæta
aftur.
Hugleiðslan hjálpar Eyjólfi að taka hlutum
með jafnaðargeði og lifa í núinu en um leið
horfa á fyrirtækið vaxa og dafna.
„Hugleiðslan hjálpar mér mikið í vöruþróun
því þegar ég fæ hugmyndir get ég einbeitt mér
að þeim. Tíbeskur munkur sagði við mig eitt
sinn að besta gjöf sem þú gætir gefið sjálfum
þér væri að fara að stunda hugleiðslu.“
Morgunblaðið/Ásdís
Eyjólfur og dóttir hans Ragnheiður vinna
náið saman í fyrirtækinu Íslenskri hollustu.
Morgunblaðið/Ásdís
Eyjólfur er vígður zen-
búddamunkur. Hann fer
oft í klaustur erlendis og
stundar þá hugleiðslu.
Ljósmynd/Aðsend
’
Hugleiðslan hjálpar mér
mikið í vöruþróun því þegar
ég fæ hugmyndir get ég einbeitt
mér að þeim. Tíbeskur munkur
sagði eitt sinn að besta gjöf sem
þú gætir gefið sjálfum þér væri
að fara að stunda hugleiðslu.
Eyjólfur segist gjarnan fara
út á Reykjanes að tína
þangskegg og söl.