Feykir


Feykir - 06.05.2020, Blaðsíða 5

Feykir - 06.05.2020, Blaðsíða 5
Þegar þetta er skrifað, að kveldi annars maí, eru margir grásleppubátar að sigla í land með net sín vegna reglugerðar sem sjávarútvegsráðherra undirritaði um stöðvun grásleppu- veiða. Gríðarlega góð veiði hefur verið hjá bátunum, svo mikil að elstu menn muna vart annað eins. Hins vegar er kvótinn búinn, hin heilaga tala Hafró. Sá dagafjöldi sem ráðherra gaf út, 44 dagar á hvern bát eru fullnýttir hjá nokkrum (innan við 10%), aðrir áttu ein- hverja daga eftir, margir voru nýbyrjaðir og enn aðrir ekki komnir til veiða. Menn spyrja, af hverju var ekki gripið inn í þegar sást í hvað stefndi? Hvers vegna eru menn ekki tilbúnir til að endurmeta veiðiráðgjöf- ina? Af hverju má ekki fara fram úr ráðgjöf og nýta óveidd- an kvóta síðustu ára? Ef svarið við þessum spurningum er ótti við að missa hina svokölluðu MSC vottun, þá er sjálfsögð krafa að veiðiráðgjöfin verði betur grunduð en nú er. Það liggur fyrir að markaður er fyrir meira hráefni. Nú segir ráðherra að ef frumvarp hans um að kvótasetja grásleppu á báta miðað við aflareynslu einhverra ára á undan væri orðið að lögum væri þessi staða ekki uppi. Það er í sjálfu sér rétt hjá ráðherranum, en það má ekki gleyma því að það eru samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokks- ins; Framsóknarflokkur og Vinstri- grænir, sem hafa stoppað málið, með formann atvinnuveganefndar í broddi fylkingar. Frumvarp ráðherra var ekki full- komið, en það hefði verið lítið mál (að mati undirritaðra) að sníða af því helstu vankantana í meðförum þingsins og atvinnuveganefndar. Atriði sem hefðu komið til skoðunar væru meðal annars; stærð báta og það að aflahlutdeild á hvern bát/leyfi verði ekki hærri en ákveðið hlutfall eða tonnafjöldi, netafjöldi og mögu- legar svæðaskiptingar. Frumvarpið, sem ráðherra kynnti í júlí 2019, situr fast hjá ríkisstjórninni, ríkisstjórn hinnar breiðu skírskotunar. Þingflokkar Vinstri grænna og Framsóknar stoppuðu að mælt yrði fyrir frumvarpinu. Það er því alveg ljóst að ábyrgðin á núverandi stöðu liggur ekki bara hjá ráðherra sjávarút- vegsmála, þó að fram- kvæmd stöðvunarinnar sé auðvitað kapítuli út af fyrir sig, heldur líka hjá samstarfsaðilunum í ríkisstjórn, fulltrúum Framsóknarflokks og Vinstri-grænna. Viðkoma og vöxtur grásleppu er ekki mikið rannsökuð og vitneskja um stofnstærð því tak- mörkuð. Árið 2012 var ákveðið að Hafró myndi gefa út stofnstærðarmat á grásleppu og ráðgjöf til veiða hvers árs. Síðan hefur veiði á grásleppu í troll á „togararalli“ verið notuð sem mæling og ráðgjöf Hafró grundvölluð á þeim upp-lýsingum. Þessa aðferð hafa margir gagnrýnt, því hún sýni alls ekki rétta mynd af ástandi stofnsins. Eins og tekið var fram hér að ofan voru margir bátar nýbyrjaðir eða ekki komnir til veiða, til dæmis við Faxaflóa, á Vestfjörðum og víða á Norður- og Austurlandi. Einhverj- ir höfðu nýlega fjárfest í bátum og veiðarfærum og sjá því fram á gjaldþrot vegna þessarar stöðu. Þetta er grafalvarleg staða fyrir þá sem ráðgerðu að færa björg í bú með þessum hætti. Það hlýtur að liggja í augum uppi að leita allra leiða til að viðhalda atvinnustarfsemi og verð- mætasköpun á þessum tímum þegar viðbrögð við covid-19 heimsfaraldr- inum eru að leggja efnahagskerfi heimsins á hliðina. Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson Höfundar eru þingmenn Miðflokksins í NV-kjördæmi AÐSENT | Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson skrifa Grafalvarleg staða grásleppuveiða K V E Ð J U O R Ð Álfur Ketilsson Fæddur 7. október 1939 – Dáinn 20. apríl 2020 Hér kom engum óvænt kallið, allir falla nú vegir greiðir. Sá, sem áður fór yfir fjallið farinn er nú á hærri leiðir yfir dimma dauðahallið, dagsbrún sér - og aftur heiðir. Létt var honum því lúðurgjallið leikvangur nýr, þar sem úr sér breiðir. (Ketill Indriðason) Álfur bróðir minn hefur nú kvatt þennan heim eftir áralanga baráttu við sjúkdóm, sem rændi hann smámsaman allri orku og líkamskröftum, en sú var líkn með þraut að hann fékk haldið hugsun sinni og ljúfu lund til loka. Það er margs að minnast og allt að þakka frá samvistum okkar fyrr og síðar, en þær spanna 80 ár. Þess eins minnist ég að útaf bæri, að kvöldið, sem hann kom í heiminn var ég háttaður til fóta hjá mömmu og hún að lesa fyrir mig í skemmtilegri bók, sem frænka mín hafði nýlega gefið mér og hét Kátir krakkar. Ég var 51/2 árs og ekki orðinn vel læs. Kemur þá ljósmóðirin, Kristín á Hafralæk, og segir að nú verði ég að færa mig og þótti mér miður að missa af lestrinum. Við systkin ólumst upp við mikið ástríki og umhyggju foreldra okkar, sem höfðu mikla trú á gildi bæna og góðra hugsana. Móðir okkar kenndi okkur bænir og las með okkur fyrstu árin og hún kenndi okkur líka að lesa, skrifa og reikna og lagði grunn að öllu frekara námi. Hún bað ekki um hamingju, en að ég yrði góður maður bað hún oft og eflaust hafa systkin mín fengið sömu bænir og er það ekki lykillinn að hamingjunni? Og svo að læra að fyrirgefa - og biðja um fyrirgefningu. Pabbi las oft fyrir okkur öll og fræddi um margt. Var stundum með í leikjum. Bernskuleikir Álfs voru miklu meir við yngri systkin mín, því ég var elztur og þurfti að hjálpa til úti við. En í ýmsa leiki fórum við öll í uppvexti, feluleik, skollablindu, útilegumannaleik, húsgangsleik og fleiri útileiki, en einkum ef gestir bættust við. Saman fórum við tveir á skauta og skíði. Við systkin lærðum margt af ljóðum og lausavísum af foreldrum okkar og af lestri og var það einn leikur okkar, að kveðast á. Var þá ýmist mælt af munni fram, kveðið eða raulað. Þetta var hægt við ýmis störf, t.d. heyskap eða tóvinnu, sem var enn ofurlítil í uppvexti okkar, vefnaður en einkum spuni á vél og var Álfur orðinn liðtækur spunamaður um fermingu og sömuleiðis sláttumaður góður. Veturinn eftir fermingu var Álfur heima en ég brá mér í skóla einn og hálfan vetur. Síðan var hann þrjá vetur í Laugaskóla, en aftur heima annan vetur til að ég gæti sótt atvinnu og aflað nokkurs til byggingar á Fjalli, sem aðkallandi var, en búreksturinn þar skilaði sjaldnast miklum peningaafgangi. Þetta varð síðasti vetur Álfs heima en við tók nám í Samvinnuskólanum að Bifröst hjá Guðmundi Sveinssyni. Mest af skólakostnaði sínum greiddi Álfur með sumarvinnu sinni og vann m.a. eitt sumar hjá Skógrækt ríkisins á Vöglum og glæddist þar skógræktaráhugi, sem hann hafði að heiman og 2 eða 3 sumur vann hann í síldarverksmiðju á Raufarhöfn og tíma í frystihúsi á Húsavik, en greip á milli í störf heima, óþreytandi að liðsinna foreldrum og systkinum á allan hátt og var svo ætíð. Áhugamál Álfs voru mörg, nefni úti- vist, óbyggðaferðir, fjallgöngur, laxveiði; áttu þeir Tryggvi Eymundsson vinur hans margar stundir saman við Blöndu og Laxá í Aðaldal. Kærust var honum líklega skógræktin. Skömmu eftir að hann flutti í Brennigerði fékk hann þar grýtt móhorn, girti og hóf trjárækt og er þar orðinn fallegur lundur. Ól upp plöntur og gerði tilraunir. Eftir að búfjárhaldi lauk í Brennigerði gerðust þau Margrét skógarbændur. Fóru á námskeið og námsferðir, friðuðu fjallshlíð ofan bæjar og meira land þó og plöntuðu tugþúsundum trjáa af mörgu tagi, sem nú eru að vaxa upp og bera þeim gott vitni með meiru. Fyrir nokkrum árum hitti ég á biðstofu lækna í Reykjavík aldraðan Skagfirðing og tókum við tal sama. Er hann vissi að ég væri bróðir Álfs sagði hann: ,,Þar átt þú góðan bróður.“ Þetta þurfti ekki að segja mér en vænt þótti mér um vitnisburðinn. Ástvinir Álfs hafa mikils misst og við Valgerður mín vottum Margréti, börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum innilega hluttekningu. Megi minning Álfs lifa með okkur öllum. Indriði Ketilsson Hafðu samband! Hafðu samband í síma 455 7176 eða sendu Feyki póst á feykir@feykir.is 18/2020 5

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.