Feykir


Feykir - 10.06.2020, Blaðsíða 5

Feykir - 10.06.2020, Blaðsíða 5
Tindastóll Rafíþróttadeild formlega stofnuð Þann 4. júní var haldinn stofnfundur rafíþróttadeildar Tindastóls en öflug starfsemi hefur verið í gangi í vetur. Það er Ingi Sigþór Gunnarsson sem er formaður, Hjörtur Ragnar Atlason, varaformaður og Gunnar Ásgrímsson, gjaldkeri. Ingi Sigþór og Hjörtur Ragnar sögðu í viðtali við Feyki í vetur að þeim hafi fundist það góð hugmynd að byrja að keppa undir nafni félagsins sem fyrst og hvetja krakka sem og foreldra til að fylgjast með og sjá hversu skemmtilegt þetta væri. „Þetta er ekki bara leikur. Eftir að hafa séð að íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu væru að stofna rafíþróttadeildir, þá töldum við félagarnir, sem sitja nú í stjórn deildarinnar, að Tindastóll yrði að vera með í þessari skemmtilegu uppbyggingu sem á sér stað akkúrat núna.“ Nú er fyrsta tímabili Tindastóls lokið en fjögur lið hófu keppni, tvö í CS:GO og 2 í LoL. Á Facebook-síðu deildarinnar kemur fram að A-lið Tindastóls í LoL endaði í þriðja sæti í Vodafone deildinni og fór svo alla leið í úrslitin á stórmeistaramóti Vodafone deildarinnar og tapaði þar fyrir Dusty Academy 3-1. Annað sæti því niðurstaðan. B-lið Tindastóls í LoL endaði í þriðja og síðasta sæti í fyrstu deild Vodafone deildarinnar. CS:GO: A-lið Tindastóls í CS:GO hafnaði í fjórða sæti í fyrstu deild Vodafone deildarinnar. A-liðið byrjaði svo í opna mótinu í Vodafone Major mótinu þar sem þeir unnu alla sína leiki og héldu áfram í áskorendamótið þar sem þeir komu heldur betur á óvart og unnu báða leikina sína og komust því inn í stórmeistaramótið. Þeir spiluðu þar í 8-liða úrslitum við KR.esports og stóðu sig með prýði þrátt fyrir 0-2 tap. B-lið Tindastóls í CS:GO hafnaði í fjórða sæti í annarri deild Vodafone deildarinnar, B-liðið byrjaði einnig í opna mótinu og vann fyrsta leikinn sinn á móti Sóttkví en tapaði svo á móti Dusty Academy. „Tindastóll er einnig með Rocket League lið sem er virkilega gott og verða þeir að keppa á einhverjum mótum í sumar. Frumraun okkar í þessari senu gekk miklu betur en við áttum von á og förum við sáttir inn í sumarið. Næstu verkefni hjá okkur eru að koma rafíþróttastarfinu í gang og fer sumarið og haustið í það,“ segir á Facebook-síðu rafíþróttadeildar Tindastóls. /PF Stjórn rafíþróttadeildar Tindastóls Gunnar Ásgrímsson, gjaldkeri, Ingi Sigþór Gunnarsson, formaður og Hjörtur Ragnar Atlason, varaformaður. Aðsend mynd. ÍÞRÓTTAFRÉTTIR F Mjólkurbikar karla Stólarnir sterkari í grannaslagnum Lið Tindastóls og Kormáks/Hvatar mættust á Sauðárkróki sl. sunnudag og var spilað við ágætar aðstæður. Þetta var fyrsti leikur beggja liða frá því í vetur en gæði leiksins voru engu að síður með ágætum og líkt og reikna mátti með í grannaslagnum þá var hvergi gefið eftir. Gestirnir vestan Vatnsskarðs voru 0-1 yfir í hálfleik en Stólarnir svöruðu með tveimur mörkum í síðari hálfleik og slógu því gestina út úr Mjólkurbikarnum. Lokatölur 2-1 fyrir Tindastól. Leikurinn fór fjörlega af stað og leikmenn skelltu sér í kröftugar tæklingar hvar sem því varð við komið. Og þó kapp væri í mönnum var samt gaman að sjá og heyra að menn fóru ekki yfir strikið. Lið Tindastóls sótti meira framan af en gestirnir voru hættulegir í sóknaraðgerðum sínum. Það var Hilmar Þór Kárason sem gerði fyrsta mark leiksins á 18. mínútu eftir hornspyrnu. Stólarnir reyndu að skerpa á sókninni og Benni sendi aukaspyrnu í þverslána og tvívegis björguðu varnarmenn gestanna á síðustu stundu þegar jöfnunarmarkið virtist blasa við. Staðan 0-1 í hálfleik. Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar í síðari hálfleik. Stólarnir settu boltann aftur í þverslá en K/H fengu þrjú góð færi í sömu sókninni til að bæta við forystuna en nú varði Atli Dagur þrívegis af snilld og máttu heimamenn þakka honum fyrir að lenda ekki í erfiðri stöðu. Á 72. mínútu lyftist brúnin á Jay McDonough, þjálfara Tindastóls, þegar Halldór Broddi fylgdi vel eftir skoti Arnórs Guðjóns að marki gestanna sem Óli Grétar í markinu náði ekki að fanga. Staðan jöfn og aðeins fimm mínútum síðar létu heimamenn kné fylgja kviði. Arnór var keyrður klaufalega niður rétt utan teigs og Luke Rae, lipur tvítugur strákur, skoraði laglegt mark beint úr aukaspyrnunni. Lið Tindastóls er því komið í 2. umferð Mjólkurbikarsins sem verður spiluð um næstu helgi en næstkomandi laugardag fá Stólarnir lið Samherja úr Eyjafirði í heimsókn. /ÓAB Hvergi gefið eftir í dag. MYNDIR: ÓAB Hvað er heim? Ég hef nú flutt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og alltaf er ég að fara heim. Þeir eru samt sterkir hnútarnir sem æskustöðvarnar hnýta. Heim hefur líka alltaf verið í Fjörðinn fagra, Skagafjörðinn. Þar eru ræturnar, fjölskyldan, æskuvinirnir og minningarnar. Ég hef verið einstaklega heppin, æskan og unglingsárin eru bara gleði í minningunni. Áföllin bönkuðu þó upp á hjá mér líkt og öðrum bæði sem barn og unglingur en ég hef lært að dvelja ekki lengi við leiðindi og erfiðleika heldur einblína á gleðina. Þessi áföll hafa bara mótað mig og gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Minningin um æskuna einkennist af leik og gleði. Ég ólst upp í stórum systkinahóp og á sumrin fylltust herbergi hússins af sumardvalarbörnum. Þá var leikið langt fram eftir kvöldi, alltaf gott veður OG við fengum kvöldkaffi. Mamma mín var dugleg að baka ofan í okkur. Þegar vetur gekk í garð breyttist leikurinn en áfram var leikið úti. Í minningunni var alltaf snjór á veturna og þá var einnig farið á skauta á vatninu heima í Ási. Við vorum ekki mörg í barnaskólanum í Nesinu en þar var okkur skipt í yngri og eldri deild. Um fermingaraldurinn fórum við í Gagnfræðaskólann á Króknum. Úff, það voru viðbrigði og fjöldinn í skólanum mikill en þar byrjaði fjörið. Þar kynntist ég krökkum sem enn í dag eru mínir dýrmætustu ferðafélagar í lífinu. Bekkjarfélögum mínum tengdist ég tryggðarböndum sem vara, að ég held, til eilífðar og mér þykir mikið vænt um þann hóp. Við höldum enn sambandi og höfum verið mjög dugleg að hittast, enda með eindæmum skemmtilegt fólk. Oft er sagt að tímarnir breytist og mennirnir með. Tímarnir hafa svo sannarlega breyst þrátt fyrir að sumt sé þó í sömu skorðum. Ég man eftir mörgu sem yngri kynslóðir vita jafnvel ekki að hafi verið eins mikilvægur hlekkur og reyndist vera. Kaffiterían í Skaffó var þvílík bylting, Bílasalan var eins og félagsmiðstöð stundum og að fá inngöngu í partýin í Villa Nova gjörbreytti stöðu manns í samfélaginu, að eigin mati. Þá varð maður fullorðinn. Böllin í Bifröst, Miðgarði, Húnaveri og á Blönduósi, svo ekki sé minnst á Framsóknarböllin sem voru af allt öðrum meiði. Þegar ég rifja þetta upp og segi börnunum mínum frá þessum tímum líður mér eins og risaeðlu en mjög hamingjusamri risaeðlu. Að ég tali nú ekki um að ég man þegar fyrsti pizzastaðurinn kom á Krókinn. Ég vona svo innilega að börnin mín eignist jafn ánægjulegar minningar og ég á, kossar á bak við Bifröst, rómantísk gönguferð meðfram ánni við Húnaver og vinkonupiss og trúnó á milli trjáa við Miðgarð. Mér finnst sorglegt að börnin mín upplifi ekki sveitaballastemmninguna en þau sennilega upplifa eitthvað annað skemmtilegt. Skagafjörðurinn á sérstakan stað í hjarta mínu og þegar ég fer þangað tala ég um að fara heim. Heim í minningarnar. Fyrir 26 árum síðan flutti ég á Suðurlandið og nú er það líka mitt heima. Ég á tvö börn, Klöru Valgerði sem er þrítug og það er hægt að finna slatta af Skagafirðinum í henni. Sonur minn, Sindri Snær sem er 16 ára er Sunnlendingur í húð og hár. Þegar þau ná mínum aldri verður Rangárvallasýslan heim í þeirra augum. Tímarnir breytast og óhjákvæmilega breytast mennirnir með. Munum bara að njóta tímans og hafa gaman. Ég skora á partýljónið, Sólrúnu Fjólu Káradóttur, sem næsta penna. ÁSKORANDAPENNINN | palli@feykir.is Tímarnir breytast Hrafnhildur Valgarðsdóttir Brottfluttur Skagfirðingur Leiðrétting Hestar og menn Í síðasta blaði urðu þau mistök að grein frá Sögusetri íslenska hestsins var ekki rétt merkt. Var hún eingöngu merkt Kristni Hugasyni, sem vissulega skrifaði greinina, en vantaði að kenna hana Sögusetrinu sem Kristinn veitir forstöðu. Beðist er velvirðingar á þessu. /PF 23/2020 5

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.