Feykir - 16.06.2020, Síða 5
Það var kátt á gervigrasinu á Króknum
á laugardaginn þegar meistaraflokkar
Tindastóls unnu báða sína leiki í
annarri umferð Mjólkurbikar-
keppninnar og komu sér áfram í
keppninni. Stelpurnar fengu Völsung
frá Húsavík í heimsókn og strákarnir lið
Samherja úr Eyjafirði en ljóst er að
mótherjar næstu umferðar verða mun
erfiðari. Stelpurnar mæta Pepsí-
deildarliði KR syðra og strákarnir mæta
ÍBV í Vestmannaeyjum en þeir leika í
Lengjudeildinni í ár.
Stelpurnar hófu sinn leik kl. 14 og
var ekki langt liðið á leikinn þegar
fyrsta markið kom en þá skoraði
Hugrún Pálsdóttir sitt fyrsta mark í
sumar á 7. mínútu. Hún var aldeilis
ekki hætt því á 28. mínútu bætti hún
öðru marki við og kom Stólum í 2-0.
Þriðja markið er skráð sjálfsmark
Völsungs en svo virtist sem Hrafnhildur
Björnsdóttir hafi potað boltanum inn
eftir hornspyrnu en fór í varnarmann á
leið sinni í netið. En það var Hugrún
sem var mætt á skotskónum sem
fullkomnaði þrennu sína og fjórða
mark heimastúlkna á 53. mínútu og
gerði þar með út um leikinn. Rétt fyrir
leikslok náði Hildur Anna
Brynjarsdóttir að laga stöðu gestanna
með síðasta marki leiksins. Stelpurnar
komnar áfram og leika næst við KR
stúlkur á Meistaravöllum þann 10. júlí
og eiga harma að hefna frá því í fyrra er
liðin áttust við í bikarnum. Þá náði KR
að merja sigur 1-0 á sínum heimavelli.
„Frábært að byrja tímabilið á
flottum sigri! Við vorum flottar
sóknarlega, náðum að fylgja okkar
leikskipulagi og klára færin vel.
Varnarlega þá vorum við fínar og erum
að byggja ofan á varnarleikinn,“ segir
Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði
Tindastóls.
Henni finnst liðið koma vel út eftir
veturinn og segir það verða gaman að
halda áfram að þróa leik liðsins.
„Deildin byrjar í næstu viku og við
þurfum að einbeita okkur að einum
leik í einu til að stíga í átt að markmiði
okkar. Þetta verður erfitt þar sem
leikjaskipulagið er þétt en við höfum
góða breidd í liðinu sem er lykilatriði.
Vil hvetja alla Tindastólsmenn að
mæta á leikina hjá okkur í mfl. kvenna
og karla í sumar til að styðja við bakið á
okkur. Áfram Tindastóll!“
Á leið til Eyja
Seinni leikur dagsins var karla-
leikurinn á móti Samherjum úr
Eyjafirði en þeir voru aðeins sýnd veiði
en ekki gefin þrátt fyrir að leika í deild
neðar en Stólarnir. Gestirnir komust
yfir er tæpur hálftími var liðinn af
leiknum þegar Hreggviður Heiðberg
Gunnarsson skoraði úr vítaspyrnu og
1-0 staðreynd sem var staðan í hálfleik.
Það glaðnaði heldur yfir stuðnings-
mönnum heimamanna þegar Luke
Morgan Conrad Rae jafnaði metin
eftir klukkutíma leik og ekki minnkaði
gleðin þegar Jónas Aron Ólafsson
tryggði Stólunum farseðilinn til Eyja
undir lok leiksins en þangað er ferðinni
heitið eftir að dregið var í 3. umferð
Mjólkurbikarsins. Fer sá leikur fram
24. júní á Hásteinsvelli.
„Leikurinn í gær reyndist okkur
erfiður. Þeir lágu svolítið til baka og
lokuðu á það sem við reyndum að gera,
svo fá þeir mjög ódýrt víti að mínu
mati og þá heppnaðist þeirra leikplan
fullkomlega. Gátu verið enn þéttari til
baka og gekk illa hjá okkur að brjóta þá
niður en það tókst á endanum og við
unnum sætan sigur og komumst áfram
sem skiptir öllu máli,“ segir Ísak
Sigurjónsson, fyrirliði Stólanna um
leik gærdagsins.
Næsti leikur er á móti Hugin/Hetti
hér heima og býst Ísak við hörkuleik.
„Huginn/Höttur er með flott lið og við
líka og við stefnum á að verja
heimavöllinn og sækja fyrstu þrjú
stigin i deildinni. Ég sé okkur berjast
um að fara upp en við þurfum að slípa
okkur aðeins betur saman. Við höfum
bara æft saman í tvær vikur og þetta er
allt farið að líta vel út, svo eigum við
Tanner inni sem á flug 24. júní svo ég
er mjög bjartsýnn á framhaldið,“ segir
Ísak sem er þakklátur fyrir góða
mætingu á völlinn í síðustu tveimur
leikjum. „Ég vona að þetta sé það sem
koma skal í sumar því stuðningur frá
fólkinu gefur okkur heilmikið og
vonast ég til að enn fleiri komi á leiki
hjá kvenna- og karlaliðinu í sumar og
vona ég að bæði lið fari upp um deild
og tel ég þau vera með það góð lið að
þau geti það og Áfram Tindastóll!“ /PF
Tveir sigrar Stóla í Mjólkurbikar
Tindastóll
Er betri en sá gamli í fótbolta
Hinn knái knattspyrnumaður hjá Tindastól,
Jóhann Daði Gíslason, tók áskorun frá
pabba sínum sem svaraði spurningum
í Liðinu mínu í Feyki fyrir skömmu.
Jóhann Daði starfar nú sem ráðgjafi
hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á
Sauðárkróki meðfram stífum æfingum
með Stólunum, sem ætla að gera góða
hluti í sumar. Alla vega eru þeir komnir
áfram í Mjólkurbikarnum eftir sigur á
Samherjum úr Eyjafirði sl. laugardag og
fyrsti deildarleikur sumarsins verður svo nk.
laugardag gegn Hetti/Hugin í 3. deildinni á
Sauðárkróksvelli.
Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska
boltanum og af hverju?
-Uppáhalds liðið mitt er Arsenal. Ég hef
haldið með Arsenal síðan ég var fjögurra
ára, minnir mig. Byrjaði líklegast að halda
með þeim út af því að faðir minn heldur
með þeim. Ég sé ekki eftir því að byrja að
halda með Arsenal. „Once a Gunner always
a Gunner“.
Hvernig spáir þú gengi liðsins á
tímabilinu? -Tímabilið er að verða búið
svo það er varla hægt að spá okkur
ofarlega. En ef við stöndum okkur vel á
leikmannamarkaðinum í sumar þá er ég
bjartsýnn á að við náum meistaradeildarsæti
á næsta tímabili.
Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Er ekki
beint sáttur við stöðuna eins og hún er í dag,
en er bjartsýnn á framtíðina. Mikel Arteta er
rétti maðurinn til að snúa gengi liðsins við.
Hefur þú einhvern tímann lent í deilum
vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði?
-Já, já. Ég lendi alltaf í einhverjum deilum
við vini mína.
Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og
síðar? -Thierry Henry er minn uppáhalds.
Svo koma menn eins og Messi og
Ronaldinho á eftir honum.
Hefur þú farið á leik með liðinu þínu?
-Já, ég hef farið tvisvar á leik hjá Arsenal.
Fékk ferð á leik í fermingargjöf frá mömmu
og pabba. Sú ferð fór ekki vel þar sem
Arsenal tapaði á móti Man Utd. Svo fór
ég í feðgaferð með pabba, Fannari bróður
mínum, og tókum við Sigga afa með okkur
á hans fyrsta leik. Sá leikur endaði með
jafntefli á móti Wolves. Held að það sé langt
í næsta leik hjá mér á Emirates þar sem ég
fer víst aldrei á sigurleiki.
Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Já,
ég á alveg helling af hlutum tengt félaginu.
Kaupi mér allavega eina, tvær, treyjur á
hverju tímabili.
Hvernig gengur að ala aðra
fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið?
-Ég er alltaf eitthvað að reyna að fá litla
frænda minn til að halda með Arsenal. Er
búinn að kaupa treyju og allt fyrir hann, en
hann er ekki enn búinn að velja sér lið.
Hefur þú einhvern tímann skipt um
uppáhalds félag? -Ég kýs að tjá mig ekki
um það mál.
Uppáhalds málsháttur? -Úff, er svo lélegur
með þessa málshætti. „Það er eins og það
er“, ef það er einhver málsháttur.
Einhver góð saga úr boltanum? -Vá, þær
eru svo margar. Alltaf gaman að rifja upp
útileiki í yngri flokkunum þegar maður
fór og gisti í einhverjum skóla. Svo eru
æfingaferðirnar til útlanda í miklu uppáhaldi.
En gleymi aldrei þegar ég fór í ferð með
2. flokk vestur að keppa á móti Vestra
á Bolungarvík. Við fórum tíu í leikinn og
enduðum níu eftir að Jón Grétar þurfti að ná
flugi suður frá Ísafirði. En leikurinn tapaðist
bara 3-0, þótt við værum færri allan leikinn.
Einhver góður hrekkur sem þú hefur
framkvæmt eða orðið fyrir? -Nei, ég er ekki
mikið í að hrekkja. Læt aðra um það, eins og
hann Martein Jónsson frænda minn.
Spurning frá Gísla Sig: -Hvenær ætlar þú
að verða góður í fótbolta eins og pabbi
þinn? Svar: -Úff, þetta er erfið spurning.
Mun kannski ekki ná eins langt og hann. En
ég er betri en hann í fótbolta.
Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum
spurningum? -Ég ætla að skora á Eystein
Ívar Guðbrandsson að svara þessum
spurningum.
Hvaða spurningu viltu lauma að
viðkomandi? -Hvenær ætlar þú að
slá markametið sem pabbi þinn á fyrir
Tindastól?
Jóhann Daði á Emirates stadium, heimavelli Arsenal. AÐSEND MYND
( LIÐIÐ MITT ) palli@feykir.is
Jóhann Daði Gíslason/ Arsenal
ÍÞRÓTTAFRÉTTIR F
Hugrún Pálsdóttir skoraði þrennu í leiknum á
laugardaginn. MYND: ÓAB
24/2020 5