Morgunblaðið - 28.09.2021, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 28.09.2021, Blaðsíða 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 28. SEPTEMBER 2021 Það er ekki fyrr en í síðari ljóða- bókum hennar sem þær eru færðar í orð. Minna má á ljóðið Kaldavermsl í Síðdegi. Þar líkir hún gleðinni við marglita, dún- mjúka, hlýja ábreiðu sem hún hafi ævilangt verið að hekla úr til- fallandi garnspottum; „Innan undir hniprar sig / sorgin / myrk og köld / uppspretta // Hylur sem aldrei hemar yfir.“ Glaðlyndi var eðlisþáttur í skapgerð Vilborgar sem ekkert mótlæti gat bugað. Ævi hennar var sannarlega enginn dans á rósum. Hún var gædd einstæðum námshæfileikum og hefði viljað verða vísindakona en stóð ekki annað til boða en Kennaraskól- inn, og varð kennari í fullu starfi í 45 ár. Vilborg giftist Þorgeiri Þor- geirsyni 1961, og sambúð þeirra stóð í 43 ár. Það var ekkert sæld- arbrauð að vera listamaður á þessum árum, hvað þá ef list- greinin var kvikmyndagerð. Listamannalaun voru skorin við nögl og einatt mylgrað út eftir pólitískum geðþótta. Segja má að þetta hafi verið örvandi og ögr- andi sambúð tveggja ólíkra lista- manna. Þorgeir gat verið við- kvæmur og reiður út í umhverfið, sem hann hafði einatt ástæðu til, en Vilborg lagði sig fram um að vera honum til fulltingis og láta honum líða vel. Þorgeir var mikið að heiman, meðal annars við kvikmyndatökur og leiðsögn ferðamanna, og heimilishaldið ut- an um synina tvo hvíldi á hennar herðum. Vilborg lagði mikla alúð við kennsluna og tók samhliða að sér ýmis aukastörf til að ná end- um saman, vann útvarpsþætti, gaf út þýðingar og annað efni fyr- ir börn. Um leið var hún virk í pólitísku starfi, herstöðvaand- stöðu, kvennabaráttu. Ljóð henn- ar voru öll ort í hjáverkum, en samt varð hún í fyllingu tímans eitt af okkar ástsælustu og merk- ustu ljóðskáldum. Vilborg leit á mörg af ljóðum sínum sem uppgjör við Guð bernsku sinnar. Meðal síðustu orða hennar við mig voru þessi: „Ég er sátt við lífið og skammast mín ekki fyrir neitt. Og ég er ekki reið út í neinn, ekki einu sinni Guð. Eins og ég er búin að rexa við karlinn!“ Hún var svo falleg á þessari stundu, friður og heið- ríkja yfir svipnum, augun „fjar- lægðarblá“, eins og í ljóði Stefáns Harðar um hana. Þorleifur Hauksson. Það eru nokkrar konur í þessu þjóðfélagi sem við stöndum í þakkarskuld við. Þær gáfu okkur enga peninga, engar veraldlegar gjafir, en nýja hugsun, nýja sýn á samfélagið og stöðu kvenna. Ein þeirra var Vilborg Dagbjarts- dóttir. Haustið 1970, stuttu eftir sögufrægan fund rauðsokka í Norræna húsinu, kom hún fram í sjónvarpsþætti og á einu kvöldi sneri hún sveimhuga stúlkum í hugsandi kvenfrelsiskonur. Vilborg var skáld og kennari sem barðist fyrir málefnum kvenna í harðsoðnu feðraveldi. Við dáðumst að skáldskap henn- ar en líka að kjarki og hugmynd- um sem þá þóttu frumlegar en þykja sjálfsagðar núna. Þrjátíu árum síðar þegar við Vilborg unnum saman að bókinni um hana, Mynd af konu, kynntist ég henni loks persónulega. Það er að segja, eins og hægt er að kynnast Vilborgu, því með henni bjuggu margar persónur. Bráðskarpar, skemmtilegar, orð- heppnar, líka einlægar, skáldleg- ar, heimspekilegar, en allar áttu það sameiginlegt að hafa djúpa samúð með lítilmagnanum. Ég spurði hana eitt sinn hvort hún teldi sig vera femínista eða kvenréttindakonu. Skáld, svaraði hún, ég er fyrst og fremst skáld. Ég vil lifa í listinni, lesa góðar bókmenntir, fara á myndlistar- sýningar, hlusta á tónlist. Sumarið ljúfa með skáldinu leið, okkar beggja biðu önnur verkefni. En þótt Vilborg kveðji gera ljóðin hennar það ekki. Þau eru dýrgripir í eigu þjóðarinnar. Það yrkir enginn eins og hún. Og sögurnar hennar um börn eru sí- gildar bókmenntir sem eru ár- lega lesnar upphátt fyrir unga jafnt sem aldna á fögrum júlí- kvöldum. Fjölskyldu Vilborgar sendi ég mínar samúðarkveðjur. Kristín Marja Baldursdóttir. Vilborg Dagbjartsdóttir rit- höfundafélagi er dáin, á tíræðis- aldri að vísu! Ég kynntist henni fyrst per- sónulega er ég gekk í Rithöf- undasamband Íslands, 1996. Þá hafði ég nýlega stofnað Hellasar- hópinn; upplestrarfélag rithöf- unda sem hefðu gert mikið af að vitna til forn-gríska bókmennta- arfsins í ljóðum sínum. Hitti ég hana á samkundu í Gunnarshúsi og sagði henni frá þessum hópi. Hvatti hún mig þá til að leita uppi slík dæmi í hennar eigin ljóðum. Og mikið rétt; ég fann þar m.a. eitt ljóð þar sem hún vitnar í goð- söguna er hetjan Þeseifur skildi kærustu sína, Aríödnu Mínosar- prinsessu, eftir á eynni Naxos! Seinna hitti ég Vilborgu stund- um í kaffispjallshópnum mínum á Kaffi París. Þótti mér þá vænt um er hún sagðist snemma hafa kynnt sér hina hástemmdu ljóð- skáldaarfleifð Bretlands, líkt og fleiri framsækin íslensk ljóðskáld af hennar kynslóð! Þótti mér þetta þá velkomin íhaldshlið á þessari annars gegnumgangandi vinstrisinnuðu konu (sem ég heyrði svo einnig halda erindi um fræga sovéska ljóðskáldskonu (Akhmatovu), sem fyrirmynd frelsisunnandi verkakvenna!). Mér var og hlýtt til hennar af því ég hafði sjálfur kennt á Aust- urlandi hennar forðum daga. Það gladdi mig og er Reykja- víkurborg gerði nýlega útilista- verk með ljóðbroti eftir hana fyr- ir framan Kolaportið! Áður en við hittumst fyrst hafði ég fengið Þorgeir Þorgeir- son rithöfund, manninn hennar, til að gefa áfram til hennar ljóða- bók mína frá 1992; Trómet og fí- ól; af því ég hafði þar aftan í henni birt ljóð eftir mína framsæknu rithöfundamóður heitna frá Bandaríkjunum, Amalíu Líndal. Og þótti mér þá hrósvert að hún hafði vídd í sér til að þiggja þakk- samlega þessi skrif; frá menntað- ri miðstéttarkonu og nýbúahöf- undi, kominni frá stór-kapítalíska Nató-sinnaða risaveldinu því! … Nú liggur beint við að ég kveðji hana með því að vitna í goðsögulegan kafla úr ljóði mínu er ég orti eftir heimsókn mína til Krítar 2017, þar sem segir ein- mitt frá hinni sömu Aríödnu á Naxos og Þeseifi, er hún orti sjálf um. Ljóðið mitt heitir: Mannfórn- irnar á Naxos, og þar yrki ég m.a. svo: Hér hímdi einnig prinsessan Aríadna er Þeseifur gleymdi henni lengi vel (eftir að hún hafði þó hjálpað honum við að komast út úr völundarhúsinu á Krít). (Og hvað ef sjóræningjar hefðu svo drepið hana í hreysinu hennar á Naxos og Þeseifur hefði þá orðið að hugsa: „Hún hefur, andspænis sveðjum víkinganna, upplifað líf sitt allt og endalok; án mín! Og nú er hún farin burt að eilífu, líkt og brátt mun verða um mig sjálfan!“) Tryggvi V. Líndal. Mynd af konu – Vilborg Dag- bjartsdóttir var ein fyrsta út- gáfubók Bókaútgáfunnar Sölku þegar hún var stofnuð árið 2000. Okkur Þóru Ingólfsdóttur var mikill heiður að því að fá að skreyta fyrsta útgáfulistann okk- ar með æviminningum hinnar merku skáldkonu, sem Kristín Marja Baldursdóttir skráði. Bók- in er bráðskemmtileg, enda leiddu þarna saman hesta sína tvær snjallar konur sem skildu hvor aðra og töluðu sama tungu- mál. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og margt á daga okkar allra drifið en minningin um kynnin af hinni einstöku skáldkonu og mannvini er ljós og lifandi. Oft átti ég samskipti við Vilborgu varðandi þýðingar og fleira og marga tebollana saup ég á Bókhlöðustígnum á hennar hlý- lega menningarheimili. Spjall við Vilborgu var líkt og vítamín- sprauta inn í daginn, skarp- skyggni hennar, kraumandi gam- ansemi og frjói hugur opnaði áheyranda nýjar víddir og nýja sýn. Ævintýraheimur huga henn- ar og hin næmu tengsl við ís- lenska menningu og tungu sköp- uðu einstök listaverk sem munu lifa með okkur um ókomin ár. Takk fyrir allt Vilborg, Hildur Hermóðsdóttir. Vilborg Dagbjartsdóttir var stoltur barnakennari, sem skildi óendanlegt mikilvægi starfsins og þurfti ekki á neinu titlatogi að halda. Freysteinn Gunnarsson, skólastjóri Kennaraskólans, skrifaði á prófskírteini hennar, að hún hefði sálarþroska til að ger- ast kennari. Henni þótti vænt um þau orð. En hvernig munum við hana, sem kenndum með henni árum saman? Jú, hún læddist ekki með veggjum, öðru nær. Hún reif upp stemninguna hvar sem hún kom, hafði ríka kímnigáfu, mikla tján- ingarþörf og einstaka frásagnar- hæfileika. Hún naut sín í kenn- arahópnum þar sem gamall sagnaandi sveif yfir vötnunum, og tók sér snemma bólfestu í Vil- borgu. Hún miðlaði okkur ungu kennurunum af arfleifð og gild- um skólans, sem hún elskaði og við elskum öll. Hún fræddi okkur um minnin, hefðirnar, mennsk- una og söguna og brýndi fyrir okkur að taka afstöðu með lítil- magnanum. Skondin tilsvör gam- alla samferðamanna og óskráðar tækifærisvísur Stefáns Jónsson- ar lifðu á vörum hennar. Gengnar kynslóðir kennara urðu ljóslif- andi í frásögnum hennar. Mættu veggir kaffistofunnar mæla yrði margur hlessa, svo mikið er víst. Vilborg Dagbjartsdóttir var Austurbæjarskólinn og Austur- bæjarskólinn var hún. Hún gekk jafnan til og frá vinnu og það var ungum kennurum hollt að verða henni samferða niður Skóla- vörðustíginn og ræða málin. Það reyndist ekki minni menntun en að ganga í háskóla. Henni var gefið hið ofurnæma auga lista- mannsins fyrir því, sem aðrir sjá ekki. Sjónarhornið var vítt, menningarlegt, listrænt og oft óvænt. Því sér víða stað í ljóðum hennar en birtist einnig í við- brögðum við ýmsu sem gerðist á vinnustaðnum, þótt það færi ekki alltaf hátt. Menn börðu sér ekki á brjóst í Austurbæjarskólanum, þótt þeir létu gott af sér leiða, en fyrir kom, að Vilborg Dagbjarts- dóttir stappaði niður fæti og sagði við kerfið: - Hingað og ekki lengra! Þótt hún væri róttæk í skoðunum voru viðhorf hennar sjálfstæð og fordómalaus og fylgdu ekki pólitískum flokkslín- um, hvað þá einhverju karpi á milli kynjanna. Engin skildi unga drengi og fullorðna karlmenn betur en hún, gamla rauðsokkan, og vissulega var margt um karl- inn í kennaraliðinu á þeim árum. Vilborg mat fólk að verðleikum, en ekki eftir einhverjum stjórn- málaskoðunum. Hún sá nefnilega í gegnum hvers konar yfirborðs- mennsku, sem alls staðar virðist þrífast. Guðmundur Sighvatsson, hinn mikli skólamaður og mann- vinur, var hennar síðasti skóla- stjóri. Þeirra samstarf var fallegt og gott. Hann sá til þess, að hún endaði ferilinn með byr undir báða vængi, enda flaug hún hátt og hreif nemendur með sér, fannst hún jafnvel „vera í fríi, svo þæg væru börnin“. „This is the lady of the house,“ sagði Guð- mundur, þegar hann kynnti hana fyrir erlendum gestum. Við sem unnum með henni munum ekki fjalla um skáldið Vilborgu Dag- bjartsdóttur. Það munu aðrir gera. En við getum borið vitni um það, að hún var stoltur barna- kennari, sem lét sér annt um skólabókasafnið, og að Dagur ís- lenskrar tungu var henni hjart- fólginn. Vænt þótti henni einnig um verðlaun Jónasar Hallgríms- sonar, sem hún hlaut á þeim degi árið 1996. Inga Lára Birgisdóttir Pétur Hafþór Jónsson Sigrún Lilja Jónasdóttir. Til Vilborgar Vorið er árstíð og það vita allir En vorið er einnig annað og meira eins og þú veist Það brosir feimnislega og roðnar hugsi lítil stúlka: En hvað það er fallegt Með þökk fyrir áralanga, gef- andi vináttu. Magnús Skúlason. Í dag kveðjum við Vilborgu Dagbjartsdóttur, góða vinkonu okkar til margra ára. Hún gekk í raðir Delta Kappa Gamma, fé- lags kvenna í fræðslustörfum ár- ið 1986 og alla tíð var hún einn af máttarstólpum Gammadeildar þess félags. Vilborg hafði einstaka nær- veru í senn hátíðlega og notalega. Hún var ljúf og hlý, skemmtileg og gefandi. Ósjaldan flutti hún okkur leiftur og minningar, bæði í bundnu máli og óbundnu. Fyrir tveimur árum var haldið alþjóðaþing DKG á Íslandi. Ein Gammasystir fór með hóp er- lendra gesta í kynnisferð um mið- borgina og kom óvænt við hjá Vil- borgu sem kom út á tröppur, flutti fyrir gestina eitt af sínum fegurstu ljóðum. Erlendu gest- irnir áttu ekki orð yfir þeirri gæfu að fá að hitta þessa frábæru listakonu og hlusta á hana lesa ljóð á eigin tungumáli. Það mátti víða sjá tár á hvarmi. Síðasta samverustund okkar með Vilborgu var nú í ár á fögru vorkvöldi við Nauthólsvíkina. Hún sagði sögur, hláturmild að vanda og hnyttin í tilsvörum. Vilborgar minnumst við með hlýju og virðingu fyrir gefandi samveru í gegnum árin. Með þakklæti munum við áfram njóta perlanna hennar sem skína. Fjölskyldu Vilborgar sendum við innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning merkrar konu. F. h. Gammadeildar, Edda Pétursdóttir. Nú er hún Vilborg dáin. Sem betur fer eru margir sem kunna að lýsa áhrifunum sem hún hafði sem skáld, þýðandi og kennari og allir vita að hún var engum lík. Vilborg var meðal þeirra kvenna sem tóku þátt í að búa til íslenska framtíðarkonu, en hún sleppti þó aldrei hendi af sínum furðulega forneskjulega uppruna, þar sem fólk gjóaði augunum í átt til sjáv- ar af ótta við nýtt Tyrkjarán. Vil- borg hafði áhuga á fólki og hún var hláturmild; engum hef ég kynnst sem kann að segja jafn- stórbrotnar og fyndnar sögur af daglegu lífi. Söguhetjurnar voru íslenskt alþýðufólk, heimsfræg stórskáld, stjórnmálamenn, drykkfelldir listamenn, útlenskir hermenn og draugar, en þrátt fyrir hláturinn var alltaf skilið eftir pláss fyrir harminn sem hlýtur að vera hluti af lífinu sjálfu. Ég var á unglingsaldri þegar ég varð heimagangur hjá þeim Þorgeiri og sonum þeirra og hef síðan talið mig til heimilis- vina. Vilborg hafði djúpstæð áhrif á mig því að hún var ekki bara viðstödd þegar ég kastaði unglingshamnum og hún var ein af þeim sem kenndu mér að verða fullorðin. Vilborg og Þorgeir hjálpuðu mér um margt sem mig hefur munað um alla ævi, en nú kallar á mig fegurðin í vinsemd Vilborgar: Þegar ég komst ekki í jarðarför Solveigar systur minn- ar haustið 1982, þá fór Vilborg fyrir mína hönd og lýsti svo at- höfninni í bréfi þannig að ég sé hana fyrir mér eins og ég hefði verið þar sjálf. Svona gjafir gefur ekki hver sem er. Blessuð sé minning Vilborgar, sem er full af kærleika og þakk- læti. Lára Magnúsardóttir. Mér barst fréttin af fráfalli Vil- borgar til Parísar rétt eins og fréttin af andláti Þorgeirs á sín- um tíma. Árin 1984-86 var hún umsjónarkennari minn við Aust- urbæjarskólann og á margan hátt liggur bein lína frá því að vera nemandi hennar til þess að verða gestaprófessor við Sor- bonne. Hjá Vilborgu og Þorgeiri lærði ég fyrst og fremst, að hugs- unin á sér engin landamæri. Vil- borg ólst upp við þröngar að- stæður á Vestdalseyri, en varð á einhvern fyrirhafnarlausan hátt að sönnum heimsborgara. Hún sagði mér margoft frá tíma sínum með skosku bankastjórafjöl- skyldunni, á missionshótelinu í Kaupmannahöfn, skólaferðum til Tékkóslóvakíu og skáldaferðum til Kólumbíu og víðar um heim- inn. Heimurinn allur, víðsýni og takmarkalaus virðing fyrir menningu og tungumálum, þar sem allt var metið jafnrétthátt, átti greiða leið inn í skólastofu Vilborgar. Níu ára danskur drengur, nýkominn til landsins talaði og skildi náttúrulega ekki orð í íslensku. En Vilborg leysti málið með því að láta hann taka lestrarpróf á dönsku, auk þess sem hún fann danskar bækur á skólabókasafninu. Leiksvið Aust- urbæjarskólans er töfrandi stað- ur, þar sem ótal börn hafa byggt upp sjálfstraust til að geta staðið fyrir framan fullan sal af fólki. Danski strákurinn, sem talaði ekki orð í íslensku, gat ekki tekið þátt í jólaleikritinu fyrsta árið. Hins vegar gat hann fyrir til- stuðlan Vilborgar orðið fyrsti danski töframaðurinn til að koma fram á sviði Austurbæjarskólans. Ég mun aldrei gleyma tilfinning- unni, sem fylgdi því að standa þar á sviði og sýna töfrabrögð áreynslulaust á minni eigin tungu á sama tíma og ég þurfti að læra nýtt tungumál og verða hluti af daglegu erlendu skólalífi. Útlend börn talandi erlend tungumál eru ekki vandamál, heldur ríkidæmi, ef maður velur það. Dag nokkurn færði Vilborg okkur gjöf sem var töfrum lík. Ef til vill var það fyrsti grænlenski fáninn á Ís- landi, en pólitískur vinur Vilborg- ar á Grænlandi hafði sent henni gripinn að gjöf. Fáninn hékk yfir dyrum skólastofunnar og þessi fáni er fjársjóður fyrir Ísland og Austurbæjarskólann, hvar sem hann er niðurkominn í dag. Nú er ég prófessor í alþjóðastjórnmál- um á norðurslóðum, þar sem leið Grænlands að sjálfstæði er mik- ilvægt viðfangsefni. Seinna, eftir að ég varð nemandi í MR og síðar Nordplus-stúdent við HÍ, knúði ég oft dyra hjá Vilborgu og Þor- geiri og kom alltaf fróðari af þeirra fundi. Ávallt var mér boðið inn, þar sem ég fékk „gott kaffi“ og góðan mat. Bókhlöðustígurinn varð mitt annað heimili. Við kringlótt borðstofuborðið mætt- ust fortíð, nútíð og framtíð, aust- ur og vestur, allt fullt virðingar og dýpstu víðsýni. Þakka þér, Vil- borg, fyrir að gera danskan strák í útlöndum að einhverju sérstöku í staðinn fyrir að láta hann vera eitthvað öðruvísi en hin börnin, enda hefur þú gert ótal börn að einhverju sérstöku. Nú er komið að gömlum nemendum þínum að gera ókunnuga að einhverju sér- stöku og leiða saman fortíð, nú- tíð, framtíð, austur og vestur. Rasmus Gjedssø Bertelsen. Vilborg Dagbjartsdóttir skáld- kona. Sjaldan segi ég nafn henn- ar upphátt án þess að titillinn skáldkona fylgi því. Ekki frá því ég fyrst las ljóð hennar í safnhefti um það bil sem ég var að ljúka unglingaskólanámi. Nú breiðir María ullina sína hvítu á himininn stóra. María sem á svo mjúkan vönd að hirta með englabörnin smáu. Það hrundu fáein blóm úr vendinum hennar í vor, þau vaxa síðan við hliðið ljómandi falleg og blá. Fuglinn sem á hreiður við lækinn í hlíðinni sunnan við bæinn er kallaður eftir henni. Það er Maríuerla. Þegar ég verð stór og ræ á sjó með pabba gef ég henni Maríu fyrsta fiskinn minn. Í kirkjunni er mynd af Maríu með gull utan um hárið. Mamma segir að það sé vegna þess að María á dreng svo undurgóðan. Ég hafði reyndar oft lesið ljóð sem höfðu vakið hjá mér hugsun og nýjar hugmyndir, en nú olli Vilborg Dagbjartsdóttir skáld- kona nýjum gárum í vitundarlífi mínu og ljóðið hennar um Maríu hvarf ekki úr minni. Fáeinum árum seinna henti mig það happ að fá að lesa ljóð á sömu samkomu og Vilborg. Þá tókum við tal saman og síðan hlustaði ég agndofa á skáldkon- una fara með ljóðið Morgunverk, þar sem hún segir meðal annars: Kvöldið eftir bað ég Drottin um rok í næturhúminu lá ég andvaka og heyrði kulið vagga greinum plómu- trésins - örlítið hvassara Drottinn minn góður bað ég auðmjúk Hvenær hefur himnafaðirinn skeytt um morgunsult fátæklings? Enda kom mér ekki í hug að dekstra karlinn heldur lét það verða mitt fyrsta verk í morgunsárið að reka sópinn upp í plómutréð þar sem það slútti yfir vegginn - ekki samdi Drottinn Jahve-boðorðin handa þjónum, vinnukonum eða kven- fólki yfirleitt Framlag Vilborgar til lífs þessa tiltekna unglings var um- talsvert, en framlagið til ís- lenskra bókmennta var ekkert minna en magnað og verður seint fullþakkað. Verk hennar eru ómetanlegar gersemar sem hún valdi að færa þjóð sinni að gjöf. Sem ungur höfundur átti ég því láni að fagna að starfa með henni fyrir Rithöfundasamband Ís- lands snemma á níunda áratug síðustu aldar. Þá vakti það óblandna aðdáun mína hvað hún fylgdist grannt með grasrótinni og var vel heima í verkum yngstu skáldanna. Það var nánast sama hvaða nafn bar á góma, titill nýrr- ar ljóðabókar eða stuttur prósi sem birst hafði í blaði eða tíma- riti, alltaf vissi Vilborg hvað klukkan sló og gat uppfrætt okk- ur sem ekki vorum jafnvel með á nótunum. Aðdáun mín á henni stigmagnaðist við samstarf okkar og hefur engan enda tekið. Nú kveðjum við Vilborgu Dag- bjartsdóttur skáldkonu og heið- ursfélaga í Rithöfundasambandi Íslands. Hjartans þakkir, kæra Vilborg, fyrir allt það gagn sem þú hefur unnið okkur rithöfund- um, okkur lesendum og aðdáend- um alls þess sem vel er gert í bók- menntum. Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfunda- sambands Íslands. SJÁ SÍÐU 22

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.