Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - apr. 2021, Blaðsíða 12

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - apr. 2021, Blaðsíða 12
Siglfirðingablaðið Siglfirðingablaðið22 23 Ritstjórn Siglfirðingablaðsins hefur beðið mig að segja frá tildrögum þess að Síldarminjasafnið varð til - hvernig það var að standa í baráttunni frá fyrstu hugmyndum, í mótbyr jafnt sem meðbyr. Horfa um öxl og fram á veg. Siglufjörður með sín björtu og annasömu sumur. Skipin siglandi út og inn fjörðinn og síld á öllum bryggjum. Vetur, langir og snjóþungir, stórhríðar eða sólbjartir dagar. Og litríkt mannlífið í fjölbreytilegum athöfnum árstíðanna. Hvernig minnumst við fyrri tíðar, reynslu okkar og sögu? Eða skipta minningar okkur einhverju máli? Við sjáum hlutina ólíkum augum og minnumst liðins tíma á mismunandi vegu, það er ekki að efa. Einnig höfum við misjafnar skoðanir á gildi safna eða sýninga sem standa eiga vörð um söguna. Hugmyndin um safn er ekki gömul í heimi okkar - eða gæti nokkrum hafa dottið það í hug á Siglufirði t.d. um aldamótin 1900 að vert væri að reisa safn um sögu þessa „guðsvolaða útnára“? Kannski var það hin öra þróun eða öllu heldur umbylting samfélags okkar á 20. öld sem olli því við hljótum að staldra við og líta um öxl: Mikið er allt orðið breytt! – og það nýja þarf ekki allt að vera fagnaðarefni: Það er margs að sakna! (Hve oft heyrði maður ekki þessi orð af vörum gamalla brottfluttra sem komnir voru á heimaslóðir á ný). Líklegast er hugsjónin um safn fólgin í að varðveita það sem dýrmætt má kalla úr fortíðinni – eða safn sé staður þar sem tíminn hefur hætt að líða. Og segja má að safn sé skipulegt og menningarlegt uppgjör við fortíðina. Menningarlegt samfélag gerir upp fortíðina með þeim hætti. Þegar við stofnuðum Félag áhugamanna um minjasafn, Fáum, í september 1989 var gengið að ákveðnum grunni, hugmyndin um siglfirskt safn var fyrir hendi og gripum hafði verið safnað. Á þúsundasta fundi Bæjarstjórnar Siglufjarðar 13. mars 1957 var kosin fimm manna stjórn byggðasafns – en fátt gerðist í raun í aldarþriðjung. Hvernig safn og hverju skyldi safnað var rætt um endalaust – og jafnvel rifist – og það sem við í áhugamannafélaginu fengum í hendurnar á haustdögum ‘89 var eins og að taka við þrotabúi. Um skeið, reyndar í allnokkur ár, hafði það legið í loftinu að bölv. brakkinn yrði bara rifinn - friðað húsið! - og kveikja ætti í öllu þessu einskisverða síldardóti. Menn höfðu sagt: „Safn er alltof dýrt, það er nóg að skrifa söguna og svo má bara smíða líkön af öllu heila klabbinu og koma fyrir í einu herbergi, t.d. inn af bókasafninu.“ Við vorum sem sé nokkrir þrjóskuhundar sem létum ekki segjast og tókum málin í okkar hendur. Varla get ég haldið áfram þessari sögu án þess að gerast svolítið persónulegur – og greina lítillega frá því hvað rak mig áfram - eins og ég var, held ég, beðinn um. Í foreldrahúsum var ég alinn upp við virðingu fyrir sögu og söfnum. Í listnámi mínu syðra lá leið mín tíðum á Þjóðminjasafnið og Listasafnið og eftir heimkomu var ég beðinn að taka sæti í byggðasafnsstjórn og þar entist ég í eitt og hálft ár, 1978-79. Óeiningin innan stjórnar var ekki þolandi. Sumarið 1985 safnaði ég hins vegar liði til að bjarga Róaldsbrakka (Ísfirðingabragga). Þá um vorið hafði spurst að lögð hafi verið fram á bæjarstjórnarfundi tillaga um að rífa Brakkann. Ég hóaði í vinveitt og menningarlega sinnað fólk, (byggðasafnsstjórn ekki undanskilin!) og saman flikkuðum við upp á húsið og máluðum í frístundum okkar. Árangurinn varð meðal annars sá að augu margra upplukust fyrir fegurð þess - eftir að litað var yfir larfana. Eftir að ég tók að mér uppsetningu á sögusýningu í Þormóðsbúð á 70 ára kaupstaðarafmælinu 1988 (auk mikillar myndlistarsýningar í Ráðhúsinu) var eins og neisti hafi tendrast í hugskoti mínu. Og þegar enn barst ómur af niðurrifsumræðu byggðasafnstjórnar í Ráðhúsinu ári síðar var það eins og að blásið væri í glóð: Fyrst við gátum í samtakamætti okkar, fólkið í bænum, framlengt líf brakkans um nokkur ár þá ættum við bara að gera hann að ævarandi djásni. Og ég vissi að nú væri að hrökkva eða stökkva; ég efaðist um að búandi væri áfram á mínum kæra stað ef við sem samfélag hefðum ekki manndóm í okkur til að gera það sem þyrfti gagnvart sögu okkar. En til þess yrði að gefa sig allan í verkið – og brátt varð neisti orðinn að heilmiklu báli. Blásið var í lúður og boðað til stofnfundar áhugamanna- félags. Hinrik Aðalsteinsson, kennari, var aðalráðgjafinn og skrifari félagslaga og síðar samnings við bæjarstjórn um yfirtöku húseignar og safnaðra muna. Um það leyti gekk ég á fund nokkurra áhrifamanna í bænum, kynnti þeim áform okkar og samdi við þá, ýmist um stuðning eða að gefa okkur tækifæri til að gera þessa tilraun: að byggja upp safn um sögu Siglufjarðar – og án þess að dæla peningum úr bæjarsjóði í óvinsælt verkefni. Í fyrstu stjórn voru kosnir: Örlygur Kristfinnsson for- maður, Kristrún Halldórsdóttir varaformaður, Anton Jóhannsson gjaldkeri, Hinrik Aðalsteinsson ritari og Regína Guðlaugsdóttir meðstjórnandi. Varamenn: Birgir Hvernig byrjaði þetta allt? Steindórsson, Bragi Magnússon og Guðný Róbertsdóttir. Síðar áttu eftir að verða mjög virkir: Guðný Pálsdóttir, Hafþór Rósmundsson, Sigurður Guðmundsson, Sveinn Björnsson, Sturlaugur Kristjánsson og Þór Jóhannsson. Frá árinu 1996 gegndi Hafþór formennsku í Fáum eftir að undirritaður var ráðinn í starf safnstjóra. Og enn síðar Guðmundur Skarphéðinsson. Í upphafi var nokkuð velt fyrir sér hverslags safn við vildum – hvað safnið ætti að heita; byggða-, sjóminja- eða síldarminja-? En segja má að við höfðum ekkert val og reyndar kom nafnið Síldarminjasafn Íslands fyrir í hvatningarræðu minni við félagsstofnunina. Annað var alveg fastákveðið: við skyldum leita allra annarra leiða en að biðja bæjarstjórn um fjárframlög til heldur óvinsælla framkvæmda. Við það var staðið. Róið var á önnur mið, sótt um styrki þar sem það bauðst, má þar t.d. nefna Siglfirðingafélagið syðra – en allra drýgstir urðu styrkirnir úr Húsafriðunarsjóði. Þar vóg fegurðargildi og sögulegt hlutverk Róaldsbrakka mjög þungt í hæstu úthlutunum næstu ára – og segja má að hlutur sjóðsins hafi skipt sköpum um endurgerð hússins og uppbyggingu safnsins. Hins vegar er það eftirminnilegt, og afar gaman að segja frá því, þegar þáverandi bæjarstjóri, Björn Valdimarsson og Baldvin Valtýsson skrifstofustjóri viðruðu við mig þá hugmynd að það sem Fáum væri að gera skipti það miklu máli fyrir Siglufjörð að bæjarstjórn yrði að koma að uppbyggingu safnsins og leggja fé af mörkum. Það var í september 1993. Framlag bæjarstjórnar varð síðan til þess að hraða framkvæmdum og að á næstu misserum var lokið við ytra byrði Róaldsbrakka og Ólafur G Einarsson menntamálaráðherra vígði hann sem safnhús með opnun fyrstu sýningar þar 8. júlí 1994. Þarna, strax á þessum árum, blés mjög byrlega fyrir starfi okkar. Margir lögðu mikið af mörkum í sjálboðastarfi, það skapaði góða stemningu og traust, sjónvarpsþáttaröð Birgis Sigurðssonar, Svartur sjór af síld, undirbjó jarðveginn hjá þjóðinni og síðast en ekki síst hafði Síldarævintýrið, hin glæsilega bæjarhátíð undir kraftmikilli stjórn Theodórs Júlíussonar, mjög góð áhrif á alla framvinduna. Ég hef stundum notað orðið þjóðarátak um uppbyggingu safns okkar – svo víðtækur var stuðningurinn frá einstakl- ingum, félögum, fyrirtækjum, opinberum menningar- sjóðum, ríki og bæ. Framreiknað til núvirðis má ætla að heildarkostnaðurinn hlaupi á hundruðum milljóna króna. Þessar staðreyndir minna okkur á eitt: hve síldin og Siglu- fjörður eiga mikil ítök hjá þjóðinni. Annað orð hef ég talsvert notað um þessa reynslu, hvernig okkur tókst að byggja upp eitt stærsta safn landsins. Safn sem virðist njóta vinsælda og virðingar – og hefur sópað til sín verðlaunum – það eina hérlendis sem hefur hlotið alþjóðleg verðlaun, frá European Museum Forum 2004. Orðið er GÆFA. Nánast allt var hugsjóninni um SAFN í vil – í stóru og smáu! Hve oft hugsaði maður ekki eða sagði: eins og himnasending! Vitaskuld vorum við ekki alltaf alveg fullkomlega sammála um leiðir að marki – en fólk hafði þroska og sálarþrek til að láta það ekki koma upp á yfirborðið og spilla fyrir. Oft varð maður var við það sjónarmið að við með okkar „fúnu spýtur og ryðgaða járn“ vildum hverfa til fortíðar. En líklega vorum við meira framtíðarfólk en margan grunaði þá. Svo ég tjái mig að lokum um núverandi stöðu safnsins og horfi ögn fram á veginn þá stendur Síldarminjasafnið afar vel þrátt fyrir andbyr í miðjum heimsfaraldri og kreppu. Hluti gæfunnar stóru er nefnilega sá að Anita Elefsen var ráðin í starf safnstjóra 2016. Hún er „gamalgróin“ á safninu þótt ung sé að árum, menntuð á sviði safnamála og sögu og er ákaflega dugleg og metnaðargjörn í starfi sínu. Og ekkert er slegið af í framkvæmdaseminni gagnvart áframhaldandi og eðlilegri uppbyggingu. Þá er ekki seinna vænna að nefna þau mikilvægu lykilorð: söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir og miðlun - þau faglegu störf sem eru stunduð eru af mikilli kostgæfni nú um stundir á Síldarminjasafninu. Hér hefur verið farið hratt yfir sögu fyrstu áranna – margt ósagt, ótalið… en nánar má fræðast um sögu Síldarminja- safnsins á: http://www.sild.is/um/um-safnid/saga-safnsins/ Örlygur Kristfinnsson - í mars 2021 Fáum-fólkið 20. maí 1991: Guðný Róbertsdóttir, Guðný Pálsdóttir, Kristrún Halldórsdóttir, Regína Guðlaugsdóttir, Ása Árnadóttir, Anton Jóhannsson, Þór Jóhannsson, Birgir Steindórsson, Hafþór Rósmundsson og Örlygur Kristfinns- son. Ljósm. Sigurður Guðmundsson.

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.