Fréttablaðið


Fréttablaðið - 03.06.2022, Qupperneq 28

Fréttablaðið - 03.06.2022, Qupperneq 28
Hins vegar er næsta víst að eftir 40 ár verður Keith Richards enn á ferðinni að halda tónleika. Jóhann Hlíðar Harðarson sá rokkband eilífðarinnar, The Rolling Stones, á tónleikum í Madrid 1982 og furðaði sig þá á hversu sprækur Mick gamli, Jagger var á sviðinu. Hann tékkaði aftur á Stones í fyrra- dag á sama stað og upplýsir hér með að Jagger getur ekki verið úr sama efni og aðrir dauðlegir menn. Jóhann Hlíðar Harðarson Ég man að ég hugsaði: „Mikið and- skoti hvað þessi gamli maður getur hlaupið þindarlaust um sviðið.“ Þetta var 7. júlí 1982. Og ég man þennan dag eins og gerst hefði í gær. Þetta voru fyrstu tónleikar Rolling Stones í Madrid. Og þeir fóru í sögu- bækurnar. Spænskir fjölmiðlar eru enn að fjalla um þessa tónleika. Á nokkurra ára fresti rifja þeir þá upp, segja þá eina bestu, ef ekki bestu tónleika sem haldnir hafa verið á Spáni og eina þá bestu af mörgum hundr- uðum (eða þúsundum) tónleika sem Rolling Stones hafa haldið. Og tónleikarnir voru í raun töfr- um líkir. Þetta var heitasti dagur ársins í Madrid, 39,2 gráður þegar best/verst lét. Við félagarnir vorum komnir inn á grasið á heimavelli Atlético Madrid fjórum klukku- stundum áður en tónleikarnir áttu að byrja. Og hitinn! Svo ofboðslegur að þeir sem voru með bjór eða rauð- vín á leðurbelgjum notuðu vökvann jöfnum höndum til að kæla sig inn- vortis sem útvortis, menn spraut- uðu hreinlega rauðvíninu yfir höf- uðið á sér. Ég var að kafna. Upphitunarbandið var J. Geils Band sem ég þekkti vel. En allt spilið þeirra fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér sem fleirum, þar sem hitinn var um það bil að fara að hafa varan- leg áhrif á heilastarfsemina. Sjá undur gerast Þá gerðist undrið: Klukkan þrjár mínútur yfir níu hljóp Mick Jagger inn á sviðið … og allt bandið á eftir. Á sama augnabliki skrúfaði Drottinn allsherjar svo rækilega frá krönum himnanna að maður hefur sjaldan upplifað annað eins. Allt fór á flot á augabragði. Himnarnir lýstust upp af eldingum og hljómsveitin var med det samme komin í alvarlega keppni um hvor gæti látið heyra betur í sér, náttúran með sínum of boðslegu þrumum eða Stones með upphafslaginu Under My Thumb. Svo gerðist undur númer 2: Hálf- tíma eftir að tónleikarnir hófust var skrúfað fyrir eins og hendi væri veifað. Og allir í kringum mig drógu fram þurra stuttermaboli sem þeir höfðu farið úr á meðan rigndi og stungið ofan í gallabuxurnar. Nema ég. Ég stóð þarna eins og hundur af sundi dreginn í mínum rennandi blauta bol, en mér var alveg sama. Ég var í algleymi. Sviðið var á f loti. Mick Jagger slóst við náttúruöflin og hafði betur. Og það var einmitt þarna sem ég hugsaði: „Mikið and- skoti hvað þessi gamli maður getur hlaupið þindarlaust um sviðið.“ Ég var 19 ára, hann var 39 ára. Frelsi, frelsi, frelsi! Já, árið 1982 var Spánn ein iðandi deigla, frelsi, frelsi, frelsi, var orð dagsins og yfir og allt um kring. Madrid var þekkt sem borgin sem aldrei svaf og unga fólkið var fullt bjartsýni og lífsgleði. Það var ótrúleg upplifun að taka þátt í þessu spænska vori. Sem að mörgu leyti minnti marga á vorið í París 1968, nú skyldi æskan taka völdin, nú skyldi æskan njóta lífs- ins, nú skyldi vera gaman. Hvert tækifæri var notað til að skemmta Með Rolling Stones á sama stað 40 árum síðar Árið er 2022 og Jagger djöflast í sama jötunmóð og Jóhann Hlíðar sá hann síðast á tónleikum í borginni fyrir fjórum áratugum. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY Ioanna, Rea og Aggeliki í góðu stuði með Aðal- heiði og Ragnari. Þær komu alla leið frá Grikk- landi til að sjá Stones. MYND/AÐSEND Jóhann Hlíðar, ekki alveg sami maðurinn og þegar hann sá Stones í Madríd 1982, hitar upp fyrir endurfundina í fyrradag ásamt Ragnari Hólm Ragnars- syni, Aðalheiði Önnu Ragnarsdóttur og Teresu Hita López. MYND/AÐSEND sér, fíkniefnum var flaggað til hægri og vinstri á börum, kaffihúsum, í skemmtigörðum og á torgum … sjáið mig! Ég geri það sem mér sýnist! Það var í þessu andrúmslofti sem Rolling Stones tryllti 60.000 áhorf- endur í miðborg Madrid miðviku- dagskvöldið 7. júlí. Nýir bolir og gamlir Spánn fyrir 40 árum og Spánn í dag eru tveir ólíkir hlutir. Ég fyrir 40 árum og ég í dag erum líka tveir ólíkir menn. Eða er það ekki? Ég skal ekki segja … erum við ekki alltaf bara rétt um tvítugt? Spyrjið bara Keith Richards … Allavega, það er enn einu sinni kominn miðvikudagur, 1. júní, og það er komið að því aftur … 40 árum síðar … hver hefði trúað því? Það er komið að því aftur að Rolling Stones troði upp í Madrid. Þeir hafa reyndar gert það oft síðan 1982, en ég er aftur mættur … Og já. Spánn fyrir 40 árum og Spánn í dag eru tveir ólíkir hlutir. Þessi ólgandi frelsistilfinning og bjartsýni sem var yfir og allt um kring hjá ungu fólki, minni kynslóð, er á bak og burt. Atvinnuleysi meðal ungs fólk er himinhátt, stór hluti ungs fólks býr heima hjá foreldrum sínum langt fram á fullorðinsárin og sér vart fram á að koma sér þaki yfir höfuðið og stór hluti þess ætlar ekki að eignast börn. Þau hafa ekki efni á því. Hvergi í heiminum fæðast eins fá börn, hlutfallslega, og á Spáni. Og vofa fasismans lætur á sér kræla svo um munar, öfgahægriflokkur Vox þýtur upp á himinfestinguna með þvílíkum hraða að mjög margir telja víst að f lokkurinn verði kominn í ríkisstjórn innan nokkurra ára. En í nokkrar klukkustundir á fal- legum miðvikudegi látum við okkur áhyggjur og vandamál heimsins litlu varða. Við erum á leiðinni á tónleika með Rolling Stones. Smám saman fyllist miðbær Madrid, þess- arar stórkostlegu borgar sem aldrei sefur, af fólki í Rolling Stones bolum, nýjum bolum og gömlum bolum. Og það sem kemur mér eiginlega mest á óvart er að það er sægur af ungu fólki á leiðinni á tónleikana. Þarna eru Ioanna og vinkonur hennar, tæplega þrítugar, og komnar alla leið frá Grikklandi til þess að horfa á gömlu mennina. Ioanna segir mér að þær hafi verið harðákveðnar í að sjá Rolling Stones í Madrid, þetta hljóti að vera síðasta tónleikaferðalagið þeirra. Pabbi hennar situr heima í Grikklandi, grænn af öfund. Og Vic- toria frá Argentínu, 25 ára, búsett í Madrid, segir að allir hennar arg- entínsku vinir í borginni hafi verið harðákveðnir í að sjá þessar goð- sagnir úr æsku foreldra sinna. Hola Madrid! Charlie Watts kvaddi þessa jarðvist í fyrra, í hans stað er kominn Steve Jordan, sem er bara 65 ára. Hálf- gerður unglingur. Fyrir 40 árum fór ég með tveimur góðum félögum frá „þorpinu mínu“ (Calera y Chozas) á Spáni, Tirso og Andrési. Þeir sitja núna með Charlie Watts og telja í, báðir létust langt fyrir aldur fram. Í dag sit ég hér með bestu vinkonu minni, Tere. Hún er systir Andrésar og því hafa þessir tónleikar mikið tilfinninga- legt gildi fyrir okkur. En auðvitað er þetta fyrst og fremst bara of boðs- lega gaman. Ég finn að ég er með fiðring í maganum. Svo vægt sé til orða tekið. Leikvangurinn fyllist hægt og rólega, og klukkan kortér yfir 10 eru 50.000 manns samankomnir á Wanda Metropolitan-leikvang- inum í Madrid þegar Mick Jagger vippar sér á sviðið og hrópar „Hola Madrid!“ Það þarf ekki meira, þeir eru mættir! Næstu tvær klukku- stundirnar rennur hver klassíkin af annarri áfram; Beast of Burden, Honkey Tonk Women, Miss You, Start Me Up, Paint It Black, Symp- athy For The Devil, Jumpin Jack Flash, You Can´t Always Get What You Want og Out Of Time, sem elstu menn fullyrða að Stones hafi aldrei flutt á tónleikum áður. Lagið er frá árinu 1966. Mick Jagger hefur varla órað fyrir því, 23 ára gamall, að hann myndi syngja þetta fyrir heimsbyggðina rúmlega hálfri öld síðar. Og Mick Jagger! Hann getur ekki verið gerður úr sama efni og við hin. Maðurinn verður áttræður á næsta ári og hann æðir um sviðið … fram og til baka … ég segi ekki að hann hafi hlaupið, en hann val- hoppaði eins og fjallageit. Móðir mín er jafngömul Mick Jagger og hún er hætt að valhoppa … Síðasti séns Jagger talaði við okkur tónleikagest- ina á spænsku allan tímann. Hann kynnti hljómsveitina og þegar hann kynnti Ronnie Woods til sögunnar, þá sungu 50.000 manns einum rómi „Hann á afmæli í dag“, en Ronnie átti 75 ára afmæli þennan sama dag. Er til skemmtilegri leið til þess að halda upp á 75 ára afmæli en að troða upp á rokktónleikum fyrir framan 50.000 aðdáendur, bók- staflega á öllum aldri? Ég held ekki. Engum er þó fagnað eins ákaft og Keith Richards. Í þrjár mínútur syngja áhorfendur einum rómi: „Olé, olé, olé, olé  …“. Keith brosir út að eyrum eins og hamingjusamur fermingardrengur, hann er snort- inn. Svo sveiflar hann á sig gítarnum og syngur tvö lög; Happy og Slipping Away. Og rúmum tveimur klukkutím- um síðar slá Rolling Stones lokatakt- inn með líklega þeirra frægasta lagi, „(I Can´t Get No) Satisfaction“. Þegar Mick Jagger söng þetta lag árið 1982, þá sveipaði hann um sig spænska fánanum. Í dag eru aðrir tímar og Mick Jagger fór í jakka sem var eins og úkraínski fáninn. Stórkostlegur endir á stórkostlegum tónleikum, stærstu rokksveitar í heimi. Um það er ekki hægt að deila. Þetta var með öllum ólíkindum og verður ekki endurtekið. Ekki eftir 10 ár, ekki eftir 20 ár, ekki eftir 30 ár. Hins vegar er næsta víst að eftir 40 ár verður Keith Richards enn á ferðinni að halda tónleika. Trú- lega einn á ferð, en trúið mér, hann verður enn að. n Nánar á frettabladid.is 16 Lífið 3. júní 2022 FÖSTUDAGURFRÉTTABLAÐIÐLÍFIÐ FRÉTTABLAÐIÐ 3. júní 2022 FÖSTUDAGUR

x

Fréttablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.