Austurglugginn


Austurglugginn - 01.07.2004, Page 7

Austurglugginn - 01.07.2004, Page 7
Fimmtudagur 1. júlí AUSTUR • GLUGGINN 7 Austurglugginn heldur áfram að vekja athygli á hinum ýmsu leiðum til afþreyingar á Austurlandi. f síðustu viku sögðu við frá kajaksportinu sem nýtur sífellt meiri vin- sælda en nú beinum við athyglinni að stangveiðinni. Stangveiði er tómstundagaman fyrir alla og til að sýna fram á það langar mig til að segja eina örstutta sögu. Á dögunum fór ég í Norð- fjarðará en ég hef ekkert sérstaklega góða reynslu af þeirri á. Var bú- inn að heyra eins og venjulega að einhverjir sérfræðingar hefðu verið að mokfiska nokkrum dögum áður en slíkt hafði ég heyrt áður en aldrei fengið neitt sjálfur. Það breytir því ekki að það er alltaf jafn spennandi að fara á veiðar því spennan snýst ekki síst um það að það gæti farið svo að maður fengi ekki neitt en það gæti Kka farið svo að maður hafi ekki nógu stóra poka fyrir aflann. Ég var ekki einsamall enda skemmtilegra að fara í veiði með félagsskap. Förunautur minn var sérlega svartsýnn enda hafði hann aldrei fengið svo mikið sem einn fisk í Norðfjarðaránni. Hann fór því með því hugarfari að fengi hann ekkert núna myndi hann aldrei fara aftur og Norðfjarðaráin yrði persóna non grata í hans augum. Við vorum ágætlega búnir en þó eins og dæmigerðir hobbíveiðimenn með stöng sem líkast til var keypt í sjoppu einhvers staðar, einhvern tímann fyrir löngu. Eftir að hafa staðið við árbakkann í fjóra klukkutíma án nokkurs ár- angurs - að vísu þóttumst við sjá nokkra golla - var ákveðið að gefa Norðfjarðará upp á bátinn en á sama augnabliki og undirritaður sagði: „Jæja, ég nenni þessu helvíti ekki" þá beit á og veiðimaðurinn sem býr í okkur öllum braust fram á yfirborðið með látum. Á meðan ég dró fiskinn inn sannfærði ég sjálfan mig um að hér væri líkast til stærsti fiskur sem veiðst hefði í ánni en þegar upp var staðið reyndist þetta vera eins punds sjóbirtingur eða bleikja. Sá næsti beit á í næsta kasti og á tímabili hélt maður að mokið væri að hefjast. Svo reyndist ekki vera en eftir tæpa fimm klukkutíma við ána fóru veiðimennirnir með þrjá heim, þar af einn vænan sem samferðarmaður minn dró á land, hamingjusamur enda eins og áður segir fyrsti fiskurinn sem hann fær í Norðfjarðará. Fyrir þá sem hafa áhuga á slíku þá voru þessirfisk- ar veiddir á spún, Elbe wings og Toby, báðir tíu gramma. Nú, það er ástæða fyrir því að ég er að segja ykkur þetta. Ég er ekki bara að monta mig eða segja enn eina veiðisöguna. Ástæðan er sú að ég fór í veiði með ódýran búnað og veiddi mér fisk í soðið. Og fékk auðvitað í kaupbæti útiveru og hreint loft í lungun. Ekki veitir af. Fluguveiðin er ekki list, töff engu að síður. Rólegneit í næsta nágrenni Alls staðar hægt að veiða Aðalbjörn Sigurðsson er veiðimaður á Egilsstöðum og formaður Stangveiðifélags Fljótsdalshéraðs. Hann segir að Austfirðingar búi sér- lega vel hvað stangveiði varðar. Hér séum við með tvær af bestu veiðiám landsins, Selá og Hofsá og svo sé Breiðdalsáin sífellt meira spennandi. En þetta eru auðvitað dýrar ár og fyrir marga sem eru að byrja þá eru þær kannske ekki vænlegasti kosturinn. Byrjendur eigi að einbeita sér að minna þekktari veiðiám og vötnum: „Mitt uppáhald er Gilsáin," segir Aðalbjörn. „Og á góðum degi er Norðfjarðaráin lika í miklu uppáhaldi hjá mér þó umhverfið í kringum hana sé ekki alls staðar spennandi, hún er hins vegar kjaftfull af fiski. Staðreyndin er sú að við eigum ágætar ár í nánast hverjum dal og í hverjum firði þar sem hægt er að komast í fína veiði fyrir lítinn pening. Einn af mínum upp- áhaldsstöðum er t.d. Fögruhlíðarárós við rætur Hellisheiðarinnar. Það er alveg geggjað að standa þarna og veiða, hlusta á brimið og sjá sól- ina koma upp." Af þessum orðum má marka að fyrir áhugasama er líkast til best að byrja bara í ánni heima eins og kannske má segja hér fyrir austan og prófa að renna fyrir fiski. Tæki og búnaður Ég ætla ekki að eyða miklu púðri í að ttunda hvernig búnað er best að nota enda byrjandi sjálfur og hef ekkert leyfi eða umboð til að mæla sérstaklega með einhverjum sérstökum græjum. Sagan hér að ofan átti líka að segja að það skiptir ef til vill ekki öllu máli að vera með rán- dýran búnað eða eins og einn sagði við mig: „Þú getur keypt þér litla stöng úti f sjoppu og svo er mýgrútur af tjörnum uppi á Héraði. Stattu þar og veiddu því það er líf í þeim öllum. Þetta er ekki spurning um græjur." Það er sjálfsagt að geta þess hér að líkt og við Austfirðingar eigum nokkrar af bestu veiðiám landsins þá eigum við líka eina af bestu versl- ununum í þessum geira, nefnilega Veiðifluguna á Reyðarfirði, þarsem hægt að er að fá allan búnað sem tengist stangveiði, fatnað, tæki og tól. Þeir stangveiðimenn sem ég ræddi við þegar þessi grein var í vinnslu voru sammála um að fyrir áhugamenn um veiði þá væri þessi búð alger gullmoli. Þarna væri hægt að fá byrjendapakka á viðráðan- legu verði svo og auðvitað búnað fyrir þá sem eru komnir með dellu á háu stigi. Goðsagnir um fluguveiðina Það er eiginlega ekki hægt að fjalla um þetta sport án þess að minn- ast á fluguveiðina en allir almennilegir stangveiðimenn veiða á flugu - í það minnsta kunna þeir það. í veiðiferðinni sem ég fór í og minntist á í byrjun var einn veiðimaður í ánni með flugu. Hann var gæjalega klæddur, í vöðlum og með derhúfu en það er skemmst frá því að segja að hann veiddi ekki neitt. Þó mig langi til að alhæfa núna og gera lít- ið úr fluguveiðinni læt ég það vera. Auðvitað er fluguveiði langmesta sportið. Aðalbjörn segist núorðið veiða eingöngu á flugu og hnýtir þær sjálf- ur: „Þetta er hluti af ánægjunni," segir hann. „Ég veiði yfir sumarið og svo hnýti ég flugur yfir veturinn þannig að ég get stundað áhuga- mál mitt allt árið um hring. Fluguveiðinni tengjast nokkrar ranghugmyndir sem rétt er að leiðrétta hér. I fyrsta lagi eru margir smeykir við þess konar veiði vegna þess að þetta sé listgrein og ekki á færi allra að ná henni. Þetta er rangt. Það geta allir lært að kasta en það tekur tíma og æfingu. I öðru lagi er það lífseig hugmynd að hún sé svo dýr. Það er að vísu hægt að kaupa dýr- an búnað en það er vel hægt að kaupa búnað sem gerir engan gjald- þrota. Veiðiboxið Fyrir alla Stangveiði er kjörið sport fyrir alla og þá skiptir aldur eða kyn ekki máli. Mér finnst rétt að vitna að lokum í Aðalbjörn sem var haldinn fordómum sem eflaust eru algengir hjá þeim sem enn hafa ekki próf- að: „Mér fannst þetta fíflalegt í gamla daga. Að standa úti í vatni eða á með þurran bakka steinsnar frá fannst mér afkáralegt. I dag verð ég grænn af öfund þegar ég sé menn standa út í miðju vatni eða miðri á. Þetta tekur tíma en núna finnst mér þetta æðislegt. Ég er orðinn fanatíker." „En fylgir þessu mikil áfengisneysla?" spurði blaðamaður þá. Löng þögn og svo svar: „Tja, alla vega ekki hjá mér." JKÁ

x

Austurglugginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.