Austurglugginn - 22.08.2014, Blaðsíða 7
félög, sem á mismunandi vegu hafa notið góðs
af álverinu, stæðu með okkur í þessari uppbygg-
ingu en færu ekki að vinna á móti okkur. Ég tel
það óeðlilegt að hafnarmannvirki sem byggð eru
fyrir ríkisfé, líkt og á Reyðarfirði, séu notuð til að
dömpa verðum og bjóða hluti niður í beinni sam-
keppni við sveitarfélögin hér norðan Smjörvatns-
heiða, sem þó eru að tala um að byggja upp með
fjárfestum sem kosti verkin sjálfir. Ég held að það
sé hæpið að menn megi niðurgreiða þjónustu með
einhverju sem er ríkisstyrkt.“
Samstarf fremur en sameiningar
Þorsteinn tekur þó fram að sveitarfélögin eigi „á
marga lund gott samstarf.“ Hann styður samstarf
sveitarfélaga og þótt hann sé ekki endilega fylgjandi
sameiningum. „Menn geta unnið meira saman án
þess að sameina,“ segir hann og nefnir samninga
Vopnfirðinga við félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs og
samstarf í brunavörnum á Austurlandi. „Ég held að
menn eigi að auka samvinnuna svona og ef vel tekst
til þá verði auðveldara að sameina í kjölfarið.“ Á
Vopnafirði hafa verið ræddar hugmyndir um sam-
einingar bæði til austurs og í norður en þær verið
felldar til þessa. „Vandamálið er að flestir líta full-
mikið ofan í eigin nafla og sjá ekki mikið út fyrir
hann. Ef menn tala í alvöru um samstarf þá þarf
að horfa á svæðin í heild sinni þannig að þjónustan
verði svipuð á öllu svæðinu sem unnið er saman á.
Sé sveitarfélagið sameinað þarf þjónustan að vera
góð í því öllu en ekki bara á einum stað. Það hefur
stundum eyðilagt sameiningarhugmyndir að sá litli
heldur að sá stóri ætli að gleypa hann og þjónustan
versni. Þetta samfélag virðist sjálfbært og ef vel er
haldið á spöðunum áfram getur það hugsað um sig
sjálft. Það er samt allt í lagi að skoða hvort hægt
sé að ná betri þjónustu með því að vinna á stærra
svæði. Markmiðið hlýtur alltaf að vera að auka
þjónustuna við íbúana á sem hagkvæmastan hátt.“
Síðustu sameiningarhugmyndir hafa verið til
norðurs, við Bakkafjörð sem sameinaðist Þórshöfn
í Langanesbyggð. Þorsteinn segir samfélögin að
mörgu leiti lík þar sem þau byggi á sjávarútvegi og
landbúnaði en slá þurfi á ákveðinn hrepparíg til að
þau nái betur saman. Unglingarnir sækja framhalds-
skóla á Akureyri eða Laugum frekar en á Héraði
þótt Vopnfirðingar hafi margir gengið í Eiðaskóla
hér áður fyrr. Samgöngur ráða þar miklu um því
ekkert hefur bólað á jarðgöngum til Vopnafjarðar
þótt barist hafi verið fyrir þeim. „Við börðumst
gríðarlega fast fyrir jarðgöngum hér og töldum að
við yrðum framarlega í þeirri röð,“ segir Þorsteinn
en í millitíðinni séu komin tvenn ný göng á Austur-
land, þau þriðju séu í vinnslu og þau fjórðu verði
líklega til Seyðisfjarðar. Splunkunýr vegur niður
Vopnafjarðarheiði um Vesturárdal „er vissulega
gríðarlega samgöngubót en styttir ekki leiðina og
breytir því ekki að við erum enn að fara upp á þessar
háu heiðar. Þótt vegurinn sé ágætur þá fer hann í
nálægt 600 metra hæð. Þegar ófært var til Seyðis-
fjarðar í vetur var nánast alla sömu daga ófært frá
Vopnafirði til Egilsstaða.“
Jarðgöng eru því „eini kosturinn í stöðunni ef bylt-
ing á verða“ í samgöngum til austurs. „Ég vil sjá
þau koma en tel að þau komi ekki strax fyrst þau
komu ekki þegar við börðumst sem mest fyrir þeim.
Ég tel að Seyðisfjarðargöng séu næstu göng og ég
er klár á því að fjármagn til vegamála er ekki það
mikið að ég sjái göng í bráð til Vopnafjarðar þótt
ég telji þau eiga koma.“
Þorsteinn segist „alltaf hafa haft gaman af sam-
göngumálum“ og talar um að menn verði að nota
Egilsstaðaflugvöll meira. Göng til Vopnafjarðar
myndu hjálpa til þess auk þess sem þau myndu bæta
lífsskilyrði Vopnfirðinga. „Ég er sannfærður um að
markaðsvirði fasteigna hér myndi rjúka upp þann
dag sem byrjað yrði á jarðgöngum,“ segir hann og
bankar takfast í borðið á meðan hann talar til að
leggja áherslu á mál sitt. „Þetta væri orðin feiknafín
samloka sem mann langar að leggja í að borða,“ segir
hann um búsetuskilyrði á Vopnafirði með göngum
og þeirri þjónustu sem til staðar er.
Datt út af á Borgarfirði
Við hverfum aftur til þess tíma þegar Þorsteinn
kom fyrst á Vopnafjörð árið 1995. „Það var sem
túristi, augnablik og það hvarflaði ekki að mér
að ég ætti eftir að setjast hér að, hvað þá að vera í
sextán ár.“ Hann keyrði niðurgrafinn malarveg á
Mývatnsöræfum „og hann skánaði ekkert þegar
ég kom niður Vopnafjarðarheiðina. Vegurinn var
mjór með þeim flestum útskotum sem ég hef séð.
Þau voru alltaf merkt M og ég fór að hugsa hvort
þessi stafur stæði fyrir einhvern stjórnmálaflokk í
sveitarfélaginu.. Mér fannst ég eiginlega kominn
til tunglsins!“ Síðan hefur vegakerfið á Austurlandi
tekið „stakkaskiptum“ þótt áfram þurfi að vinna að
framgangi samgöngumála, fækka einbreiðum brúm,
grafa ný göng og auka viðhald á vegum, einkum
eftir að þungaflutningar færðust upp á land.
Hann minnir á að leiðirnar til Reykjavíkur verði
að vera greiðar. „Það verður alltaf þannig að höf-
uðborgin er höfuðborg allra landsmanna og þar er
stærstur hluti þeirrar opinberu þjónustu sem við
þurfum að þiggja.“ Sjúkraþjónustan er þar á með-
al. „Það verða aldrei byggð hátæknisjúkrahús með
alhliðaþjónustu og sérfræðikunnáttu vítt og breitt
um landið. Það verður í Reykjavík, hvort sem menn
vilja viðurkenna það eða ekki. Við eigum á móti að
vinna í að byggja upp sterkari heilsugæslu og auka
afkastagetu í sjúkraflutningum og sjúkraflugi.“
Á þessa skoðun sína lagði Þorsteinn sérstaklega
áherslu, eiginlega of mikla, á þingi SSA á Borgar-
firði haustið 2012. „Ég var einmitt að ræða um
heilbrigðismál og sjúkraflutninga og var að ljúka
við að segja að það þyrfti að gefa vel í fjármagnið
þegar ég fékk aðsvif sem olli því að ég datt alveg
út af og vissi ekkert af mér. Síðan hrökk ég í gang
en þá var staðan sú að það var enginn sjúkrabíll
á staðnum og enginn læknir. Það var hins vegar
heppilegt að það var hjúkrunarfræðingur ofan af
Héraði á fundinum og hún hjálpaði til með mig
þar til það fannst hjúkrunarfræðingur á Borgar-
firði. Sjúkrabíll var pantaður frá Egilsstöðum og
það var gaman að finna hvað kerfið virkaði vel, því
þótt það væri klukkustundarakstur frá Egilsstöðum
á Borgarfjörð þá voru þeir ótrúlega fljótir. Það kom
læknir með bílnum og hann sagði mér að það væri
búið að panta sjúkraflug frá Akureyri. Ég var settur
beint í þá vél og flogið með mig til Reykjavíkur þar
sem ég fór í þá meðferð
sem þurfti – og nú er
ég kátur og fjörugur að
ræða við þig!
Þetta sýndi hins vegar
hversu mikilsvert það
er að hafa góða sjúkra-
þjónustu og sjúkraflutn-
inga.Með þessu lagði ég
áherslu á það sem ég sagði áður en ég datt út af.
Þetta var svona leikræn tjáning! Þegar ég rankaði
við mér fannst mér broslegt að hugsa til þess að það
ætti fyrir mér að liggja að hrökkva upp af og hitta
þann sem ræður ríkjum efra, fyrir þær sakir einar að
ekki væru sjúkraflutningar eða læknir á staðnum!“
Minningar um skemmtilegan tíma og
góða samvinnu
Þorsteinn segir Vopnfirðinga hafa aðlagast stað-
setningu sinni og samgöngum. „Vopnafjörður
hefur í gegnum tíðina verið afskekktur og ég held
að það hafi kennt Vopnfirðingum að þeir þyrftu að
bjarga sér með flesta hluti. Þess vegna held ég að
hér sé tiltölulega sjálfbjarga samfélag. Þjónustan
er góð á mjög mörgum sviðum, miðað við stærð
samfélagsins, og atvinnan að sama skapi tiltölu-
lega fjölbreytt. Vopnfirðingar eru líka um margt
þekktir fyrir menningarstarf. Ég myndi segja að
Vopnafjörður sé mjög gott samfélag til að búa í
og ákaflega gott að vera hér með ungt fólk í upp-
vexti því leikskólinn og grunnskólinn eru sterkir.“
Þá hafa verið uppi hugmyndir um að stofnsetja
framhaldsskóladeild á Vopnafirði í samvinnu við
skólanna á Austurlandi. „Það togast hins vegar á
hversu lengi er gott fyrir unglingana að vera heima
eða fara á stærri staði og kynnast fleirum. Ég held
að það sé nauðsynlegt á einhverjum tímapunkti
að fara í burtu og kynnast öðrum sjónarmiðum og
lífsstíl heldur en er í heimahúsum.“
Þorsteinn nefnir skólana þegar hann er spurður af
hverju hann sé stoltastur eftir veruna á Vopnafirði
og uppbygginguna í atvinnulífinu. „Ég hef alltaf
verið mikið fyrir hafnsækna starfsemi og er stolt-
astur af uppbyggingu hafnarinnar og atvinnulífsins
í kringum hana. Ég get ekki leynt því.“ Uppbygg-
ing skólanna var líka annað átaksverkefni. „Það er
mjög gaman að sjá framþróun í sveitarfélögunum.
Allir stjórnendur vilja sjá meira en bara hinn lög-
bundna rekstur.“ Hann segir samskiptin við íbúana
og sveitarstjórnarmennina hafa gengið vel. „Ég hef
ekki verið ráðinn pólitískt í mín störf heldur reyni
að vinna eins vel og ég get fyrir samfélagið og
íbúana í heild.. Ef ég vinn fyrir Samfylkingarfólk
þá heldur það yfirleitt að ég sé Sjálfstæðismaður og
svo öfugt. Ég legg á það áherslu að meirihluti og
minnihluti vinni sem mest saman að góðum mál-
efnum í samfélaginu en hinn skjóti ekki stöðugt
niður hugmyndir annars. Hér á Vopnafirði hafa
aldrei verið svo sterkar pólitískar væringar að það
hafi háð þessari samvinnu. Sveitarstjórnin hefur, sem
betur fer, verið samstíga í öllum stóru málunum.
Það er nauðsynlegt þegar menn stíga erfið skref.“
Þorsteinn kveðst taka með sér „góðar minningar af
skemmtilegum tíma og góðri samvinnu“ þeirra sem
hann hafi unnið með að uppbyggingu samfélagsins.
Hún sé ekki verk 1-2 manna heldur samspil íbúa og
sveitarstjórnarmanna. Það er líka ljóst að Vopnfirð-
ingar þurfa að fara nýjar leiðir í túlkanir á sveitar-
stjóranum á þorrablótum en Þorsteinn er þekktur
fyrir litríkt skyrtuval. „Það er lélegur sveitarstjóri
sem ekki er sagt eitthvað um á þorrablóti og mín
vegna má gera eins mikið grín að mér og hægt er.
Meðan ég hef verið hér hefur það verið þannig að
ef leika á sveitarstjórann þá er yfirleitt komið heim
og eiginkonan beðin um að lána Hawaii-skyrtu.
Það er ljóst að ef einhver mætir í slíkri skyrtu á
sviðið þá er verið að leika sveitarstjórann. Ég veit
ekki hvað það er en ég hef alltaf verið fyrir birtu og
haft gaman af skrautlegum litum. Hawaii-skyrtur
eða aðrar skyrtur í þeim anda hafa alltaf heillað mig
og þær mega vara sig ef ég sé þær á standi í búð!“
GG
Sundþjálfari óskast
Óskum eftir sundþjálfara fyrir Sunddeild Hattar á
Egilsstöðum. Nánari upplýsingar hjá Tinnu Björk
í síma 894-5191. sunddeildhattar@gmail.com
Stjórn Sunddeildar Hattar.
40 ára
1974 - 2014
AUSTUR · GLUGGINN Föstudagur 22. ágúst 7