Austurglugginn - 22.03.2013, Qupperneq 13
Föstudagur 22. mars AUSTUR · GLUGGINN 13
Hvernig horfir þetta við Aust-
firðingum og íbúum á Héraði?
Ég býð mig fram í 1. sæti hjá Dögun
- samtökum um réttlæti, sanngirni
og lýðræði (xt.is) - í Norðurlands-
kjördæmi eystra þar sem ég er uppal-
inn og þaðan ættaður. Í tillögum um
stefnu um byggð og þróun þjónustu
og atvinnulífs fyrir landsfund Dög-
unar, sem haldinn var um síðustu
helgi í höfuðborginni, segir að það
hafi orðið mikill samdráttur og fólks-
fækkun á flestum svæðum á lands-
byggðinni. Á sama tíma hafi þróunin
á höfuðborgarsvæðinu einkennst af
þenslu. Dögun vill leita jafnvægis
milli hagsmuna ólíkra landshluta.
„Mikilvæg skref í þá átt er að ná víð-
tæku samkomulagi um að auðlinda-
stefna og efnahagsstefna tryggi að
fjármagn til uppbyggingar og þjón-
ustu sé veitt til allra landshluta.”
Hvað með Austurland?
Hvað gæti falist í þessu nánar til
tekið fyrir íbúa á landsbyggðinni,
t.d. á Héraði og á Austfjörðum?
Í fyrsta lagi gerir nýja
stjórnarskráin og stefna
Dögunar ráð fyrir að
almenna reglan sé sú við
val á staðsetningu fyrir
allan rekstur ríkisins fari
fram yfirvegað mat á því
hvar sé best að staðsetja
höfuðstöðvar og megin-
rekstur. Á Austurlandi
hefur húsnæði verið vannýtt og
margvísleg fjárfesting í grunngerð
er þegar til staðar. Hví skyldu höfuð-
stöðvar listamannalauna og lánasjóða
ríkisins ekki geta verið á Egilstöðum?
Skipulag nær
notendum í héraði
Í öðru lagi telur Dögun að rekstur á
borð við heilbrigðisþjón-
ustu og félagsþjónustu
verði framvegis skipu-
lagður í landshlutum
og stjórn þeirra færð til
aukins sjálfstæðis og frá
miðstýringu ráðuneyta í
Reykjavík. Með slíku yrði
skipulag þjónustunnar
og stjórnsýsla gagnsærri
og ákvarðanir lýðræðislegri og nær
fagfólki á staðnum og notendum.
Skipting sveitarfélaga á ekki að leiða
til þess að smærri rekstrareiningar
ráði ekki við umfang rekstrarins eða
faglega ábyrga þjónustu.
Heimastjórn
Af hverju ættu íbúar á Aust-
urlandi að hlíta tilskip-
unum fólks 1000 km í burtu?
Heilbrigðisstofnanir um land allt
og öldrunarheimili, hafa upplýst
almenning um ástand mála undan-
farna mánuði þannig að efalaust er
komið að hættumörkum. Fram-
kvæmdaráð Dögunar hefur ályktað
að hverfa eigi „frá þeirri miðstýring-
arstefnu sem nú ríkir í heilbrigðis-
málum og kerfið byggt upp með
minni og manneskjulegri einingum
þar sem megináherslan verði lögð á
alhliða grunn- og neyðarþjónustu
fyrir alla landsmenn í heimahéraði.”
Dögun telur að allt of langt hafi
verið gengið í niðurskurði í heil-
brigðiskerfinu á undanförnum árum.
Dögun telur að rekstur sjúkrahúsa og
þjónusta við fatlaða og aldraða eigi
aldrei að vera í arðsemisskyni.
Norðfjarðargöng
Við slíka stefnumörkun þurfa sam-
göngur vitaskuld að styðja. Norð-
fjarðargöng myndu ekki aðeins
auðvelda íbúum í Neskaupstað
að sækja þjónustu á aðra Aust-
firði og á Hérað heldur myndi
nýting sjúkrahússins á Norðfirði
batna í þágu íbúa á Austurlandi.
Að sama skapi er gert ráð fyrir
því í stefnudrögum fyrir lands-
fund Dögunar um helgina að
millilandaflugvellir á Norður- og
Austurlandi verði markaðssettir
sem sjálfstæðar rekstrareiningar.
Dögun hefur ályktað að hætta skuli
við byggingu nýs Landspítala að
sinni. „Þess í stað verði bætt kjör
heilbrigðis- og umönnunarstétta sem
sinna grunnþjónustu um land all.“
Hvaðan eiga
peningarnir að koma?
Til þess að fjármagna hlutfallslega
meiri uppbyggingu á landsbyggðinni
en hingað til þurfa sameiginlegar
auðlindir þjóðarinnar að eiga varn-
arþing í landshlutum og að umtals-
vert hlutfall afgjalda af þeim sé veitt
til þjónustuverkefna í landshlutum.
Auðlindarentan þarf að skila sér til
almannaverkefna um land allt.
Gísli Tryggvason, frambjóðandi í 1.
sæti fyrir Dögun í Norðausturkjördæmi
Nánar má lesa um tillögur fyrir
landsfundi um helgina á xt.is.
Hvað með Austurland?
Í stefnumótun Dögunar fyrir landsfund segir að þjóðin sé samábyrg
með áherslu á jöfn tækifæri og lífsgæði allra
Þrátt fyrir að mikið sé talað um
Evrópusambandið og Icesave í kosn-
ingabaráttunni sem nú er hafin er það
ljóst að þau mál sem hinn almenni
kjósandi hefur mestan áhuga á eru
allt önnur. Kannanir sýna að þau
málefni sem kjósendur telja mikil-
vægust eru heilbrigðismál, skulda-
vandi heimilanna, umhverfismál og
svo það sem hér verður fjallað um,
menntamál.
Skólarnir eru
sameign okkar allra
Öll erum við sammála um að
menntun er ein af grunnstoðum
samfélagsins. Leiðin til aukinna
lífsgæða er aukin menntun og því
á það að vera algjört forgangsatriði
að tryggja að allir landsmenn hafi
sömu tækifæri til að mennta sig.
Þetta verður einungis tryggt með því
að skólarnir séu sameign okkar allra
og að skólagjöld heyri sögunni til.
Þegar ungmenni ljúka grunn-
skólanámi þurfa þau að velja sér
framhaldsskóla við hæfi eftir því
hvaða nám þau vilja stunda en fyrir
nemendur sem búa á landsbyggðinni
skiptir líklega staðsetning skóla þó
mestu. Sjálfræðisaldurinn er 18 ára
og nemendur því enn börn þegar
þau hefja nám við framhaldsskóla.
Það getur reynst foreldrum erfitt
að tryggja velferð barna sinna þegar
senda þarf þau um langan veg í skóla.
Því er mikilvægt að tryggja öllum
nemendum framhaldsnám sem næst
sinni heimabyggð.
Almenningssam-
göngur fyrir
framhaldsskólanema
En hvernig getur svo fámenn þjóð
boðið upp á fjölbreytt nám víðs vegar
um landið? Það er nokkuð ljóst að
ekki verður settur upp fullbúinn
framhaldsskóli með fjölbreyttu
námsframboði í öllum þorpum
landsins. Við þurfum því að tryggja
það að skólarnir séu vel staðsettir
og að þeir geti þjónað nærliggjandi
byggðarlögum. Þetta er einungis gert
með því að bjóða upp á almenn-
ingssamgöngur svo að nemendur
geti farið að heiman á morgnana
og verið komnir heim síðdegis. Með
því móti geta nemendur því notið
þess lengur að eiga daglega stundir
með foreldrum og systkinum. Góð
tengsl ungmenna við fjölskyldu sína
hafa mjög jákvæð áhrif á sjálfsmynd
þeirra, námsárangur, almenna líðan
og velferð.
Lært heima
Fjarfundabúnaður, „Skype“, kennslu-
vefir á netinu og jafnvel „Facebook“
bjóða upp á alls kyns möguleika til
að læra heima. Framhaldsskólar víðs
vegar á landinu nota þessa tækni og
fjarnemar landsins eru fjölmargir.
Framhaldsskólinn er svo miklu meira
en bara hefðbundið nám. Fjölbreytt
félagslíf er í öllum framhaldsskólum
landsins. Nemendur taka þátt í
leikfélögum, íþróttum, ýmis konar
klúbbastarfssemi auk þess sem það
er í sjálfu sér mjög félagslegt að vera
í framhaldsskóla. Á þessum aldri
myndast oft vinatengsl sem endast
út lífið og því er samvera við sam-
nemendur innan skóla afar mikilvæg.
Það er jákvætt að nemendur nýti
sér tæknina t.d. til að taka ein-
staka áfanga frá öðrum framhalds-
skóla sem ekki eru í boði í heima-
skólanum. Tæknin er einnig frábær
þegar íslenski veturinn minnir á sig
og ófært verður. En allir nemendur á
hinum hefðbundna framhaldsskóla-
aldri ættu að geta sótt skóla og verið
hluti af því skólasamfélagi sem þar er.
Framhaldsskólar
út um allt
Margir skólar á landsbyggðinni eru
með heimavistir og kjósa þeir nem-
endur sem þurfa að fara lengstan veg
oft að búa á heimavist fremur en að
eyða löngum tíma á hverjum degi í
ferðalög. Þrátt fyrir mikilvægi þess að
nemendur geti farið heim að loknum
skóladegi er einnig þörf á að skólar
geti boðið upp á heimavist fyrir þá
nemendur sem það vilja.
Það er afar brýnt að við tryggjum
enn frekar stöðu framhaldsskóla á
landsbyggðinni þar sem boðið er
upp á fjölbreytt nám, bæði verk-
legt og bóklegt. Vinstrihreyfingin
– grænt framboð hefur staðið vörð
um skóla landsins og tekist að verja
þá á þeim erfiðu tímum sem verið
hafa frá 2008.
Bjarkey Gunnarsdóttir, náms- og
starfsráðgjafi, skipar 2. sæti VG í
Norðausturkjördæmi
Ingibjörg Þórðardóttir, framhalds-
skólakennari, skipar 4. sæti VG í
Norðausturkjördæmi
Nám á heimaslóðum
Ingibjörg ÞórðardóttirBjarkey Gunnarsdóttir
Gísli Tryggvason