Austurglugginn - 24.09.2010, Blaðsíða 2
2 AUSTUR · GLUGGINN Föstudagur 24. september
Eins og RÚV hefur fjallað um undanfarið hefur
Fiskverkun Kalla Sveins ehf. á Borgarfirði eystra sagt
upp öllum starfsmönnum sínum. Fiskverkun Kalla
Sveins ehf. er stærsti vinnuveitandinn á staðnum
en þar starfa um 15-20 manns að jafnaði. Eigandi
fyrirtækisins hefur krafist þess að opinber rann-
sókn fari fram á starfsháttum Matvælastofnunar.
Ástæður uppsagnanna eru óvissa með verkefni
eftir að Karl ákvað að hætta saltfiskverkun eftir
að flestir framleiðendur tóku upp á því að sprauta
hvítnunarefnum í fiskinn.
Hreppsnefnd lýsir yfir áhyggjum vegna málsins.
Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps kom saman
á mánudaginn var og fundaði um málið og
sendi frá sér eftirfarandi ályktun: „Hreppsnefnd
Borgarfjarðarhrepps lýsir áhyggjum vegna afkomu
íbúa á Borgarfirði nú þegar Fiskverkun Kalla Sveins
hefur boðað uppsagnir allra starfsmanna fyrirtæk-
isins.“
Matvælastofnun
gerir ekkert í málinu
Samkvæmt frétt RÚV um málið telur Karl að
Matvælastofnun hafi vitað af notkun efnanna í
mörg ár. Karl kvartaði fyrst undan notkuninni árið
2005 en það var ekki fyrr en árið 2009 sem fram-
leiðendum var gefinn frestur til að hætta notkun
efnanna. Fresturinn rann út fyrir rúmu ári án þess
að Matvælastofnun gerði neitt í málinu segir í
frétt RÚV. Ástæðan er meðal annars beiðni frá
Samtökum fiskvinnslustöðva um að aðgerðum yrði
frestað og umsókn frá framleiðendum efnanna um
að leyfilegt verði að nota þau í saltfiski.
Evrópusambandið hefur bannað notkun þess-
ara efna í saltfisk og því ætlar Karl Sveinsson á
Borgarfirði að kvarta undan Matvælastofnun til
eftirlitsstofnunar EFTA en stofnunin hefur látið
viðgangast að efnin séu notuð. Hann fullyrðir
að engar upplýsingar um þessi efni sé að finna á
umbúðum sem fluttar eru úr landi þó svo að þeim
sé skylt að tilgreina aukaefnin.
Engin viðbrögð
frá þingmönnum
Austurglugginn ræddi við Karl um málið en eðli-
lega eru íbúar sveitarfélagsins slegnir yfir nýjustu
fréttum um þennan stærsta atvinnurekanda svæð-
isins. Karl segir að það sé verið að vinna að kæru
til EFTA og að hann hafi sent inn erindi til rík-
islögreglustjóra á mánudaginn 20. september og
bíði nú svara þaðan. „Ég á von á því að kæran til
EFTA berist þeim fyrir helgi“ sagði Karl aðspurður
út í næstu skref í málinu. „Nú eru sex dagar liðnir
frá birtingu fréttar um þetta mál og þrátt fyrir það
hefur enginn þingmaður haft samband við mig og
ekki heldur neinn sem hefur með þennan málaflokk
að gera innan stjórnsýslunnar“ sagði Karl og bætti
við „ég átti nú von á eins og einu símtali frá þessari
„umhverfisvænu ríkisstjórn“ sem ég taldi að hefði allan
hug á því að uppræta spillingu og ranglæti og ekki síst
þar sem þetta mál varðar rekjanleika og heiðarleika í
matvælaframleiðslu.“ sagði Karl.
Tilkynning Karls í heild sinni er svohljóðandi:
„Ég hóf fiskverkun árið 1986 og seldi til SÍF sem
var með einkaleyfi á saltfisksölu fram á tíunda ára-
tuginn. Eftir að útflutningur var gefinn frjáls var
mikil samkeppni meðal útflytjenda um að fá besta
saltfiskinn og var ég í hópi þeirra 5
bestu. Framleiðslan var 200-300
tonn á ári eða um 0,5% af heildar-
framleiðslu landsins. Þrátt fyrir lítið
magn var fiskurinn minn eftirsóttur,
einkum á Katalóníu á Spáni sem gaf
hæsta verðið. Varla leið sú vika að
útflytjendur hefðu ekki samband og
báðu um að fá að selja fiskinn og var
ég að fá hæsta verðið.
Upp úr aldamótum fór að bera á
notkun fjölfosfata við vinnsluna.
Efninu sem kallað er karnal er
sprautað í fiskinn sem gerir hann
óeðlilega hvítan og veldur því að hann heldur allt að
10% meira vatni í sér. Þessi fiskur fór að keppa við
minn fisk sem var framleiddur á hefðbundinn hátt.
Þrátt fyrir að í reglugerð númar 285 frá 25. mars
2002 sé kveðið á um að efnin séu óheimil í saltfiski
og að skylt sé að merkja aukaefni á umbúðir séu þau
notuð. Eftir því sem árin liðu jókst notkunin og próf-
aði ég að nota efnið í pækil í smá tíma en í ljós kom
að efnið hefur ekki áhrif nema því sé sprautað inn í
holdið. Fiskurinn varð illseljanlegur nema með veru-
legum afslætti.
Í október 2008 keyrði um þverbak og var ein sending
verðfelld um 1,5 milljónir króna því fiskurinn var
ekki sprautusaltaður með þessu efni. Eftir það gafst
ég endanlega upp og hef ég ekki saltað fisk til útflutn-
ings í eitt og hálft ár.
Frá árinu 2005 hef ég ítrekað kvartað til starfsmanna
Matvælastofnunar yfir aðgerðaleysi
þeirra í þessum efnum. Um áramótin
2008-2009 kom starfmaður hingað á
Borgarfjörð og tjáði ég honum að þol-
inmæðin væri þrotin og ef þeir gerðu
ekkert færi ég með málið í fjölmiðla.
Ekkert gerðist fyrr en í maí 2009.
Þá var öllum framleiðendum gef-
inn kostur á að koma þessum málum
í lag og frestur gefinn til 1. september
2009 samkvæmt bréfi dagsettu 28.
maí 2009. Síðan hefur ekkert gerst
þrátt fyrir að stafsmenn skoðunar-
stofa hafi sett efnanotkun á skoð-
unarskýrslur sem sendar eru til Matvælastofnunar.
Tekjutap vegna aðgerðarleysis stofnunarinnar nemur
hundruðum milljóna króna. Því hef ég ákveðið að
kvarta til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Þá fer
ég fram á það við ríkislögreglustjóra að fram fari
opinber rannsókn á starfsháttum starfsmanna
Matvælastofnunar í þessu máli. Ekki síst vegna
þráláts orðróms um að starfsmönnum stofnunar-
innar sé stjórnað af stærstu saltfiskframleiðendum
þessa lands.“
Aðspurður út í þann orðróm sagðist Karl ekki
vilja nafngreina þá framleiðendur. En Karl segist
ómögulega geta gert sér grein fyrir því hvers vegna
lög séu vísvitandi brotin án þess að Matvælastofnun
aðhafist þrátt fyrir að þeirri stofnun sé kunnugt
um brotið.
Samstarf á Austurlandi
Samstarf á Austurlandi, er nýútkomin bók eftir Smára Geirsson. Bókin fjallar um
sögu samstarfs innan fjórðungsins, frá tíma Fjórðungsþings Austfirðinga frá 1943
- 1964 og sögu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi frá 1966 – 2006. Bókin er
í reynd í tveimur hlutum: Fyrri hlutinn fjallar um Fjórðungsþing Austfirðinga en
sá síðari um fjörutíu fyrstu starfsár Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.
Fjórðungsþingið var samstarfsvettvangur þriggja sýslna og tveggja kaupstaða á
Austurlandi en öll sveitarfélög fjórðungsins stóðu að Sambandi sveitarfélaga á
Austurlandi.
Í bókinni er greint frá starfsskipulagi þessara tveggja austfirsku samtaka og þeim verkefnum sem
þau beittu sér fyrir. Fjórðungsþingið vann markvisst að breytingum á íslensku stjórnarskránni ásamt
því að vinna almennt að framfaramálum í landshlutanum. Stjórnarskrárbaráttan vakti mikla athygli
en markmið hennar var fyrst og fremst að auka vald landshlutanna og efla fjárhagslegt sjálfstæði
þeirra. Í reyndinni var bandaríska stjórnarskráin sú fyrirmynd sem Fjórðungsþingið horfði til.
Samband sveitarfélaga á Austurlandi var stofnað einungis tveimur árum eftir að starfsemi
Fjórðungsþings Austfirðinga leið undir lok. Sambandið fetaði í fótspor Fjórðungsþingsins og hóf
baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunamálum íbúa landshlutans. Sambandið hefur haft frumkvæði
að fjölda verkefna á fjórðungsvísu og fjölda stofnana sem þjónað hafa íbúunum.
Svæðisbundnu samstarfi sveitarstjórnarmanna í Íslandi hefur aldrei áður verið gerð jafnítarleg skil
og í þessu riti. Þess vegna má segja að Samstarf á Austurlandi sé tímamótaverk og ætti í reynd eng-
inn sveitarstjórnarmaður að láta ritið fram hjá sér fara.
Austurglugganum barst umfjöllun um bókina frá Vilhjálmi Hjálmarssyni, rithöfundi og bónda á
Brekku í Mjóafirði og fyrrverandi þingmanni og ráðherra. Um bókina segir Vilhjálmur:
“Þessi bók barst mér í hendur fyrir nokkrum dögum. Höfundur er Smári Geirsson sagnfræðingur
m.m. og útgefendur bókarinnar er Bókaútgáfan Hólar og Samband Sveitarfélaga á Austurlandi.
Bókin er mikil að vöxtum, 563 blaðsíður. Hefur höfundur þá verið úr hófi langorður? Fjarri fer
því, sýnist mér. Samstarf á Austurlandi á vegum téðra samtaka í rösklega 60 ár er orðið svo mikið að
umfangi að þjappa verður frásögninni svo flestir þættir þess komist til skila í einni bók. – Efnisyfirlitið
eitt saman gefur það glöggt til kynna.
Ég hygg að frásögnin beri það með sér að mjög mörgu hafi samtökin tvö þokað á leið, einkum
hin síðarnefndu sem orðin eru langlífari en hin fyrri og eru frá upphafi víðtækari. Annað hefur
gengið miður – og ný verkefni komið til sögu. – Nú sem ætíð er brýnt að treysta samstöðu og taka
til hendi.
En bókin, Samstarf á Austurlandi, hún sýnist mér næsta áhugaverð upprifjun fyrir Austfirðinga
– einnig þá sem komnir eru til hlés en voru einu sinni „verkamenn í víngarðinum.” Því fagna ég
framtakinu, og þakka það.”
Vilhjálmur Hjálmarsson
Krefst rannsóknar á starfsháttum
starfsmanna Matvælastofnunar