Austurglugginn - 11.11.2021, Blaðsíða 11
AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 11. nóvember 11
Riðuveiki í sauðfé er langvinnur
og ólæknandi smitsjúkdómur
sem veldur svampkenndum
hrörnunarskemmdum í heila og
mænu. Veikin er hatrömm og
veldur hrikalega sárum verkjum og
mikilli vanlíðan hjá sjúklingnum.
Smitefnið er hvorki baktería né
veira heldur prótín, nefnt Príon
eða PrP sem hefur breytt lögun
og við það orðið smitefni sem er
fádæma lífseigt, þolir langa suðu
og flest sótthreinsiefni, nema helst
klór. Smitefnið virðist geta lifað
í umhverfinu í meira en áratug.
Heilbrigt príon er að finna flestum
vefjum dýra, þó mest í heila og
er bundið við yfirborð fruma.
Riðupríónið, sem komist hefur
í líkama kindar kemur af stað
keðjuverkun, þannig að eðlileg
príónprótín kindarinnar umbreytast
yfir á sýkjandi form og svo koll af
kolli. Þannig fjölgar smitefninu með
vaxandi hraða, fyrst í eitlavef, svo í
mænu og að endingu í heila þar sem
skemmdirnar framkalla einkennin.
Ólíkt sýkingum af völdum baktería
og veira þá myndar kindin ekkert
ónæmissvar við sýkingunni þar
sem hún lítur á sýkjandi príónið
sem sitt eigið. Af þeim sökum eru
ekki handhægar aðferðir til að greina
smitið í lifandi kind s.s. með að mæla
mótefni eða einangra sýkta formið af
príóninu. Að sama skapi er því ekki
hægt að búa til bóluefni við veikinni.
Riða í öðrum
dýrategundum
Kindur geta gengið með riðu langa
ævi án þess að hún komi fram. Oftast
er þó kindin veik í mánuði áður en
hún drepst, sjaldan þó lengur en eitt
ár. Veikin leiðir kindina stundum til
dauða á fáum vikum, eða á skemmri
tíma. Sambærilegur sjúkdómur er
þekktur í öðrum dýrategundum, m.a.
geitum, nautgripum og hreindýrum,
en hefur aldrei greinst hér á landi.
Hjartarriða (e: Chronic Wasting
Disease) var fyrst greind í villtu
hreindýri í Noregi vorið 2016 og
þar með í fyrsta skiptið í Evrópu. Það
sem er sameiginlegt með sauðfjárriðu
og hjartarriðu er að sjúkdómurinn
getur borist með beinu smiti milli
sýktra einstaklinga.
Við þurfum því að halda vöku
okkar gagnvart því að fá ekki riðu
í hreindýrin okkar. Því er það ótækt
að við séum að fanga og ala hreindýr
heima við og eiga á hættu að þessi
dýr smitist af smitsjúkdómum úr
búfé s.s. riðu og garnaveiki.
Engar vísbendingar eru þó enn
sem komið er um að sauðfjárriða
geti borist í hreindýr eða öfugt. Við
höfum þó nærtækt dæmi um að
tegundaþröskuldurinn hafi gefið sig
þegar kúariðan kom upp Bretlandi
um árið. Blessunarlega tókst að
drepa hana niður með víðtækum
niðurskurði.
Ekkert bendir til þess að fólki stafi
hætta af snertingu við riðusmitað
fé né neyslu afurða þess, svo sem
kjöts, innmatar og mjólkur. Hvorki
neytendur né fólk sem starfar á
sauðfjárbúum eða í sláturhúsum
er í hættu vegna riðuveiki í sauðfé.
Hins vegar eiga afurðir af riðubæjum
aldrei að fara á markað og er nú
verið að endurskoða regluverk til að
tryggja enn frekar að það gerist ekki.
Mikilvægt að vera á
varðbergi
Mikill árangur hefur náðst í
baráttunni við riðuveiki og er staðan
á Austurlandi lýsandi dæmi þar um.
En þetta hefur kostað mikið átak og
við megum aldrei sofna á verðinum.
Það er mikilvægt að hafa samband
við dýralækni ef kind sýnir einhver
taugaeinkenni eða slasar sig með
einkennilegum hætti eða hefur
orðið afvelta, svo dæmi séu tekin.
Bændur eiga ekki að hika við að
hafa samband við minnsta grun.
Margir eldri bændur þekkja vel
einkenni riðu, jafnvel á fyrstu stigum
veikinnar, en yngra fólk þekkir ekki
riðuveiki af eigin raun. Með því að
fá sýni af kindum sem drepast með
þessum hætti aukast líkur á að greina
riðutilvik fyrr en ella og minnka líkur
á dreifingu.
Gen gegn riðu
Sýnt hefur verið fram á að næmi
sauðfjár fyrir riðusmiti er breytilegt
út frá svokallaðri PrP arfgerð
príongena. Vitað er að VRQ
genasamsætan er tengd við mikið
næmi fyrir hefðbundinni riðuveiki
og því ætti að leggja áherslu á að
fækka kindum með þá arfgerð. ARQ
og ARH genasamsæturnar eru í
meðallagi næmar og AHQ er með
lítið næmi. ARR-genasamsætan
veitir viðnám gegn smiti og mun
arfhreina arfgerðin ARR/ARR vera
afar þolin gagnvart smiti. Íslenska
fjárkynið hefur færri genasamsætur
en erlend fjárkyn og þolnu
genasamsæturnar ARR og ARH
hafa ekki fundist enn sem komið
er í íslensku kindinni. Erlendis þar
sem þessar þolnu arfgerðir finnast
eru þær notaðar í ræktunarstarfi á
riðubúum.
Að útrýma eða lifa með
pest?
Mikil umræða hefur verið
undanfarið um þann möguleika
að leita betur að þolnum gena-
samsætunum og ef þær finnist að
fara þá sömu leið í baráttunni gegn
riðu og nágrannaþjóðir okkar gera.
Ef við förum þá leið þá erum við
um leið að breyta um kúrs og fara frá
þeirri stefnu að útrýma riðunni yfir
í það að búa við hana til framtíðar,
en reyna að takmarka skaðann með
ræktun. Í þeim efnum vil ég benda á
að sú stefna var mörkuð um miðbik
síðustu aldar að beita niðurskurði og
smitvörnum með varnarhólfum og
takmörkunum á flutningi sauðfjár til
að útrýma skæðum smitsjúkdómum í
sauðfé hér á landi. Þannig útrýmdum
við Karakúlpestunum, sem verður
að teljast einstakt á heimsvísu.
Okkur hefur einnig tekist að losna
við riðuna í flestum varnarhólfum
landsins, en erum enn að glíma við
hana í sveitum á Norðvesturlandi.
Við höfum hingað til ekki kvikað
frá þessari stefnu. Ef á að gera það
þá þarf að skoða þau mál í þaula.
ARR samsætan
Þekktar eru um 40 genasamsætur
á geni príónprótínsins á heimsvísu.
Ein þeirra er T137 (breytileiki
á tákna 137) sem hefur verið í
hámæli hérlendis síðustu vikurnar.
Þessi samsæta hefur verið þekkt úr
íslenskum rannsóknum síðan árið
1999 og er því ekki ný af nálinni,
en fannst þá einungis í örfáum
kindum. Það eru vísbendingar um
að þessi samsæta geti gefið vörn
gegn riðu, en hún er ekki enn sem
komið er viðurkennd sem slík af
alþjóða vísindasamfélaginu, ekki
einu sinni á Ítalíu þar sem hún hefur
fundist í töluverðri tíðni í gömlum
sauðfjárkynjum. Ég hef hins vegar
lengi viljað að við leituðum enn
frekar að ARR samsætunni sem
viðurkennt er að gefur nánast fulla
vörn gegn riðu. Þetta hefur verið rætt
og skoðað og á nú að herða róðurinn
í þeim efnum.
En segjum svo að okkur verði
ágengt hvað þetta varðar þá er nú
björninn samt ekki unninn. Það yrði
áfram langt í land áður en við getum
farið til þess að beita þessari leið ef
okkur sýnist hún fýsileg. Fyrst þarf
að skoða hvernig arfgerðin reynist
gegn íslenskum riðustofnum. Til
þess þarf víðtækar rannsóknir m.a.
smittilraunir.
Önnur leið væri að ná í ARR
samsætuna erlendis frá og rækta
hana inn í féð okkar, en þá munu
aðrir eiginleikar fylgja með, sem
þá breyta öðrum eiginleikum
kindarinnar okkar, allavega til að
byrja með. Það er því að mörgu að
hyggja í þessum efnum.
Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir
Norðausturlands og Austurlands að
Hamarsá.
Um riðuveiki
Aðsend grein