Verktækni - 2018, Blaðsíða 26

Verktækni - 2018, Blaðsíða 26
26 VERKTÆKNI 2018/24 RITRÝNDAR VÍSINDAGREINAR Krísuvíkursprungusveimurinn Það er ljóst af mynd 1 að það er fyrst og fremst sprungusveimur- inn sem kenndur er við Krísuvík sem varast ber þegar mann- virkjum er valinn staður á höfuðborgarsvæðinu. Mynd 2 sýnir afstöðuna til þéttbýlisins enn betur. Sprungukortin sem sýnd eru hér ásamt myndum 3 og 4 eru byggð á sprungukortum Clifton og Kattenhorn (2006) og jarðfræðikortum ÍSOR (Kristján Sæmundsson o.fl. 2016) en einnig ítarlegri könnun höfunda þessarar greinar um áratuga skeið. Einnig hafa mörg verkefni nemenda í Jarðvísindadeild HÍ verið unnin á þessu svæði. Miðja virkninnar á þessu sprungukerfi er á Krísuvíkursvæðinu þar sem kerfið sker hin eiginlegu flekaskil. Eldvirkni og jarðhitavirkni er þar í hámarki. Þaðan liggur sveimurinn til suð-vesturs í átt til sjávar og til norð-austurs í átt til höfuðborgarsvæðisins og er sú grein hans öllu lengri. Þrjár gerðir sprungna einkenna sprungusveiminn. Mest eru áberandi siggengi, þ.e. sprungur þar sem annar barmurinn hefur sigið miðað við hinn. Siggengin sjást því vel í landslaginu, og getur misgengisfærslan verið fáeinir tugir metra. Í öðru lagi finn- ast í sveimnum opnar sprungur eða gjár með litlum sem engum lóðréttum færslum. Í þriðja lagi eru innan sveimsins gossprungur, þar sem bergkvika hefur náð yfirborði í sprungugosi. Gosvirknin dvínar þó eftir því sem norðar dregur og nyrsta gosstöðin er í Búrfelli ofan Hafnarfjarðar. Sprungusveiminn má hins vegar rekja lengra þótt líka dragi úr sprunguvirkninni til norðurs. Hann virðist enda í Mosfellsdal. Sunnan dalsins, í Helgafelli, má sjá sprungur og misgengi af óvissum aldri sem gætu tilheyrt sprungusveimnum. Í Mosfelli norðan dalsins er hins vegar lítið um sprungur (mynd 2). Yfirleitt sjást bergsprungurnar best þar sem land stendur hátt. Þar sem land liggur lægra eru sprungurnar oft huldar seti og jarðvegi þannig að illa sést til þeirra. Norðan Búrfells, þar sem eldvirkninni sleppir, verður sprungu- sveimurinn mjög áberandi í landslaginu (mynd 3) enda hafa hér ekki runnið hraun til að jafna út landslagið. Þetta svæði er að mestu nýtt til útivistar, sem verður að teljast ákjósanleg notkun á mikið sprungnu landi. Sprungusveimurinn er tvöfaldur á þessu svæði. Aðalgrein hans myndar djúpan sigdal sem afmarkast að vestan af Hjallamisgenginu svokallaða. Auk þess má greina grunn- an sigdal vestar, sem sker hálsana við Hvaleyrarvatn og sunnan og austan Urriðakotsvatns. Þessi vestari grein er stundum kennd við Trölladyngju. Á byggingasvæðinu við Urriðakotsvatn hafa komið í ljós opnar sprungur þegar grafið var fyrir húsgrunnum. Mjög dregur af þessari grein sveimsins þegar norðar dregur. Þó má líklega rekja til hans tilvist sprungna sem komið hafa í ljós í hús- grunnum í Hólahverfi í Breiðholti. Megingrein sprungusveimsins heldur áfram til NA um Heiðmörk og liggur Elliðavatn í dældinni þar sem sigið hefur mest. Austurmörk sprungusvæðisins eru þar nokkuð óljós vegna ungra hrauna sem runnið hafa austan frá Bláfjallasvæðinu og yfir sprungurnar. Norðaustan Elliðavatns taka við Norðlingaholt, Rauðavatn og Hólmsheiði. Landið hér er greinilega sprungið en erfitt er að festa hendur á einstökum sprungum (mynd 4). Sprunguvirknin er greinilega minni en sunnan Elliðavatns og aldur sprungnanna óvissari (Kristbjörn Egilsson o. fl. 1996). Ótvíræð merki um hreyf- ingar á síðustu 10 000 árum má þó finna á a.m.k. fjórum stöðum (sjá mynd 4). Gapandi gjár og niðurföll í jarðvegsþekju benda til hreyfinga eftir að jökull fór síðast yfir svæðið. Við skipulag byggðar á Norðlingaholti var tekið tillit til tveggja sprungna sem staðfestar voru með skurðgreftri. Það vekur þó athygli að sprungur liggja mun þéttar í sama sprungukerfi norðan Rauðavatns, sem gæti bent til þess að ekki séu öll kurl komin til grafar í Norðlingaholti. Þar gætu fleiri sprungur leynst. Mynd 1. Yfirlitskort af Reykjanesskaga og afstöðu til sprungusveima og upptakamisgengja skjálfta. Skýrt kemur fram hvernig þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu teygir sig æ meira inn á sprungusvæði. Þekkt sniðgengi eru einnig færð inn á kortið. Þau liggja flest í N-S stefnu og eru hægri-handar sniðgengi, þ.e. vesturbakki þeirra færist í norður, austurbakkinn til suðurs.

x

Verktækni

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Verktækni
https://timarit.is/publication/957

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.