Morgunblaðið - 19.10.2022, Page 10
10 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 19. OKTÓBER 2022FRÉTTIR
Við hjónin tókum upp á því að
ferðast til Sviss fyrr í mánuðinum.
Vorum við Youssef sammála um að
við gætum alveg hugsað okkur að
setjast þar að enda virðist Svisslend-
ingum hafa tekist að finna ein-
staklega gott jafnvægi í lífinu og
þægilegur taktur á tilverunni í mörg
hundruð metra hæð yfir sjávarmáli.
Mér þætti ekki amalegt hlutskipti
að eiga meðalstóran timburkofa ein-
hvers staðar uppi í Ölpunum,
skammt frá skíðalyftu, og borða
raclette, rosti og ragusa í öll mál. Ég
myndi auðvitað ættleiða risavaxinn
svissneskan hund sem myndi rölta
með mér um grænar hlíðarnar á
sumrin og kúra hjá mér á köldum
vetrarnóttum. Ég þykist vita að
Youssef tæki sig agalega vel út í vel
sniðnum skíðagalla.
Einn af mörgum hápunktum ferð-
arinnar var þegar við tókum kláf
upp á tind Schilthorn þar sem James
Bond-myndin On Her Majesty‘s
Secret Service (OHMSS) var tekin
upp á 7. áratugnum. Efst á tindinum
má finna veitingastað, verslun og
lítið Bond-safn en í kvikmyndinni
var húsinu breytt í bækistöð skúrks-
ins Ernst Stavro Blofeld (leikinn af
Telly Savalas) sem þykist reka þar
ofnæmislækningastöð fyrir einkar
laglegar ungar konur.
Að margra mati er OHMSS lang-
besta Bond-myndin, meðal annars
fyrir þær sakir að þar fá áhorfendur
að sjá mannlegri og mýkri hlið á
njósnara hennar hátignar. Ástralska
kyntröllið og fyrirsætan George La-
zenby þreytir frumraun sína á hvíta
tjaldinu – sagan segir að til að fá
hlutverkið hafi hann logið því að
framleiðendum myndarinnar að
hann hefði leikið í kvikmyndum í
Kína og Rússlandi, haldandi að þeir
gætu aldrei komist að sannleik-
anum. Diana Rigg er líka ógleym-
anleg í hlutverki Tracy sem Bond
fellur kylliflatur fyrir. Leikstjórn
Peters R. Hunts gefur myndinni
hrífandi yfirbragð en hann hafði
starfað sem klippari við fyrstu fimm
Bond-myndirnar.
Hafa kvikmyndarýnendur einmitt
spáð mikið í hvort það hafi eitthvað
að gera með töfra OHMSS, eða valið
á Lazenby, að Hunt var samkyn-
hneigður. Eins og unnendur mynd-
arinnar muna þarf Bond að bregða
sér í gervi ættfræðings til að vera
hleypt upp í bækistöð Blofelds, Piz
Gloria, og fer ekki á milli mála að
ættfræðingurinn sem Bond þykist
vera hefur engan áhuga á kvenfólki
– en auðvitað hafa ungu konurnar í
Ölpunum mikinn áhuga á okkar
manni.
Nema hvað; á leiðinni upp á tind-
inn gerði ég svolítið sem ég ætti
helst ekki að gera: ég dró fram far-
tölvuna og byrjaði að skrifa grein
upp úr viðtali sem ég hafði tekið
nokkrum dögum áður. Ferðin upp á
topp tekur rúman hálftíma svo það
má koma miklu í verk á leiðinni.
Skyggnið var hvort eð er ekki nógu
gott og bað ég Youssef að hnippa í
mig þegar kláfurinn fór í gegnum
glufu í skýjaþykkninu og þverhnípt
bjargið blasti við.
Stundum þarf hann Youssef minn
líka að hnippa í mig þegar ég sökkvi
mér aðeins of djúpt ofan í vinnuna
og vanræki aðra hluti sem skipta
máli. Í þetta skiptið lét hann duga að
dúndra í mig snjóbolta eftir að ég
hafði lagt frá mér tölvuna.
Nýjar og betri áherslur
að loknum faraldri
Vinnusemi er dyggð, en það er
líka meiriháttar löstur að slíta sér út
fyrir vinnuveitandann og fórna gæð-
um lífsins fyrir brauðstritið. Virðist
eins og kórónuveirufaraldurinn hafi
orðið til þess að margir Bandaríkja-
menn áttuðu sig loksins á þessu og á
undanförnum misserum hefur orðið
til óformleg hreyfing á samfélags-
miðlum þar sem fólk er hvatt til að
leggja sig ekki of mikið fram við
vinnu sína.
Á ensku er þetta fyrirbæri kallað
„quiet quitting“, en snýst þó ekki um
að hætta að vinna heldur einfaldlega
að gera ekki meira en um var samið:
mæta ekki snemma og hætta stund-
víslega; svara ekki tölvupóstum og
símtölum utan vinnutíma; vinna á
eðlilegum hraða; nýta alla frídaga;
hika ekki við að hvíla sig heima í
veikindum og ekki undir nokkrum
kringumstæðum taka á sig auknar
byrðar og skyldur án þess að fá
greitt í samræmi.
Vinnumarkaðssérfræðingar
benda á að það er ekkert nýtt að fólk
spyrni við fótum þegar vinnuharkan
þykir orðin of mikil. Á hippa-
tímanum sögðu margir skilið við
skjalatöskuna, bindið og stimpil-
kortið í leit að hamingju og rólegra
lífi á öðrum forsendum. Þá er stutt
síðan sum kínversk ungmenni tóku
upp á því að „liggja flöt“ eins og það
heitir: hætta að strita myrkranna á
milli fyrir lúsarlaun og í staðinn lifa
rólegheitalífi og stimpla sig út úr
lífsgæðakapphlaupinu.
Rannsóknir Gallup hafa leitt í ljós
merkjanlega breytingu á vinnusemi
bandarískra launþega um mitt síð-
asta ár. Vinnuþjörkunum hefur
fækkað lítillega og fjölgun orðið í
hópi þeirra sem reyna markvisst að
vinna alls ekki meira en þeir þurfa.
Þetta rímar við ástandið sem ég
lýsti í pistlum haustið 2021, þegar
stóru alþjóðlegu fjármálafyrirtækin
hófu að kvarta yfir því að yngstu
starfsmennirnir kærðu sig ekki
lengur um að vera í vinnunni frá
morgni til kvölds og vildu ekki fórna
einkalífi, heilsu og sálarheill til þess
eins að krafsa upp metorðastigann
og eiga möguleika á að fá ögn stærri
bónus. Um svipað leyti sýndu kann-
anir að launþegar voru byrjaðir að
venjast því að vinna heima og höfðu
takmarkaðan áhuga á að koma aftur
á skrifstofuna enda auðveldara að
láta fjarvinnuna falla að heimilis-
lífinu.
Er líkt og faraldurinn hafi gefið
fólki ráðrúm til að meta stöðu sína
og stefnu í lífinu. Enda er ekkert
betra en bannvænn veirusjúkdómur
til að minna á að lífið er gjöf sem
okkur er gefin í stuttan tíma, og of
seint að ætla að njóta tilverunnar
þegar við erum komin ofan í gröfina.
Við þetta bættist mikill og viðvar-
andi skortur á vinnuafli sem setti
launþega í betri stöðu til að draga
línu í sandinn, áralöng umræða um
misskiptingu auðs og tekna á
Vesturlöndum og endalaus flaumur
af myndskeiðum á samfélagsmiðlum
af fólki sem virðist kunna að lifa
lífinu miklu betur en við hin sem
sitjum límd við skrifborðið.
Kallar á að endurskoða
kenningar Max Webers
Auðvitað ætti þessi þróun ekki að
hafa komið stjórnendum fyrirtækja
á óvart, og síst af öllu í Bandaríkj-
unum þar sem vinnuharkan er með
því mesta sem þekkist hjá vestræn-
um þjóðum. Það er alkunna að þegar
fólk hefur náð vissu marki fjárhags-
lega snarminnkar hjá því áhuginn á
að fórna tíma sínum fyrir meiri
tekjur. Vill fólk þá mun frekar rækta
sál og líkama, sinna áhugamálunum
og verja gæðastundum með vinum
og ættingjum – hvað þá ef starfið er
ekki þeim mun meira gefandi.
Bendir allt til þess að hjá þeim
þjóðum sem hafa erft vinnusemi
mótmælendatrúarmanna, eins og
henni var lýst af Max Weber í byrj-
un síðustu aldar, séu launþegar loks-
ins komnir á þann stað að þora að
hægja aðeins ferðina og finna betra
jafnvægi á milli vinnu og einkalífs.
Meira að segja James Bond, sem
hefur það sem sitt aðalstarf að aka
hraðskreiðum bílum, gista á lúxus-
hótelum, drekka kampavín og draga
konur á tálar, kom auga á það uppi í
Ölpunum að stundum skipta aðrir
hlutir meira máli en vinnan: um mið-
bik myndarinnar komast þau Bond
og Tracy í skjól í hlöðu eftir að hafa
verið hundelt af útsendurum Blo-
felds. Tracy spyr hvað hafi eiginlega
átt sér stað uppi á Piz Gloria og
Bond svarar að þetta sé það sem
hann vinni við.
„Og það er ekkert sem þú getur
gert í sambandi við þetta starf þitt,
er það nokkuð?“ spyr hún, og hann
dæsir.
„Hvers vegna ertu þá að hugsa
um starfið núna?“ bætir hún við.
„Ég er ekki að hugsa um vinnuna,
heldur um okkur,“ svarar hann.
„Það kemst ekkert að í lífi njósn-
arans nema hann sjálfur.“
„Ég skil,“ svarar hún. „Við verð-
um þá bara að halda áfram á sömu
braut og við vorum.“
„Nei. Ég þarf einfaldlega að finna
mér annan starfa,“ svarar Bond.
Elska skaltu launþegann
Ásgeir Ingvarsson
skrifar frá París
ai@mbl.is
Ný hreyfing hefur orðið til á
samfélagsmiðlum þar sem
fólk er hvatt til að gera alls
ekki meira í vinnunni en
það fær borgað fyrir.
AFP/Christof Stache
Þjónar undirbúa sig fyrir októberfest-hátíðahöld í München. Lífið á að snúast um fleira en vinnuna.
Nú finnur
þú það sem
þú leitar að
á FINNA.is
IÐNAÐARMENN VERSLANIR
VEITINGAR VERKSTÆÐI
BÓKHALDSÞJÓNUSTA OG FLEIRA