Feykir


Feykir - 22.06.2022, Qupperneq 7

Feykir - 22.06.2022, Qupperneq 7
Heyr himnasmiður sunginn í beinakapellunni í San Martino della Battaglia. 24/2022 7 Þarna var stórviðburður á ferðinni þar sem um fyrstu tónleika kórsins á erlendri grundu var að ræða. Leggið dagsetninguna á minnið kæru lesendur, 8. júní 2022. Kannski er ekki hægt að segja að kirkjan hafi verið þéttsetin, og þó, og munaði að sjálfsögðu um okkur Íslendingana. Töluverður reytingur var af heimafólki, sem vissi ekki við hverju var að búast af þessum ókunna kvennakór norðan úr höfum en auðséð var að hrifningin stigmagnaðist eftir því sem leið á enda tónleikarnir sérlega vel heppnaðir þrátt fyrir ýmis atvik í aðdraganda ferðarinnar. Má þar helst nefna að stjórnandi kórsins, Helga Rós Indriðadóttir, hafði legið í Covid-19 einangrun skömmu fyrir ferðina án þess að að hafa náð að æfa kórinn og ekki mátti miklu muna að hún missti af sjálfri ferðinni. Sem betur fer er kórinn vel mannaður og hljóp Elín Jónsdóttir í skarðið svo kórinn mætti ekki alveg óæfður til Ítalíu. En eins og áður sagði tókst ansi hreint vel til við altari kirkjunnar þar sem kórinn söng eins vel og fallega og ávallt áður og stjórnandinn geislaði sem aldrei fyrr og hreif alla með sér er hún dansaði um kirkjugólfið í hinu vinsæla lagi La det swinga, með Bobbysocks. Ítölsku áhorfendurnir sátu sem dolfallnir og ekki minnkaði hrifningin þegar kórinn hóf að syngja á ítölsku. Þá kom kynnir kórsins, Helga Þuríður Jónasdóttir, heldur betur á óvart er hún sagði frá lögum og ljóðum sem flutt voru, á reiprennandi og lýtalausri ítölsku. Það voru ekki eingöngu ítölsku gestirnir sem hrifust af söng kórsins þar sem flestir Íslendinganna voru einnig með tárin í augunum af hrifningu. Svo vel skilaði flutningurinn sér að Sigurjón Gestsson orti rándýra hringhendu af því tilefni og flutti í hófi sem kór kirkjunnar og safnaðarstjórn bauð til, öllum hópnum til heiðurs, eftir konsert. Þær í blóma saman syngja söngsins óma strengirnir. Fagrir hljómar alla yngja enda ljóma drengirnir. Og það verður seint sagt um Ítali að þeir láti gesti sína fara svanga heim enda var margréttað í veislunni af mat og drykkjum og það var saddur hópur, bæði á sál og líkama, sem hélt heim á hótel að teiti loknu. Kalt á toppnum Á fjórða degi var boðið upp á dagsferð um Dólómítafjöllin, sem eru í næsta nágrenni Bolzano, fjallgarður sem er hluti af suður-Ölpunum. Hæsti punktur þeirra er 3.343 metrar og segir á Wikipedia að árið 2009 hafi fjöllin verið sett á heimsminjaskrá UNESCO en þau eru þekkt fyrir hvassa tinda sína. Flestir í hópnum fóru þessa skemmtilegu ferð um fjöllin háu en farið var með rútu frá Bolzano. Fyrsta stopp var við Karersee-vatn þar sem Latemar tindar speglast í vatninu öðru megin og Rósagarðurinn hinu megin, ef veðurskilyrði leyfa, sem ekki var hjá okkur í þessari ferð. Þungbúið var og rigningar að vænta hvenær sem var. Vatnið atarna var varla meira en tjörn, grænleitt að sjá af þörungum, en gefur frá sér skemmtilega birtu og glit í sólskini. Þetta er vinsæll viðkomustaður ferðamanna og skemmtilegt dæmi um hvernig er hægt að búa til áfangastað úr litlu í rauninni, aðgengilegri tjörn með göngustíg í kring og forvitnilega þjóðsögu um tilurð litbrigða tjarnarinnar. En engu að síður fínn áningarstaður. Rósagarðurinn er ein fegursta fjallaþyrping Alpanna en einnig þekkja Íslendingar víðáttumikil fiskimið undan suðausturströnd Íslands með sama nafni. Nafnið kemur frá þýskum sjómönnum sem nefndu svæðið Rosengarten og taldi fararstjórinn það tilkomið vegna þeirra skilyrða sem eru á Íslands-Færeyjahryggnum sem sjómenn hafa þurft að eiga við í gegnum tíðina. Áfram var haldið um vegi fjallanna sem liðuðust í óteljandi sveigjum og beygjum upp hlíðarnar og margt fallegt var að sjá. Helst kom það bændum ferðarinnar á óvart hve lítilfjörleg túnin voru þar sem ræktuð lönd virtust helst innihalda úthagagróður. Miðað við vélakost bændanna hefði maður haldið að auðvelt væri að bylta túnum og sá almennilegri grasblöndu. Jæja, hvað um það, næsti áfangi var Pordoijochskarðið þar sem þeir sem óskuðu gátu tekið kláf upp á Sass Pordoi- fjallið sem er í 2.950 m hæð yfir sjávarmáli. Í góðu veðri er útsýnið þaðan stórfenglegt yfir alla Dólómítana. En heppnin var ekki alveg með okkur því þar var kalt og á okkur snjóaði. Útsýnið var ekkert, sem kom mér ágætlega lofthræddum manninum, en þá hefur maður ástæðu til að heimsækja staðinn aftur. Á toppnum var veitingahús og ansi gaman að snæða þar og fá sér bjór í þunna loftinu. Áfram var haldið og næsti viðkomustaður Ortisei, fæðingarbær Sigurðar Demetz hins kunna söngvara og söngkennara. Bærinn er þekktur fyrir útskurðarverkstæði sín og er allur listlega skreyttur útskornum viðarskúlptúrum. Fjölskylda Sigurðar er ein af þeim sem rekur þar samnefnt verkstæði og listgallerý en því miður var lokað þar þegar við áttum leið um. Frá Ortisei lá leiðin aftur heim á hótel í Bolzano og morgundagurinn beið okkar með enn einni rútuferðinni. Óvæntir tónleikar á ráðhústorgi Nú var kominn föstudagurinn 10. júní og ferðinni heitið lengra suður á bóginn eða að Gardavatninu með viðkomu í Madonna della Corona sem er undraverð kirkja, byggð hátt í lóðréttum klettavegg Baldofjalls. Að henni er aðeins ein fær leið fyrir aðra en fuglinn fljúgandi, ofan frá eftir bröttum stíg. Stórkostleg bygging sem allir ættu að skoða sem á svæðinu dvelja. Eftir að hafa svalað sér á köldum drykk eftir uppgönguna til baka var svo haldið til bæjarins Desenzano del Garda og á hótelið Oliveto sem stendur nærri vatninu. Það hótel er mun íburðarmeira en það sem við áður gistum, með mínibar, svölum og sundlaug og áttum við góðar stundir þar. Upp rann sjötti ferða- dagurinn og góðar fréttir höfðu borist daginn áður þar sem leyfi fékkst fyrir kórinn að syngja á ráðhústorginu á nálægum bæ, Valeggio. Torgið er við göngugötu í miðbænum og gátu þeir sem þar fóru um hlýtt á norðlæga tóna hins glæsilega kvennakórs og var auðséð að söngurinn heillaði fleiri en hinn áðurnefnda aðdáendahóp sem fylgdi kórnum hvert fótmál. Hitastigið hafði heldur aukist frá því sem var í Bolzano og stóð mælirinn ýmist öðru hvoru megin við 30 gráðurnar svo reynt var að standa í skugganum svo söngdívurnar skrælnuðu ekki í sólinni. Að söng loknum var haldið á ný til Desenzano þar sem fólk kíkti í bæinn og naut matar á hinum fjölbreyttu matsölustöðum bæjarins. Daginn eftir gat fólk spókað sig í sólinni eins og hver vildi fram eftir degi en um kvöldið var fyrirhugaður sameiginlegur kvöldverður í San Martino della Battaglia sem frægt er fyrir eina mestu orrustu í Evrópu fyrir tíma heimsstyrjaldanna, en hún fór fram 24. júní 1859. Átökin sem þarna fóru fram höfðu víðtækar afleiðingar m.a. þær að Ítalía varð til sem eitt ríki 1861 og það sem ekki var verra að Rauði krossinn var stofnaður en það kom að sjálfsögðu ekki til af góðu. Mannfallið var gríðarlegt og grimmdin allsráðandi líkt og beinakapellan í nágrenninu ber vitni um. En á veitingastaðnum, sem þarna er á svæðinu, átti hópurinn dásamlega kvöldstund þar sem boðið var upp á glæsilega margrétta veislu undir berum himni í fögru umhverfi. Þó einn dagur væri eftir af túrnum, sjálf heimferðin, var þarna settur lokapunkturinn við vel heppnaða utanlandsferð Kvennakórsins Sóldísar, þá fyrstu af vonandi mörgum. Síðasta kvöldmáltíðin var lokapunkturinn á vel heppnaðri utanlandsferð Sóldísar. Þær frænkur, Stella Hrönn og Jóna Fanney, stýrðu hópnum af miklum myndugleik. Sungið á ráðhústorginu á Valeggio. 30 stiga hiti og glampandi sól.

x

Feykir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.