Fréttir - Eyjafréttir - 23.03.2023, Blaðsíða 22
22 | | 23. mars 2023
Rúnar Gauti Gunnarsson,
ríkjandi Íslandsmeistari 21 árs
og yngri í snóker, tók þátt í
Evrópumeistaramóti í snóker
á Möltu í sínum aldursflokki í
byrjun mánaðar. Alls voru 96
þátttakendur skráðir til leiks en
Rúnar Gauti var eini íslenski
keppandinn.
,,Mótið gekk að mér fannst vel
þrátt fyrir að ég hafi ekki unnið
leik, margir rammar réðust á
seinustu kúlunum, svo í raun
vantaði aðeins herslumuninn.
Þarna voru allir bestu leikmenn
Evrópu að keppast um
atvinnumannarétt og var ég því
ánægður að hafa veitt þeim góða
keppni,” sagði Rúnar Gauti en
hann var í fyrsta sinn að taka þátt
í svona stóru móti.
,,Ég fékk þátttökuréttinn fyrir að
vera Íslandsmeistari U21. Þetta
var minn síðasti séns á að taka
þátt í móti sem þessu vegna aldurs
og er ég ánægður að hafa gert
það. Síðar meir get ég svo keppt á
EM og HM fullorðinna sem ég er
staðráðinn í að gera.”
Hvernig upplifun var þetta?
,,Fyrst og fremst var þetta
skemmtilegt og góð reynsla.
Ég er ánægður að hafa komist
á þetta stig sérstaklega þar
sem ég er alveg sjálflærður í
íþróttinni og sé fyrir mér að
ná lengra í framtíðinni. Næstu
markmið eru að vinna stigamót á
mótaröðinni hér heima og verða
svo Íslandsmeistari innan 3 ára.
Einnig vil ég nota tækifærið og
þakka öllum þeim sem styrktu
mig í verkefninu vel fyrir þeirra
framlag, það var ómetanlegt,”
sagði Rúnar Gauti að lokum.
Rúnar Gauti á Evrópumeistaramóti í snóker:
Veitti þeim bestu verðuga keppni
Í tilefni þess að 20 ár eru liðin
frá stofnun Visku og 50 ár frá
eldgosinu á Heimaey 1973 varð
að ráði að Viska og Safnahús
Vestmannaeyja efndu til
sameiginlegs afmælisverkefnis.
Verkefnið sem var í senn
námskeið og verkefnavinna
fjallaði um Byggð, skipulag,
mannlíf, götur og hús í Eyjum.
Verkefnið er sjálfstætt framhald
námskeiða Visku um Húsin
í götunni frá 2004 til 2005
og Húsin í hrauninu frá 2012
til 2013. Verkefnið hófst 31.
janúar sl. og fór fram fjóra
þriðjudaga í röð kl. 16.30 til
18.00 í Heimakletti kennslusal
í Þekkingarsetri Vestmannaeyja
(ÞSV) að Ægisgötu 2.
„Þar sem bókað var í hvert
sæti var ákveðið að streyma
verkefninu á Facebook í gegnum
Visku og Heimaklett. ÞSV
sá um tæknimálin en þetta
mun vera í fyrsta skipti sem
streymi í gegnum Facebook er
við útsendingu á fundum og
námskeiðum hjá Visku og ÞSV.
Viðbrögð komu frá fólki í Eyjum,
uppi á landi og í útlöndum sem
horfði á útsendingar á Facebook,“
sagði Arnar Sigurmundsson sem
ásamt Kára Bjarnasyni stjórnaði
verkefninu auk þess sem Þórunn
Jónsdóttir annaðist skráningu og
innsetningu viðbótarupplýsinga
sem fara inn á heimaslóð.is.
Viktor Pétur Jónsson í
Safnahúsinu sá svo um skönnun á
efninu og gerði það aðgengilegt á
tjaldinu.
Elstu gögnin frá 1776
„Verkefninu var skipt í fjóra
hluta. Fyrst var farið í gegnum
elstu gögn um skipulag og
byggð á Heimaey frá 1776
og er uppdrátturinn gerður
af Sæmundi Hólm. Þá voru
upplýsingar úr Jarðabók Árna
Magnúsonar og Páls Vídalín frá
1704 og manntalið frá 1703 um
Vestmannaeyjar um byggðina,
bæjarnöfn, heimilisfólkið,
húsmannshús og hjalla og
myndaðu þessar elstu upplýsingar
ákveðinn grunn í verkefninu.
Síðan var þróun byggðar og
íbúafjölda skoðuð frá 1703-
1704 og einnig leitað í eldri
upplýsingar en til staðar eru góðar
heimildir þar sem eru manntöl
og jarðabækur. Í þessu tilviki
var einnig skoðuð sérstaklega
nöfn á bæjum innan upp- og
niðurgirðingar og fyrir ofan hraun
sem mynduðu ákveðna kjarna
og einnig húsum og hjöllum
utan girðinga. Nokkur þessara
rúmlega 20 elstu bæjarnafna frá
1704 og fyrr lifa enn og voru til
staðar fram að eldgosinu 1973.
Þá var einnig skoðuð algengustu
mannsnöfnin í Eyjum 1703 og
nokkru síðar og borið saman
við algengustu mannanöfn á
landsvísu,“ sagði Arnar.
Fengu verkefni
Í upphafi verkefnis fengu
þátttakendur, um 30 talsins það
verkefni að gera nánari grein
fyrir þeim húsum og húsanöfnum
sem þau hvert og eitt tengjast í
föður- eða móðurætt eða með
eignarhaldi.
„Þannig var farið í megindráttum
yfir sögu um 30 húsa, en um
helmingur þeirra fór undir hraun
eða eru ekki lengur til staðar.
Þessu til viðbótar voru teknar
nokkrar húseignir þar sem
skoðaður var bakgrunnur þeirra
nafna sem þau bera eða báru.
Ítarefni í hverjum verkhluta
voru nokkrar eldri ljósmyndir frá
Eyjum þar húsa- og yfirlitsmyndir
voru í meirihluta. Í síðasta hluta
voru sýndar nokkrar ljósmyndir
Jóhanns Stígs Þorsteinssonar frá
árunum 1930 til 1955 sem eru á
Ljósmyndasafni Vestmannaeyja.
Við lok þessa verkefnis kom
fram áhugi að bæta við tveimur
til þremur verkþáttum og er stefnt
að því að þeir fari fram næsta
haust. Þar verða einnig tekin
fyrir minnisstæðir atburðir sem
höfðu áhrif á þróun byggðar í
Eyjum,“ sagði Arnar og þakkaði
fyrir hönd Visku og Safnahúss
Vestmannaeyja öllum þeim sem
tóku þátt í þessu sameiginlega
verkefni og aðstoðuðu með einum
eða öðrum hætti.
Áhugavert afmælisverkefni Visku og Safnahúss:
Byggð, mannlíf, götur og hús í Eyjum
Hvert sæti var skipað í salnum og áhuginn mikill.